18.10.2012 | 18:57
Orkuveitan
Nú hefur rannsóknarnefnd skilað af sér um 500 síðna skýrslu um Orkuveitu Reykjavíkur (OR) á tímabilinu 2002-2010. Niðurstaðan þarf engum að koma á óvart. Hún er sú, að stjórnendur OR hafa í umboði stjórnar hennar og eigenda farið ömurlega illa að ráði sínu í flestu, er að hinum stærri fjárfestingum Orkuveitunnar laut og sýnt af sér fullkomið gáleysi í meðferð fjármuna Orkuveitu Reykjavíkur, sem leitt hafi til stórfellds tjóns fyrir eigendurna. Nú hafa trúðar og hluti gamla R-listans, sem ábyrgur var fyrir REI-spillingunni, tekið við stjórnartaumunum, en engin uppstokkun eða kerfisbreyting hefur farið fram hjá OR. Það lullar allt í gömlu hjólförunum.
Sjálfstæðismenn voru margbúnir að benda á sukk og svínarí R-listans, sem fór með stjórn borgarinnar lungann úr téðu tímabili, sem var til rannsóknar. Óráðsía OR hófst með R-listanum, og þessir vinstri sukkarar bera höfuðábyrgð á því, hvernig komið er. Er nema von, að rannsóknarskýrslan komi eins og "julen på kjerringa", þegar Dagur B. Eggertsson, ekki borgarstjóri (ekki einu sinni miðborgarstjóri) er annars vegar ? Er alveg segin saga, að verstu siðleysingjar í hópi stjórnmálamanna eru vinstri menn við völd. Þeir opinbera þetta undantekningarlaust með ólýðræðislegum stjórnarháttum, pukri, leyndarhyggju, jafnvel með valdníðslu og annarri spillingu. Kjósendur ráða þess vegna miklu um þetta ástand sjálfir og hafa nú vonandi fengið sig fullsadda af ósköpunum. Til þess eru skoðanakannanir teknar að benda.
Varðandi téða maðka í mysunni nægir að rifja upp kosningabaráttuna 2002, er Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, leiddi baráttu Sjálfstæðismanna gegn spillingaröflum R-listans. Þá benti hann hvað eftir annað á slæma meðferð fjármuna Reykvíkinga og gegndarlausa skuldasöfnun OR. Var honum svarað af hroka og oflæti vinstri sauða, sem réðu ekki við verkefni sitt um að vinna eigendunum, kjósendunum, gagn. Björn sagðist telja fullvíst, að húsbyggingin undir aðalstöðvar OR yrði mun miklu dýrari en R-listinn viðurkenndi, og nú sannar téð skýrsla óheilindi R-lista Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og því miður Framsóknarflokksins og að Björn Bjarnason hafði rétt fyrir sér í gagnrýni sinni á stjórnun R-listans á Orkuveitu Reykjavíkur í einu og öllu.
Í skýrslunni er leitað skýringa á ófremdarástandi OR og það fundið Orkuveitunni helzt til foráttu, að stefnumið hennar, markmið og lýsing á hlutverki, hafi verið illa skilgreind. Það er einfalt að benda eftir á á alls kyns einkenni í þessa veru ásamt því að hengja út fólk, sem ekki reyndist valda stjórnunar- og ábyrgðarhlutverki sínu. Það er stórhættulegt, þegar slíkir persónuleikar leita út í stjórnmál til að véla um fé annarra. Rannsóknarskýrslan bendir því miður ekki á úrræði, sem duga, en slík úrræði eru samt til.
Sagt er í skýrslunni, að allt muni batna, ef fagaðilar, þ.e. fólk með tækniþekkingu og viðskiptaþekkingu á þeim sviðum, sem Orkuveitan fæst við, verði skipað í stjórn. Auðvitað eru borgarfulltúarnir nú teknir að kýta um þetta. Þetta er þó deila um keisarans skegg. Það er undir hælinn lagt, hvort þetta úrræði yrði til bóta, þegar borgarstjórnin er enn fulltúi eigendanna. Einn aðalsökudólgurinn, lýðskrumari par excellance, Dagur REI meir, hefur flúið í skjól og tekið undir það, að borgarfulltrúar eigi ekki að sitja í stjórn OR, jafnvel ekki með læknispróf. Þessi Dagur ætlar sem sagt að setjast í aftursætið og stjórna þaðan. Það er ekki betri sú músin, sem stekkur, en hin, sem læðist.
"O, sancta simplicitas", sögðu Rómverjar, eða ó, heilaga einfeldni. Hverju skiptir þessi skrýtna ráðstöfun, ef eignarhaldið verður óbreytt ? Að sjálfsögðu er þetta kattarþvottur, engin uppstokkun, og mun lítið bæta hag Reykvíkinga og annarra eigenda Orkuveitunnar. Í raun og veru nær þessi tillaga rannsóknarnefndarinnar skammarlega skammt, og það er ekki hægt að taka hana alvarlega.
Hið eina, sem dugir til að bæta hag núverandi eigenda til lengdar og bæta hag OR, er að kljúfa rafmagnsvinnsluna frá öðrum þáttum starfsemi OR, eins og skylda er samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um frjálsa samkeppni í raforkuvinnslu, stofna um raforkuvinnsluna hlutafélag og selja félagið hæstbjóðanda.
Mestur hluti fjárfestinga OR og stærstur hluti yfir 200 milljarða kr skuldar stafar af raforkuvinnslunni. Þar hefur líka mest farið úr böndunum við áætlanagerð, svo að það er Deginum ljósara, að þar á bæ eru menn fjarri því að ráða við viðfangsefnið jarðgufuvirkjun til raforkuvinnslu. Mikil hitavatnsvinnsla fylgir alltaf raforkuvinnslunni, nema 90 % orkunnar sé sóað, og mundi nýja fyrirtækið, ROR, selja OR heita vatnið, sem til fellur. Á slíku mundu báðir geta grætt, því að heitt vatn sem aukabúgrein ROR er ódýrara í vinnslu en frumvinnsla heits vatns yrði fyrir OR. Ef ROR ætlar að okra á OR með heitt vatn, fer OR frekar út í frumvinnslu. Samningar ættu þess vegna að nást á skynsamlegum nótum.
Ef nýja hlutafélagið, ROR, hækkar raforkuverðið um of, þá snúa viðskiptavinirnir sér til annarra raforkubirgja, svo að ekki þurfa gömlu eigendurnir að óttast hækkun raforkuverðs umfram það, sem gamla stjórnmálasukkið mundi kalla fram. Söluandvirði ROR mundu eigendurnir, Reykjavík, Borgarnes o.fl., geta notað til að grynnka á skuldum sínum og lækka í kjölfarið útsvarið eða auka þjónustustigið. Stjórnmálamenn gætu síðan valið um að kjósa sjálfa sig eða handlangara sína í stjórn OR til að reka hitaveituna, vatnsveituna, fráveituna og rafveituna, sem sér um dreifingu rafmagns til notenda. Þetta er raunveruleg lausn á vandamálinu, en ekki hálfkák, eins og rannsóknarnefndin lagði til og stjórnmálamenn í þrengingum tyggja upp eftir henni.
Er alveg dæmalaust, að á þessa lausn, sem blasir við og ber af sem gull af eiri, skuli hvergi sjást minnzt, og er slíkt til marks um rétttrúnaðinn, doðann og drungann, sem forsjárhyggjustjórnvöld í Stjórnarráðinu við Bankastræti 0 og hjá öndunum á Tjörninni hafa valdið.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Viðskipti og fjármál, Fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.