28.9.2012 | 20:03
Heimskreppa í aðsigi
Hagtölur hvaðanæva að úr heiminum eru óbjörgulegar nú um stundir. 'I öllum heimshlutum dregur úr hagvexti og sums staðar mjög mikið. Dæmi um það eru Asíulöndin Indland og Kína. Valdaskipti eru framundan í haust í Kína, og eykur það enn á óvissuna um þróun mála þar í þessu eins flokks ríki Kommúnistaflokks Kína. Kína er orðið næststærsta hagkerfi heims, og ládeyða þar hefur áhrif hvarvetna. Fjárfestingar í Kína hafa árum saman numið 50 % af VLF (vergri landsframleiðslu), sem er einsdæmi, og þegar svo mikið er fjárfest, fer ekki hjá því, að töluvert sé um slæmar fjárfestingar. Einmitt þetta hefur verið uppi á teninginum í Kína. Héraðshöfðingar Kommúnistaflokks Kína hafa verið í samkeppni hver við annan um vegleg gæluverkefni, sem engu hafa skilað til baka, þ.e. verið án arðsemi. Slíkar fjárfestingar eru alger sóun á fé og virka lamandi á hagkerfið, er frá líður. Fé án hirðis glatast.
Kína sýpur nú seyðið af óstjórn kommúnistanna. Markaðskerfi og kommúnismi fara illa saman. Kínverska hagkerfið hægir nú hratt á sér. Sennilega endar það með samdrætti og uppreisn gegn einræði kommúnista.
Kínverjar hafa afturkallað stórar pantanir á hráefnum frá vorinu 2012. Þetta hefur áhrif á heimshagkerfið. T.d. keypti Kína árið 2011 40 % af kopar, sem á boðstólum var í heiminum. BRIC-löndin, með Kína sem veigamest, áformuðu að nota 3,7 milljón tunnum meira á dag árið 2012 en árið 2011. Úr því verður ekki. Eftirspurn þeirra eftir olíu mun líklega ekkert aukast í ár. Spurn BNA og ESB-ríkjanna mun minnka um a.m.k. 1,5 milljón tunna. Olíuverð ætti þess vegna að lækka, en OPEC reynir líklega að tefja þá þróun með því að draga úr framleiðslu. Annars væri heimsmarkaðsverð á olíu orðið lægra en reyndin er.
Spá OECD fyrir hagvöxt heimsins árið 2012 nam í maí 2012 3,4 %, en er líklega allt of há. Málmverð hefur hríðfallið, t.d. á járngrýti, kopar og áli, og er það meginskýringin á taprekstri samsteypu á borð við Rio Tinto. Þetta er mjög neikvæð þróun fyrir Ísland, sem verður að fá miklar erlendar fjárfestingar til að rífa sig upp úr fúafeni stöðnunar hagkerfisins og vinna bug á grafalvarlegri skuldastöðu ríkisins, sem afturhaldið í Stjórnarráðinu hefur leitt á þjóðhættulegt stig. Þyngra verður undir fæti að afla fjárfestinga í slæmu árferði en góðu.
"It is the economy, stupid" var sagt áður um stærsta áhrifavald kosningaúrslita í BNA. Valdaskipti kunna að vera framundan í Bandaríkjum Norður-Ameríku, BNA, því að núverandi stjórnvöldum hefur ekki tekizt að blása almennilegu lífi í hagkerfið, þó að tekizt hafi með ærnum tilkostnaði að koma í veg fyrir langvarandi samdrátt. Seðlabanki BNA hefur þó teygt sig mjög langt í peningaprentun. Slíkt hefnir sín ávallt með verðbólgu. Verðbólga er peningaþjófnaður, sem kemur verst niður á hinum lakar settu.
Evrópa er í algerum lamasessi. Hluti álfunnar gengur með betlistaf í hendi í Brüssel og Berlín í veikri tilraun til að hindra þjóðargjaldþrot. Allar björgunartilraunir verða unnar fyrir gýg, ef samhliða nýjum lánveitingum eða afskriftum fer ekki fram kerfisbreyting á þjóðfélagsskipaninni. Stappar nærri kraftaverki, ef slíkt gengur eftir. Þess vegna er útlitið svart fyrir Evrópu. Annað mál er, að uppi á Íslandi eru einfeldningar við völd, sem endilega vilja auka enn á vanda Íslands og gera vandamál Evrópu að sínum, þó að margar ESB-þjóðir líti nú frelsi Íslands öfundaraugum.
Gríðarlegar skuldir hvíla á fyrirtækjum Evrópu. Fram til 2016 falla USD 4,2 trilljónir í gjalddaga, MUSD 507 árið 2012 samkvæmt Standard & Poor´s og USD 1,3 trilljónir árið 2014. Þessar miklu skuldir munu virka hagvaxtarlamandi í Evrópu og bætast ofan á óvissuna um, hvort evran stendur eða fellur. Margt bendir þess vegna til djúprar og langvinnrar heimskreppu í vændum. Við þessar aðstæður þurfa Íslendingar á öllu öðru fremur að halda en úrræðalausu, sífrandi afturhaldi, sem með ofstæki reynir að ganga af sjálfbjarga miðstétt í landinu dauðri.
Vextir eru mjög lágir núna um allan heim og hafa verið þannig um hríð. Afleiðing slíks hefur alltaf orðið há verðbólga í kjölfarið. Til að vinna á verðbólgunni eru seðlabankar vanir að hækka vexti, og slíkt hægir óhjákvæmilega á batanum.
Fyrir viðskiptaþjóðir Íslendinga eru horfurnar slæmar, og það boðar ekki gott fyrir efnahag Íslands. Útflutningstekjur bíða hnekki, sem er ávísun á kjararýrnun. Við slíkar aðstæður er skynsamlegt að reyna að lækka skuldir sínar.
Hvað hefur ríkisstjórn landsins gert til draga úr afleiðingum af heimskreppu á Íslandi ? Því er fljótsvarað. Nákvæmlega ekkert. Hún flýtur sofandi að feigðarósi og virðist hvorki vita í þennan heim né annan. Þessi hegðun er til vitnis um getuleysi og/eða ábyrgðarleysi, og hvort tveggja veitir ríkisstjórninni falleinkunn í landsstjórn.
Ríkisstjórnin er á eftir áætlun við að ná jöfnuði á ríkisrekstrinum. Vaxtakostnaður ríkissjóðs eykst þess vegna stöðugt og nemur nú um 80 milljörðum kr, sem er gjörsamlega fráleitt í rekstri með tekjur upp á um 500 milljarða kr. Þetta er hið versta mál í ljósi horfa á minnkandi útflutningstekjum. Ríkisstjórnin hefur nákvæmlega ekkert gert til að koma hjólum athafnalífsins í gang með því að örva vilja til fjárfestinga, t.d. erlendra félaga. Þvert á móti hefur ríkisstjórnin latt til slíks og sett upp margvíslegar hindranir fyrir fjárfesta. Það eru þess vegna engin stórverkefni að fara af stað núna, eins og nauðsyn ber til og séð hefði verið um, ef forsjálni hefði gætt við landstjórnina. Atvinnuástandið næsta vetur verður hryllingur í boði verklausrar vinstri stjórnar með annarlegar hvatir, en ríkisstjórnin heldur ósannindum að almenningi um, að allt sé í stakasta lagi og atvinna sé að aukast. Staðreyndirnar tala öðru máli, því miður. Ástandið er hættulegt, og nauðsyn ber til, að kjósendur láti ekki blekkjast af fagurgala hræsnara og loddara.
Allt hefur verið gert til að draga kjarkinn úr innlendum fjárfestum í hefðbundnum greinum. Gengið er í berhögg við landbúnaðinn um kerfisbreytingar með samningum við ESB, sem ógna tilvist landbúnaðar á Íslandi. Á tímum vaxandi gæðakrafna neytenda og óska um heilsusamlegt fæði er þetta stórt skref aftur á bak. Skógrækt og landgræðsla hafa setið á hakanum, svo að mun minni binding koltvíildis hefur átt sér stað en verið hefði með óbreyttum fjárveitingum til þessara þörfu verkefna. Spyrja þarf í þjóðaratkvæðagreiðslu um, hvað þjóðin vill í atvinnumálunum. Á að ríkja hér framfarahugur á öllum sviðum og áherzla á menntun fólks í raungreinum, eða á afturhaldið í landinu að fá sínu framgengt með einskis nýtum gæluverkefnum sínum og banni við framfarasporum á öllum sviðum og eyðileggingu sjávarútvegs og ferðamannaþjónustu með ofurskattlagningu ?
Valið er einfalt. Framfaraleiðin, sem liggur um slóðir aukinnar framleiðslu, meiri framleiðni og tæknivæðingar, mun skipa Íslandi sess á meðal ríkja heims með mestu velmegun, en afturhaldsleiðin, sem liggur um eyðimörk ónytjungslegra og skaðlegra gæluverkefna, mun óhjákvæmilega leiða til þjóðargjaldþrots.
Sjávarútvegurinn er í uppnámi vegna vanhugsaðra gjörða ríkisstjórnarinnar. Þar er hótað eignaupptöku, svo að sjálfgefið er, að fjárfestingar eru í algeru lágmarki og viðhald einnig.
Ríkisstjórnin hefur kastað sprengju inn í ferðaþjónustuna með ósvífinni hótum um hækkun virðisaukaskatts af gistingu. Einfeldningsrök hennar um, að slík hækkun komi lítið niður á landsmönnum, eru fyrir neðan hellur. Hækkunin kippir stoðunum undan arðsemi fjárfestinga í geiranum, og fáir þora eðlilega að fjárfesta í gistirými, þó að full þörf sé á því.
Fjölmargir Íslendingar, sem hvorki eiga fellihýsi né húsvagn, nýta sér gistiþjónustu dreifbýlisins. Veit Huang Nubo af þessu ? Mun skáldið draga sig inn í skel sína nú, þegar syrtir í álinn fyrir Kínverjum og deilur magnast við Japani, sem leitt geta til hernaðarátaka ? Einhver sagði, að stríð þyrfti til að eyða kreppunni. Það var einmitt úrræðið í Evrópu á 4. áratugi 20. aldar. Öfgaflokkar eflast einmitt í Evrópu núna.
Ekki hefur farið fram hjá neinum, hversu köldu hefur andað frá ríkisstjórnarflokkunum í garð stóriðju og virkjanaáforma. Tímabundinn skatt á raforku til stóriðju átti að vera búið að afnema samkvæmt samkomulagi, sem ætlunin virðist vera að svíkja. Slík framkoma í garð erlendra fjárfesta er til þess eins fallin að veikja tiltrú þeirra í garð íslenzkra stjórnvalda og grafa undan áhuga þeirra á aukinni starfsemi hér, sem krefst aukinna raforkukaupa. Það gæti verið með ráðum gert af ríkisstjórninni.
Orkuvinnslufyrirtæki, sem reisa starfsemi sína á jarðgufu, virðast svo vanburða, að þau séu vart í færum til frekari virkjanaframkvæmda á næstunni, enda hljóta þau að leysa mengurvandamál jarðgufuvirkjana áður en lengra er haldið. Hæpið er, að þau geti boðið heildsöluverð á raforku, sem samkeppnihæft sé á alþjóðlegum markaði. Þau verða líka að gæta þess að láta ekki viðskiptavini greiða niður raforkuna með háu verði á heitu vatni.
Engum vafa er hins vegar undirorpið, að orkuvinnslufyrirtæki, sem reisa starfsemi sína á vatnsorku, geta boðið samkeppnihæft orkuverð til alþjóðlegra fyrirtækja. Stærsta fyrirtækið, Landsvirkjun, er hins vegar með böggum hildar á samkeppnimarkaði í skugga eina eigandans, ríkisvaldsins. Fyrirtækið hefur spennt bogann allt of hátt í verðlagningarmálum. Orkuverð fer lækkandi á alþjóðlegum markaði af ýmsum ástæðum. Það er ekki einvörðungu vegna samdráttar í efnahagsstarfsemi heimsins, eins og talsmenn Landsvirkjunar hafa þó haldið fram, heldur er um langtíma þróun að ræða, sem stafar af tækniþróun við vinnslu á gasi, s.k. setlagagasi, sem virðist hafa farið framjá einhverjum uppi á Háaleitisbrautinni.
Þá kann að styttast í "lokalausn" á orkuvandanum, sem er samrunaorkan. Nú er tækifæri fyrir Landsvirkjun til að bjóða samkeppnihæft verð að nýju, en það mun hún tæpast gera með núverandi húsbónda í Stjórnarráðinu. Allt bíður næstu Alþingiskosninga.
Allar meginstoðir íslenzka hagkerfisins eru í uppnámi í upphafi mikils samdráttarskeiðs í hagkerfum heimsins. Ferill núverandi ríkisstjórnar er með endemum. Þjóðfélagsástandið er ömurlegur vitnisburður um starfshætti óhæfrar ríkisstjórnar, sem margoft hefur sýnt, að hún setur framgang eigin sérvizku og fordóma ofar þjóðarhagsmunum. Forsætisráðherrann er að leggja upp laupana. Afraksturinn er ekki aðeins afspyrnu rýr í roðinu, heldur er hann með þeim hætti, að réttast er að kalla saman Landsdóm til að vega og meta, hvort landráð hafi verið framin í embættistíð hans.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.