Óeirðir á jaðarsvæðum evru

Fréttir berast um harðvítugar mótmælaaðgerðir á Spáni, Portúgal, Grikklandi og Írlandi, gegn stjórnvöldum þessara landa og ESB (Evrópusambandsins).  Ei er slíkt að ófyrirsynju, því að hagkerfi þessara landa hafa verið drepin í dróma.  Hagkerfi allra Suður-Evrópulandanna, sem hleypt var inn á evru-svæðið, höktir nú.  Alvarleg ógnun fyrir einingu ESB stafar nú af miklum mun á hagvexti og skuldastöðu innan ESB, sem hefur leitt til djúprar óánægju í suðurhlutanum með norðrið og gagnkvæmt. Evran er tekin að lækka og Þjóðverjar að ókyrrast í kjölfarið, því að þessi þróun ýtir undir verðbólgu.  Gjaldmiðilskreppa og þar með stjórnmálakreppa steðjar nú að ESB. Vandinn er svo geigvænlegur, að ástandinu hlýtur að lykta með uppstokkun.  Er ekki von, að Jóhanna, Samfylkingarformaður, geipi um bjartari tíð með blóm í haga, þegar Ísland tekur upp evru ?  Það verður þá önnur evra en við þekkjum nú. Kanski þessi sama Jóhanna vilji, að Ísland gangi í Sambandslýðveldið Þýzkaland ?

    Með evrunni lækkuðu vextir í Suður-Evrópu og á Írlandi og framboð lánsfjár jókst.  Brezkir, franskir og þýzkir bankar lánuðu mikið til þessara landa og hafa tapað töluverðu á gjaldþrotum fyrirtækja og einstaklinga í kjölfar Hrunsins.  Nú blasir við ríkisgjaldþrot í þessum löndum, a.m.k. þremur þeirra, og þá munu hinir sömu lánadrottnar tapa enn hærri upphæðum.  Miklar áhyggjur eru innan ECB (Evrópubankans í Frankfurt) og í Berlín og París um framtíð evrunnar.  Markaðurinn er að missa trúna á, að Suður-Evrópa nái sér á strik án mikilla afskrifta lána og þess vegna er talið stutt í flótta frá evrunni.  Af þessum ástæðum er mikið karpað innan ESB um, hvernig eigi að bregðast við þessum vanda.  Á meðan blæðir þessum löndum út vegna allt of sterkrar myntar fyrir þau og hækkandi vaxta ofan í kreppuna. Einnig er ljóst, að evrópsk fjármálafyrirtæki (bankar, tryggingafélög o.fl.) munu tapa hundruðum milljarða evra áður en yfir lýkur.  Evrópa verður í sárum og ESB gæti gjörbreytt um eðli.  Þjóðfélagsórói og öfgastefnur gætu á ný haldið innreið sína í Evrópu.   

Á Íslandi ríkir líka furðulega öfugsnúin efnahagsstefna afdankaðra sameignarsinna, enda hefur landið sótt um inngöngu í ESB, og aðlögun að kerfi, sem leitt hefur til ofangreinds öngþveitis, er hafin.  

Efnahagsstefnu rauðgrænu sauðahjarðarinnar í Stjórnarráðinu má lýsa með einu orði-atvinnufjandsemi.  Að mati Seðlabankans hafa 28 000 störf tapast frá miðju ári 2008 eða 17 %.  Árið 2010 voru um 14 000 á atvinnuleysisskrá, svo að 14 000 hafa flutt utan eða horfið af vinnumarkaðinum með öðrum hætti.  

Ískyggilegt er, að störfum heldur áfram að fækka og sárafá ný störf verða til.  Það er þess vegna að verða ESB-ástand á íslenzkum vinnumarkaði, en í ofangreindum ESB-löndum ganga allt að 50 % ungmenna á bilinu 18-29 ára atvinnulaus.  Hvernig stendur á þessari stöðu mála á Íslandi þrátt fyrir eigin mynt, sem bjargaði landinu í Hruninu, þar sem útflutningsatvinnuvegirnir héldu sínu striki ?

Svarið er stefna og starfshættir "norrænu velferðarstjórnarinnar".  Hún hefur þyngt skattabyrði þegnanna og fyrirtækjanna meira en þekkist innan OECD (Efnahags-og framfarastofnunar þróaðra ríkja).  Ríkisstjórnin þenur út ríkisgeirann á kostnað einkageirans.  Hún er með allra handa afætur á jötunni.  Þessi þróun virkar þrúgandi á hagkerfið, og er einkavæðing margra starfssviða ríkisins lausnin auk brottrekstrar hlöðukálfa ráðstjórnarinnar.

Aðeins 125 000 manns vinna nú í einkageiranum.  Þeim þarf að fjölga í 155 000 manns á 3 árum, svo að hagkerfið rétti úr kútnum.  Starfsmaður í einkageiranum þarf árið 2011 að bera uppi framfærslu sína og 1,54 annarra, en árið 2007 aðeins 1,29 annarra.  Framfærslubyrðin hefur þyngzt um 20 % á 4 árum.  Þessi óheillaþróun undir vinstri stjórn girðir fyrir raunhæfar kjarabætur.  Krónuhækkanir verða brenndar á verðbólgubáli staðnaðs þjóðfélags.  Á ensku er þetta kallað "stagflation".  Þessum hræðilega vítahring vinstri mennskunnar verður ný ríkisstjórn að brjótast út úr.  Að öðrum kosti myndast hér evrópskt þjóðfélagsöngþveiti.

Það, sem ný ríkisstjórn þarf að gera fyrir hagkerfið í fyrsta áfanga, er eftirfarandi:

  1. Einfalda og lækka tekjuskatt launþega með einu skattþrepi (til ríkisins), 20 %, og frítekjumark við 2,0 Mkr, og afnámi undanþága og endurgreiðslna á skattgreiðslum.
  2. Lækka tekjuskatt fyrirtækja niður í 12 % af hreinum tekjum.
  3. Setja á eitt virðisaukaskattsþrep, 22 %, til einföldunar.
  4. Afnema aftur eignaskatt.
  5. Setja erfðafjárskatt í fyrra horf (2008).
  6. Lækka skattheimtu af eldsneyti um 20 %. 
  7. Koma samningum um stóriðju í Helguvík og á Bakka í höfn og þar með vinnu við viðeigandi virkjanir.
  8. Afnema gjaldeyrishöftin.
  9. Jafna atvinnurétt og tryggja atvinnurétt allra atvinnugreina í landinu gegn fjandsamlegri yfirtöku hins opinbera. 
  10. Losa fyrirtæki og einstaklinga úr viðjum fjárhagsafleiðinga Hrunsins.

Með þessu móti má auka fjárfestingar í landinu upp í 400 mia. kr á ári, sem á að geta aukið tekjur ríkisins strax um 50 mia. kr og með 4 % hagvexti á ári um 100 mia. kr á ári eftir 4 ár.  Með kostnaðarlækkunum í ríkisgeiranum með samkeppni um þjónustuna, eins og víða tíðkast, m.a. í Svíþjóð, og með beztum árangri í Singapúr, næðist jöfnuður á fjárlögum á fyrsta kjörtímabili, og landið kæmist á hraða siglingu á vængjum hagvaxtar út úr skuldafjötrunum. 

Með því að koma byggingariðnaðinum og verktakageiranum með þessum hætti á fætur aftur auk öflugrar þjónustu við sjávarútveginn, ásamt þróun ferðamannaiðnaðar og smáiðnaðar af margvíslegu tagi, er ekki óraunhæft að ætla, að á 6 árum muni takast að fjölga í einkageira atvinnulífsins um 30 þúsund manns og samtímis að auka við framleiðnina með heilbrigðri samkeppni, svo að traustur grunnur skapist til kjarabóta.

Með gunnfána af þessu tagi eiga borgaraflokkarnir að geisast út á vígvöllinn í baráttu fyrir næstu Alþingiskosningar.  Valið stendur á milli atvinnu, hagvaxtar og sjálfstæðis annars vegar og atvinnuleysis, stöðnunar og þjóðargjaldþrots hins vegar.       

      

     Mynt án ríkisfangsGrikkland í fjárhagsvanda


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband