Að skjóta fyrst og spyrja svo

Ráðherrarnir hafa barið sér á brjóst og þótzt hafa unnið þrekvirki.  Þetta á ekki sízt við um Þistilfirðinginn, fjármálaráðherrann, Steingrím Jóhann Sigfússon, sem þykist hafa lyft Grettistaki í þágu þjóðarinnar.  Það eru þó alger öfugmæli.  Það litla, sem hann hefur komið í verk, hefur allt verið til bölvunar.  Þegar hulunni hefur verið lyft af gjörðum ráðherrans, kemur þetta í ljós.  Mesti kjaftaskur og strigakjaftur þingsins undanfarin ár reynist vera allt of veiklundaður til að standa í ístaðinu gagnvart útlendingum, sem sótt hafa að hagsmunum almennings á Íslandi.  Þetta kom berlega í ljós í Icesave-deilunni, þar sem hann sleikti skósóla samningamanna brezka og hollenzka ríkisins og gerði ítrekaðar tilraunir til að fórna hagsmunum íslenzkra skattborgara án þess að blikna. Það var mikið gæfuspor þeirra sjálfra að taka ótvírætt af skarið og hafna áþján sameignarsinnans.  

Steingrímur tók jafnframt þátt  í stórfelldum blekkingaleik og áróðursstríði ásamt Seðlabanka Íslands og AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinum), m.a. með rangfærslum um nettó eignastöðu Íslands gagnvart útlöndum, til að bæta áróðursstöðu sína og undirlægja ESB (Evrópusambandsins) hérlendis í þeirri von, að smeygja mætti viðbótar fátæktarhelsi erlendra skuldbindinga um háls Íslendinga. Blekkingavefur ESB-undirlægja og taglhnýtinga þeirra fær ekki lengur dulizt. 

Þá hefur komið í ljós, að Steingrím hefur sárlega þrotið örendið í samningaviðræðum við kröfuhafa föllnu íslenzku bankanna.  Hann nennti ekki að fara þá leið, sem ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde mótaði, að láta ríkið eignast alla nýju bankana um sinn og yfirtaka eignir hinna gömlu með miklum afskriftum í andstöðu við kröfuhafana, heldur lét hann, gegn ráðleggingum Fjármálaeftirlitsins og gegn heilbrigðri skynsemi, kröfuhafa gömlu bankanna eignast þá nýju.  Aulahátturinn er með eindæmum.  Þessi maður er ekki einasta fallinn á prófinu, heldur eru afglöpin svo alvarleg, að varðar Landsdómi, sem hann, mistakasmiðurinn, endurvakti með húskörlum sínum.  

Steingrímur lét hagsmuni íslenzkra heimila og fyrirtækja lönd og leið um leið og hann var með "skjaldborg um heimilin" á vörunum ásamt gráa, ofdekraða fyrirbrigðinu í forsætisráðuneytinu (ekki er hér átt við gráa fiðringinn).  Lengra hefur ekki verið komizt í tvískinnungi og sviksemi við hagsmuni íslenzks almennings.  Hér var einkavætt í skjóli nætur til að losna við þrýsting frá ESB, sem að sjálfsögðu gætti hagsmuna sinna manna, fjármálafursta Evrópu.  Ef þessi tvö mál, Icesave og stóra bankaklúðrið, eru ekki tilefni til Landsdómsákæru, þá verður tæplega nokkru sinni slíkt tilefni.  Núverandi stjórnarandstaða á þingi verður að huga að þessu, þó að ferlið sé ófélegt, því að uppvakningurinn er þegar á kreiki.  Þeir, sem vöktu drauginn upp, skulu kenna á honum sjálfir hið sama og verða sproksettir.  Þar ber félagshyggjupostulana þrjá hæst, Atla, Steingrím og Ögmund.  Síðan verður auðvitað að laga lagagrundvöll Landsdóms að því, sem sómasamlegt er í nútímalegu lýðræðisríki.   

Nú hefur Jón Bjarnason, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, eftir miklar fæðingarhríðir, lagt fram tvö frumvörp um hrikalegt afturhvarf til slæmrar fortíðar  fiskveiðistjórnunarkerfisins í andstöðu við langflesta hagsmunaaðila í sjávarútvegi og í hróplegri andstöðu við hagfræðileg lögmál.  Í fortíðinni voru aðstæður í sjónum og á markaði ósambærilegar við nútímann, og þess vegna eru þessi frumvörp fullkomin tímaskekkja.  Flutningsmaðurinn virðist reyndar vera sjálfur tímaskekkja og jafnan sem álfur út úr hól að þeim þó ólöstuðum.  

Sameignarsinninn leggur frumvörpin fram í blindni og án þess að hafa hugmynd um afleiðingar gjörða sinna fyrir hagkerfi landsins.  Ábyrgðarleysi hans er algert.  Sem óviti með eldspýtur kveikir hann í mikilli byggingu, þegar hann nú setur undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, síðustu kjarasamninga og sjávarafurðamarkaði Íslendinga erlendis, í algert uppnám.  Fullkomlega dæmigert ráðstjórnarráðslag. 

Útgerðarmenn, sunnan, austan og vestan, hafa hins vegar reiknað út afleiðingar óráðsíu stjórnvalda fyrir sig, og fer mönnum þá að skiljast, hvers vegna útgerðarmenn hafa haldið að sér höndum um fjárfestingar frá myndun vinstri stjórnarinnar 1. febrúar 2009.  Aflaheimildir Vestmannaeyinga upp á 15´500 þorskígildistonn verða samkvæmt þessu tekin ránshendi af þeim og fengnar einhverjum öðrum, m.a. þeim, sem selt hafa frá sér aflaheimildir til hinna, sem verða rændir samkvæmt frumvörpunum.  Þetta er magnað argasta óréttlæti og valdníðsla að hálfu ríkisvaldsins, og það er fráleitt, að eignaupptaka af þessu tagi í anda ráðstjórnar standist ákvæði stjórnarskráar Íslands um eignarrétt og atvinnurétt. Vont er þeirra óréttlæti, en verra er þó þeirra réttlæti.

Um atvinnumissi og tortímingu rótgróinna fyrirtækja í sjávarútvegi, sem staðið hafa sig vel á markaðinum, í nafni öfundar, úlfúðar og stjórnlyndis, hefur Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og doktor í galdraofsóknum á Íslandi á 17. öld, einkum á Vestfjörðum, þetta að segja, samkvæmt Morgunblaðinu, 3. júní 2011:

"Það kemur mér ekkert á óvart, að þeir reyni að reikna sig til þessarar niðurstöðu".  Þá segir hún spár um atvinnumissi ekki munu standast.  "Ég mæli um og legg svo á, að það verði ekki",  svo ?!

Hjá þessum þingmanni, sem er varaformaður sjávarútvegs-og landbúnaðarnefndar Alþingis, bólar sem sagt ekkert á rökum fyrir mestu inngripum ríkisins í íslenzkt athafnalíf frá því að losað var um krumlur ríkisins utan um atvinnulífið á Viðreisnarárum 7. áratugar 20. aldarinnar.  Þingmaðurinn bregður sér meira að segja í líki galdrakindar og fer með heitingar.  Þessum þingmanni og öðrum sameignarsinnum á Alþingi er fyrirmunað að meta afleiðingar gjörða sinna fyrir framtíðar afkomu þjóðarinnar.  Þeir horfa einvörðungu aftur í tímann, hafa ekki getu til annars, og eru í heljargreipum stjórnmálakenninga, sem alls staðar hafa leitt til ófara og hörmunga, þar sem áhangendur þeirra hafa komizt til valda.  Eftirminnilegt dæmi er frá Zimbabwe, þar sem Mugabe tók land af grónum bændum og færði öðrum í nafni réttlætis, en viðtakendurnir, skjólstæðingar Mugabes, reyndust hins vegar algerir búskussar, og nú flytur gamla matarkistan, sem áður hét Rhodesía, inn matvæli.  Um er að ræða vitsmunalega eyðimörk á hefðbundna borgaralega mælistiku.  Ef sameignarsinnar næðu völdum í Sahara, yrði þar sandskortur innan tíðar.  

Þeir, sem fara með forræði ríkisvaldsins nú um stundir, hafa í raun ekki minnstu burði til að stjórna einu né neinu, hvað þá einu þjóðfélagi, eins og ofangreind dæmi sýna í hnotskurn.  Þetta eru hræsnarar, loddarar og lýðskrumarar, undirmálsfólk og klúðrarar, enda er ríkisstjórn þeirra sú allélegasta á lýðveldistímanum.  Í þessu ljósi má furðu gegna, að hún skuli enn njóta yfir 30 % fylgis í skoðanakönnunum.  Verða góðir menn að leggjast á árarnar til að svo verði ekki lengi úr þessu.  

Því hefur heyrzt fleygt, að félagshyggjuflokkarnir vilji fara í kosningar um téða sjávarútvegsstefnu sína, jafnvel að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um hana.  Þetta er auðvitað fullkomið dómgreindarleysi af þeirra hálfu, eins og annað, sem úr þeim ranni kemur.  Vandi sjávarútvegsins eru auðvitað hrikalegar skerðingar aflaheimilda, sem átt hafa sér stað undandarin 20 ár, og töfralækningar loddara breyta þar engu um.  Kvótakerfið var og er markaðsvætt stjórnkerfi til að laga sjávarútveginn að þeirri staðreynd, að veiðigetan var og er langt umfram afrakstursgetu veiðistofnanna.  Fækkun skipa, vinnslustöðva og starfsfólks í sjávarútvegi var óhjákvæmileg aðlögun að raunveruleikanum til að sjávarútvegurinn yrði þjóðhagslega hagkvæmur.  Öðruvísi verður hann niðurgreidd þjóðfélagsleg byrði, haldið uppi sem þætti af byggðastefnu stjórnvalda, eins og í nágrannalöndum okkar.

Hvar, sem lýðskrumararnir koma, tala þeir nú í hræsnisfullum tóni um núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og lofa tilfærslum aflaheimilda og auðlindagjalds til þess byggðarlags, þar sem þeir eru staddir þá stundina.  Gildir þá einu, hvort þeir eru staddir fyrir vestan, norðan, austan eða sunnan.  Loddararnir boða betri tíð alls staðar við fjölgun fyrirtækja og starfsmanna í greininni.  Allir heilvita menn sjá, að þessi áróður töfralæknanna gengur ekki upp, heldur mun greinin í heild veikjast vegna þess, að ráðherra fjölgar ekki fiskum í sjónum.  

Það, sem mun gerast, er, að íslenzkur sjávarútvegur mun á ný komast á vonarvöl, eins og sjávarútvegur í Evrópu yfirleitt er.  E.t.v. liggur þar fiskur undir steini hjá Samfylkingunni, að þjóðnýting aflaheimilda og ráðherraræði yfir sjávarútveginum færi stjórnkerfi landsins nær stjórnkerfi ESB.  Það passar þó illa við yfirlýsingar í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB, um, að íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið ætti að verða öðrum til fyrirmyndar.  Því skal taka fagnandi hverju tækifæri, sem blindingjarnir í Stjórnarráðinu gefa til að takast á við þá um fiskveiðistjórnunina í baráttu fyrir Alþingiskosningar eða  fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Jón Bjarnason, ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, hefur gert sig sekan um afspyrnu forneskjuleg vinnubrögð.  Með frumvarpi hans læsir félagshyggjan klónum að nýju í undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar með þeirri ráðstjórnarvæðingu og afskiptum stjórnmálamanna, sem slíku fylgir.  Að gösslast áfram með slíkt örlagamál án þess að áhættugreina það heitir að skjóta fyrst og spyrja svo, og er slíkt einkenni undirmálsmanna.

    Ráðherrar ræða saman   

  

    

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Já, það er hræðilegt að "skjóta og spyrja svo" í þessu máli. Það hafa svo sem ekki verið miklir burðir til að greina málið og færa þannig töluleg rök fyrir tillögunum og til útskýringar á innihaldi þeirra. Manni var meira að segja nær að halda að ekki ætti neitt að spyrja um afleiðingarnar þá þegar skotið hefur riðið af; Stjórnarandstaðan hefur þurft að jagast við ríkisstjórnina um það í þeirri viðleitni að koma málinu í umræðuhæfan farveg, en stjórnin virðist hafa litið á það eins og leiðinlegan þakleka til óþurftar og trafala. 

Kristinn Snævar Jónsson, 10.6.2011 kl. 00:47

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Kristinn Snævar;

Þakka þér fyrir innlitið. 

Öll starfsemi í samkeppni er viðkvæm gagnvart opinberum afskiptum.  Sjávarútvegurinn, íslenzki, á í harðvítugri samkeppni við niðurgreiddan sjávarútveg Evrópu.  Fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar eru tilræði við samkeppnistöðu hans.  Heggur sá, er hlífa skyldi.  Allir útreikningar, sem birtir hafa verið, sýna tortímandi áhrif hugmyndafræði vinstri flokkanna í verki á fyrirtækin, sem fyrir barðinu verða, og þar með á viðkomandi byggðir.  Þessir flokkar eru stöðugt með réttlæti á vörunum.  Hvers konar réttlæti er það að rífa veiðiheimildir af mönnum til að afhenda þær þeim, sem seldu þeim þessar heimildir ?  Sennilega snýst þetta aðallega um frjálsa framsalið, en það er einmitt það, sem knúið hefur greinina til aukinnar framleiðni, sem er grundvöllur þjóðhagslegrar hagkvæmni sjávarútvegsins.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 10.6.2011 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband