Slæleg hagsmunagæzla á löngum

Árið 2012 nam heildarveiði á makríl að hálfu Evrópusambandsríkja, ESB, Noregs, Færeyja, Rússlands og Íslands, 920 kt samkvæmt uppgefnum veiðitölum, sem ástæða er til að ætla samkvæmt reynslu af ýmsum þessara þjóða, að séu of lágar.  Árið 2012 nam afli Íslendinga 16 % af þessum skráða afla og hlutfallið er þá líklega lægra í raun.  Um er að ræða innan við 10 % af makrílmassanum, sem áætlað er, að verið hafi í lögsögu Íslendinga téð ár.  Ef miðað er við mjög varfærinn sjálfbærninýtingarstuðul, 20 % af stofni, veiddu Íslendingar aðeins um helming þess makríls, sem ráðlegt hefði verið að teknu tilliti til sjálfbærni stofnsins.

Þann 3. febrúar 2013 tilkynnti atvinnuvega-og nýsköpunarráðherrann, Steingrímur Jóhann Sigfússon, ákvörðun um 15 % samdrátt í þessum veiðum 2013, eða 123,2 kt kvóta, sem er ótrúleg lítilþægni og undirgefni við slettirekuhátt ESB og Norðmanna í þessu makrílmáli m.v. stöðu stofnsins.  Það er ástæða til að líta almennt á nýtingu flökkustofna, sem eru mjög mikilvægir fyrir íslenzka hagkerfið, og á hvaða grundvelli fyrri deilumál um flökkustofna voru leyst.

  1. Hvar hrygnir fiskurinn og klekst út ?
  2. Hvar elzt hann upp ?
  3. Hvar eru fæðuslóðir hans ?
  4. Hverjir hafa veitt hann og í hvaða mæli ?
  5. Hverjir hafa staðið að rannsóknum á stofninum ?
  6. Hversu háð eru ríkin nýtingu hans og/eða fiskveiðum almennt ?

Hversu þungt einstakir liðir hér að ofan vega er umræðuefni í samningaviðræðum.  Makríllinn hrygnir aðallega vestan Írlands, en einnig úti fyrir strönd Noregs og nú á seinni árum einnig undan suður- og jafnvel vesturströnd Íslands. Íslendingar standa sterkt að vígi í lið 3, því að vor, sumar og haust er makríllinn hér að tvöfalda þyngd sína og étur við það a.m.k. 3 milljónir tonna af átu og öðru æti, sem hefðbundnir íslenzkir stofnar þá ekki geta nýtt sér.  Ef stofninn þyngist hér um 800 þúsund tonn (800 kt), þá er lágmark, að við fáum að nýta 1/4 af þeirri þyngdaraukningu eða 200 kt.  Að setja markið svo lágt sem ráðherrann gerir, skaðar framtíðarhagsmuni okkar, því að einhvern tímann verður samið eða kveðinn upp gerðardómur, og þá telur veiðireynsla okkar, sbr lið 4 hér að ofan.  Þessi lélegi ráðherra, sem var ekki lengur sætt sem formaður VG, veldur samningsstöðu Íslendinga tjóni með þessari slæmu ákvörðun.  Nýr matvælaráðherra mundi vinna þarft verk, ef hann endurskoðar þessa ákvörðun til hækkunar í vor.  Að sjálfsögðu á hann þá að beita fyrir sig vísindalegum rökum, sem vonandi verður unnt að gera á grundvelli umfangsmikilla rannsókna Hafrannsóknunarstofnunar nú um stundir á vexti og viðgangi  makríls í íslenzkri lögsögu.   

Íslendingar standa að sjálfsögðu sterkt að vígi varðandi 6. liðinn hér að ofan, því að engin makrílþjóðanna, nema Færeyingar, geta sýnt fram á, að andvirði makrílveiðanna hafi numið allt að 2 % af vergri landsframleiðslu 2012. 

Flökkustofnarnir eru í megindráttum fjórir: 

  1. Norsk-íslenzka síldin.  Um aflahlutdeild var síðast samið árið 2007, og höfðu Norðmenn þá gengið fram með fádæma frekju og teflt ESB-ríkjunum fram til höfuðs Íslendingum, þó að ESB-þjóðirnar hefðu enga veiðireynslu.  Hlutur Íslendinga varð enda óeðlilega lítill eða aðeins 14,5 %, en hlutur Norðmanna 61 %.  Þarna tefldu Norðmenn hagsmunaskák gagnvart ESB, og fórnarlambið urðu Íslendingar.  Eitt af verkefnum utanríkisþjónustunnar á að verða að auka hlut Íslands á kostnað Norðmanna, sem fóru fram með yfirgangi.  Auðvitað er algerlega borin von, að nokkur raunhæf utanríkispólitík verði rekin af íslenzka Stjórnarráðinu með liðleskjur á borð við Össur Skarphéðinsson sem æðsta strump í utanríkisráðuneytinu, mann, sem purkunarlaust hefur gert sig sekan um að draga taum ESB í alvarlegasta deilumáli Íslands við umheiminn frá lýðveldisstofnun.
  2. Árið 2005 var gert samkomulag á milli Íslands, Noregs, Færeyja og ESB um aflahlutdeild kolmunna eftir stjórnlausar veiðar.  Varð hlutur Íslendinga minnstur þessara þjóða, eða 17,5 %, enda gekk kolmunninn að mestu út úr lögsögunni árið 2006.  Veiða Íslendingar nú kolmunna aðallega í færeyskri lögsögu, sem fengu 26,1 % í sinn hlut, Norðmenn 25,7 % og ESB 30,5 %. 
  3. Loðnuna má telja að mestu íslenzkan stofn, enda er veiðihlutdeild okkar 81 % samkvæmt samkomulagi.  Loðnan er íslenzka hagkerfinu mjög mikilvæg.  Nú er veiðibrestur í ansjósunni hjá Perúmönnum.  Ansjósukvótinn var skorinn niður um 67 % árið 2012.  Perúmenn hafa verið að veiða um 5 milljónir tonna á ári af ansjósu, svo að þessi niðurskurður hefur mikil og jákvæð áhrif á verð loðnuafurða.  Verð á loðnulýsi og loðnumjöli nú er um 2400 USD/t, sem er hærra en álverðið, svo að nærri má geta, að vinnslan sé arðbær.
  4. Úthafskarfi er 4. flökkustofninn, sem verulegu máli skiptir fyrir Íslendinga. Nýlega var gengið frá viðunandi samningi um skiptingu þessa stofns (eru reyndar tveir stofnar), og fá Íslendingar 31,0 % hlutdeild.  Rússar sætta sig ekki við hlutdeild sína, 20,7 %.  ESB fær 15,5 %, Færeyingar 7,3 % og Norðmenn 3,9 %.

Makríllinn er verri afræningi en kolmunninn í íslenzkri lögsögu, af því að hann gengur vestar, og er að þvælast á hrygningarslóðum og uppeldisslóðum mikilvægustu nytjastofna við Íslandsstrendur.  Hann étur ungviðið og er í samkeppni við það um fæðuna.  Það er þess vegna óþolandi linkind að hálfu atvinnuvega -og nýsköpunarráðherra að minnka veiðiheimildir á makríl í íslenzkri lögsögu um 15 %.  Það eru engin vistfræðileg rök fyrir þessari ákvörðun.  Ráðherrann lyppast, eins og fyrri daginn, niður, þegar hagsmunir ESB rekast á hagsmuni Íslendinga.  Þessi kjaftgleiði ráðherra gengur í skrokk á íslenzkum sjávarútvegi með ofurskattlagningu og fer ránshendi um kvóta útgerðarfyrirtækjanna til að ráðstafa honum að eigin geðþótta.  Hann fær hins vegar í hnén, þegar Maria Damanaki fýlar grön.

Síðasta aðför ólánsstjórnmálamannsins, Steingríms Jóhanns Sigfússonar, á hendur sjávarútveginum er frumvarp um kvótaþing.  Hugmyndafræðin á bak við þetta örverpi er dæmigerð fyrir sameignarstefnuna.  Farið er ránshendi um eignir útgerðarinnar, og á ársgrunni er hún rænd u.þ.b. 100.000 tonnum af 1.440.000 tonnum eða 7,0 % í þessum áfanga.  Þessi kvóti er þjóðnýttur, og ríkið ætlar síðan að leigja hann.  Þessi gjörningur er sönn sameignarstefna, því að hún miðar að því að gera útgerðarmenn að leiguliðum ríkisins.  Þá eiga viðskipti með kvóta á milli útgerða að fara um hendur ríkisins.  Hvers konar forræðishyggja er þetta eiginlega ?  Verið er að koma upp algerlega óþörfum millilið og draga þannig stórlega úr skilvirkni sjávarútvegsins.  Þessi gjörningur mun draga úr framlegð og framleiðni sjávarútvegsins, íslenzka, og verða vatn á myllu samkeppniaðila hans, erlendra. Nú sjá menn í hendi sér til hvers stefna stjórnarflokkanna leiðir sjávarútveginn.  Útgerðarmenn verða leiguliðar ríkisins.  Það er þetta, sem sameignarsinnar eiga við, þegar þeir japla á lagatexta um, að fiskimiðin séu eign þjóðarinnar.  Það er alveg áreiðanlegt, að þjóðin er því betur sett með þessa eign sína þeim mun meiri arði, sem sjávarútvegurinn skilar.  Sá arður verður aðeins til fyrir tilstilli einkaframtaks.  Annað hefur verið margreynt af stjórnmálalegum "hugsjónamönnum" og ætíð með hörmulegum afleiðingum.

Steingrímur er samur við sig að skera kökuna í minni sneiðar og heldur, að með svo heimskulegri ráðstöfun auki hann tekjur ríkissjóðs.  Með því að fjölga þeim, sem draga bein úr sjó, dregur hann úr hagræðingu og hagkvæmum rekstri sjávarútvegsins, og þar með minnkar kakan a.m.k. hlutfallslega, og tekjur hins opinbera munu dragast saman vegna þessarar þjóðnýtingar til lengri tíma.  

Reynslan hefur sýnt, að enginn rekstrargrundvöllur er fyrir útgerð, sem er reist á leigukvóta, enda ríkir alger óvissa um, hvort leiguliðar fái leigukvóta næst og á hvaða verði.  Umgengnin við auðlindina versnar með auknu brottkasti, þegar menn eiga ekki kvótann.  Hér er enn höggvið í knérunn dreifbýlisins með því að sjúga fé út úr útgerðunum og flytja féð til höfuðborgarsvæðisins.  Stefna ríkisstjórnarinnar miðar að því að auka miðstýringuna í landinu og veikja hinar dreifðu byggðir landsins.  Landsbyggðarmenn munu gjalda svartan belg fyrir gráan í komandi Alþingiskosningum, ef allt er með felldu.

Til að viðreisn Íslands takist og landið komist klakklaust út úr kreppunni, þrátt fyrir 4 ár hinna glötuðu tækifæra, 2009-2013, þá verða stjórnvöld að veita sjávarútveginum fullt athafnarými.  Sjávarútveginn verður að reka með hámarks afköstum og hámarks framleiðni.  Það þýðir, að skila verður honum ránsfeng ríkisstjórnar SF/VG.  Engin þjóð hefur mátt sæta jafnlangvinnri alvarlegri kreppu og Íslendingar.  Það er vegna kolrangrar stjórnarstefnu.  

Alvarlegasta birtingarmyndin er skuldasöfnunin.  Hún sýnir, að viðvaranir Alibers og Perssons voru á rökum reistar.  Íslenzka ríkisstjórnin hefur frestað að taka á skuldavandanum, en þess í stað veðsett tekjur og eignir komandi kynslóða, og öll er gullgerðarlist stjórnvalda í anda útrásarvíkinganna, þ.e. ósjálfbær skuldasöfnun.  Hérlendis hefur langverst verið haldið á opinberum fjármálum í kjölfar tvíburakreppu af öllum samanburðarlöndum.  Á næsta kjörtímabili verður barizt upp á líf og dauða.  Es dreht sich um Leben oder Tot.  Þá er betra að geta státað af skipulagshæfni, áræðni og þrautseigju, eins og hetjan hér að neðan, Vilborg Arna Gissurardóttir.     

 Vilborg Arna Gissurardóttir á Suðurpólnum í janúar 2013         

 

     

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Sæll Bjarni.

Af hverju gefur þú þér að makrílinn sé að ganga vestur í lögsögu Íslands og Grænlands, þá væntan lega af hafslóðinni vestur af Írlandi.

Er ekki alveg eins líklegt að Makrílinn sé að koma sunnan og suðvestan úr höfum?  Ef það væri raunin þá er sá Makríll ekki til í neinum gögnum og ekki talinn af norðaustur atlanthafsráðinu.

Íslendingar þurfa að fara í rannsóknarleiðangur suður- suðvestur í höf. Finna kjörhitastig og rannsaka þær slóðir. Það verður að gerast á þessum árstíma og frammí maí.

 

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 23.2.2013 kl. 09:38

2 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Þetta vinstri fiskveiðistjórnarkerfi er náttúrulega brilljant, eftir nokkur ár geturðu leigt allann pakkann, bæði kvóta og skip.

Ríkið fær til sín allar útgerðirnar sem fara á hausinn og endurleigja. mjög einfalt.  þú skrifar undir samning í eitt ár, færð skip og kvóta,  reynir svo að leigja aftur árið eftir,  ef þú nærð ekki til þín útgerðarpakka, þá ferðu bara á atvinnuleysisbætur næsta ár og reynir þá bara aftur næsta haust.

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 23.2.2013 kl. 09:47

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir innlitið, Halgrímur Hrafn;

Mér þykir ótrúlegt, að makríllinn komi til Íslands langt suðvestan úr höfum.  Ég hef ekki heyrt annað en "íslenzki" makríllinn sé samstofna þeim evrópska, sem aðallega hrygnir vestan Írlands.  Hann leitar til kaldari hafsvæða.  Ef hann stímir í hánorður frá vesturströnd Írlands, þá lendir hann á íslenzka landgrunninu suðaustan Íslands, og þaðan syndir hann með hafstraumum til vesturs. 

Örverpið fiskveiðistefna vinstri flokkanna varð til á skrifborði skrifstofufólks hjá þessum flokkum og ráðuneytunum.  Þessi samsuða er afkvæmi fólks, sem engan skilning hefur á gangverki nútímalegrar útgerðar í alþjóðlegri samkeppni, og forræðishyggju, sem hatast við frjálst framtak og vill einokun ríkisins í atvinnulífinu.  Sem sagt gufuleg moðsuða löngu gjaldþrota sameignarstefnu.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 23.2.2013 kl. 12:44

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Bjarni, eins og Hallgrímur segir hefur verið rætt að makríllinn sem leitar núna hingað norður sé ekki einungis að evrópskum uppruna heldur sé  einnig kominn frá meginlandinu í vestri. 

Það væri þess vert að rannsaka hvort svo sé.

Kolbrún Hilmars, 23.2.2013 kl. 17:52

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Kolbrún Hilmars;

Reynist þetta rétt, sem þið haldið fram um hugsanlegan uppruna hluta makrílsins hér við land, þá rennir það enn frekari stoðum undir meginboðskap minn í ofangreindum pistli, að Íslendingar eigi óragir að slá eign sinni á makríl hér við land í þeim mæli, sem vísindamenn Hafrannsóknarstofnunar telja sjálfbært.  Frekja Norðmanna og Evrópusambandsins verður enn yfirgengilegri í þessu ljósi og í raun kúgun.  Undan henni bognar Steingrímur J. alltaf.  Það virðist alveg sama á hvaða vettvangi hann hittir þá.  Ætíð skal hann láta í minni pokann.  Um þessar mundir ver Hafró talsverðum krafti til rannsókna á makrílnum.  Þá skyldi maður ætla, að eitthvað skýrist um þennan vesturheimska uppruna makrílsins. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 23.2.2013 kl. 22:43

6 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Makrílinn þarf ekki að vera úr Ameríkustofninum þótt hann komi sunnan úr höfum,  Það er veiddur Makríll vestan og norðan við Asoreyjar. Það getur verið Makrílkökkur úti á miðju Atlandshafinu. Veiðiskip frá Írlandi eru ekkert að fara lengra en þarf vestur fyrir Írland til að veiða.Hafró fer ekki að kanna útbreiðslu Makríls fyrr en komið er vel framm á sumar en þá er kjörhitastig hans komið langt inn í lögsöguna.  Á úthafskarfa veiðunum um sjómannadag sást til Makríls utan við 200 mílurnar suðvestur af landinu.  Þetta þarf að rannsaka og ekki trúa ESB og Norðmönnum að þeir eigi allt gottið.

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 24.2.2013 kl. 00:25

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta eru áhugaverðar upplýsingar, Hallgrímur Hrafn. 

Rannsóknir Íslendinga á makríl eiga sér tiltölulega stutta sögu, og ekki er nokkur vafi á, að samstarf sjómanna og Hafrannsóknarstofnunar getur veitt umtalsverð samlegðaráhrif.  Vonandi getur Hafró um þennan suðræna þátt í sinni næstu skýrslu.  Íslenzkir sjómenn, íslenzkar útgerðir og allt þjóðfélagið á mikið undir, að ESB og Norðmönnum takist ekki að þvinga okkur út úr þessum veiðum, heldur fari hlutur Íslands vaxandi.  Til þess þurfa Íslendingar stjórnvöld með bein í nefinu, en ekki undirlægjur ESB, sem víla ekki fyrir sér að fórna þjóðarhagsmunum til að smjaðra fyrir ESB í von um bein af borði framkvæmdastjórnarinnar í Berlaymont, þ.e. einhvers konar sérkjör, sem eru algerlega borin von. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 24.2.2013 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband