23.8.2012 | 20:45
Samstaða um þjóðþrifamál
Forseta lýðveldisins mæltist að vanda vel í innsetningarræðu sinni 1. ágúst 2012. Þar vakti hann máls á því, að þau, sem hann færði völdin 1. febrúar 2009, hefðu farið illa með völd sín (þó að það væru ekki hans orð), því að um þverbak hefði keyrt í gerræðislegum stjórnarathöfnum, oft í bullandi ágreiningi innan ríkisstjórnar og við stjórnarandstöðuna. Einkennandi fyrir þessa ríkisstjórn vinstri manna er lömun. Engar nýjar hugmyndir um framfaraskref fyrir land og lýð koma fram. Engar hugsjónir eru kynntar til sögunnar um leiðir, er leitt geta til betri afkomu. Óvíst er, að ríkisstjórnin óski almenningi bættrar afkomu, því að öfl innan stjórnarflokkanna telja hagvöxt vera hættulegan, og "náttúran verði að njóta vafans", enda geta nú sumir einvörðungu hrósað happi yfir að hafa náttúru (enn).
Þetta eru eins ógæfulegir stjórnarhættir og hugsazt getur ekki sízt á tímum sem þessum, þegar þjóðin á við mjög mikla efnahagserfiðleika að etja. Sumpart markast þessi hegðun af inngrónu forræðishugarfari stjórnarinnar, sem minnir að sumu leyti á einræðissinnaða stjórnmálamenn sameignarsinna eftir valdarán í Austur-Evrópu og að öðru leyti á einvalda síðmiðalda, sem hafðir eru eftir frasar á borð við:"vér einir vitum". Össur talar að vísu oftast um utanríkisráðherrann í 3. persónu, eintölu, þegar 1. persóna eintölu eða jafnvel fleirtölu er auðskiljanlegri.
Það hefur verið sagt um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, að geti hún efnt til illdeilna um málefni, sem efst eru á baugi hverju sinni, þá láti hún einskis ófreistað að gera það fremur en að leita að sáttagrundvelli. Þetta kann líka að vera vegna skapgerðargalla ráðherranna og eðlislægrar ófélagslegrar hegðunar ofstækisfólks. Dæmin eru mýmörg og nægir að nefna Icesave, Stjórnarskráarmálið, auðlindanýtingu s.s. fiskveiðistjórnunarkerfið og Rammaáætlun um verndun og nýtingu orkulinda. Jafnvel kattavinurinn og ljóðskáldið Huang Nubo, fjárfestir, lendir í eldlínunni, skotlínu á milli ráðherra, sem kýta eins og börn í sandkassa. Þetta eru algerlega úreltir og óboðlegir stjórnarhættir, sem varpa ljósi á þroskastig hrossataðskögglanna, sem ofan á fljóta í spillingunni og vinstra gaufinu.
Ný ríkisstjórn, sem væntanlega verður skipuð borgaralega þenkjandi fólki af miðju stjórnmálanna, verður að taka upp nútímalegri stjórnarhætti; leggja spilin á borðið, segja þjóðinni sannleikann og vinna hana á sitt band í hverju málinu á fætur öðru með vísun til langtíma hagsmuna heildarinnar. Ný ríkisstjórn ætti eðli málsins samkvæmt auðveldara með þetta en núverandi stjórnvöld, sem skipuð er útúrborulegum sérvitringum og á útjaðri stjórnmálanna með skoðanir og markmið, sem almenningi hugnast illa eftir að hafa kynnzt útfærslu þeirra í tæp 4 ár, enda á þetta fólk sér hvergi skoðanabræður og -systur í ríkisstjórn í Evrópu nú um stundir. Tíminn hljóp frá þessu fólki við fall Berlínarmúrsins 1989.
Ný ríkisstjórn á ekki að hika við að leggja stórmál í dóm þjóðarinnar í stað þess að láta ofstækisfullan minnihluta á Alþingi egna endalaust til ófriðar "í nafni þjóðarinnar" og jafnvel að taka þjóðþrifamál í gíslingu. Í stað tímasóandi þrefs á að láta þjóðina höggva á hnútinn. Fiskveiðistjórnunarmálið og Rammaáætlun eru dæmi um þetta.
Þar með mundi ný ríkisstjórn svara kalli forseta lýðveldisins um aukið beint lýðræði og minni átakastjórnmál, því að úrskurður þjóðarinnar er endanlegur. Það er auðvelt að leggja skýra valkosti um stjórnun fiskveiða og nýtingu orkulinda fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu.
Um mánaðamótin júlí-ágúst 2012 mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins um 37 % í mánaðarlegri skoðanakönnun. Mörgum þykir þetta of lágt á þessum tímapunkti og skal taka undir það. Hnjóðað er að því tilefni í forystu flokksins og ýmislegt tínt til. Hún þykir t.d. deig í baráttunni. Þá er þess að minnast, að þing stóð fram í júní 2012, og þá tók við kosningabarátta forsetaefnanna. Óeðlilegt hefði verið að draga athygli frá henni. Með sumarleyfi flestra að baki myndast nú svigrúm. Hvers vegna efna formenn og varaformenn borgaralegu stjórnmálaflokkanna ekki til fundaherferðar um landið saman og bjóða landsmönnum upp á raunhæfan og lokkandi valkost við illindapúkana, sem nú sitja á fjósbitum Stjórnarráðsins ?
Forystu Sjálfstæðisflokksins er brigzlað um svik í Icesave-málinu og bornar á brýn fyrirætlanir um að svíkja Ísland inn í ESB. Á fundum með forystunni gæfist almenningi kostur á að þýfga hana um Icesave-málið, og henni gæfist þá tækifæri til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Varðandi ESB-málið er auðvitað fordæmi um hrikaleg svik flokksforystu VG í stórmáli, en að ætla forystu Sjálfstæðisflokksins svik í því máli verður að telja til vænisýki. Með tilraun til slíks mundi hún fremja stjórnmálalega kviðristu á sjálfri sér, Landsfundur flokksins yrði umsvifalaust kallaður saman og forystan sett af.
Sá er munurinn á forystu Sjálfstæðisflokksins og núverandi forystu stjórnarflokkanna, að hin fyrr nefnda tekur rökum, lærir og dregur rökréttar ályktanir af breytingum í umhverfinu. Hafi einhverjir í forystu Sjálfstæðisflokksins einhvern tímann verið hallir undir inngöngu í ESB og upptöku evru, skal höfundur þessa pistils éta hattinn sinn upp á það, að svo er ekki lengur. Í Sjálfstæðisflokkinum er fyrir hendi þjóðmálaafl til róttækra þjóðfélagsbreytinga, hvað sem hælbítum aftan úr grárri forneskju líður.
Stuðningsmenn stjórnmálaflokka ganga ekki að því gruflandi, að þeir verði misánægðir með frammistöðu og verk fulltrúa flokksins. Enginn getur ætlazt til að vera alltaf hæstánægður. Menn sameinast um grundvallarstefnu, og flokksmenn verða síðan að sýna hver öðrum nægt umburðarlyndi til að geta starfað saman. Hið sama á við í öllum fyrirtækjum og félögum. Í Sjálfstæðisflokkinum sameinast fólk undir merkjum einstaklingsfrelsis, einkaframtaks og jafnra tækifæra. Gjör rétt, þol ei órétt.
Af þessu leiðir ósk um lágmörkun opinberra afskipta og skattheimtu. Afleiðingin af slíku verður öflug uppbygging athafnalífsins með fullri atvinnu fyrir allar vinnufúsar hendur.
Frelsi fylgir ábyrgð og þar af leiðandi setja sjálfstæðismenn ráðdeild og sparnað í öndvegi. Skuldasöfnun núverandi ríkisstjórnar er eitur í beinum sjálfstæðismanna, enda er hún siðlaus og í raun tilræði við afkomu barna okkar og barnabarna. Hún er í andstöðu við stefnumiðið um jöfn tækifæri öllum til handa, af því að með þessari óráðsíu í skuldsetningu ríkisins er verið að dæma afkomendur okkar til fátæktar. Þessari ósvinnu verður að linna, en henni linnir ekki, nema kjósendur refsi núverandi stjórnarflokkum grimmilega, sem góðar vonir standa til.
Til að brjóta stöðnun hagkerfisins á bak aftur þarf kerfisbreytingar við stjórn peningamála og ríkisfjármála og miklar fjárfestingar, u.þ.b. 20 % af VLF, innlendar sem erlendar. Þessar breytingar á þjóðfélaginu til frelsis og framfara munu leiða af sér sjálfbæran hagvöxt grundvallaðan á framleiðslu útflutningsverðmæta í stað þess, að landsmönnum sé vísað til Noregs í atvinnuleit, hent út af atvinnuleysisskrá vegna langtíma atvinnuleysis eða bent á að taka út séreignarlífeyrissparnað langt um aldur fram. Vinstri stefna er alltaf ósjálfbær, því að hún fær fólk til að éta útsæðið í stað þess að sá, hlúa að uppskerunni og nýta hana til virðisaukningar. Þetta er sagan um Litlu gulu hænuna. Kanski má finna stefnumörkun Sjálfstæðisflokksins í þeirri ágætu dæmisögu.
Það getur aldrei orðið friður um fátækt á Íslandi. Þess vegna getur ekki orðið friður um furðulega ófaglega tilraunastarfsemi með grundvallaratvinnuveginn, sjávarútveginn. Þess vegna getur ekki orðið friður um afbakaða Rammaáætlun með ofxaxinni verndun og óþörfum biðflokki. Það getur heldur ekki orðið friður um gæluverkefni í forgangsröð á undan styrkingu innviða í menntun og lækningum. Það er hægt að ná miklu betri árangri við stjórnarskráarbreytingar með mun ódýrari hætti en núverandi ríkisstjórn leggur upp með. Það er hægt að spara stórfé með endurskoðun bótakerfis og með breytingum á utanríkisþjónustunni. Sjálfstæðismenn munu leiða samskiptin við ESB í farsælan farveg án illinda og sárinda, þar sem báðir aðilar geta gengið hnarreistir frá borði eftir að íslenzka þjóðin hefur sjálf tekið af skarið í þessu endemis vandræðamáli, sem hefur leitt í ljós, að Samfylkingin er ekki í húsum hæf. Aðeins Sjálfstæðisflokkinum er treystandi til stórræðanna.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.