Af samkeppnihæfni

Samkeppni er eitur í beinum sameignarsinna, enda drepa þeir allt í dróma í kringum sig með miðstýringu og forsjárhyggju.  Samkeppni getur verið af ýmsu tagi.  Hún getur verið á milli einstaklinga, t.d. nemenda, á milli fjölskyldna eða ætta, fyrirtækja, sveitarfélaga og þjóða.

Sameignarsinnar óttast og hata markaðskerfið vegna alþekktrar skilvirkni þess, en samkeppni á milli fyrirtækja knýr það áfram.  Þess vegna er sameignarsinnum alveg sérstaklega uppsigað við samkeppni á milli fyrirtækja og allt einkaframtak.  Samt er staðreynd, að slík samkeppni er mjög í hag neytenda, og þar sem samkeppni vantar á markaðinum, þar er það segin saga, að hagsmunir neytenda eru fyrir borð bornir.  Svo mjög sem þjóðarafmælisbarn dagsins, Jón Sigurðsson frá Eiri við Arnarfjörð (Dýrafjörð samkvæmt bullustömpum núverandi ríkisstjórnar Íslands) bar frjálsa verzlun fyrir brjósti er ljóst, að hann var fylgjandi frjálsri samkeppni og þar með má álykta, að Jón Sigurðsson hefði verið fylgismaður markaðsbúskapar nú á dögum. 

31. maí 2012 ritaði Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, athygliverða grein í Viðskiptablaðið, "Skiptir samkeppnishæfni máli ?"  Þar gerir hann að umræðuefni rannsókn IMD viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnihæfni þjóða.  Eins og kunnugt er, búa Svisslendingar við ein albeztu lífskjör í heimi, og gott mark er á þeim takandi.

 Hér er í raun um að ræða samkeppnihæfni landa um fólkið, vegna þess að beztu lífskjörin að teknu tilliti til lífsgæða, og ekki endilega einvörðungu efnislegra gæða, eru í löndum, sem efst lenda í þessu hæfnimati IMD. Það segir meira en mörg orð um þá duglausu og skaðvænlegu skaðræðisstjórn, sem hér hefur lafað, meira eða minna lömuð af innbyrðis átökum, við völd síðan 1. febrúar 2009, án nokkurs erindis, að árið 2007 var Ísland í 7. sæti um samkeppnihæfustu lönd heims, en nú, 5 árum seinna, og eftir næstum 3,5 ára afturhaldsstjórn Samfylkingarafstyrmis og vinstri lappar höktandi skækju þess afstyrmis í stjórnmálum, þá er Ísland í 26. sæti af 59 löndum.  Þetta er fullkomin hneisa, ósvinna mætti segja, enda falleinkunn fallistanna á vinstri jaðri stjórnmálanna á Íslandi, sem eftir Búsáhaldabyltingu sína fengu tækifæri til að sanna sig, en hafa nú sýnt þjóðinni á spil sín, og þar eru þá tómir hundar eftir allt saman.  Þessir vinstri flokkar hafa hvorki vilja né getu til að drífa Ísland inn á braut nauðsynlegra framfara, enda eru þeir rétt nefndir afturhaldsflokkar, báðir tveir.  Framfarir og frjálst framtak eru eitur í þeirra beinum, enda hatast þeir við athafnalífið með ótrúlegum yfirgangi og ósvífni einræðisseggja.  

Vilji og geta Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er minni en enginn til að bæta kjör landsmanna.  Allt, sem þessir tveir flokkar við völd hafa tekið sér fyrir hendur, er til þess fallið að rýra kjör þjóðarinnar í bráð og lengd.  Þjóðin er að átta sig á, hvers konar skaðræði það er hagsmunum hennar að hafa einskis nýta froðusnakka og siðblinda lygalaupa við völd. 

Undir vinstri stjórninni er hagkerfið svo veikt, að það nær ekki að skapa nægan fjölda nýrra starfa til að mæta nýliðun á vinnumarkaði, en nettó aukningin er að jafnaði 2500 manns á ári.  Fækkað hefur á vinnumarkaðinum og fjölgað í hópi þeirra, sem sagt hafa sig til sveitar. Engan þarf að undra þessa þróun miðað við stjórnarstefnuna, enda er vaxandi fátækt alls staðar fylgifiskur óvita og ofstækis við stjórnvölinn.  Stjórnarstefnan, ef stefnu skyldi kalla, er hreinræktuð fátæktarstefna, enginn hvati fyrir fyrirtæki til að færa út kvíarnar, enginn hvati er lengur fyrir launþega til að leggja mikið að mörkum, því að jaðarskattheimtan er orðin herfilega há.  Hagkerfið allt er reyrt í fjötra og reynt er að ganga af markaðskerfi sjávarútvegsins dauðu.  Minnir sá atgangur allur á tilburði ofstopamanna og einræðisseggja á borð við Hugo Chavez, sem er að rústa efnahag Venezúela.  Sækir Steingrímur fyrirmyndir sínar til Suður-Ameríku ?

Fyrr nefndur Finnur Oddsson skrifar: "Þó að úttektir á borð við þá, sem IMD gerir, séu hvorki óumdeildar né óskeikular, þá gefa þær vísbendingar um að hverju þarf að huga til að bæta samkeppnishæfni og lífskjör.  IMD horfir til fjögurra meginþátta, sem eru skilvirkni hins opinbera, skilvirkni atvinnulífs, efnahagsleg frammistaða og samfélagslegir innviðir."  Veikleikar Íslands nú um stundir eru:  

  • óskilvirkur opinber rekstur.  Opinber rekstur er of umsvifamikill og framleiðni hans er að jafnaði ófullnægjandi.
  • brotalamir eru í gangverki atvinnulífsins.  Ríkisvaldið hefur frá 1. febrúar 2009 staðið í stöðugu stríði við athafnalífið og sýnt fjárfestum ótraustvekjandi framkomu, svo að vægt sé til orða tekið.  Ekkert traust ríkir lengur á milli ríkisvalds og svo nefndra aðila vinnumarkaðarins.  Lagasetning er óvönduð og hringlandaleg.  Núverandi stjórnvöld reyna að brjóta athafnalífið undir sig á ný eftir frelsisvæðingu 10. áratugar 20. aldar, og hagsmunir almennings eru þar af leiðandi gjörsamlega fyrir borð bornir. 
  • efnahagsleg frammistaða landsins er slök vegna mikillar verðbólgu m.v. viðskiptalöndin, fólksflótta, minnkandi atvinnuþátttöku, fjármagnshafta og rangra áherzlna í menntakerfinu, sem ekki þjóna þörfum athafnalífsins.  Ríkisbúskapurinn er að hætti búskussa.   
  • það, sem heldur landinu ofan við 30. sæti hjá IMD, eru vafalítið alltraustir innviðir.  Þó er menntakerfið meingallað.  Það sér framleiðsluatvinnuvegunum ekki fyrir nauðsynlegri tækniþekkingu til að knýja þjóðfélagið áfram.  Þess í stað er ungað út alls konar liði, sem aldrei getur orðið annað en afætur á framleiðsluvélinni.  Þessu verður að breyta og taka þýzka menntakerfið til fyrirmyndar. Þjóðverjar kunna að rækta garðinn sinn.   

Finnur Oddsson segir í lok téðrar greinar: "Sagan hefur kennt okkur, að Ísland hefur alla burði til að teljast meðal samkeppnishæfustu þjóða.  Þá stöðu er hins vegar ekki hægt að byggja á góðum samfélagslegum innviðum einum saman.  Frekar má segja, að þeir séu afleiðing góðrar efnahagslegrar frammistöðu, sem nýtt er til að standa undir öflugu velferðarkerfi og öðrum innviðum.  Leiðarlýsingin, sem draga má af niðurstöðum IMD, er því skýr.  Til að lífskjör verði áfram eftirsóknarverð á Íslandi þarf að koma aflvélinni, sem þau knýr, í gang með skilvirkari nýtingu opinberra fjármuna og úrbótum á rekstrarumhverfi fyrirtækja, sem skapa verðmæti, störf og bætt lífskjör.  Sú vinna gengur nú of hægt og mikið verk eftir óunnið."  

Það, sem þarf að gera til viðbótar við ofangreint til að lyfta Íslandi upp í sitt gamla sæti, 7. sætið á neðangreindum lista, er þreföldun fjárfestinga í landinu m.v. það, sem nú gerist, og samhæfing ríkisfjármála-og peningamálastefnu ríkisins með nýjum stjórnunaraðferðum, sem reistar eru á grunni, sem bezt hefur gefizt erlendis og gerð hefur verið grein fyrir á þessu vefsetri, í tímaritinu Þjóðmálum og víðar.  

Röð samkeppnihæfra ríkja og einkunn árið 2012 samkvæmt IMD er eftirfarandi:

  1. Hong Kong, 100 %.  Góður árangur vekur óskipta athygli.
  2. Bandaríkin, 97,8 %.  Öflugt einkaframtak.
  3. Sviss, 96,7 %.  Mjög lítil yfirbygging ríkisins. Gott menntakerfi.
  4. Singapúr, 95,9 %.  Mjög skilvirk notkun opinbers fjár.
  5. Svíþjóð, 91,4 %.  Borgaraleg ríkisstjórn rétti hlut Svía.
  6. Kanada, 90,3 %.  Miklar náttúruauðlindir, blandað hagkerfi.
  7. Tævan, 90,0 %.  Mikil tækniþróun og iðnvæðing.
  8. Noregur, 89,7 %.  Miklar náttúruauðlindir, blandað hagkerfi.
  9. Þýzkaland, 89,3 %.  Menntakerfið styður við iðnaðinn.
  10. Qatar, 88,5 %.  Miklar fjárfestingar í iðnaði, t.d. áliðnaði.
  11. Holland, 87,2 %.  Skilvirkir iðnviðir.
  12. Lúxemborg, 86,1 %.  Miðstöð viðskipta.  Lágir skattar.
  13. Danmörk, 84,9 %.  Gott menntakerfi, vel skipulagðir.
  14. Malasía, 84,2 %.  Samkeppni við Singapúr er hvetjandi.
  15. Ástralía, 83,2 %.  Miklar náttúruauðlindir, gott fjárfestingarumhverfi.
  16. Sameinuðu arabísku furstadæmin, 82,5 %. 'Aherzla á uppbyggingu iðnviða, sem lifað geta án gas- og olíulinda.
  17. Finnland.  Menntakerfið þykir til fyrirmyndar.
  18. Bretland, 80,1 %, vinsamlegt fjárfestingarumhverfi.
  19. Ísrael, 78,6 %
  20. Írland, 78,5 %.  Miklar erlendar fjárfestingar.
  21. Austurríki, 77,7 %.  Mikið ferðamannaland.
  22. Kórea, 76,8 %.  Mikil iðnvæðing.
  23. Kína, 75,8 %.  Vekur athygli.
  24. Nýja Sjáland, 74,9 %
  25. Belgía, 73,5 %
  26. Ísland, 71,5 %
  27. Japan, 71,4 %.  Hagkerfi Japans er tiltölulega lokað.
  28. Chile, 71,3 %
  29. Frakkland, 70,0 %.  Athygli vekur aftarleg staðsetning Frakklands.
  30. Tæland, 69,0 %.

Að hafa lækkað um 20 % við Hrunið og nánast ekkert náð að bæta hagræna og velferðarlega stöðu landsins síðan þá, er hrikalegur áfellisdómur yfir sitjandi stjórnvöldum á Íslandi.  Þetta er staðfesting á gagnrýni stjórnarandstæðinga á stjórnarstefnuna, sem er í raun hvorki fugl né fiskur, nema að aðlaga stjórnkerfi landsins að ríkjasambandi, sem með örvæntingarfullum hætti á að reyna að breyta í sambandsríki til að freista þess að bjarga sameiginlegu myntinni, evrunni.  Þetta er ólýðræðisleg þróun með afbrigðum, sem ekki er þorra Evrópumanna að skapi. 

Það er til skammar, að Ísland skuli sitja í 26. sæti á eftir Kína í heildarlífskjörum og standa Norðurlöndunum langt að baki.  Kjósendur geta fastlega gert ráð fyrir að hjakka í sama hjólfarinu í annað kjörtímabil, ef þeir veita stjórnarflokkunum ekki verðuga ráðningu.  Sú ráðning verður að vera svo hörð, að undan svíði rækilega.  Að öðrum kosti munu ormarnir saman skríða á ný, verði þeim þess nokkur kostur.

Það sást við kynningu á blóðpeningaráðstöfuninni á næsta kjörtímabili, þar sem lofað var 11000 nýjum störfum með ráðstöfun ofurskattfjár frá sjávarútveginum, sem vonandi verður kæfð í fæðingunni, að allir dvergarnir ætla að rotta sig saman eftir næstu kosningar, ef þeir eiga þess nokkurn kost.  Kjósendur virðast hins vegar ætla að troða þeim í poka, binda fyrir og kasta þeim út í Hvítá, eins og bændur gerðu við Gottskálk, grimma, á sinni tíð. Síðan hefur ekki til hans spurzt.

Það er engin ástæða fyrir kjósendur að láta bjóða sér 4. flokks stjórnvöld í meira en eitt kjörtímabil, og þá við annarlegar aðstæður.  Það eru raunhæfir möguleikar á raunverulegri viðreisn efnahagslífs landsmanna, ef ekki skellur á heimskreppa vegna vandræðanna á evrusvæðinu.  Með innleiðingu borgaraflokkanna á markaðshagkerfi með félagslegu ívafi verður máttur einkaframtaks virkjaður og opnað fyrir erlendar fjárfestingar samfara uppstokkun á ríkisfjármálastefnu og peningamálastefnu með hraðfara afnámi gjaldeyrishafta.  Mun þá kaupmáttur launaflokks án nokkurs efa fara vaxandi, og öllum vinnufúsum höndum bjóðast störf.           

   Forsetahjónin júní 2012

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband