Þeim er alls ekki treystandi

""Menn fóru bara á taugum", segir heimildarmaður Morgunblaðsins, og bætir því við, að þetta séu líkast til "stórkostlegustu mistök Alþingis á síðari tímum"".

Ofangreint gat að líta í ítarlegri fréttaskýringu Harðar Ægissonar, blaðamanns Morgunblaðsins, í blaðinu þann 25. október 2012.  Þarna er verið að lýsa viðskiptum Efnahags-og viðskiptanefndar Alþingis við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna.  Ríkisstjórn og þingmenn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, alræmdir kjaftaskar og Morfískeppendur, hafa ekkert bein í nefinu til að standa gegn óbilgjörnum kröfum spákaupmanna, sem keyptu kröfurnar í hræin fyrir 5 % af nafnvirði og geta nú selt þær og hafa verið að selja þær fyrir 25 % af nafnvirði.  Skellurinn hefur þegar lent á upphaflegum lánadrottnum, en vinstri mennirnir, þekkingar- og reynslulausir úr heimi viðskiptanna, sýna hrægömmum takmarkalausa undirgefni og stefna efnahagslegu sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar í voða, eins og berlega kemur fram í téðri frásögn, "Óttast, að hagsmunum Íslands sé stefnt í voða". 

"Formaður nefndarinnar, Helgi Hjörvar, stakk þá upp á því samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, að Seðlabankinn og hinir erlendu kröfuhafar semdu um þetta sín á milli." Þetta er alger uppgjöf Samfylkingarforkólfsins gagnvart erlendum hrægömmum og alveg furðulegt, að miðstýringarmaðurinn skuli fleygja málinu úr höndum Alþingis og ríkisstjórnar og í fang Seðlabankastjóra, sem þar með hefur fjöregg íslenzku þjóðarinnar í höndum sér.  Í tilvitnaðri fréttaskýringu kemur hvað eftir annað fram, að Seðlabankamenn hafa ekki roð við vogunarsjóðunum, sem eru mun fljótari en Seðlabankinn að gera sér rétta grein fyrir skuldastöðu og greiðslugetu Íslands.  Um þetta hefur Hörður Ægisson eftir viðmælendum sínum, "að erlend skuldastaða þjóðarbúsins er tvöfalt hærri en fram kom í Peningamálum fyrr á þessu ári og vinna þeir ( þ.e. Seðlabankinn) nú að því að uppfæra opinberar hagtölur í samræmi við þessar breyttu forsendur".  Sé þetta rétt, er ljóst, að í Seðlabankanum er sofið á verðinum, og fyrir það verða menn að axla ábyrgð í fyllingu tímans.

"Eftir þrýsting frá kröfuhöfum ákvað Helgi (Hjörvar) að leggja fram breytingartillögu við frumvarpið, eins og sjá má í þingskjölum, þar sem kveðið er á um, að innistæður í reiðufé í erlendum gjaldeyri í eigu lögaðila hjá erlendum fjármálafyrirtækjum eða hjá Seðlabankanum, eins og þær stóðu í lok dags 12. marz 2012, skuli undanþegnar bannákvæðinu. Fram kom í máli Helga, þegar hann lagði frumvarpið fyrir Alþingi síðar um kvöldið, að breytingartillagan lyti að "umtalsverðum hagsmunum fyrir slitastjórnirnar"".  

Hér eru hagsmunir erlendra kröfuhafa teknir fram yfir hagsmuni íslenzku þjóðarinnar, því að noti Seðlabankinn þessa heimild, mun gengi krónunnar hrynja og lánshæfið með.  Lánalínur munu þá lokast og ríkissjóður lenda í greiðsluþroti.  Landið verður þar með gjaldþrota.  Hér gæti þess vegna verið efni í nýtt Landsdómsmál.

Hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins eru nú taldar nema um 100 % af vergri landsframleiðslu, og er aðeins staða Portúgals verri af öllum Evrópulöndum, og eru t.d. Grikkir í skárri stöðu.  Afborganir og vextir munu vaxa úr 140 milljörðum kr árið 2012 í 380 milljarða kr árið 2016, sem er algerlega ósjálfbært.  

Árið 2014 ráða Íslendingar ekki lengur við þennan klafa, sem þýðir þjóðargjaldþrot, verði ekki þegar gripið til neyðarráðstafana í anda Neyðarlaganna frá haustinu 2008.  Vinstri stjórnin mun ekki hafa þrek til þess, því að þar liggja dusilmenni á fleti fyrir.  Það mun koma í hlut Sjálfstæðisflokksins að leiða björgunaraðgerðir.  Það er vel vitað, hvað þarf að gera, og kemur það fram í téðri frásögn Harðar Ægissonar:

"Því er það mat heimildarmanna Morgunblaðsins, að það séu gríðarlegir hagsmunir fólgnir í því fyrir íslenzk yfirvöld að koma í veg fyrir, að farin verði áður nefnd leið, sem kröfuhafar hafa talað mjög fyrir - og flest stefnir í, að verði niðurstaðan að öðru óbreyttu.

Sú ráðstöfun mundi verða til þess, að fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar yrði stefnt í tvísýnu, að mati viðmælenda blaðsins.  Því þurfi að grípa til úrræða, sem í sumum tilvikum mundu krefjast lagabreytinga, og fælu í sér umtalsverðar afskriftir á innlendum eignum kröfuhafanna í skiptum fyrir gjaldeyri í eigu þrotabúanna.  Með öðrum orðum, að Seðlabankinn mundi bjóða upp gjaldeyri búanna í því augnamiði að losa um títtnefnda snjóhengju aflandskróna, sem nemur ríflega 1´150´000´000´000 kr. 

Slíkt ferli gæti tekið nokkur ár, en með þessu móti yrði engu að síður tryggt, að allir þeir innlendu aðilar, sem eiga gjaldeyri, stæðu jafnir frammi fyrir lögum um gjaldeyrishöft.  Sumir viðmælendur Morgunblaðsins segja, að hægt yrði að taka sérstakt tillit til gamla Landsbankans og útgreiðslna í tengslum við Icesave með því að haga lagasetningunni með þeim hætti, að forgangskröfur væru geiddar út í erlendri mynt, en aðrar kröfur í krónum."

Þarna er bent á leið út úr vandanum.  Leið Samfylkingarinnar er hins vegar algerlega ófær.  Hún liggur um Hrunadansstað þjóðargjaldþrots og ölmusugöngu beiningamanna þaðan og um völundarhús Berlaymont í Brüssel. Ætlunin er að beygja landsmenn í duftið þar til þeir gefast upp og staulast inn um hlið Berlaymont (ESB).  Það mun aldrei verða. 

Hér eru fjárglæfrar vinstri manna á ferð með hagsmuni þjóðarinnar að veði, en það er fleira, sem verður að gerast til að bjarga landinu:  fjárfestingar og myndun nýrra atvinnutækifæra í landinu.  Til þessa hafa vinstri flokkarnir reynzt til þess algerlega óhæfir, enda eru þeir í stríði við miðstéttina í landinu, sem þeir telja helzt standa í vegi sameignarstefnunnar á Íslandi.  Sjálfstæðismenn eru vel meðvitaðir um það, að það skiptir sköpum um farsæla úrlausn þessa geigvænlega skuldavanda að laða hingað til lands nýtt áhættufjármagn fjárfesta í gjaldeyrisskapandi starfsemi.  Um þetta segir í títt nefndri fréttaskýringu:

"Sigurgeir Örn Jónsson, hagfræðingur og meðeigandi að fjármálafyrirtækinu ARAM Global í New York, segir hins vegar í samtali við Morgunblaðið, að sjálf nettóskuldastaðan mundi skipta minna máli, ef það væri búið svo um hnútana af stjórnvöldum, að Ísland væri spennandi fjárfestingarkostur á sama tíma og mörg ríki í Evrópu glíma við mikla efnahagserfiðleika."

Einmitt þetta er stefna Sjálfstæðisflokksins, og þarna skilur á milli feigs og ófeigs.  Sjálfstæðisflokkurinn mun með ráðstöfunum í skattamálum mynda hvata til örvunar fjárfestinga á Íslandi og þar með til innstreymis erlends fjármagns inn í íslenzka hagkerfið.  Framgangur óbrenglaðrar Rammaáætlunar um verndun og nýtingu náttúruauðæva á Alþingi er frumskilyrði fyrir auknum fjárfestingum í orkugeiranum.  Nýjar virkjanir eru ekki lengur bara æskilegar að mati þeirra, sem telja áframhald iðnvæðingar æskilegt fyrir atvinnuástandið í landinu og líklegt til að laða flóttafólk undan vinstri stjórn heim, heldur eru nýjar virkjanir orðnar efnahagsleg nauðsyn, þjóðarnauðsyn, til að bjarga landinu frá greiðsluþroti, sem annars blasir við árið 2014.  Biðflokkur er enginn valkostur.

Tilvitnunin í Sigurgeir Örn Jónsson, hagfræðing, heldur áfram:

"Þá mætti hugsanlega búast við því, að eignirnar gengju fremur kaupum og sölum á milli erlendra aðila, og nýir fjárfestar kæmu til landsins í stað viðvarandi útstreymis gjaldeyris.  Ef settar væru fram trúverðugar áætlanir um endanlegt afnám hafta og ákjósanlegt efnahags-og lagaumhverfi fyrir erlenda fjárfestingu, þá væri ástæða til að hafa minni áhyggjur af skuldastöðunni en ef við siglum áfram með lokað land."     

 h_my_pictures_falkinn 

 

  

 

    

        


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Við skulum ekki vanmeta þá sem eru aldir upp við Morfís ræðukeppnir, eins og flestir þingmen krata eru. Þar læra menn að bulla og koma frá sér orðum, hvort sem einhver meining er að baki eða ekki, læra að ná til þeirra sem hlusta, með orðum, ekki verkum. Þetta sýna nýjustu skoðanakannanir vel, þegar fylgi ríkisstjórnarflpkkanna vex þvert á getu þeirra til að stjórna. Það er greinilegt að Morfís ræðukóngarnir hafa þarna náð eyrum þjóðarinnar, þó kannski þjóðin ætti frekar að nota augun og heilann.

Það er skuggaleg tilhugsun að útlit skuli vera til þess að þetta kratalið skuli jafnvel geta haldið völdum, að loknum næstu kosningum. Eins og staðan er í dag, samkvæmt nýjustu skoðanakönnun, er ekki útilokað að mynda megi meirihluta VG, Samfylkingar og útibús Samfylkingar, að loknum kosningum í vor. Þetta er skelfileg tilhugsun.

En enn er nokkur tími til kosninga, þó hann renni hratt. Það má teljast með algerum ólýkindum ef VG fær það fylgi sem skoðanakannanir segja. En stjórnarandstaðan getur þó ekki treyst á óvinsældir stjórnarflokkanna. Hún verður að stíga fram á völlinn og fá fólk til að opna augun, fá fólk til að hætta að hlusta á skrautræður og innistæðulaust bull, fá fólk til að sjá að í óefni stefnir. Það gerir stjórnarandstaðan einungis með því að sýna fram á aðrar leiðir, trúverðugar leiðir. En það er ekki nóg að hafa hugmyndir, það þarf að ná til fjöldans. Það geta stjórnarandstöðuflokkarnir með trúverðuglegum málflutningi, hvar og hvenær sem því verður við komið. Stórnarandstaðan getur einungis komið þessari óhæfu ríkisstjórn frá á eigin verðleik!

Það verður ekki sagt að stjórnarandstaðan sé að standa sig þar, þó einstaka sprettur sé tekinn, það þarf að halda þeim spretti völlinn á enda!

Forusta Framsóknar deilir um framboð. Þetta er ekki til að auka trúverðugleik fólks, jafnvel þó þarna sé um hreinskipt skoðanaskipti að ræða. Svona eru Morfís ræðumenn fljótir að taka til sín og snúa gegn flokknum. Það versta er þó að vita til þess að þessar deilur innan Framsóknar voru algerlega óþarfar. Ef menn hefðu talað saman áður en gefin voru út orð, hefði mátt koma í veg fyrir þessa uppákomu, mátt koma í veg fyrir að fóðra Morfís ræðumenn.

Þá verður að segjast eins og er að formaður Sjálfstæðisflokks hefur valdið miklum vonbrigðum. Margur ágætur þingmaður flokksins reynir sig á vellinum og tekst oftar en ekki vel upp, en það er eins og formaðurinn sé víðs fjarri, ekki einu sinni á áhorfendapöllum! Í þau örfáu skipti sem hann lætur til sín taka, hleypur hann útundan sér, eins og ótaminn foli! Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn þarf virkilega að skoða sína stjórn, þarf virkilega að skoða hvort ekki væri rétt að skipta þessum litlausa formanni út. Það er nóg til af mun frambærilegra fólki til að leiða flokkinn, fólki sem er tilbúið að láta til sín taka, fólki sem gustar af!

Verði haldið áfram á þeirri braut sem hingað til, er ljóst að þjóðin mun sitja uppi með þetta landráðafólk áfram í stjórnarráðinu, eftir næstu kosningar!

Þá er virkilega nauðsyn þess að skoða atvinnuauglýsingar erlendis!!

Gunnar Heiðarsson, 2.11.2012 kl. 21:56

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér, Gunnar Heiðarsson, fyrir hugleiðingar þínar, sem flestar eru sem talaðar út úr mínu hjarta.  Það er ljóst, að við deilum sömu áhyggjunum.  Ríkisvaldið er í höndum loddara og lýðskrumara, Morfískeppenda, sem varðar ekkert um þjóðarhag, en leggja allt í sölurnar, jafnvel stjórnmálalegan trúverðugleika sinn, til að hanga á völdunum.  Hugmyndin er enn söm við sig: Sovét-Ísland.  Ætlunin er að brjóta niður miðstéttina, sem nurlað hefur saman eignum.  Ríkinu er ætlað að fylla tómarúmið. Þess vegna er sjálfstæði atvinnurekandinn í skotlínu stjórnvalda.  Hann berst t.d. í samkeppni við fyrirtæki í eigu banka og lífeyrissjóða.  Frjáls samkeppni er týnd og tröllum gefin, en hún getur knúið fram framleiðniaukningu, lækkað verð og bætt lífskjör. 

Brýna verður kutana og bíta í skjaldarendurnar.  Framundan er orrustan um Ísland enn einu sinni.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 2.11.2012 kl. 22:53

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Duga nú vormenn Íslands:

Helga Kristjánsdóttir, 3.11.2012 kl. 01:36

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Helga;

Eins og lesa má út úr innleggi Gunnars hér að ofan, er ekki vanþörf herkvaðningar og hvatninga til að brýna þau eggvopn, sem bíta í komandi baráttu.  Bardaginn stendur um það, hvort fórna eigi hagsmunum þorra landsmanna á altari pólitískra taðskegglinga, sem eru tilbúnir til að halda út á braut sameignarstefnu með þjóðnýtingu og ríkisrekstri helztu greina atvinnulífsins, eða hvort virkja á kraftinn í einstaklingunum öllu þjóðfélaginu til framdráttar.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 3.11.2012 kl. 12:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband