7.3.2013 | 20:24
Í kjölfar landsfunda
Nú hafa nánast allir stjórnmálamenn landsins fengið tækifæri til að ráða ráðum sínum við helztu stjórnmálaáhugamenn landsins innan vébanda stjórnmálaflokkanna. Hver er afraksturinn ?
Það, sem út á við snýr, og stjórnmálamennirnir hafa látið frá sér fara, vitnar um ónóga hugmyndaauðgi og skort á dirfsku, þó að ljóst megi vera, að arfleifð fyrstu tæru vinstri stjórnarinnar er með þeim hætti, að landið færist stöðugt nær gjaldþrotsbarmi, enda allar ráðstafanir vinstri stjórnarinnar kolrangar, hafa magnað vandann, og allt of miklu hefur verið ýtt á undan sér. Af þekktum dýrategundum hefur þessi dæmalausa ríkisstjórn mest líkzt strútinum. Hún hefur, eins og hann, stungið hausnum í sandinn, þegar vandi hefur steðjað að.
Stærri stjórnarflokkurinn, sem er nú aðeins einn af stærri smáflokkunum á vinstri væng stjórnmálanna, enda býður hann fram klofið, verður æ furðulegri eftir því, sem hann eldist. Hann er ekki lengur flokkur almúgamanna, heldur menntamanna á ríkisjötunni, sem slegnir eru Evrópublindu. Forysta þessa flokks neitar að viðurkenna staðreyndir varðandi ESB, en hefur reist sér einhvers konar skýjaborg um þennan klúbb, sem horfist nú í augu við illviðráðanlegan vanda innbyrðis sundurþykkju af völdum mjög ólíkra hagsmuna. Þó að sá, er hér heldur á fjaðurstaf, vildi gjarna ganga í þennan klúbb, þá gæti hann ekki unnið sér það til lífs að útskýra á hvaða vegferð þessi klúbbur er, og er þó sæmilega upplýstur. Samfylking Árna Páls er einsmálsflokkur. Öll vandamál eru leidd í jörðu með innihaldslausum fullyrðingum, hreinræktuðu lýðskrumi, sem líkist málflutningi trúarhópa um betra líf eftir dauðann. Málflutningur af þessu tagi er fullkomlega óboðlegur hérlendis árið 2013.
Efnahagsstefna þessarar flokksónefnu malarbúa á suðvesturhorninu fjallar um frjálsan innflutning matvara og lifandi dýra til landsins og upptöku evru, eins og það er ósmekklega kallað. Nýleg dæmi sýna í hnotskurn, hversu mikil afturför yrði frá gæða-og heilbrigðissjónarmiði að flytja hingað ótæpilegt magn af kjöti frá Evrópu, en glæpasamtök hafa verið orðuð við viðskipti í þeirri grein, og þá er hvorki spurt um gæði né hollustu, heldur einvörðungu stundargróða. Þá er reynslan af innflutningi lifandi dýra svo hrikaleg vegna sjúkdómadreifingar, að menn ættu ekki einu sinni að ýja að slíku.
Talsmenn "stærsta" flokksbrotsins á vinstri vængnum, ekki sízt sá, sem nú er kallaður formaður flokksins án þess greinilega að stjórna flokkinum, því að gamla illindaskakið lætur ekki völdin eftir, láta sig hafa það að bera á borð fyrir alþjóð málflutning, sem hverju barni er samt ljóst, að gengur ekki upp. Það á sem sagt að leysa hvers manns vanda með því að skipta um lögeyri í landinu. Þetta er eins heimskulegur málflutningur og hugsazt getur. Menn skipta ekki um lögeyri eins og brókina sína. Slíkt gera menn einvörðungu eftir vandaða áhættugreiningu að beztu manna yfirsýn, þar sem menn hafa sannfærzt um, að hagvöxtur verði bezt tryggður í hagkerfinu með þeim hætti.
Hagstjórn á að snúast um að hámarka hagvöxt. Þetta eiga vinstri menn bágt með að skilja, enda eru margir þeirra hreinlega á móti hagvexti, svo að ekki er kyn, þó að keraldið leki. Ef hagsveiflan hér er ólík því, sem ríkjandi er á myntsvæði, sem Ísland væri aðili að, býður slíkt upp á vandræði; annaðhvort meiri verðbólgu hér út af of lágum vöxtum eða atvinnuleysi út af of háum vöxtum. Hins vegar dregur hagkerfisþróunin hérlendis æ meira dám af þróuninni í Evrópu eftir því sem iðnvæðingu landsins vindur fram.
Það felur í sér uppgjöf og mikinn blekkingaleik gagnvart kjósendum að halda því fram, að lausn íslenzks efnahagsvanda felist í að skipta um mynt. Lausnin felst aftur á móti í að þróa og efla hér hagstjórn, sem elur af sér stöðugleika og trausta mynt, þ.e. mynt, sem styrkist smám saman frá því, sem nú er, t.d. í u.þ.b. 100 kr per bandaríkjadal. Ef ekki er unnt að ná tökum á peningamálastjórninni og samræma hana ríkisbúskapinum, þá mun nauðsynlegar forsendur gjaldmiðilsskipta skorta.
Andróðurinn gegn formanni Sjálfstæðisflokksins er viðurstyggilegur. Hælbítar hans setja aðallega fyrir sig þátttöku hans í atvinnulífinu fyrir og í peningakerfishruninu. Fyrirtæki, sem hann var viðriðinn, lentu í vandræðum og urðu sum gjaldþrota, en það er ekki vitað til, að þau eða eigendur þeirra hafi fengið 1 kr afskrifaða af skuldum sínum. Eigendurnir, þ.m.t. ættmenni Bjarna Benediktssonar, töpuðu hins vegar stórupphæðum. Svipað var ástatt um annan formann Sjálfstæðisflokksins, Ólaf Thors. Kveldúlfur varð gjaldþrota, og áttu Thorsarar lengi vel undir högg að sækja út af því. Báðir voru þessir menn og eru taldir vera stálheiðarlegir. Það er mikill kostur fyrir stjórnmálamann að hafa tekið þátt í viðskiptalífinu. Við sjáum glópsháttinn og viðvaningsbraginn á öllum málatilbúnaði núverandi ráðherra til samanburðar. Þeir kunna ekkert til verka. Landsfundur Sjálfstæðismanna skildi þetta, og 4/5 fulltrúanna studdu formanninn til að verða sitt forsætisráðherraefni.
Formaður Sjálfstæðisflokksins er fremstur á meðal jafningja, "Primus inter Pares", í sínum flokki, og hann ber augljóslega af formönnum hinna flokkanna fyrir sakir menntunar sinnar og staðgóðrar og yfirgripsmikillar þekkingar, sem hann hefur aflað sér á landshögum og helztu hagsmunamálum þjóðarinnar. Stingur hann algerlega í stúf við gösslarahátt hinna formannanna, svo að ekki sé nú minnzt á forystu ríkisstjórnarinnar, sem veður á súðum í hverju málinu á fætur öðru og skortir augljóslega dómgreind til að leiða nokkurt mál til farsælla lykta.
Vinstri grænir settu litlausan varaformann til valda, sem óttalega lítið hefur kveðið að til þessa og ekki er hægt að búast við miklu af. Formaðurinn er kurteis, sem ber að virða, en ferillinn í menntamálaráðuneytinu er markaður tilhneigingunni til einsleitni í rekstrarformi hins opinbera og að þola illa samkeppni frá einkageiranum. Hér, eins og annars staðar, er rétt að leita sparnaðar með því að leyfa einkaframtakinu að spreyta sig. Grunnhugsunina um jöfn tækifæri til náms án tillits til efnahags ber þó að virða. Menntun í vísindum, tækni og iðngreinum, er góð og nauðsynleg fjárfesting fyrir þjóðfélagið, en við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að forgangsraða í þágu raunvísindagreina á kostnað hugvísindanna. Gæði menntunar á sumum sviðum raunvísindanna hérlendis eru óboðleg og standa framfarasókn þjóðfélagsins fyrir þrifum.
Nýlega afhjúpaði nýkjörinn formaður vinstri grænna sig sem ábyrgðarlausan stjórnmálamann, loddara. Hún lagði fram á síðustu dögum þingsins frumvarp um Lánasjóð íslenzkra námsmanna, sem er slík hrákasmíð, að jafnvel umsögn ráðuneytis nöfnu hennar Júlíusdóttur gefur frumvarpi mennta-og menningarmálaráðherra falleinkunn. Katrín kastar fram kolrangri og allt of lágri tölu um líklegan kostnað af frumvarpinu. Katrín, formaður vinstri grænna, vill hlaða undir góða og samvizkusama nemendur og gefa þeim upp skuldir við LÍN. Fjárlagaskrifstofa fjármála-og efnahagsráðuneytisins áætlar árlegan kostnað af þessu verða tæpa 5 milljarða kr, sem með vöxtum verða um 100 milljarðar að 10 árum liðnum. Þar sem hér er um útgjaldaauka að ræða hjá ríkisstjóði, sem rekinn er með halla, verður að slá lán fyrir þessu, og þess vegna er eðlilegt að reikna á upphæðina vexti. Við höfum ekki efni á slíkri greiðvikni við góða nemendur, enda mundi hún fljótt hitta þá fyrir sem bjúgverpill bágstadds ríkissjóðs. Þarna sjá menn forgangsröðun hinnar undarlegu Katrínar Jakobsdóttur í hnotskurn. Hún mun verða myllusteinn um háls hennar, það sem eftir er. Hláleg frammistaða nýs formanns.
Vinstri grænir með atvinnuvega-og nýsköpunarráðherrann í broddi fylkingar hafa tekið undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar kverkataki í nafni sameignarstefnunnar, og þeir hafa skákað í skjóli túlkunar sinnar á lagaákvæðinu um, að þjóðin eigi fiskveiðiauðlindina. Þeir hafa túlkað þetta þannig, að ríkið eigi hana, sem er tóm vitleysa, og nú stefnir í, að eigið fé sjávarútvegsins þurrkist upp fyrir tilverknað sameignarsinna, og er það vafalaust í samræmi við ætlun þeirra. Þessi eignaupptaka mun einnig leiða til stórvandræða lánastofnana. Þjóðin í heild mun bera skarðan hlut frá borði, ef þetta brölt verður ekki stöðvað og undið ofan af vitleysu vinstri grænna og annarra marða. Ef svo fer fram sem horfir, þurfa útgerðarfyrirtækin að afskrifa 11 milljarða kr á ári af bókfærðum aflaheimildum, sem hafa verið keyptar. Það er ekkert tillit tekið til fjárfestingarþarfarinnar í greininni, sem er um 20 milljarðar á ári, til að viðhalda samkeppnihæfninni við erlend fyrirtæki, og ekki heldur tekið tillit til fyrri fjárfestinga, sem vissulega hafa verið undirstaða hagræðingar í greininni, sem hefur haft mjög mikil og góð þjóðhagsleg áhrif. Tröll leika sér hér með fjöregg þjóðarinnar. Þau hafa aldrei migið í saltan sjó, en telja sig þó þess umkomin að hafa vit fyrir útgerðinni. Þetta vit er ekki meira en guð gaf, og það er mjög af skornum skammti, þegar þingmenn ríkisstjórnarinnarinnar og ráðherrarnir sjálfir eiga í hlut. Sennilega er allur þessi hrærigrautur lögleysa.
Næsta þing mun kveða upp úr um það, hvort stjórnvöld hafi rétt til að veikja stöðu íslenzks sjávarútvegs í samkeppni við Norðmenn og aðra. Næsta þing mun kveða upp úr með það, hvort það telji stjórnmálamenn og embættismenn betur til þess fallna en útgerðarmenn að hámarka framleiðni sjávarútvegsins. Næsta þing mun kveða upp úr um, hvort leita eigi að auðlindarentu í bókhaldi sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtækja og aðeins þar.
Til að reikna út veiðigjaldið er notuð tölfræði frá Hagstofunni, sem er góð og gild, en hentar engan veginn til skattlagningar á fyrirtæki. Þá er veiðigjaldið lagt bæði á fiskveiðar og vinnslu, sem skýtur skökku við, því að auðlindarenta er sögð lögð til grundvallar. Hún hefur hins vegar aldrei fundizt, af því að útgerðin stendur í strangri samkeppni við erlendar útgerðir, sem ekki búa við auðlindagjald, heldur þvert á móti fá þær opinberan stuðning. Það er þess vegna engin sanngirni í að leggja veiðigjald á íslenzkan sjávarútveg með þeim hætti, sem nú er gert. Að leggja veiðigjald á íslenzkan sjávarútveg á grundvelli meintrar auðlindarentu er svipuð ósanngirni og að leggja kolefnisgjald á hann, þó að sjávarútvegur í samkeppni við þann íslenzka sleppi við slíkar álögur. Allt, sem yfirvöld aðhafast og er til þess fallið að draga úr samkeppnihæfni íslenzkra fyrirtækja, er forkastanlegt, enda jafngildir slíkt kjararýrnun hér.
Það stefnir í, að 65 % af framlegð (EBITDA) fyrirtækjanna verði tekin af þeim með þessum hætti og þar á ofan 20 % tekjuskattur, sem jafngildir þá í heildina yfir 70 % af framlegð. Þetta er óðs manns æði og mun ganga af sjávarútveginum dauðum með hrikalegum afleiðingum fyrir fólkið í landinu. Þetta er sósíalismi andskotans.
Sáttaleið getur falizt í gjaldi, sem er reiknað af tekjuafgangi fyrirtækjanna, en ekki framlegð, og þar sem skattféð sé eyrnamerkt og renni í hafnarsjóð, til Landhelgisgæzlunnar, til Hafrannsóknarstofnunar og til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna. Með öðrum hætti er ekki hægt að réttlæta sértæka skattlagningu af sjávarútveginum. Þjóðareignin er hins vegar fólgin í réttinum til að stjórna fiskveiðikerfinu og að ákvarða aflamagnið, sem er inngrip í eignarréttinn, og í lagaákvæðinu um þjóðareign á fiskimiðunum er jafnframt fólginn réttur stjórnvalda til að verjast ásókn erlendra fyrirtækja og ríkja í téða auðlind.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Menntun og skóli, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.