Hagkerfi drepið í dróma

Talsmönnum Alþýðusambands Íslands, ASÍ, lízt illa á fjárlagafrumvarpið, enda ber það vott um óstjórn á fjármálum ríkissjóðs.  Þeir telja óráðsíuna þar munu verða skjólstæðingum sínum þung í skauti.  Það þarf ekki hagfræðidoktor til að sjá, hversu ábyrgðarlaust kosningafrumvarp hér er á ferðinni, sem mun virka sem olía á verðbólgubálið. 

Hinn gæfusnauði Steingrímur Sigfússon, sem hlaut hvorki meira né minna en 199 atkvæði í prófkjöri nýlega, hefur hellt sér yfir forseta ASÍ vegna réttmætrar gagnrýni formannafundar Alþýðusambandsins á verk og verkleysi ríkisstjórnarinnar.  Þar mun þessi formaður afturhaldsins í landinu hafa sýnt sitt rétta andlit, ef andlit skyldi kalla. 

Þessi volaða vinstri stjórn á nú hvergi höfði sínu að halla, nema í kjöltu Smugunnar, ormagryfju, þar sem ofstækið tröllríður þröngsýninni.  Ráðherrarnir ráða ekki við viðfangsefnin.  Þeir reyna að breiða yfir það, en þjóðmálastaðan leynir sér ekki. Tjaldað er til einnar nætur í einu og öllu.  Allt er í lamasessi, og þetta kjörtímabil er tímabil hinna glötuðu tækifæra.  Á næsta kjörtímabili verður að slá í og láta hendur standa fram úr ermum eftir urðun ESB-daðurs og draumóra og afturhalds í nafni náttúruverndar, þar sem hvað rekur sig á annars horn.  Hefja þarf til vegs kenninguna um að "nýta og njóta með nútímatækni".  Vinstra liðið getur á meðan dundað sér við að berjast við sínar vindmyllur.  

Ráðherrablækurnar eru fallnar á prófinu og ættu að taka hnakk sinn og hest í skyndi.  Meirihluti þeirra í utanríkismálanefnd er fallinn og skyldi engan undra.  Þetta gerðist á meðan furðudýrið í utanríkisráðuneytinu sá jarteikn í Berlaymont.  Á hverju eru menn ? 

Hvort meirihluti er fyrir eyðileggingu ráðherranna á margra ára rándýrri sérfræðivinnu við Rammaáætlun er ólíklegt, og jafnvel fjárlagafrumvarpið stóð tæpt með einn útbyrðis.  Fyrir Samfylkingu og Vinstri hreyfinguna grænt framboð hefur ferðin í Stjórnarráðið orðið mikil sneypuför.  Almenningi er nú orðið ljóst, að téðir stjórnmálaflokkar hafa ekkert fram að færa, nema froðusnakk, blekkingaleik, öfugmæli og versnandi lífskjör öllum til handa, nema "nómenklatúrunni" og handbendum hennar.  Við höfum ekki efni á þessari vitleysu.  

Ríkisstjórnin þykist vera búin að leysa vanda efnahagslífsins, en því fer víðs fjarri; hún hefur ekkert leyst, en eykur nú við skuldavanda þjóðarbúsins með erlendum lántökum, af því að hún rekur enn ríkissjóð með gegndarlausum halla.  Svona gerir aðeins fólk, sem gefizt hefur upp fyrir viðfangsefnunum.  Skuldir ríkissjóðs á valdatíma ríkisstjórna Jóhönnu Sigurðardóttur hafa aukizt um 400 milljarða kr.  Skuldirnar eru um það bil að verða ósjálfbærar, og það má engan tíma missa til að snúa þessari öfugþróun við.  Samt sér þessi aumasta ríkisstjórn allra tíma ekki sóma sinn í að hypja sig, enda hefur forsætisráðherra enga sómatilfinningu.  Það er starað í baksýnisspegilinn og fimbulfambað um Hrunið, en hvorki skilja þau rætur Hrunsins né hafa þau dregið réttar ályktanir af því. 

Hinn alræmdi atvinnuvega-og nýsköpunarráðherra, sem var fjármálaráðherra á árunum 2009-2012, skrifar nú hverja sjálfshólsgreinina á fætur annarri í blöðin.  Kenningar Steingríms hafa aldrei beysnar verið, en nú hefur slegið svo út í fyrir honum, að frá honum koma eintóm öfugmæli og þversagnir.  Þessum manni veitir ekki af hvíldinni.  Hún verður honum veitt.

Er skemmst frá að segja, að þessi orðhvati og á tíðum orðljóti ráðherra, sem bar nýlega lygar upp á forseta ASÍ, fer í téðum greinum sínum að miklu leyti með staðlausa stafi, enda var frammistaða hans í embætti fjármálaráðherra hraksmánarleg.  Í stað þess að ná jöfnuði árið 2012, eins og lagt var upp með í áætlun AGS, þá mun ríkissjóðshallinn nema um 55 milljörðum kr, en fjárlög gerðu ráð fyrir 20 milljörðum kr.  Engar áætlanir Steingríms standast.  Það eru ósannindi hjá Steingrími, að "hvergi í okkar heimshluta, þar sem ríkissjóður hefur lent í vanda vegna efnahagskreppu, hafi náðst viðlíka árangur síðastliðið ár eins og á Íslandi". Samkvæmt hagtölum frá OECD (Economic Outlook 2012) mun t.d. afkoma ríkissjóðs írska lýðveldisins batna mun meira á árinu 2012 m.v. fyrra ár en afkoma ríkissjóðs Íslands.  Allmörg önnur ríki eru talin slaga upp í árangur Íra.  Mont Steingríms er ósvífinn blekkingarleikur, en umgengni þessa stjórnmálalega vindhana við sannleikann er oft þannig, að á milli þeirra tveggja eru himinn og haf.

Afturhaldsstjórnin virðist allt í einu hafa fengið kalda fætur vegna eigin aðgerðaleysis í atvinnumálum landsmanna og lofar þá einu gæluverkefni hér og öðru þar; gott, ef hún er ekki farin að taka vel í olíuboranir á Drekasvæðinu. Þar tala ráðherrarnir reyndar út og suður, svo að engrar stefnumörkunar er að vænta. Ríkisstjórnin er á valdi óttans við atkvæðamissinn.  Hann er óhjákvæmilegur, og barnalegir tilburðir munu engu skila.  Kjósendur munu ekki láta blekkjast í hið annað sinnið.  Flokkar stjórnarinnar stefna í að gjalda afhroð, og þá er reynt að sprikla, en á kostnað framtíðarinnar.  Vinnubrögðin eru fyrir neðan allar hellur og ekki hundi bjóðandi.  Nýjasta fjármögnunarleið vitsmunabrekkna vinstri stjórnarinnar þoldi ekki dagsljósið.  Skattstofninn voru lækningatæki, hjólastólar, bleyjur og getnaðarverjur, svo að fátt eitt sé talið. 

Jafnaðarmönnum tengdum ASÍ þykir sárt að heyra því haldið fram, að ríkisstjórn þeirra sé afturhaldsstjórn.  Það er hún þó samkvæmt skilgreiningunni.  Afturhald er og hefur alltaf verið á móti framförum í atvinnuháttum, iðnvæðingu og tæknivæðingu atvinnuveganna.  Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs uppfyllir öll skilyrði þess að hljóta einkunnina afturhaldsstjórn. 

Ríkisstjórnin hefur í sumum tilvikum borið sig lymskulega að og þvælzt fyrir til að reyna að kasta glýju í augu einhverra, en almenningur sér þó til hvers refirnir eru skornir.  Síðan liggja áhangendur þessarar voluðu vinstri stjórnar á því lúasagi, að allt sé Hruninu að kenna.  Ætla vinstri menn að fara í Alþingiskosningar undir því kjörorði, að landsmönnum séu allar bjargir bannaðar út af Hruninu ?  Það átti að troða Icesave-skuldafjötrum upp á landsmenn og síðan að kenna Sjálfstæðisflokkinum um.  Eymd vinstri manna er ofboðsleg.  Ferill þeirra við landsstjórnina er ein samfelld sorgar- og mistakasaga.  Nú er háskólasamfélaginu jafnvel tekið að blöskra, og má þá segja, að bragð sé að, þá barnið finnur. Til marks um þetta er viðtal við Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, í Morgunblaðinu 13. desember 2012, þar sem hann finnur stjórnarskráardrögum Stjórnlagaráðs, sem ríkisstjórnin hefur gert að sínum, allt til foráttu.

Þá birtist í Morgunblaðinu 19. desember 2012 merkilegt viðtal Baldurs Arnarsonar við prófessor emeritus í lögum, Sigurð Líndal, forseta Hins íslenzka bókmenntafélags. Eftir lestur þessa viðtals ætti hverju mannsbarni að verða ljóst, hvílík hrákasmíði téð stjórnarskráardrög eru, og hvílíkt ábyrgðarleysi er að leggja þennan gallagrip fyrir Alþingi til samþykktar.  Slíkt er til vitnis um ríkisstjórn og þinglið á vinstri vængnum, sem ekkert kann til verka, en vinnur allt með öfugum klónum.   

Ný afriðladeild - S1

        

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband