Stríð ríkisvalds gegn atvinnulífinu

Helzti lærdómurinn, sem draga má af ömurlegum stjórnarháttum Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, er, að kjarninn í stjórnmálastefnu þessara tveggja vinstri flokka felur í sér óhjákvæmilega þörf á stríðsrekstri gegn athafnalífinu og gegn miðstéttinni í landinu.  Eftir kjörtímabilið, sem nú er að renna sitt skeið á enda, eru afleiðingarnar af þessari bókstafstrú vinstri flokkanna á málstað sameignarstefnu Karls Marx og Friedrich Engels, í útþynntri útgáfu kratisma og vinstri vellings, komnar í ljós.

Raunveruleikinn kemur algerlega heim og saman við sviðsmynd borgaralegra afla, sem fylgismenn einstaklingsfrelsins og einkaframtaks hafa verið óþreytandi að boða.  Um þessa stöðu þarf ekki að hafa mörg orð.  Eitt orð dugir: Stöðnun.

Þetta ástand er fullkomin falleinkunn fyrir stefnu stjórnarflokkanna.  Þeir hafa hækkað neyzluskatta, tekjuskatt fyrirtækja og einstaklinga, fjármagnstekjuskatt og tryggingargjaldið, svo að eitthvað sé nefnt.  Þetta hefur dregið úr neyzlunni án þess að auka tekjur ríkisins að sama skapi, og það er margyfirlýst stefna vinstri flokkanna að draga úr neyzlu, af því að hún sé löngu orðin ósjálfbær, og ofurskattlagning þessi, sem er alls ekki miðuð við hámörkun tekna hins opinbera, heldur "jöfnun tekjudreifingar", hefur drepið fjárfestingarvilja fyrirtækja og einstaklinga.  Þessi "jöfnun tekjudreifingar" er hins vegar engum til gagns, sízt unga fólkinu, sem er að hefja búskap.  Afkoma hinna verst settu fylgir nefnilega þróun hagkerfisins.  Það hafa rannsóknir sýnt.  Þess vegna er "stækkun kökunnar" öllum í hag. 

Aðferðarfræðin við ríkisbúskapinn á þessu kjörtímabili hefur reynzt stórskaðleg, og það var varað við því.  Útgjöld ríkisins voru 69 % hærri árið 2011 en árið 2006, en á sama tímabili hækkaði neyzluvísitalan um 52 %.  Það hefur þess vegna sigið á ógæfuhliðina sem nemur mismuninum, 17 %. Nokkur flatur niðurskurður og gríðarlegar skattahækkanir er eitruð blanda.  Afleiðingin er stöðnun hagkerfisins og skuldasöfnun ríkissjóðs, sem nú hefur leitt til árlegrar vaxtabyrði hans upp á 90 milljarða kr.  Það verður forgangsmál að draga úr þessum vaxtagreiðslum með því að snúa rekstrartapi í afgang, skuldbreytingum og öflugum afborgunum.  Fregnir af Landspítala sýna ábyrgðarleysi stjórnvalda, þar sem fjárveitingar eru skornar niður og spítalanum gert að vinna úr því.  Það er engin stjórnun.  Starfsemi Landspítalans er svo viðkvæm og mikilvæg, að sparnaði verður að ná fram með fjárfestingum í nýjum tækjabúnaði, eflingu heilsugæzlu og byggingu legudeilda til að minnka álagið á háskólasjúkrahúsinu, þar sem kostnaður við hvert rúm per sólarhring er í hámarki.

Skattahækkanir hafa engan veginn skilað sér í ríkissjóð, enda vinna margar skattahækkanir Jóhönnustjórnarinnar beinlínis gegn hagvexti og þar með hagsæld, t.d. stighækkandi tekjuskattur, hærri fjármagnstekjuskattur, auðlegðarskattur og hærra tryggingargjald.  Breiðu bökin hafa flúið úr landi fyrir vikið.  Erfðafjárskatturinn var tvöfaldaður, úr 5 % í 10 % frá ársbyrjun 2011.  Fyrir árið 2010 skilaði erfðafjárskatturinn 2,6 milljörðum kr í ríkissjóð, en hafði árið áður skilað 1,6 milljörðum kr.  Fyrir árið 2011 voru heimturnar hins vegar aðeins 1,3 milljarðar kr.  Fólk gerir augljóslega gagnráðstafanir, þegar stjórnvöld auka skattheimtu fram úr hófi, og þessi skattlagning er einstaklega ósanngjörn.  Afleiðingin verður minni skatttekjur.

Annað dæmi af óréttlátri skattlagningu er fjármagnstekjuskatturinn, sem lagður er á bæði vexti og verðbætur.  Þessi skattheimta hefur tvöfaldazt frá 2008, en hann skilaði þó fyrir árið 2011 aðeins 75 % af skatttekjunum 2006, og auðvitað í mun verðminni krónum. 

Efast einhver um neikvæð áhrif tekjuskatts á vinnufýsi og vinnuframlag fólks ?  Tekjuskattshækkanir "norrænu velferðarstjórnarinnar" hafa engan veginn skilað sér í ríkiskassann fremur en aðrar skattahækkanir.  Hagfræðin hefur sannazt, en vinstri flokkarnir fylgja engri viðurkenndri hagfræði, heldur afdankaðri hugmyndafræði útþanins ríkisrekstrar, úreltum kratisma, sem t.d. Svíar fóru flatt á og eru að hverfa frá. Samkvæmt sömu viðurkenndu hagfræði eiga skattalækkanir að örva hagkerfið.  Aukin umsvif og aukin neyzla valda hagvexti, sem stækka skattgrunninn.  Þetta gerist þó ekki samtímis, og þess vegna þarf að draga úr útgjöldum ríkissjóðs.  Það er ekki hægt sem neinu nemur öðru vísi en að fækka ríkisstarfsmönnum.  Til að unnt verði að greiða niður skuldir ríkissjóðs, svo að vaxtabyrðin minnki merkjanlega, verður bæði að selja ríkiseignir og nota auknar skatttekjur til afborgana og vaxtagreiðslna.  Þetta mundi hleypa blóði inn í hagkerfið.         

Hornótt framkoma við fjárfesta, hótanir um þjóðnýtingu og enn meiri skattlagningu, óvænt skattlagning, eins og rafskatturinn, og svik við fyrirtækin um afnám hans (hann var í staðinn hækkaður) auk algers getuleysis gagnvart gjaldeyrishöftunum, hefur valdið lægsta fjárfestingarstigi á Vesturlöndum og þó víðar væri leitað.  Það hefur þó frétzt af minni fjárfestingum í Burkina Faso.

Afleiðingin af þessu stríði við fyrirtæki og fólk er sú, að landsmenn dragast æ meir aftur úr öðrum þjóðum í lífskjörum, enda er hagvöxtur grundvöllur lífskjarabata, en ekki stéttabarátta, eins og sumir halda enn.  Hagvöxtur er samsettur úr raunverðmætaukningu þjóðarframleiðslunnar og framleiðniaukningu.  Þannig er hagvöxtur tengdur framleiðslumagni, gæðum og afköstum, auk markaðssetningar og markaðsástandi.  Framleiðslukostnaður á hverja framleiðslueiningu er mælikvarði á samkeppnihæfni, og í útflutningsdrifnu hagkerfi eins og því íslenzka verður þessi einingarkostnaður að vera lægri en hjá þeim, sem nær eru markaðinum en við til að vega upp á móti flutningskostnaðinum. Dæmi um greinar af þessu tagi eru sjávarútvegur fyrir rányrkju ríkissjóðs og áliðnaður, þó að rafskattur komi sér illa í slæmu árferði.  

 Langtíma hagvöxtur er þannig mjög háður vel heppnuðum, þ.e. arðbærum fjárfestingum.  Þjóðfélagsstyrjöld er augljóslega afleitur jarðvegur fyrir hagvöxt, enda leiðir slík styrjöld alltaf til ófarnaðar og uppdráttarsýki hagkerfa.  Til að framkalla hagvöxt þurfum við á að halda trúnaðarsambandi og samvinnu á milli ríkisvaldsins, fyrirtækjanna og almennings, ekki sízt miðstéttarinnar.  Þetta er leiðarstef Sjálfstæðisflokksins, sbr slagorð hans, "Stétt með stétt", og hann ásamt Framsóknarflokkinum með sína samvinnuhugsjón, sem er lítið flíkað að vísu, á möguleika á að byggja þessa brú trausts, þessa Bifröst, svo að skírskotað sé til goðafræðinnar.

Óhjákvæmileg afleiðing stöðnunar er starfamissir, fækkun atvinnutækifæra og erfiðari staða launamanna á alla lund.  Stöðnun hagkerfis er versti óvinur launamanna.  Fækkun starfandi fólks á Íslandi á þessu stöðnunartímabili 2009-2013 nemur yfir tvö þúsund manns.  Nettófjöldi þeirra, sem fallið hafa út af vinnumarkaði, er ríflega þrjú þúsund, og vinnuafl, þ.e. starfandi og atvinnulausir, hefur dregizt saman um u.þ.b. tvö þúsund. 

Ef allt hefði verið með felldu og athafnalífinu hefði vaxið svo fiskur um hrygg, að það hefði getað boðið þeim störf, sem þess óskuðu, hefði sá fjöldi, þ.e. vinnuaflið, vaxið um 8000 manns, þ.e. um tæplega 2000 manna fjölgun í landinu og rúmlega 6000 brottflutta til útlanda.  Stríðsrekstur ríkisstjórnarinnar gegn atvinnulífinu hefur þannig rænt 3000+2000+8000=13000 manns, sem er um 8 % af starfandi fólki.  Þetta bitnar harðast á ungu fólki, sem er að koma út á vinnumarkaðinn.  Enginn stjórnmálaflokkanna, nema Sjálfstæðisflokkurinn, gefur nægan gaum að atvinnulífinu með raunhæfum úrræðum til að efla það.  Sjálfstæðisflokkurinn er öflugasta baráttutæki unga fólksins í landinu á aldrinum 18-30 ára.  Sjálfstæðisflokkurinn vill leggja sig í líma til að létta unga fólkinu lífsbaráttuna.

Það eru mjög dökkar atvinnuhorfur framundan vegna þess, að nú er hagkerfið tekið að minnka.  Það mun fljótlega leiða til uppsagna hjá fyrirtækjum og jafnvel til þess, að fyrirtæki leggi upp laupana.  Sú öfugþróun er þegar hafin í sjávarútveginum, sem er sú atvinnugrein, sem ríkisstjórnin hefur ofsótt mest.  Þessi öfugþróun leiðir til minnkandi skatttekna hins opinbera og vaxandi halla á rekstri þess.  Hallinn er fjármagnaður með lántökum, og er þó alls ekki á skuldirnar bætandi.  Stefna vinstri stjórnarinnar í efnahagsmálum er algerlega ósjálfbær og mun leiða til þjóðargjaldþrots um mitt næsta kjörtímabil, verði ekki söðlað um hið snarasta.  Menn sjá nú loforðaflaum vinstri flokkanna.  Hann er algerlega innistæðulaus og gaspur eitt vegna þess, að hann er allur á útgjaldahlið ríkissjóðs, ekkert horfir til tekjuaukningar hans.  Loforðin verða þá fjármögnuð með lánum. 

Á meðan Róm brennur með þessum hætti, leikur Neró, þ.e. vinstri vargurinn á Íslandi, á fiðlu.  Vinstri vargurinn gamnar sér við áhugamál sín, sem almenningur hefur ekki nokkurn áhuga á, þ.e. nýja stjórnarskráarómynd, sbr algert fylgisleysi Lýðræðisvaktarinnar, sem oftar en ekki þykist þó tala í nafni þjóðarinnar, og inngönguferlið í Evrópusambandið, ESB, en um 3/4 hlutar þjóðarinnar tjá ímigust sinn á innlimun landsins í þetta misheppnaða ríkjasamband, sem ber með sér feigðina.

Alþingi samþykkti þann 16. júlí 2009 undir þvingunum formanna ríkisstjórnarflokkanna að heimila ríkisstjórninni að óska eftir aðildarviðræðum við Berlaymontforingjana.  Það var aldrei við umræðurnar á Alþingi við þetta tækifæri minnzt á, að samhliða aðildarviðræðum yrði rekið skefjalaust breytingaferli á stjórnkerfi landsins til að uppfylla kröfur framkvæmdastjórnar ESB um stjórnkerfi aðildarlandanna.  Allt er þetta ferli frá 16. júlí 2009 varðað undirferli og svikum beggja stjórnarflokkanna, enda skal fullyrða hér, að jafnvel hið auma Alþingi, sem kom saman eftir kosningarnar í apríl 2009, hefði ekki samþykkt, að samhliða umsókn um aðildarviðræður hæfist aðlögun og tilraun til heilaþvottar landsmanna með ógrynni fjár úr hirzlum ESB.  Allt er þetta ólánsmál vinstri stjórnarinnar rekið á fölskum forsendum, og hér er ekki um neitt að ræða, sem hægt er að nefna venjulegar samningaviðræður.

Af þessum sökum var það algerlega rökrétt af Landsfundi Sjálfstæðisflokksins í febrúar 2013 að herða andstöðuna við þetta ólánsferli með því að ákveða að stöðva það og loka áróðursmiðstöð ESB, sem rekin er í verktöku og fellur ekki að neinu leyti að eðlilegum samskiptum þjóða.  Það er ekki á nokkurn hátt verið að fjandskapast við ESB með þessari afstöðu til ólánsferlis vinstri flokkanna, hvað þá að agnúazt sé sé út í aðildarþjóðir ESB.  Sjálfstæðismenn vilja áfram kappkosta að vera góðir þegnar á Innri markaði EES, og það er nákvæmlega ekkert, sem hindrar landsmenn í að taka upp þráðinn síðar við Berlaymont, ef þeir svo kjósa.

Það er aðeins eitt skilyrði, sem þarf að uppfylla fyrst.  Meirihluti þátttakenda í þjóðaratkvæðagreiðslu þarf að samþykkja það að hefja alvöruviðræður við framkvæmdastjórnina með einörðum vilja til aðlögunar og inngöngu að fengnu samþykki þings og þjóðar.  Það þarf auðvitað engin samningsmarkmið, því að það verður ekki um neitt að semja, nema aðlögun að regluverki ESB. Núverandi fíflagangur íslenzkra stjórnvalda er hvorki fugl né fiskur og hvorki Íslendingum né Evrópusambandinu boðlegur, þar sem ríkisstjórnin gengur klofin til leiks og annar flokkur hennar segist ætla að berjast gegn samþykkt eigin samnings.  Umboð samninganefndarinnar með slíkt bakland, öfugsnúið Alþingi og andsnúna þjóð, er augljóslega ekkert, og þessar samningsumleitanir eru þess vegna til skammar, eins og bókstaflega allt, sem þessi ríkisstjórn ræfildómsins tekur sér fyrir hendur.

Þá er nú meiri mannsbragur að Sjálfstæðisflokkinum, en stefnuskrá hans má finna hér á síðunni.          

 

     

     

   

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband