26.2.2011 | 21:58
Einföld spurning - eindrægt svar
Það er stórfurðulegt, að landsmenn þurfi nú að tjá sig í þjóðaratkvæðagreiðslu öðru sinni um hið alræmda "Icesave-mál". Það hefðu þeir ekki þurft að gera, ef allt væri með felldu með stjórnarhætti í landinu. Því er hins vegar engan veginn að heilsa.
Eftir afhroð ríkisstjórnar félagshyggjunnar, 6. marz 2010, í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave#2, átti ríkisstjórnin að segja af sér samkvæmt lýðræðisreglum. Mikill ágreiningur var þá uppi á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um málið, og forseti lýðveldisins vantreysti ríkisstjórninni, sem lagði fyrir hann málið í Ríkisráði. Þjóðin hafnaði síðan með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða að greiða skuldir óreiðumanna. Ríkisstjórnin hlaut þannig tvöfalda hirtingu, en lafði áfram, löskuð, gegn viðteknum reglum lýðræðis.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa engan skilning á milliríkjasamskiptum og hafa látið áróðursvélar fjármálageirans, ESB (Evrópusambandsins) og landanna tveggja, sem hlut eiga að máli, Bretlands og Hollands, telja sér trú um, að íslenzka ríkinu beri skylda til að ábyrgjast skuldir þrotabús Landsbankans, gamla, að svo miklu leyti sem eignir Innistæðutryggingasjóðs hrökkva ekki til.
Ráðherrarnir hafa reynzt algerar rolur í viðureigninni við ofangreind auðvaldsöfl og ekki beitt sér nokkurn skapaðan hlut, heldur látið embættismönnum og stjórnmálalega skipuðum nefndum um að bera hita og þunga leiksins. Ráðherrarnir eru heimóttarlegir, skortir reynslu í samskiptum við útlendinga og málakunnáttu þeirra flestra er ábótavant. Óbeysnastur að þessu leyti er þó forsætisráðherrann, sem ekki getur haldið uppi samræðum á erlendri tungu um einföldustu málefni, hvað þá rammflókin úrlausnaratriði.
Ef Íslendingar hefðu á undangengnun tveimur árum átt forsætisráðherra með bein í nefinu, sem ekki væri hækja Brüsselvaldsins, mundi sá hinn sami hafa tekið þetta stórmál á sitt eigið forræði og leitt það til lykta með starfsbræðrum sínum í Bretlandi og Hollandi. Núverandi forsætisráðherra neitaði þjóðinni um rétt sinn til að kjósa nýtt Alþingi, sem hefði vafalaust orðið skömminni skárra en núverandi Alþingi, og lélegasti forsætisráðherra lýðveldissögunnar hefði þá verið leystur af hólmi.
Samsæri auðvaldsins snýst um það að brjóta Íslendinga á bak aftur, svo að ekki verði til fordæmi skuldugra þjóða um að neita að hengja um háls sér óréttmæta skuldaklafa úr þrotabúum þessa sama auðvalds. Bankaauðvaldið vill fyrir enga muni missa sitt öryggisnet. Það heldur þess vegna uppi linnulausum hræðsluáróðri og beitir fyrir sig matsfyrirtækjum, AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinum) og öðrum liðléttingum.
Ekki eru þó allir jafnlítilla sanda og sæva og þessir aðilar. Ritstjórar tveggja virtustu blaða, sem um fjármál heimsins rita, "The Financial Times" og "The Wall Street Journal", hafa tekið upp hanzkann fyrir heilbrigða skynsemi og málstað íslenzkra skattborgara. Þá hafa N-amerísk iðnfyrirtæki fjárfest hér, og síðustu fréttir herma, að Century Aluminium sé tilbúið að festa hér stórfé í nýju álveri, sem stjórnvöld þvælast hins vegar fyrir, t.d. varðandi orkuöflun. Að halda því fram, að orkufyrirtæki landsins með samning upp á vasann um 20-30 ára trygga orkusölu fái hvergi í heiminum lán fyrr en ríkið gengst í ábyrgð fyrir fallin bankaútibú á Bretlandi og í Hollandi, er fjarstæðukennt. Því verður með engu móti trúað, að hræðsluáróður peningavaldsins nái að grípa svo um sig, að þjóðin samþykki að taka á sig feikna viðbót við erlendar skuldir, sem nú þegar sliga hagkerfið, svo að innviðir samfélagsins líða mjög fyrir.
Ef þjóðin hafnar "Icesave#3", hvers skuldabaggi getur hlaupið á bilinu ISK 50 - 250 mia., mun nákvæmlega ekkert gerast, sem einhverju máli skiptir fyrir hagkerfi Íslands. ESA, úrskurðaraðili EFTA, og EFTA-dómstóllinn, kunna að góla eitthvað, en slíkt hefur ekkert lögformlegt gildi og verður aldrei annað en stormur í vatnsglasi. Höfði andstæðingarnir mál fyrir aðfararhæfum dómstóli, verður að sækja málið í varnarþingi ríkissjóðs Íslands, sem dæma mun eftir íslenzkum lögum.
Ríkisstjórnin hlýtur að berjast fyrir máli sínu, "Icesave#3". Fái hún höfnun, verður henni engan veginn sætt lengur, nema hún ætli að fótumtroða allar lýðræðislegar hefðir. Hún traðkar reyndar á dómsvaldinu og sýnir löggjafarvaldinu lítilsvirðingu. "Alræði öreiganna", sem er einræði "nómenklatúrunnar" eða útvalinna flokkshesta, stendur hjarta ríkisstjórnarinnar næst. Hún vanvirðir þrígreiningu ríkisvaldsins og sýnir Stjórnarskránni lítilsvirðingu.
Með höfnun "Icesave#3" verður ríkisstjórn norrænnar helreiðar komin á leiðarenda, og þar af leiðandi verða Alþingiskosningar óumflýjanlegar fyrir alla stjórnmálaflokka. Stund hefndarinnar mun þá renna upp og mikið blóð renna. Upp úr þeim hildarleik hljóta að rísa bæði karlmenn og konur, sem meiri veigur er í en nú er að sjá í flestum sætum hinna 63 við Austurvöll.
Nei við löglausum drápsklyfjum nýlenduveldanna er heiðarlegt og eindrægt svar við óréttlæti erlendis frá og við innlendu hæfileikaleysi, getuleysi og einræðistilburðum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.