14.12.2012 | 22:15
Moldvörpur að verki
Hvers vegna vinna ríkisstjórnin og handbendi hennar jafneindregið gegn hagsmunum íslenzku þjóðarinnar og raun ber vitni um ? Hvaða furðulegu sérhagsmunir stjórna gjörðum vinstri flokkanna ? Þeir eru gjörspilltir, jafnvel rotnir, en hvaða hagsmuni hafa þeir af niðurrifi atvinnuveganna og að standa í vegi allra framkvæmda í landinu, sem einkaframtakið sækist eftir ? Rikisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur staðið í látlausu stríði við vinnuveitendur og athafnamenn í landinu, frá því að hún vann sinn alræmda kosningasigur í apríl 2009 á gjörsamlega fölskum forsendum. Þetta fólk gengur ekki heilt til skógar. Því fer víðs fjarri. Hagsmunir almennings á Íslandi eiga enga samleið með stefnumálum vinstri flokkanna, eins og þau koma fram við framkvæmd. Þá er nú komið í ljós, samkvæmt yfirlýsingu ráðherraráðs ESB frá 12.12.12, að aðildarumsóknin að ESB er reist á sandi. Málið er að hálfu íslenzkra stjórnvalda umlukið blekkingavaðli Samfylkingarinnar. Íslendingum stendur aðeins til boða að taka upp allan lagabálk ESB, refjalaust. Fíflagangurinn í kringum pakkann, sem stæði Íslendingum til boða, hefur nú orðið leikritshöfundunum til skammar. Þeir misskildu allan tímann málið. Ísland er í pakkanum, og það er ESB, sem skoðar í hann og ætlar að nota sér landið til að opna sér leið að norðurhöfum. Íslendingar búa nú við heimskustu ríkisstjórn, sem sögur kunna frá að greina.
Alþekkt er hatur vinstri manna á útgerðarfyrirtækjum með kvótaeign. Virðast sefasjúkir vinstri menn vera búnir að sefja sig til að trúa því, að útgerðarmenn séu ræningjar, sem rænt hafi frumburðarrétti þjóðarinnar. Sjávarútvegur er eins og hver önnur atvinnugrein, en rekstur hans hérlendis er á heimsmælikvarða, og komast engir sjómenn með tærnar, þar sem þeir íslenzku hafa hælana varðandi gæði framleiðslunnar og framleiðni. Stefna ríkisstjórnarinnar er að eyðileggja afkomugrundvöll þessara sjómanna með skattlagningu á greinina, sem er svo grimmileg, að aðeins sameignarsinnum (kommúnistum) dytti slík fásinna í hug til að drepa einkaframtakið. Ríkisstjórnin er í raun búin að rýra hlut sjómanna, því að kaken verður ekki í senn geymd og hún étin. Hlutur sjómanna og önnur laun, s.s. orlof, greiðslur til lífeyrissjóða, tryggingargjald og kostnaður við vátryggingar, nema um 37 % af brúttótekjum útgerða að jafnaði samkvæmt ritinu "Hagur veiða og vinnslu 2010". Veiðigjaldið er ákvarðað með eins bjálfalegum hætti og hugsazt getur út frá sjónarmiðum sjálfbærrar skattheimtu, því að ekkert tillit er tekið til afkomu einstakra fyrirtækja, sem í hlut eiga. Þessi skaðlega gjaldheimta er í raun skattlagning á hvert þorskígildistonn útgerðar, sem gæti numið um 40 kr/kg. Svona ganga aðeins þeir fram, sem umturna vilja atvinnurekstri og færa þjóðfélagið niður í fátæktarfen ríkiseinokunar, enda er auðvitað komið á daginn, að minnka verður grundvöll hlutaskipta sjómanna. Sjálfstæðisflokkurinn mun alveg örugglega leiðrétta þessa eyðileggjandi skattlagningu á útgerðina með afnámi eignaupptökulaganna nr 74/2012. Sjómenn eru verðugir launa sinna, og Sjálfstæðisflokkurinn mun gera þær ráðstafanir, sem duga til að leysa fjárfestingar og markaðssetningu íslenzka sjávarútvegsins úr læðingi.
Það ber að sökkva þessu vitlausa og rangláta auðlindagjaldi á hafsbotn, leyfa sjómönnum að halda sínum hlut, eins og áður segir, og samfélaginu að fá sinn skerf af velgengni þeirra og útgerðarmanna með viðskiptum við þá, neyzlu og fjárfestingum þessara aðila auk venjulegrar skattheimtu. Fikt afturúrkreistinga með potta, strandveiðar, byggðakvóta, línuívilnun og önnur heimskupör stjórnmálamanna er ekki óvitaháttur, heldur aðför að miðstéttinni og ber að grafa með stríðsöxinni, sem forsjárhyggjuflærðin hefur beitt gegn atvinnuvegunum. Hvernig þeir verða pokaðir, sem á þessari stríðsöxi héldu, mun koma í ljós, en að þeir gangi lausir, er ekki sjálfgefið.
Leikhús fáránleikans er enn við lýði með Össur og Stefan Fühle í aðalhlutverkum, sbr hér að ofan. Þetta eru tveir gamlir kommar, sem leika í hinum guðdómlega gleðileik "Að kíkja í pakkann". Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs vill kokgleypa allar kröfur ESB, því að annað er ekki í boði. Þar á meðal er innflutningur lifandi dýra til Íslands. Hvers konar fíflagangur er þetta eiginlega ? Sjá menn ekki í hendi sér gríðarlega möguleika Íslands sem matvælaframleiðslulands í krafti hreinnar náttúru, óþrjótandi vatnsbirgða, hlýnandi loftslags og heilbrigðra og sérstakra dýrastofna ? Öllum þessum möguleikum vill ríkisstjórnin fórna fyrir nokkra rassálfa, sem fá tækifæri til að flandra fram og til baka á milli Reykjavíkur og Brüssel í algeru tilgangsleysi. Í forystu og þingliði vinstri flokkanna er samansafn ábyrgðarlauss, þröngsýns og dómgreindarlauss fólks. Það sýna verk þess og málflutningur. Þessu ber að fleygja á ruslahauga sögunnar og dysja það.
Ferðamennskuna hefur ríkisstjórnin leikið grátt með miklum eldsneytishækkunum og nú síðast skyndilegum áformum um mikla virðisaukaskattshækkun og gjaldtöku af bílaleigubílum, sem sett hefur áætlanir greinarinnar gjörsamlega úr skorðum. Hrikalegar hækkanir opinberra gjalda hafa verið lagðar á innanlandsflugið. Ríkisstjórn og borgarstjórn eru samstiga í að útrýma innanlandsfluginu. Þessum viðundrum hefur með auknum álögum og andúð tekizt að snúa fjölgun farþega innanlandsflugs upp í fækkun. Ríkisstjórnin er skipuð steinrunnum þursum. Það er alveg sama, hvar hún ber niður. Hún leggur dauða hönd á starfsemi. Það er engin tilviljun. Þetta er voluð vinstri stjórn.
Hún hefur ekki heyrt um kreppuna í heiminum og veit ekki, hvað verður einna fyrst fyrir barðinu á slíku. Fólk, sem er að spara og verður fyrir hækkun af þessu tagi, hættir einfaldlega við og fer annað. Ríkisstjórnin er stórskaðleg, því að hún er atvinnufjandsamleg, og hún grefur undan fullveldi landsins, óbeint með glæfralegum hallarekstri ríkissjóðs og afturhaldsviðhorfum til fjárfestinga, og beint með viðræðum við ESB um inngöngu í ríkjasamband, sem stefnir á að verða sambandsríki. Þessar viðræður eru gjörsamlega fótalausar, og ríkisstjórnin er í raun umboðslaus í þessum viðræðum með mjög tæpan, ef nokkurn, meirihluta þings að baki sér og aðeins lítinn minnihluta landsmanna, sem vill sameinast þjóðahafi Evrópu í sambandsríki, en þangað er ferðinni heitið. Hvílík firn, að slík fyrirbrigði skuli hafa sóað fé og tíma landsmanna í heilt kjörtímabil. Slíkt má aldrei endurtaka sig. Þetta eiga að vera hornkarlar og hornkerlingar í hverju samfélagi.
Alþekkt er hatur ríkisstjórnarinnar á iðnaðinum, einkum sé hann orkukræfur. Samt er raforkuverð lægst á Íslandi innan Evrópu, og þótt víðar væri leitað. Það er engin tilviljun. Raforkunotkun á mann er mest á Íslandi á byggðu bóli. Landsmenn njóta nú hagkvæmni stærðarinnar á þessu sviði. Orkusala til stóriðju hefur staðið undir megninu af fjárfestingum í virkjunum og flutningslínum, og almenningur nýtur þess með lágu orkuverði. Dreifingin er hins vegar furðulega dýr og aftarlega á merinni, og það er hneyksli, að þrífösun sveitanna skuli ekki vera lokið árið 2012, því að fjölbreytileg atvinnutækifæri opnast með aðgengi að hagkvæmu þriggja fasa rafmagni. Það ætti að líta á það sem samfélagslega skyldu og jafnræði, að öllum íbúum landsins standi þrífasa rafmagn til boða óháð búsetu eftir þörfum án þess að verða rúnir inn að skyrtunni. Væri ekki nær, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun legði fé í sjóð til styrktar slíku í stað gæluverkefna á borð við risavaxnar vindmyllur, sem lítið sem ekkert framleiða, og sæstreng til Stóra-Bretlands, sem er andvana fædd hugmynd draumóramanna, sem engum alvöru fjárfesti dettur í hug að koma nálægt, enda verðlag orku erlendis engan veginn nógu hátt til að geta staðið undir 500 milljarða kr fjárfestingu ?
Nýlega birtist í "Markaðnum" grein undir fyrirsögninni, "Fannst rafmagnið á Íslandi vera of dýrt". Þar kom berlega í ljós, að verðlagningarstefna Landsvirkjunar er algerlega úr takti við raunveruleikann. Í stað þess að virka aðlaðandi fyrir fjárfesta er Landsvirkjun nú fráhrindandi. Þessu verður að breyta. Með nýrri ríkisstjórn ber höfuðnauðsyn til að hið opinbera taki upp samræmda fjárfestingarstefnu, sem laðar að fjárfesta með lækkun tekjuskatts, afnámi rafskatts og raunhæfri verðlagningu raforku, sem skilar um 10 % arði fjárfestingar til eiganda síns.
Í stað óskiljanlegra vangaveltna Landsvirkjunar um að koma afgangsorku í lóg í útlöndum um rándýran sæstreng á hún að selja afgangsorku sína á hagfelldum kjörum, sem stendur vel undir breytilegum kostnaði. Heilbrigða skynsemi, hófsemi og hagfræði vöruframleiðslunnar ber að setja í öndvegi. Það er eina leiðin til viðreisnar. Nóg er komið af hlálegri og einfeldningslegri spákaupmennsku.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Kjaramál, Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.12.2012 kl. 12:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.