Drög í djúpu feni

Stund sannleikans rann upp varðandi afrakstur Stjórnlagaráðs, þegar dómur Feneyjanefndarinnar var birtur, þótt í drögum væri.  Mat Feneyjanefndarinnar á drögum Stjórnlagaráðs var, að þau væru ótæk sem grunnur að stjórnarskrá.  Slíkur úrskurður að hálfu aðila á borð við Feneyjanefndina er einstæður um stjórnarskráarbreytingu í lýðræðisríki og staðfestir réttmæti innlendrar gagnrýni á fyrirliggjandi drög að stjórnarskrá.  Falleinkunn fær Stjórnlagaráð fyrir moðsuðu sína, og er furðulegt að þverskallast við að leggja þetta ólánsfrumvarp fyrir róða úr þessu.  Allt, sem þessi ríkisstjórn kemur nálægt, er flausturslegt fálm í myrkri og með eindæmum ófaglegt og óvandað.  Stjórnlagaráð var fjarri því að vera þverskurður þjóðarinnar, og jafnvel þó að svo hefði verið, er verið að gera þekkingu stjórnlagafræðinga og annarra lögfræðinga nokkuð lágt undir höfði með því að fá þá ekki til að móta gerð skjals á borð við stjórnlög landsins.    

Allt ferlið var frá upphafi gjörsamlega vonlaust til að skapa nokkuð annað en merkingarlaust moðverk, sem lögfræðinemar á 1. ári hefðu verið miður sín með sem hópvinnuverkefni.  Í bezta lagi er hægt að kalla þetta ferli til að skapa stjórnarskrá barnalegan leikaraskap hégómlegra sálna með ofvaxið egó.  Ferlið er búið að vera fíflagangur frá upphafi til enda og hefur haft í för með sér hræðilega sóun skattfjár og tíma fólks, sem hefur annað og betra við tíma sinn að gera.  Því fyrr, sem endir verður bundinn á lýðskrum þetta, þeim mun betra. Lýðskrum var leirinn, sem ráðið fékk til að hnoða. Drögin eru enda handónýt að dómi innlendra sérfræðinga og fjölmargra leikmanna ásamt nefnd Evrópuráðsins um málefnið og ber að fleygja hið fyrsta út í hafsauga.  Martröð lýðveldisins mætti kalla sull stjórnlagaráðs. 

Núverandi þing er óstarfhæft, enda í alla staði óhæft.  Ef næsta þing verður skárra, þá mun það ganga kerfisbundið til verks í þessum efnum sem öðrum.  Það þarf að byrja á að ræða, hvaða greinum Stjórnarskráarinnar það vilji stefna að breytingum á á kjörtímabilinu 2013-2017, og setja síðan valinkunna hópa sérfræðinga til starfa um mismunandi greinar.  Afrakstur þeirra fari til rýni hjá Feneyjanefnd.  Þannig skapast samkeppni á milli vinnuhópanna um gæði vinnunnar.  Að lokum fái Alþingi nýtt frumvarp til breytinga á stjórnlögum til umfjöllunar.  Að reyna að gera stjórnlagabreytingar einfaldari er til þess fallið að ýta undir stjórnmálalega lukkuriddara á bylgjufaldi stundarhrifningar eða stundarhöfnunar til að breyta grunnlögunum.  Skilyrðið um samþykki á tveimur þingum skapar stöðugleika. 

Það er allt á sömu bókina lært hjá núverandi ríkisstjórn og þingmönnunum, sem hana styðja.  Hún hefur ekkert til gagns gert, heldur stundað niðurrif á öllum sviðum þjóðfélagsins.  Undanfarin 4 ár hafa verið ár hinna glötuðu tækifæra.  Ríkisstjórninni hefur mistekizt allt, sem hún hefur tekið sér fyrir hendur.  Evrópusambandsumsóknin var alveg dæmigert feigðarflan, sem engum heilvita manni hefði dottið í hug að leggja upp í.  Upphafið var með endemum ógæfulegt og lýsti sér í því að snúa upp á eyrnasnepla vingulslegra þingmanna og pína þá til að segja já, því að annars færi ríkisstjórnin fyrir kattarnef. Fráfarandi forsætisráðherra mun hafa farið mikinn í hlutverki harðstjórans.  Það eru engin takmörk fyrir hennar gjörðum, þegar kemur að umsókn þessari, og löngu tímabært að binda endi á skammarlegan farsa, þar sem viðsemjandinn er hafður að fífli, af því að umsækjandinn ætlar ekki inn.  Allt tilstandið er engu líkara en bjölluati, og slíkt er afar hvimleitt.  Aðeins trúðum á borð við Össur og Jóhönnu gat dottið slík endemis vitleysa í hug.  Ef við viljum fara þarna inn, þá fáum við til þess skýrt umboð frá þjóðinni og förum síðan í viðræður af festu og krafti, en ekki með hangandi hendi, eins og lúðulakar, árum saman.  Þetta mál er þegar búið að valda nægu tjóni, og áróðursskrifstofa ESB lokar vonandi sjálf, þegar skýr stefnumörkun kemur frá Íslandi, og ný ríkisstjórn biðst velvirðingar á bjölluati einfeldninga, sem virtu lýðræðislegan vilja þjóðarinnar að vettugi. Að setja þetta ferli í gang til að fá að "kíkja í pakka" ESB vitnar í senn um dómgreindarleysi og þekkingarleysi á ESB.    

Atferli krata- og kommaforystunnar 16. júlí 2009 var eins heimskulegt og ruddalegt og hægt er að hugsa sér, enda algert einsdæmi í sögu Evrópu, þegar um undirbúning ESB-umsókna er að ræða.  Það var ekki einu sinni viðhaft í Saarlandi 1934, þegar sótt var um aðild að Þriðja ríkinu (reyndar stóð valið um að verða hluti af Þýzkalandi eða Frakklandi).  Hvílíkur ofstopi !  Allt þetta umsóknarbrölt er unnið fyrir gýg.  Á það verður endir bundinn þegar á þessu ári, og peningasóun því samfara stöðvuð.  Ráðstöfun mannauðs Utanríkisráðuneytisins þarf að rýna með virðisauka af vinnu hvers og eins í huga eftir það, sem á undan er gengið.  

Ríkisstjórnin valdi óvönduðustu aðferð við niðurskurð ríkisútgjalda, sem hugsazt getur, þ.e.a.s. flatan niðurskurð.  Afleiðingin er alveg skelfileg á ríkisreksturinn.  Viðkvæm starfsemi á borð við spítalarekstur er kyrkt, svo að gæði þessa rekstrar fyrir viðskiptavini og hina, sem þjónustuna veita, eru algerlega óboðleg.  Nota hefði átt tækifærið, sem gafst til hagræðingar, til að fara í skipulagsbreytingar og lítils háttar framkvæmdir til að draga úr sóun í kerfinu á borð við þá, að útskrifaðir sjúklingar teppi pláss á háskólasjúkrahúsi, af því að miklu ódýrari dvalarstaðir eru fullir.  Það á ekki að herða stöðugt sultarólina að Landsspítalanum, heldur að kanna, hvort úthýsing á hluta starfseminnar að uppfylltum gæðakröfum geti sparað ríkissjóði fé.  Miðstýringarárátta kratanna kemur í veg fyrir ávinning með frumkvæði heimamanna á hverjum stað.  Ný tækni getur sparað fé, og þá á ekki að hika við að fjárfesta í henni.  Það eru hins vegar takmörk fyrir því, hversu miklum hluta opinberra fjárveitinga til sjúkramálanna er verjanlegt að verja til kaupa á dýrustu lyfjum, nema ávinningur sé ótvíræður.

Ríkisstjórnin skar framlög til Vegagerðarinnar niður við trog og lét, eins og slík framlög mættu fremur missa sig en önnur framlög.  Viðkvæðið var að þyrma heilbrigðis-og tryggingakerfinu.  Það var ekki gert, og þessi niðurskurður til vegamála var stórhættulegur og hefur haft mikinn kostnaðarauka í för með sér fyrir landsmenn.  Það er alveg hræðilegt, þegar misheppnaðir stjórnmálamenn fara að stjórna ríkiskassanum.

Menntamálin eru í ólestri undir stjórn VG.  Skólum er mismunað eftir rekstrarformi í anda ofurtrúar sameignarsinna á opinbert eignarhald og rekstur.  Skólum er gert illmögulegt að keppa á gæðum, enda hvatinn lítill sem enginn í kerfinu.  Einkunnakerfi er breytt, svo að nemendur eigi erfiðara með að meta árangur sinn og bera sig saman innbyrðis.  Það virðist alls ekki mega ala á heilbrigðum metnaði nemenda.  Afleiðingin er skelfileg.  PÍSA er áminning. Nemendur koma út úr grunnskóla ótalandi og óskrifandi á móðurmáli sínu, hvað þá erlendum tungumálum.  Skólunum virðist hafa hrakað síðan sá, er hér heldur á fjaðurstaf, var þar nemandi, af færni nemenda í grunngreinum að dæma.  Skólakerfið er fjarri því að fullnægja þörfum atvinnulífsins.  Verkmenntun er hornreka og raungreinum er engan veginn gert nógu hátt undir höfði.  Þess í stað er opinberu fé veitt í húmbúkk, sem engin þörf er fyrir í þjóðfélaginu, en fólki er guðvelkomið að eyða tíma sínum í og eigin fé. Ofan á öllu trónir núverandi formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem virðist vera harla metnaðarlítil fyrir hönd íslenzka menntakerfisins, hvers gæðum og skilvirkni hrakar stöðugt. Þessu verður að breyta.  Beina verður opinberu fé í hagvaxtarhvetjandi geira menntakerfisins og hætta dekri við afætur. 

Atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar verður bezt lýst sem afturhaldi.  Hún hefur blóðmjólkað fyrirtækin og þannig eyðilagt vaxtarmöguleika þeirra, svo að atvinnuþátttaka landsmanna hefur stöðugt minnkað á ólánsferli þeirra þröngsýnu púka, sem ráðið hafa ferðinni undanfarin ár.  Stöðnun atvinnulífs og afturför lífskjara miðað við nágrannaþjóðir hefur leitt til atgervisflótta úr landinu.  Afleiðingin er langvinnasta kreppa, sem um getur í heiminum á seinni árum. 

Það verður eitt meginviðfangsefni næstu ríkisstjórnar, ef nógu margir bera gæfu til að kasta ekki atkvæði sínu á glæ í komandi þingkosningum, að blása til sóknar í atvinnumálunum.  Alþjóðlega hagkerfið er í lægð og gjaldeyrishöftin auðvelda ekki leikinn, en með samstilltu átaki þings og atvinnulífs verður fljótlega unnt að þoka hagkerfinu upp úr kviksyndi stöðnunar vinstri flokkanna.  Erlendir fjárfestar fylgjast með og bíða átekta. Nýting náttúrugæða til sjávar og sveita mun enn verða eimreið hagkerfisins með smurningu frá verðmætum mannauði landsins við hækkun á ráðstöfunartekjum hans, ekki sízt fólks undir fertugu, sem losnar úr viðjum við skattalækkanir.

Það er furðulegt að heyra málflutning ráðherra, t.d. fjármálaráðherra, og annarra þingmanna Samfylkingarinnar um gjaldmiðilsmál.  Þeir tala, eins og landsmönnum standi til boða að hálfu ECB, evrubankans í Frankfurt, að taka upp evru á morgun.  Þetta er alger fásinna.  Eftir fjagra ára óstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs eru landsmenn fjær því en nokkru sinni áður að uppfylla Maastricht-skilyrðin, þar sem skuldastaða ríkisins er sett 60 % að hámarki af VLF, en hún verður um 100 % í ár, halli ríkissjóðs skal verða innan við 3 % af VLF (þetta hefur aldrei staðizt í raun hjá ríkisstjórninni), og verðbólga og vextir skulu verða á meðal hins lægsta á evru-svæðinu, en eru í toppi.

Setjum nú svo, að kraftaverk gerðist, og ECB mundi bænheyra Samfylkinguna á Íslandi og bjóða Svörtuloftamönnum upp í dans og kaupa krónuforða hans fyrir evrur og á allan hátt styðja gjaldmiðilsskiptin.  Hvaða gengi á þá að nota ?  Gengi Seðlabanka Íslands, gengi ECB eða eitthvert gengi þarna á milli ?  Svarið við þessu mundi marka þáttaskil varðandi afkomu almennings og samkeppnihæfni íslenzkra útflutningsatvinnuvega.  Er skemmst að minnast endursameiningar Þýzkalands, þegar DDR-mörkum var skipt fyrir D-mörk á genginu 1:1.  Austur-þýzkt efnahagslíf er enn í basli vegna gengis, sem var allt of hátt fyrir framleiðni austurhéraðanna.   

Það er ekki einu sinni vitað til þess, að Samfylkingarfólk hafi spurt þessarar spurningar, hvað þá svarað henni.  Þar á bæ er firringin í öndvegi og raunveruleikaskyn af takmörkuðum skammti.  Það er bara gösslast áfram. Barn lærir að skríða áður en það fer að ganga.  Með sama hætti verðum við að ná tökum á efnahagslífi okkar áður en við förum að semja við Frankfurt, London, Washington eða aðra um tengingu íslenzku myntarinnar við evru, sterlingspund, bandaríkjadal eða aðrar myntir með það að markmiði að gera viðkomandi mynt að lögeyri á Íslandi.  Að fara á fjörurnar við aðrar þjóðir um slíka tengingu í þeirri veiku stöðu, sem við erum í núna eftir óstjórn fákunnandi fólks, er u.þ.b. jafnheimskulegt og hægt er að hugsa sér.  Samfylkingin mundi gera okkur að ómögum.  Við verðum að ná tökum á peningamálunum með því að takmarka peningamagn í umferð og ná verðbólgu niður í um 2 %.  Það er unnt að hafa stjórn á peningamagni í umferð með því að taka "peningaprentunarvaldið" frá viðskiptabönkunum og færa það til föðurhúsanna, Seðlabankans. Þar verður þá að vísu vera fólk með viti, en ekki sporgöngumenn Trotzkys og véfréttarinnar í Delfí. Þegar við höfum gert hreint fyrir okkar dyrum, uppfyllt Maastricht-skilyrðin og náð varanlegum hagvexti, 3 % - 5 % á ári, þá getum við samið af styrkleika við aðra.  Að semja í veikri stöðu um þessi mikilsverðu mál býður hættunni heim, og tvö peningakerfishrun á 10 árum mun hagkerfið ekki þola.  Þá blasir þjóðargjaldþrot við.  

   Á illa samanfalkinn1_444247

 

   

 

 

     

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband