19.5.2011 | 22:10
Lánshæfi lands og óhæfni ríkisvalds
Nú er meginstoð lúalegs áróðurs fyrir ríkisábyrgð á skuldum fallins einkabanka erlendis hrunin. Andstæðingar þessarar ríkisábyrgðar héldu ætíð fram, að sú röksemd væri reist á sandi, að lánshæfi ríkisins mundi versna við höfnun Icesave-samninganna. Meirihluti landsmanna reyndist vera sömu skoðunar, þó að skrýtni fuglinn í Seðlabankanum segði opinberlega rétt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, að lánshæfi landsins mundi falla niður í spákaupmennskuflokk við höfnun; hvaða flokkur, sem það nú er.
Öll matsfyrirtækin þrjú, sem aðallega hafa komið við þessa hörmulegu sögu, hafa nú afsannað kenningar náhirðar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem ekki hefur meira vit á efnahagsmálum en heimiliskötturinn hér. Lánshæfið hefur batnað, ef eitthvað er. Mat Nei-manna (ekki þó neiara-Gríms og hirðar hans), að nýir vindar blésu nú um Evrópu gegn ríkisábyrgðum, reyndist hárrétt. Það stríðir líka gegn heilbrigðri skynsemi, að lánshæfi stórskuldugs aðila batni við, að hann bæti á sig skuldaklafa. Þetta hefur auðvitað berlega komið fram á Grikkjum, en lánshæfi þeirra er nú með þeim hætti, að hætt er að kaupa af þeim ríkisskuldabréf við lægri vöxtum en 15 % á ári, enda nema ríkisskuldirnar um 160 % af VLF (vergri landsframleiðslu Grikkja). Þýzka ríkisstjórnin hefur áttað sig á, að skuldastaða Grikkja er ósjálfbær, og berst nú við Evrópubankann (ECB) um að fella hluta skulda Grikkja niður. Er hún að vinna ýmsar fleiri ríkisstjórnir evrusvæðisins á sitt band. Spurningin er hins vegar sú, hvort þjóðargjaldþrot Grikkja (endurröðun lána á máli stjórnenda ESB) muni leiða til mikils falls evrunnar, sem knýi ECB til svo mikilla vaxtahækkana, að efnahagur evruríkja í efnahagsvörn hrynji einnig. Við þessar aðstæður boðar blöðruselurinn í utanríkisráðuneytinu upptöku Íslands á evru 3 árum eftir aðild ("Anschluss").
Áróður stuðningsmanna Icesave-laganna var uppspuni frá rótum. Þessi lygavefur ríkisstjórnarinnar og annarra áhangenda ESB-aðildar Íslands var spunninn til þess einvörðungu að þóknast Evrópusambandinu og greiða fyrir inngöngu Íslands. Þessi málatilbúnaður er einn sá alómerkilegasti, sem sézt hefur hér um áraraðir. Það á alls ekki að láta opinbera aðila, Seðlabankann, ríkisstjórnina, embættismenn eða þingmenn komast upp með þvættinginn, heldur á að nudda þeim upp úr honum og krefja þá skýringa á blekkingavaðlinum. Hér hafa lygamerðir leikið lausum hala, og nú verða þeir að fá að finna til tevatnsins.
Af þessu tilefni var það rifjað upp í forystugrein Morgunblaðsins, "Nei reyndist jákvætt", þann 17. maí 2011, að forsætisráðherra landsins tók ekkert smáræði upp í sig í viðtali við erlenda fjölmiðla um þetta málefni, er hún spáði "efnahagslegu öngþveiti" á Íslandi í kjölfar höfnunar þjóðarinnar. Hér getur eitt af þrennu verið á ferðinni:
- forsætisráðherra er algerlega dómgreindarlaus
- forsætisráðherra gengur erinda erlends valds
- bæði ofangreind atriði eiga við
Taka skal undir það, sem í téðri forystugrein stendur, að 40 % þjóðarinnar, sem mark tóku á blekkingavefnum, eiga heimtingu á skýringum. Auðvitað mun koma í ljós, að keisarinn er ekki í neinu. Það var einfaldlega af blygðunarleysi verið að ganga erinda ESB. Framið var stjórnmálalegt blygðunarbrot.
Nú er að koma berlega í ljós, það sem margir vissu, að utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, er ekki treystandi til að stjórna aðlögunarviðræðum við ESB. Hann og aðalsamninganefnd hans hafa gengið að kröfum ESB um að innleiða stjórnkerfi þess á landbúnaðarmálum hérlendis. Þetta er gert í óþökk landbúnaðarráðherra, í algerri andstöðu við bændasamtökin íslenzku og sennilega í blóra við drjúgan meirihluta þjóðarinnar. Opinni lýðræðislegri umræðu er gefið langt nef af téðum Gosa.
Brugðið er leyndarhjúpi yfir þetta ferli, sem þó ætti að vera opið fyrir lýðræðislegri umræðu. Gjörðir Össurar Skarphéðinssonar þola ekki dagsljósið nú frekar en fyrri daginn. Þess vegna á að stöðva þetta aðlögunarferli strax, leggja spilin á borðið og leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um framhald eður ei. Segja má, að Össur níðist á lýðræðinu, sólundi ríkisfjármunum og verði þjóðinni til háborinnar skammar, því að mikill meirihluti þjóðarinnar er algerlega andvígur inngöngu, og það er borin von, að mannvitsbrekkur utanríkisráðuneytis Íslands snúi ESB á sveif með hagsmunum Íslands.
Hvað rekur sig á annars horn hjá þessari ríkisstjórn. Á sama tíma og hún gerir andvana fædda tilraun til að fella stjórnkerfi íslenzks landbúnaðar að dauðadæmdri landbúnaðarhít ESB, sem tekur um helming af útgjöldum á fjárlögum ESB og borið er uppi af frekju Frakka og fjármögnun Þýzkalands, þá rembist ríkisstjórnin við að geta af sér óskapnað sem á að kallast nýtt stjórnkerfi sjávarútvegs, sem jafnvel ESB dytti ekki í hug að setja á laggirnar. ESB er nú að vega og meta kosti og galla aflahlutdeildarkerfis eða kvótakerfis í sjávarútvegi, enda hefur slíkt kerfi alls staðar sýnt þjóðhagslega yfirburði, þar sem það hefur verið innleitt. Afturhaldið í Stjórnarráðinu horfir aftur um 80 ár og reynir að blása lífi í löngu dauða, fjarstæðukennda kreddu Leníns um eignarhald hins opinbera á auðlindum og atvinnutækjum.
Íslenzka ríkisstjórnin með Alþingisleppa sína er að afnema markaðsknúið hagkerfi á Íslandi. Hún stingur í þeim efnum og öðrum algerlega í stúf við allar aðrar ríkisstjórnir á Vesturlöndum. Ríkisstjórnin er sorgleg tímaskekkja og á að hypja sig hið snarasta til Bessastaða og biðjast þar lausnar.
Ábyrgðarleysi kreddufullra og hatursfullra stjórnmálamanna nær nýjum hæðum með tilraunum þeirra til lögfestingar á ræningjafyrirkomulagi, sem rænir núverandi handhafa afnotaréttarins að fiskimiðunum hluta af atvinnurétti þeirra, sem kippa mun afkomugrundvellinum undan fyrirtækjum þeirra og valda óbætanlegum skaða á markaðsstöðu Íslands og markaðssamböndum. Norðmenn hyggja nú þegar gott til glóðarinnar að fylla skarðið.
Aflahlutdeildarkerfið hefur stóraukið framleiðni sjávarútvegs og gæði framleiðslunnar. Þetta hvort tveggja er grundvöllur að sívaxandi verðmætasköpun hans þrátt fyrir minnkandi kvóta. Kvótakerfið hefur gert kraftaverk á íslenzka sjávarútveginum. Hann malar þjóðarheildinni gull og stóð, ásamt orkukræfum stóriðnaði, undir gríðarlegum lífskjarabata hérlendis á árunum 1995-2007. Allir útreikningar hagfræðinga sýna, að áform ríkisstjórnarinnar eru argasta glapræði. Þau hafa í för með sér mikið óréttlæti, enda stríðir þvinguð eignaupptaka af þessu tagi gegn 72. grein Stjórnarskráarinnar um verndun eignarréttar (afnotaréttur er ein tegund eignarréttar). Hringl með stjórnarskráarvarin réttindi er einkenni frumstæðra stjórnenda.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Mannréttindi, Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.5.2011 kl. 14:02 | Facebook
Athugasemdir
Það er annað hvort táknrænt eignarhald hins opinbera eða þá að auðlindirnar lenda á einni hendi er fram líða stundir og ekki króna af arðinum endar hér. Þessi sovétsamlíking í þessu máli heldur ekki vatni. En ef þú vilt gamla lénskipulagið aftur, þá heldurðu náttúrlega áfram að berjast fyrir því. Þeir útgerðarmenn sem nú heimta að viðurkennt verði eingnarhald þeirra af slíkri fádæma frekju að maður verður kjafstopp, verða ekki lengi í paradís og á hinum "frjálsa markaði" munu þeir sitja eftir með öngulinn í rassgatinu rétt eins og Íslenskir banksterar, sem héldu sig vera með þetta í hendi sér en misstu allt útfyrir landsteinanna eins og fléttan gerði ráð fyrir í upphafi.
Afnotaréttur tegund eignarréttar??? Stjórnarskrárvarin réttindi?? Eigum við ekki að láta dómstóla skera úr um þá geðþóttatúlkun þína? Þetta er hreint ótrúleg frekja og græðgi fárra einstaklinga. Færðu borgað fyrir þessi skrif?
Jón Steinar Ragnarsson, 20.5.2011 kl. 02:46
Ég tek að fram að ég er mikið sammála þér um Evrópumálin og finnst greinar þínar um þau og vinstristjórnmálin oftast snjallar og öflugar, en hérna ertu hreinlega kominn á sama kaliber og þeir sem þú hefur ötulast gagnrýnt. Hér spinnur þú skrumskælir og heldur úti blygðunarlausu hagsmunapoti og hreinræktuðu bulli í bland.
Ég áskil mér því þann sjálfsagða rétta að vera ósammála þér. Svona skrif gera ekkert annað en að grafa undan málstað andstæðinga Evru og ESB. Þetta gjaldfellir rök þeirra niður á plan hagsmunapots og hulinna markmiða, sem er ekki traustvekjandi. Sama tóbakið og trosið og er á matseðli Samfylkingarinnar. Vinsamlegast gerðu okkur greiða og blandaðu þessum málum ekki saman.
Jón Steinar Ragnarsson, 20.5.2011 kl. 02:54
Mikið og margt gott sem þú segir Bjarni og af ýmsu vel kynntur. En varaðu þig á því að detta ekki í þá gryfju að halda því fram að hagsmunir okkar þjóðar séu sjálfgefnir og tryggðir í örfárra manna höndum. Ekki gleyma því að við eigum öll okkar rétt samkvæmt stjórnarskrá, að geta aflað okkur lífsviðurværis á þeim auðlindum sem landið hefur uppá að bjóða og það þrátt fyrir áróður um að svo sé ekki. Þessi sjálfsögðu mannréttindi, stjórnarskrá bundin, er þingheimur allaf að skauta yfir vegna hagsmuna örfárra. Tek heilshugar undir athugasemdir Jóns Steinars. Svo má það ekki gleymast, að "flugfreyjur" hafa hingað til ekki verið að þvælast í stjórnklefa flugvélar, þar sem þeirra starfskylda er að þjóna farþegum.(Íslendingum)...:) Nema að sjálfsögðu að hafa til þess þau réttindi sem til þarf. Í þessu tilfelli engin.
Kveðja Sigurður
Sigurður Kristján Hjaltested, 20.5.2011 kl. 19:54
Sælir, bræður í andanum;
Það er óþarfi að hrína eins og stunginn grís, þó að bent sé á, að aflahlutdeildarkerfið er skilvirkasta fiskveiðistjórnunarkerfi, sem þekkt er. Gamla kerfið var líffræðilega og efnahagslega ósjálfbært. Kvótakerfið reisti sjávarútveginn við þrátt fyrir síminnkandi veiðiheimildir. Þetta er markaðsstýrt nýtingarkerfi á mjög takmarkaðri auðlind m.v. afkastagetu framleiðslutækjanna, sem skilað hefur þjóðinni furðugóðum arði við erfiðar aðstæður. Örverpi ríkisstjórnarinnar er afturhvarf til gamalla tíma með bæjarútgerðir og allt of marga að eltast við lítinn feng. Markmiðið á að vera að hámarka framleiðnina og gæðin og að rækta sambandið við markaðina. Bastarður Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, heldur ekki máli, hvernig sem á hann er litið. Ef samþykktur verður og tekjugrundvelli þannig svipt undan útgerðarfyrirtækjunum, munu þau veiklast og sum deyja drottni sínum. Að fjölga þeim, sem stunda sjóinn, er þjóðhagslega óhagkvæmt og hætt er við, að fagmennskan í greininni láti þá á sjá, sem þýðir lakari samkeppnistöðu á erlendum mörkuðum. Íslenzkur sjávarútvegur á ekki að snúast um, að stjórnmálamenn ráði því, hverjir mega draga bein úr sjó. Markaðurinn á að ráða því. Sjávarútvegurinn snýst um og á að snúast um að hámarka arðsemi fyrirtækjanna, sem af sjónum lifa, og þar með að hámarka þjóðarhag.
Með góðri kveðju,
Bjarni Jónsson, 21.5.2011 kl. 14:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.