31.8.2012 | 20:37
Að evru fallinni
Beygur er nú í mörgum Evrópumanninum vegna stöðu illa ígrundaðrar tilraunastarfsemi stjórnmálakokka hinnar sameiginlegu myntar. Nú eftir að markaðirnir bera ekki lengur traust til evrunnar, munu evruríkin, jafnvel með aðstoð AGS, ekki hafa neitt bolmagn til að hindra hrun gjaldmiðilsins.
Fjármálakreppan, sem hófst með lausafjárþurrð banka árið 2007, olli miklum eignabruna eftir eignabólumyndun vegna mikillar aukningar peningamagns í umferð, og náði hámarki með gjaldþroti Lehman Brothers 15. september 2008, hefur kostað banka og ríkissjóði óhemju fé. Allt var þetta vegna mjög ógætilegrar peningamálastefnu seðlabanka og lausgirtrar útlánastefnu banka. Fjárfestingarnar skiluðu litlum sem engum arði, eins og nú er að koma á daginn í Kína og mun valda bæði fjármálalegri og stjórnmálalegri kreppu þar. Þeir, sem kasta fé á glæ með ógætilegum fjárfestingum eða gæluverkefnum, hljóta sína refsingu. Sannast bezt þar, að sígandi lukka er bezt.
Það er ekkert borð fyrir báru lengur. Valið stendur á milli peningaprentunar Seðlabanka evrulands, ECB, og þess að láta skeika að sköpuðu. Allur fjárausturinn til að fresta þjóðargjaldþroti Suður-Evrópu ríkjanna er unninn fyrir gýg, og allt er það fé glatað. Þetta er Jens Weidemann, seðlabankastjóra Þýzkalands, ljóst flestum löndum hans. Ítalinn, sem nú stjórnar seðlabanka evrunnar, vill fá að blása í glæðurnar. Mikil barátta stendur yfir innan ECB (seðlabanka evrunnar) og ESB um peningamálin, enda eru Spánn og Ítalía á heljarþröminni.
Mun meira fé mun glatast við gjaldþrotin en nú er búið að verja til björgunaraðgerða, en fallið verður ekki umflúið úr þessu; það verður ekki við neitt ráðið. Bolmagnið hrekkur ekki til. Ýmsir bankar munu þá rúlla á hliðina og aðrir standa tæpt. Eina lausnin út úr skuldakreppu er að binda endi á skuldasöfnun. Þetta á ekki sízt við um ríkissjóðina, hverra forráðamenn verða að læra að sníða sér stakk eftir vexti. Þessi einfalda staðreynd á líka við um íslenzka ríkissjóðinn.
Þjóðirnar, sem í hlut eiga, munu eiga um sárt að binda í 5-10 ár, enda ekki hafa nokkurt lánstraust. Kaupmáttur þeirra og lífskjör munu hrynja, sem hefur slæm áhrif á utanríkisviðskipti margra landa, þ.á.m. Íslands. Íslendingum er betra að fara strax að huga að nýjum mörkuðum í stað Suður-Evrópu, t.d. í Suður-Ameríku og Austur-Evrópu.
Umsagnaraðilar, sem tjáðu sig um verðbréfafallið 9. ágúst 2007, héldu því fram, að markaðurinn mundi rétta sig af á nokkrum vikum. Þeir gáðu ekki að því, að fjármálakerfi heimsins var orðið helsjúkt eftir að Nixon, Bandaríkjaforseti, rauf alla viðmiðun bandaríkjadals við gullfótinn. Eftir það var taumlaust hægt að prenta peninga. Þetta varð í stuttu máli íslenzka fjármálakerfinu að falli árið 2008. Þeir, sem kjósa að koma sökinni á tiltekna íslenzka stjórnmálaflokka, skilja ekki eðli málsins og gera sig seka um loddaralega umgengni við sannleikann og hreinræktað lýðskrum.
Evran hverfur sem mynt, enda hafa engir hag af henni, nema Þjóðverjar. Þeir munu fá sitt þýzka mark aftur, sem verður sterkara en evran og mun þannig halda aftur af útflutningsgetu Þjóðverja. Þeir munu verða fyrir efnahagslegu áfalli við hrun evrunnar, enda munu þeir tapa stórfé. Sunnan Alpa og vestan Rínar verður ekki feitan gölt að flá. Þjóðverjar munu þess vegna snúa sér til austurs, og í Austur-Evrópu verður fjárfest mun meira en annars staðar í Evrópu. Austur-Evrópa verður áreiðanlega mjög samkeppnihæf á þessum áratugi. Þar er talsvert af auðlindum í jörðu, t.d. setlagagasi.
Þeir, sem ekki höfðu látið ginnast til að taka upp evruna, munu sleppa skárst, þegar ósköpin dynja yfir. Þar ber Bretana hæst, en þeir munu standa með pálmann í höndunum með sitt sterlingspund. Þessir atburðir munu styrkja London sem fjármálamiðstöð Evrópu, og Frankfurt mun ekki um sinn bera sitt barr. Brezkir bankar munu að vísu tapa háum upphæðum á óförum Suður-Evrópu, en enska sterlingspundið mun samt styrkjast við brotthvarf evrunnar. Hagkerfi Bretanna er að sumu leyti fallvalt vegna gríðarlegrar skuldsetningar einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera og mikillar hlutdeildar fjármálakerfisins í efnahagskerfi landsins, en að öðru leyti ætti að vera traustur grundvöllur fyrir brezka hagkerfið að verða hið næst stærsta í Evrópu vestan Rússlands; t.d. er aldurssamsetning Breta hagstæð. Bretar munu deila og drottna í Evrópu, eins og þeir gerðu þar til járnkanzlarinn, Otto von Bismarck, sameinaði Þjóðverja með blóði og járni. Í kjölfar sameiningar Þýzkalands 1871 tóku Þjóðverjar mjög að láta að sér kveða í Evrópu, en nú horfir ekki vel fyrir þeim vegna rétt einnar misheppnaðrar tilraunar til sameiningar Evrópu.
Andrúmsloftið í Evrópu verður væntanlega svo eitrað við hrun peningakerfisins í evrulöndunum 17, að starfsgrundvöllur ESB í sinni núverandi mynd verður ekki lengur fyrir hendi. Líklegt er, að sjónarmið Breta um það, hvernig ESB á að starfa, sem og á fleiri sviðum, verði ofan á. ESB mun þess vegna verða skorið niður við trog og breytast í fríverzlunarsvæði.
Líklegt er, að Rússar muni reyna að seilast til meiri áhrifa í Evrópu en verið hefur, einkum á gömlum áhrifasvæðum sínum í Austur-Evrópu. Ekki er víst, að þeim verði kápan úr því klæðinu, nema í Hvíta Rússlandi og í Úkraínu. Þeir hafa reynt sig með orkuvopnið og skrúfað tímabundið fyrir gasflæðið til að knýja fram vilja sinn. Nú eru hins vegar að skipast veður í lofti, og orkumarkaðurinn að breytast úr seljendamarkaði í kaupendamarkað. Svo er setlagagasinu fyrir að þakka, en með því að þróa tækni við vinnslu þess hefur tekizt að auka mjög gasframboð í heiminum, og orkuverð hefur jafnframt lækkað.
Hvaða áhrif mun þessi þróun hafa á hagsmuni Íslands ? Það þarf að efla tengslin við Þýzkaland og Bretland, því að í þessum löndum eru mikilvægir markaðir fyrir Íslendinga á sviði áls, sjávarafurða og ferðamennsku. Jafnframt ber höfuðnauðsyn til að leita nýrra markaða utan Vestur-Evrópu. Álitlegir markaðir munu t.d. myndast í Austur-Evrópu og í Asíu að ógleymdri Suður-Ameríku.
Miklir atburðir eru að öllum líkindum framundan í Evrópu. Hvaða áhrif munu þeir hafa hérlendis, t.d. á stjórnmálin ? Stefna Samfylkingarinnar um, að alfa og omega íslenzkra stjórnmála eigi að verða að tengja Ísland sem nánustum böndum við stórríki Evrópu, bíður skipbrot. Málflutningur formanns viðræðunefndar ríkisstjórnarinnar við stækkunarstjóra ESB er lítilsigldur, þar sem hann útskýrir, að hann burðist við að skapa Íslendingum sem bezta stöðu til að sækja í styrktarsjóði ESB. Það hefur aldrei verið talið eftirsóknarvert í þessu landi að ganga fyrir höfðingjana með bettlistaf í hendi. Samfylkingin hefur enga aðra hugsjón en þennan betlistaf. Samfylkingin mun þess vegna líða undir lok með evrunni og ESB. Farið hefur fé betra. Einsmálsflokkur, sem verður ber að kolröngum boðskap, sem gengur algerlega á skjön við þjóðarhag, er dauðadæmdur. Ljóst er, að flokkurinn er bráðfeigur, þegar liðsuppstilling hans fyrir komandi kosningabaráttu, er skoðuð. Flokkur með slíka forystu er auðveld bráð fálka á flugi.
Hvað verður þá um garminn Ketil skræk, þegar Skugga-Sveinn hrekkur upp af ? Vinstri hreyfingin grænt framboð, ærulaus, enda með allt á hælunum, hefur tengt örlög sín svo rækilega við örlög Samfylkingarinnar í því ólánsstjórnarsamstarfi, sem að nafninu til lafir enn, að henni verður vart margra lífdaga auðið. Ný framboð munu kasta rekunum á hræið.
VG er meðábyrg fyrir þeim undirlægjuhætti, sem verið hefur kennimark ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur gagnvart ESB og fjármálaveldi Evrópu. Þau færðu erlendum vogunarsjóðum bankana á silfurfati.Líklegt er, að Steingrímur Sigfússon innsigli svikaferil sinn í komandi samningaviðræðum um makrílinn. Á ferli þessarar ríkisstjórnar hefur engu verið líkara en hún gangi erinda erlendra afla gegn hagsmunum Íslands. Skeleggasti gagnrýnandi feigðarflans forystu og þingflokks VG, sem allur, utan Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, greiddi atkvæði með því að senda umsókn um inngöngu í ESB til Brüssel, Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, ritaði góða grein í Morgunblaðið 23. ágúst 2012, "Framfylgjum stefnu okkar gegn ESB-aðild í stað orðavaðals":
Yfirstandandi viðræðum við ESB um aðild Íslands að sambandinu verður ekki líkt við annað en leikhús fáránleikans, þar sem aðeins einn stjórnmálaflokkur í landinu, Samfylkingin, stendur að baki málinu og fullljóst, að meirihluti landsmanna er andvígur aðild. Enginn botn fæst í viðræður um "kaup og kjör" í Brüssel á þessu kjörtímabili, enda þurfa menn engar viðræður til að setja sig inn í þann grundvöll, sem ESB hefur byggt á til þessa og er forsenda aðildar."
"Bjarghringurinn, sem litið er til í Berlín og Brüssel felst í yfirtöku ESB á efnahags- og fjármálastjórn aðildarlanda og þannig grundvallarbreytingu í átt að sambandsríki. Hvers konar vitfirring er það við slíkar aðstæður að standa í aðildarviðræðum af Íslands hálfu og aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að ESB ?"
"Nú reynir á Alþingi að koma böndum á þennan skollaleik, og í þeim efnum þarf VG að tala skýrt. Forysta flokks verður að geta horfst í augu við fólkið, sem er ætlað að vera burðarásar í stjórnmálastarfi, að ekki sé talað um að skírskota til trausts manna, þegar kemur að kjörklefanum."
Hér ritar fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalagsins tæpitungulausan texta beint úr grasrót Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Forysta flokksins er rúin trausti. Formaður og varaformaður eru aðhlátursefni, hvort með sínum hætti. Forystan er föst í eigin ósannindavef og getur ekki horfzt í augu við staðreyndir. Hún snýr öllu á haus, enda er hún búin að eyðileggja stjórnmálaflokkinn, sem Hjörleifur Guttormsson og hans líkar hafa stutt með ráðum og dáð hingað til. Svo falla krosstré sem önnur tré.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir magnaða grein Bjarni, ef þú reynist sannspár lítur ekki björgulega út fyrir ESB.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 1.9.2012 kl. 08:10
Takk fyrir innlitið, Kristján.
Segja má, að "nú falli öll vötn til Dýrafjarðar", þegar horft er á þróun Evrópumálanna. Evrópa er eins og stjórnlaus járnbrautarlest, sem dæmd er til að fara út af sporinu, því að stjórnbúnaður hennar er bilaður.
Evran er aðeins birtingarmynd vandamála Evrópu og hefur magnað fjárhagsvanda álfunnar. Evran er eins og púki, sem hleypt hefur verið úr flösku. Það er hægara sagt en gert að troða honum í flöskuna aftur.
Nú er það hlutverk stjórnvalda hér uppi á Íslandi að stýra þjóðarskútunni framhjá þessum váboðum. Þá dugir þjóðinni auðvitað ekki að vera með álfa út úr hóli í brúnni. Þar verður að vera víðsýnt og vel menntað fólk, sem stendur kollegum sínum erlendis fyllilega á sporði. Það verður að hafa bein í nefinu. Kjölturakkar hrökkva alltaf undan, þegar á móti blæs.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 1.9.2012 kl. 12:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.