Versta aðför sögunnar að landsbyggðinni

Nú hafa fjölmargar umsagnir borizt um frumvörp ríkisstjórnarinnar um breytta fiskveiðistjórnun, og eru  þær allar á eina lund.  Frumvörpin eru argvítug aðför að útgerðinni, jafnt togaraútgerð sem smábátaútgerð, og hrikalegust er meðferðin á nýliðum, skuldugum upp fyrir haus af kvótakaupum, og án eigin fiskvinnslu.  Frumvörpin eru rétt eitt klúðrið að hálfu þessarar dæmalausu ríkisstjórnar, sem ekkert kann til verka.

Eftir allt, sem á undan er gengið, er þó ekki hægt að ætla ríkisstjórninni þá reginheimsku að ana áfram í blindni án þess að gera sér grein fyrir gerðum sínum.  Þess vegna verður að álykta, að blint hatur Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á útgerðarmönnum ráði hér för ásamt vilja til að valda einkaframtaki tjóni og færa sífellt meiri völd til hins opinbera og þar með stjórnmálamanna. 

Þarna er líka á ferðinni ótrúlegt þekkingarleysi á því, hvernig verðmæti verða til og dreifast um allt samfélagið.  Í stuttu máli er hér á ferðinni fullkomið fúsk við lagasmíði, svo að aldrei hefur annað eins sézt.  Verður þessarar frumvarpsmíði Steingríms Jóhanns Sigfússonar lengi minnzt sem hins lélegasta í hagfræðilegu og atvinnulegu tilliti, sem farið hefur verið á flot með, og eru þessi vinnubrögð algerlega óboðleg Alþingi Íslendinga. Sjá nú allir viti bornir menn, að stjórnarflokkarnir eru báðir óstjórntækir, enda ofstæki þeirra þjóðhættulegt, eins og rökstutt er hér að neðan.  Nú verða tekin dæmi úr Morgunblaðinu 18. apríl 2012:

  • Útgerðarmaður í Grímsey áætlar, að fyrirhuguð veiðigjöld muni nema 100 milljónum kr í Grímsey eða um einni milljón kr á hvern Grímseying.
  • "Það, sem ég hef náð að kynna mér af þessu, er ótrúlega ósvífið og óforskammað.  Því er auðsvarað, hvað gerist, ef veiðigjöldin verða hækkuð, eins og áformað er.  95 % af flotanum verður bundinn við bryggju.  Það verður ekki hægt að gera út undir þessum kringumstæðum", segir Sigfús Jóhannesson, útgerðarmaður í Grímsey, um viðbrögð sín við frumvörpunum.
  • Prófessor í fiskihagfræði, Ragnar Árnason, telur veiðigjöldin vera "óðs manns æði".  Hann telur frumvarpið um auðlindagjald vera reist á vankunnáttu á hagfræðilögmálum, skilningsleysi og rangtúlkunum á hugtakinu auðlindarenta.  Höfundar frumvarpsins eru óvitar og þar af leiðandi stórhættulegir í stjórnarráðinu.  Allt viðgengst þetta á ábyrgð vinstri manna.  Þeir eru að leggja framleiðslugjald á sjávarútveginn, eins konar aðstöðugjald.  Hvers vegna er ríkisvaldinu misbeitt svona herfilega gegn einni atvinnugrein ?
  • Prófessor Ragnar bendir á, að með frumvörpunum sé samkeppnistaða íslenzks sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum veikt mjög.  Þar sem sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar, mun þessi veikta samkeppnistaða valda lífskjararýrnun á Íslandi.  Stjórnmálamenn, sem að slíku standa, eru þjóðinni hræðilega dýrir og geta hæglega kollsiglt þjóðarskútunni. 
  • "Slík gjaldtaka", að mati Ragnars, er því "óðs manns æði og mun hafa margvíslegar skaðlegar afleiðingar fyrir fyrir annars vegar fjármálakerfið í heild og hins vegar horfur í efnahagsmálum Íslands almennt."  Veiking fjármálakerfisins vegna afskrifta skulda sjávarútvegsins, sem hann mun ekki hafa burði til að greiða eftir álagningu fruntagjalds sameignarsinnans, mun gera viðreisn athafnalífsins ómögulega, því að fjárfestingar með lántökum að mestu eru óhjákvæmileg forsenda viðreisnar.  Sjávarútvegurinn mun einfaldlega missa lánstraust sitt, gangi þvælan úr sameignarsinnum fram. 
  • Tryggvi Þór Herbersson birtir greinina "Fall Fjallabyggðar" í téðu blaði.  Þetta er átakanleg lýsing á örlögum dæmigerðs sjávarpláss á Íslandi, verði fruntafrumvörp Steingríms að lögum.  Niðurstaða hans er þessi:"Ef ekkert er gert, myndi fjara undan fyrirtækinu og það verða gjaldþrota á 3-4 árum".  

Hinn 19. apríl 2012 birtist svo í Morgunblaðinu frásögn af því, hversu mjög andvígur þessi mistakasmiður úr Þistilfirði var veiðigjaldtöku af sjávarútveginum árið 1997.  Hann er nú orðinn umskiptingur miðað við 10 liði, sem hann nefndi í ræðu þá:

  1.  "Skattstofninn í þessari hugmynd er óskynsamlegur og vitlaus."
  2. "Skatturinn er óréttlátur m.t.t. byggðanna."
  3. "Það er ekki hægt að rökstyðja með sanngirni, að nýting af þessu tagi kalli á skattheimtu í sjávarútvegi, einum atvinnugreina."
  4. "Það virðast margir hafa gleymt því, að sjávarútvegurinn skuldar um 100 milljarða króna."
  5. "Sjávarútvegurinn keppir við ríkisstyrkta grein í nálægum löndum."
  6. "Sjávarútvegurinn hefur mikla þörf fyrir að geta fjárfest á komandi árum."
  7. "Öflug sjávarútvegsfyrirtæki með góða afkomu til fjárfestinga eru helzta, það jaðrar því miður við, að maður verði að segja, eina von landsbyggðarinnar.  Þessi liður einn nægir mér til að vera algerlega andvígur veiðigjaldi", sagði Steingrímur J. Sigfússon.
  8. "Veiðigjald myndi líklega leiða til samþjöppunar og fækkunar eininga; möguleikar smáfyrirtækja og einyrkja yrðu minni.
  9. "Sjávarútvegurinn yrði síðri fjárfestingarkostur með veiðigjaldi.  Það yrðu minni líkur á arði, og það, sem mestu máli skiptir hér, eru fælingaráhrifin."
  10. "Það eru að mínu mati til margar miklu betri leiðir til þess að leysa þau vandamál, sem stuðningsmenn veiðigjalds telja, að eigi að leysa með veiðigjaldi."

Svo mörg voru þau orð Steingríms Sigfússonar, þegar hann var þingmaður í stjórnarandstöðu.  Hvert einasta atriði ofangreindrar upptalningar er enn í fullu gildi, þó að Steingrímur hafi söðlað um, eftir að hann varð ráðherra, í þessu máli sem og ýmsum öðrum stórmálum.  Téður ráðherra er ómerkingur. 

Það er líklegt, að frumvörp Steingríms um þjóðnýtingu kvótans, endurúthlutun til leigu og ofurskattlagning, stríði gegn lögum og Stjórnarskrá.  Þetta var leitt í ljós í skýrri og skeleggri grein Birgis Tjörva Péturssonar, héraðsdómslögmanns, í Morgunblaðinu 7. apríl 2012, "Til varnar eignarrétti í sjávarútvegi".  Þar segir m.a.: "Fiskstofnarnir á Íslandsmiðum hafa aldrei verið í eigu neins frá því að land byggðist.  Þeir hafa farið um miðin, sem teljast enn almenningur í lagalegum skilningi, eigendalausir á meðan óveiddir.  Viðurkennt hefur verið að þjóðarrétti og landsrétti, m.a. í dómum Hæstaréttar, að Alþingi hafi í skjóli fullveldisréttar síns heimild til að setja reglur um nýtingu þessarar auðlindar.  Fullveldisréttur þessi, sem Alþingi fer með í umboði kjósenda, er ekki eignarréttur.  Hann felur ekki í sér sameign þjóðarinnar.  Yfirlýsing 1. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 um, að nytjastofnar sjávar séu sameign þjóðarinnar, hefur enga eignarréttarlega merkingu. ... Það fær ekki staðizt nokkra lögfræðilega skoðun, að þjóðin eigi rétt á leigugjaldi fyrir fiskveiðirétt, eins og t.d. fasteignareigandi fyrir leigu fasteignar sinnar, enda er hún hvorki eigandi nytjastofnanna né réttindanna til að veiða þá.  Að sjálfsögðu getur Alþingi eigi að síður, standi vilji til þess, lagt skatt eða aðrar kvaðir á þá, sem eiga fiskveiðiréttindin, að virtum ákvæðum stjórnarskrár.  En það er ekki á grundvelli eignarréttar þjóðarinnar, svo mikið er víst. ... Útgangspunkturinn í hinum fjölmörgu tillögum ríkisstjórnarinnar er, að ríkið taki til sín hin verðmætu fiskveiðiréttindi og úthluti þeim gegn gjaldi. ... Ekkert skipulag sýnist heppilegra til verðmætasköpunar eða falla betur að meginsjónarmiðum þeim, sem íslenzka stjórnarskráin byggir (á).  Að einstaklingar og fyrirtæki þeirra fari með eignarrétt á gæðunum, nýti þau og ráðstafi.  Ríkið setji reglurnar og hafi eftirlit.  Það, að ríkið sé á hinn bóginn eigandi allra gæða, úthluti þeim til nýtingar gegn himinháu gjaldi, stýri svo takmörkuðum nýtingarrétti að auki með reglusetningu og eftirliti er í anda róttækrar ríkisforsjárstefnu.  Þetta sjá allir, sem vilja.  Slík stefna leiðir til mikillar samþjöppunar valds hjá ríkinu, sem væri alls kostar óheppileg þróun.  Hún væri á skjön við anda þeirrar stjórnskipunar, sem við höfum byggt á, sem gengur út frá því, að vald ríkisins sé takmarkað og temprað, en réttindi einstaklinga tryggð, m.a. til eigna sinna og atvinnufrelsis."  

Þessi lögfræðilega greining á deilunni um fiskveiðistjórnunarkerfið krystallar átakalínuna.  Hún er á milli réttinda einstaklinganna til atvinnufrelsis annars vegar og yfirtroðslu ríkisins á frelsi einstaklinganna og fyrirtækja þeirra til að stunda sjóinn.  Framkvæmdavaldið hefur lagt inn á braut viðamikillar frelsisskerðingar með því að leggja fyrir þjóðþingið frumvörp um yfirtöku grundvallaratvinnuvegar þjóðarinnar.  Af grundvallarástæðum má slíkt aldrei verða, og það væri einsdæmi í hinum vestræna heima, ef ríkisvaldinu tækist að klófesta undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar.

Sú staðreynd, að ríkisstjórnin skuli gera ítrekaðar atrennur að þessu markmiði sínu, sýnir, hversu aftarlega á merinni hún er, og hvílikir steingervingar eru við stjórn.  Með lögfestingu frumvarpanna tækist afturhaldinu í landinu að stöðva framþróun í sjávarútvegi.  Enginn mundi lengur telja hann vænlegan fjárfestingarkost, og hann mundi þess vegna verða undir í samkeppninni á erlendum mörkuðum um sjávarafurðir.  Þessi afturhaldsstefna, verði hún ofan á, mun þess vegna leiða til versnandi lífskjara í landinu og kippa fótunum algerlega undan viðreisn hagkerfisins.

Nú er komið fram vandað lögfræðiálit, sem staðfestir, að efni frumvarpanna varðar við lög, jafnvel Grunnlögin, Stjórnarskrána.  Með öðrum orðum er ekki aðeins siðlaust, heldur varðar við Grunnlögin "að þvinga útgerðirnar í þrot".

"Við horfum til þess, að höggið, sem útgerðirnar yrðu fyrir, yrði það mikið, að farið yrði yfir þau mörk, sem Stjórnarskráin og Mannréttindasáttmáli Evrópu leyfa gagnvart atvinnuréttindum, og það myndi skapa ríkinu bótaskyldu", sagði Karl Axelsson, hæstaréttarlögmaður og dósent við lagadeild Háskóla Íslands við Morgunblaðið.  Blaðið hefur ennfremur eftir honum þann 24. apríl 2012: "Ef spár þessara og annarra umsagnaraðila um mjög neikvæð áhrif frumvarpanna á rekstur margra sjávarútvegsfyrirtækja ganga eftir, er í raun og veru svo hart fram gengið, að það er verið að brjóta atvinnuréttindi.  Sumum er enda gert ómögulegt að stunda atvinnurekstur áfram, öðrum illmögulegt og enn öðrum erfitt.  Þessi réttindi eru varin af 72. grein Stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu." 

Eftir allar þessar tilvitnanir er engum blöðum um það að fletta, að frumvörp mesta klúðrara íslenzkrar stjórnmálasögu, Steingríms Jóhanns Sigfússonar, eru versta atlaga, sem sögur fara af, að sjávarbyggðum Íslands, að atvinnuréttindum útgerðarmanna, að efnahagsstöðuleika á Íslandi og að lífsafkomu almennings.  Frumvörp þessi, flutningsmaður og ríkisstjórnin, sem hann situr í, eru algerlega óalandi og óferjandi, hvernig sem á þau er litið, og ber að kasta þeim hið fyrsta á ruslahauga sögunnar, þar sem þau eiga heima og geta orðið unga fólkinu og öðrum víti til varnaðar.  

Einmana dúfa á loftstreng 

             

Gæði hafsins


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband