Sorgarsaga af sæstreng

Enn gengur hann aftur, draugurinn, sem ætlað er það hlutverk að flytja raforku á milli Íslands og Skotlands í báðar áttir eftir því, hvernig kaupin gerast á eyrinni.  Særingamaðurinn, Hörður Arnarson, forstjóri ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar, notaði tækifærið á "Ársfundi" LV 21.03.2013, og magnaði drauginn upp með stórkarlalegum fullyrðingum, sem koma ýmsum, sæmilega sjóuðum, algerlega í opna skjöldu, og verða nokkrar slíkar gerðar að umfjöllunarefni hér með vísun til fréttar Björns Jóhanns Björnssonar í Morgunblaðinu 22. marz 2013 undir fyrirsögninni: "Ónýtt raforka 15-20 milljarða króna virði".

Haft er eftir forstjóranum, að téð ónýtt orkuvinnslugeta nemi 2,0 TWh/a (terawattstundir á ári, terawattstund=milljón Megawattstundir).  Þetta jafngildir því, að allt árið um kring sé ónotuð aflgeta í íslenzka raforkukerfinu, sem nemur 230 MW eða heilli Búrfellsvirkjun í meira en 10 mánuði ársins.  Hér fer eitthvað mikið á milli mála.  Hvar í ósköpunum er alla þessa aflgetu að finna, og hlýtur hún ekki að vera dæmi um offjárfestingu, ef rétt er með farið ?   

Forstjórinn gleymir því, að vegna fyrirbyggjandi viðhalds og vegna bilana eru sjaldnast allar einingar kerfisins tiltækar.  Þá sleppir hann því einnig, að í kerfinu verður jafnan að vera fyrir hendi reiðuafl og varaorka, sem óðs manns æði er að reiða sig á, að komi gegnum 1200 km langan sæstreng.  Hefur hann gert greiningu í hermilíkani á svipulli hegðun samtengds kerfis Íslands og Evrópu við truflanir ?

Það kemur heldur ekki fram, hvort téðar 2,0 TWh/a af raforku eru forgangsorka eða afgangsorka eða hvort tveggja.  Hörður hugsar sér greinilega að tæma hér miðlunarlónin eins hratt og markaðurinn erlendis leyfir að vetrinum og standa svo slyppur og snauður þar til leysingar hefjast og flytja þá inn dýra orku frá Evrópu á meðan lónin eru tóm.  Þetta er ógæfuleg framtíðarsýn fyrir raforkunotendur á Íslandi.  Þeir yrðu með þessu móti leiksoppar spákaupmennsku með raforku. Herra Herði má tilkynna það strax, að afhendingaröryggi raforku, sem þetta ráðslag mundi leiða af sér, er algerlega óásættanlegt fyrir almenning, stóriðju og alla aðra raforkunotendur á Íslandi.  Hugmyndin er andvana fædd.  

 Hvers vegna í ósköpunum lækkar Landsvirkjun þá ekki hjá sér verðið til að auka sölumagnið, úr því að mikið umframframboð er, eða þróar öflugan markað fyrir ótryggða raforku ?  Fiskimjölsverksmiðjur mundu flýta rafvæðingu hjá sér fyrir vikið. Landsvirkjun hefur farið þveröfuga leið undanfarið og rift einhliða samningum um ótryggða orku, gróðurhúsabændum og fleirum til tjóns, með þeim rökum, að næg orka væri ekki fyrir hendi í kerfinu.  Það rekur sig hvað á annars horn.  Til hvers var verið að hafa fundarmenn á téðum "Ársfundi" að fíflum ? 

Ef reiknað er með, að 20 milljarðar kr fáist fyrir 2,0 TWh raforku á Skotlandi, þá svarar það til einingarverðsins 80 USmill/kWh, sem er reyndar algerlega óraunhæft að búast við að fá að jafnaði á næstu árum, þegar ný tækni, setlagasundrun ("fracking"), hefur valdið a.m.k. þriðjungs lækkun orkuverðs í BNA, svo að jafnvel í Evrópu sjást nú verð niður í 30 mill/kWh á skammtímamarkaði.

Hverju er Hörður Arnarson bættari með það að fá 20 milljarða kr fyrir 2,0 TWh/a frá kaupanda á Skotlandi, þegar hann mun þurfa að greiða sæstrengseiganda 76 milljarða kr á ári fyrir afnot af flutningsmannvirkjunum, streng, áriðlum, afriðlum og loftlínum, svo að sæstrengseigandinn nái viðunandi arðsemi ? 

Hér er miðað við stofnkostnað þessara mannvirkja með vöxtum á framkvæmdatíma, alls 500 milljarða kr, endurgreiðslutíma 20 árum og hæfilegri ávöxtun fyrir áhættusama fjárfestingu. Landsvirkjun mundi þurfa að borga með orkunni um sæstrenginn og fengi að sjálfsögðu ekki snýtti upp í vinnslukostnað í virkjun. 

Forstjórinn reiknar með að framleiða 1,5 TWh/a með vindmyllum og lágjarðvarmavirkjunum og senda orkuna um sæstrenginn.  Það er stórfurðulegt að ímynda sér, að íslenzkar vindmyllur geti keppt við evrópskar vindmyllur í gegnum 1200 km langan sæstreng.  Til að framleiða 1,3 TWh/a með vindmyllum þarf u.þ.b. 100 stk af vindmyllum.  Þær þurfa býsna mikið land miðað við afrakstur.  Fjölmargir, sem sætta sig við virkjanir og flutningslínur, sem skapa störf innanlands og útflutningsverðmæti, munu aldrei samþykkja þessi mannavirki til að stunda spákaupmennsku með orkuna og til nánast einvörðungu að skapa störf erlendis.

"Hörður sagði sæstreng geta haft jákvæð og fjölbreytt áhrif á íslenzkt efnahagslíf og skapað fjölda nýrra starfa.  Engin ógn steðjaði að starfandi stóriðjufyrirtækjum hér á landi með lagningu sæstrengs." 

Halló, er þetta karlinn í tunglinu ?  Veit hann ekki um erfiðleika norskrar stóriðju, sem þurft hefur að endurnýja samninga sína undanfarið ?  Það má upplýsa hann um, að hún er á heljarþröm, t.d. álverið á Húsnesi í Vestur-Noregi, vegna þreföldunar á raforkuverði á frjálsum markaði í Noregi vegna aukins útflutnings og innflutnings á raforku um sæstrengi.

Það blasir nú ekki við, hvar téð ný atvinnutækifæri verður að finna.  Framleiðsla og lagning strengsins skapar varla nokkurt nýtt starf hérlendis, en auðvitað munu öll mannvirki á landi hérlendis skapa tímabundin ný störf hérlendis á framkvæmdatíma og fáein við rekstur og viðhald.  Er þó nær að reisa virkjanir, aðveitustöðvar og línur/jarðstrengi til að vinna orku innanlands og flytja hana til iðjuvera hérlendis, þar sem u.þ.b. 40 % veltunnar verður eftir í landi, og öll skapar sú starfsemi gjaldeyri.  Hugmynd Harðar mun vera að stofna sjóð fyrir afrakstur orkusölu um sæstreng, en eins og fram kemur hér að ofan er enginn gróði í sjónmáli, og virðisauki innlendrar framleiðslu, sem flutt er utan eða sparar innflutning, verður fyrirsjáanlega alltaf meiri en slíkur sjóður gæti státað af.

Fréttir af þessum "Ársfundi" sýna, að fram er kominn nýr uppistandsgrínisti.  Eftirfarandi stendur í téðri frétt: "Hörður Arnarson fjallaði m.a. um vindorkuna í ræðu sinni á ársfundinum.  Hann sagði hana ávallt verða þriðja kost (svo ! 1) á eftir vatnsafli og jarðvarma.  Vindorkan væri að ryðja sér til rúms erlendis og orðin víða örugg leið (svo ! 2).  Framleiðslan væri hins vegar óstöðug (tíðindi ? 3).  Hörður sagði, að á næstu árum mundi orkuverð frá vindmyllum lækka hratt og skarast við aðra orkukosti (svo ! 4).  Ísland væri í einstakri stöðu að geta nýtt alla þessa þrjá kosti."

1) Hvernig getur Hörður Arnarson fullyrt þetta ?  Ef sá, er hér heldur á fjaðurstaf, brygði yfir sig spámannskufli, mundu fyrr verða fyrir valinu sjávarfallavirkjanir og brennslustöðvar úrgangs.

2 og 3) Hvernig fer það saman að vera "örugg leið" til raforkuvinnslu og að vera óstöðug ?

4) Vindorka er alls staðar stórlega niðurgreidd af hinu opinbera, þar sem hún er við lýði, til að ýta undir notkun hennar og þar með að draga úr mengun andrúmsloftsins og myndun gróðurhúsalofttegunda.  Fyrst verða auðvitað niðurgreiðslur minnkaðar og með lækkandi orkuverði á heimsmarkaði, sem nú er raunin vegna aukins framboðs á gasi og olíu, er óralangt í, að vindorka, með 30 % nýtingartíma og smáar vinnslueiningar, geti keppt á markaði.  Þetta er þess vegna rétt ein órökstudda fullyrðingin.

Landsvirkjun er að fullu í eigu ríkisins.  Eins og öll önnur fyrirtæki á hún að þjóna hagsmunum eigenda sinna, sem eru skattborgararnir í þessu landi.  Hér skal fullyrða án frekari röksemdafærslu, að sérvizkuleg gæluverkefni á borð við þau, sem gerð hafa verið að umtalsefni hér að ofan, þjóna ekki hagsmunum almennings á Íslandi.

Stjórnmálaflokkarnir tippla eins og kettir í kringum heitan graut, þegar kemur að málefnum Landsvirkjunar um þessar mundir.  Þó skyldi maður ætla, að ríkisstjórnarflokkarnir hafi velþóknun á brölti stjórnar Landsvirkjunar , sem staðið hefur þetta kjörtímabil.  Þá er ástæða til að ætla, að borgaralegu flokkarnir séu andvígir öllum tilraunum til að gera orkulindir landsins að viðfangsefni spákaupmanna.  Slíkt minnir óþægilega mikið á REI-hneykslið og samræmist engan veginn þeirri atvinnustefnu, sem þeir vilja leiða til öndvegis á Íslandi.  Hér skal fullyrða, að meirihluti landsmanna mun hafna virkjunum, línulögnum og öðrum mannvirkjum, sem reist eru til að flytja orkuna beint úr landi til að skapa atvinnu nánast eingöngu erlendis.  Hvar eru umhverfisverndarsinnar nú ?  Hvers vegna tjá talsmenn Landverndar sig ekki merkjanlega um þessi mál ?

Fréttastofa RÚV hefur í upphafi kosningabaráttunnar leitt tvö álver af þremur inn í umræðuna um skattamál þeirra og verið gerð afturreka með áróður sinn, sbr grein Magnúsar Þórs Ásmundssonar, forstjóra Alcoa á Íslandi, í Morgunblaðinu 23. marz 2013.  Einnig hefur fréttastofa RÚV vakið athygli á hrörnandi lífríki Lagarfljóts ásamt gjörbreyttu litarafti Fljótsins til hins verra.  Þetta síðasta hefur orðið mörgu Héraðsfólki harmsefni, sem og öðrum, og höfundi ekki sízt.  Hverjum er um það að kenna, að Jökulsá á Brú skyldi verða steypt ofan í Fljótsdalinn ?  Því er til að svara, að Eyjabakkamiðlun var fyrsti valkostur Landsvirkjunar fyrir austan, en umhverfisverndarsinnar börðust svo hatrammri baráttu gegn skerðingu á hamskiptasvæði gæsa, að hinn valkosturinn var tekinn á kostnað Fljótsdalshéraðs, sem aldrei skyldi verið hafa.   

Gammur vokir yfir hræi

  

  

 

 

  

    

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Samstaða þjóðar

Bjarni, ég vil sérstaklega taka undir orð þín um vindorkuna. Mér sýnist að hún eigi enga möguleika nema á einangruðum stöðum, þar sem ekki er kostur á öðrum orkugjöfum. Vindorka er kostnaðarsöm, sjón-menganndi og ógnar fuglalífi. 

Á sumum stöðum hefur verið hlaupið í vindorku, vegna þeirrar röngu trúar að lífsandinn (CO2) væri orsök hlýnandi veðurfars. Eftir að veðurfar hefur ekkert hlýnað í 15 ár, er flestum orðið ljóst að ekkert samband er á milli magns lífsanda í andrúminu og hitastigs.

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 25.3.2013 kl. 18:17

2 Smámynd: Högni Elfar Gylfason

Heyr, heyr !

Frábær og örugglega hárrétt lýsing á þessu bulli í ofurlaunaforstjóranum.

Högni Elfar Gylfason, 25.3.2013 kl. 18:25

3 Smámynd: THK

Sæll Bjarni

Ég skil ekki alveg hvernig þú færð út að m.v. 1,3 TWh/yr. þurfi um 1000 stk af vindmyllum.

Ef reiknað er með að notast eigi við 3 MW vindmyllur (sem er mjög algeng stærð, þó stærri gerðir kæmu vissulega til greina) og um 30% nýtingarhlutfall (Landsvirkjun hefur gefið út að nýtingarhlutfall hér á landi gæti farið upp í 45% að meðaltali á ári, en förum okkur varlega og miðum við um 30%) þá fæst að það þyrfti um 165 stykki til að uppfylla þessa framleiðslu.

Er ég að misskilja þetta eitthvað?

Hvaða forsendur gafstu þér í útreikningum þínum?

Kveðja,

Þórarinn

Útreikningar:

(1.300.000 MWh/yr.)/(365 dagar/yr. *24 h/dag * 3 MW/myllu * 0.3) =  ~ 165 vindmyllur

THK, 25.3.2013 kl. 20:33

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sælir, Loftur Altice og Högni Elfar;

Ég vildi ekki þurfa að vera háður rafmagni frá vindmyllum á einangruðum stað.  Nýtingartími, þ.e. full afköst, er óvíða yfir 2900 klst á ári, og sums staðar er sáralítið hægt að framleiða dögum saman.  Vindmyllur gagnast illa, nema til að draga úr þörf á annarri orkuvinnslu.  Hérlendis væri um að ræða sparnað á vatni í miðlunarlónum, en fjárhagslega væri alltaf um gríðarlega sóun að ræða hérlendis, nema lónin væru við að tæmast.  Vindmylluáhuginn innan Landsvirkjunar nú um stundir er þess vegna með öllu óskiljanlegur.

Það er ekkert á móti því, að opinber fyrirtæki kynni nýjar hugmyndir.  Í þessu tilviki er ekki verið að kynna neitt nýtt til sögunnar, og það hafa engin haldbær rök verið sett fram til réttlætingar á að setja opinbert fé í vindmyllutilraun og hagkvæmniathugun á aflsæstreng til útlanda.  Ef þetta væru góðar viðskiptahugmyndir, þá mundi einkageirinn sýna málunum meiri áhuga en raun ber vitni um. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 25.3.2013 kl. 20:50

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir að leiðrétta mig, Þórarinn.  Ég gaf mér reyndar 5 MW afl per vindmyllu (þær fara stækkandi með tímanum).  Miðað við 30 % nýtingartíma toppafls framleiðir hver vindmylla 13 GWh/a.  Þá þarf 100 vindmyllur til að framleiða 1,3 TWh/a. 

Eitt af því, sem Landsvirkjun hyggst komast að með tilraun sinni er téður nýtingartími.  Ég leyfi mér að efast um þennan háa, vænta nýtingartíma.  Þar koma til hviður og ísing á vetrum.  Þarna kemur líka viðhaldsþörf og dregur úr nýtingartímanum. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 25.3.2013 kl. 22:09

6 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Fyrst var fiskurinn gefinn til Breskra stjórnvalda, til að þjóðarbú Íslands myndi nú "græða" nógu mikið!

Eftir það varð fiskur svo dýr á landinu bláa, að íbúar á venjulegum launum á Íslandi hefur tæplega efni á að borða fisk, sem keyptur er úti í búð.

Svona á að fara að með raforkuna, vatnið og "allt hitt" líka, sem "þjóðarbúið á að "græða" svo mikið á!

Þetta er alveg XTRA-LARGE "GRÓÐI",  fyrir bankarændan og svikinn almenning á Íslandi.

En það eru að sjálfsögðu ekki allir XTRA_LARGE_framboðs-"höfðingjar" sammála mér, enda væri það mjög ó-eðlilegt á Íslandi, að láta sér detta í hug að vera sammála þeim sem segir sannleikann, og það svona ó-glanspappírs-ESB-innpakkaðan.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 25.3.2013 kl. 22:16

7 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Þetta varðandi orkuna sem er til í kerfinu og fer hring eftir hring, eða rennur beint út í sjó, er alveg í hrópandi mótsögn við talanda og gerðir Landsvirkjunar undanfarin misseri.

Stærsti orkusölusamningur Harðar er upp á fáein MW á meðan hann tapar nánast öllum fiskimjölsiðnaðinum út úr sínum bókum. Ef hann kynni debet og kredit þá sæi hann að LV er í mínus raforkusölu eftir núverandi markaðssetningarátak stjórnenda hennar.

Stærsti einstaki íslenski notandi raforku kaupir hana ekki lengur í gegnum LV. Það mætti velta þeim peningi fyrir sér nokkrum sinnum, líta í eigin barm og virkilega skoða hvort kraftar stjórnenda LV séu ekki best komnir á öðrum vettvangi.

Sindri Karl Sigurðsson, 25.3.2013 kl. 23:12

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Fyrirætlunin er eitthvað svo sósíaldemó,að ég hélt í upphafi pistils að Hörður hefði borið þessa stórkallalegu fullyrðingu upp á “Ársfundi” L.V. Jú en þessi skammstöfun er einnig á Lýðveldis vaktinni og ég hafði lesið pistil Friðriks Hansens um könnun á hagkvæmni sölu raforku gegnum sæstreng til Skotlands. Ég tek undir með þér Bjarni og trúi að meiri hluti landsmanna,muni hafna virkjun sem reist er,til að flytja orku beint úr landi og skapa þannig atvinnu nánast eingöngu erlendis.

Helga Kristjánsdóttir, 26.3.2013 kl. 00:25

9 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Bjarn.

Hér er fróðleg grein um nýtingarhlutfall vindorkuvera. 

Capacity factor of wind power realized values vs. estimates

Samantekt í inngangi:

"For two decades now, the capacity factor of wind power measuring the average energy delivered has
been assumed in the 30–35% range of the name plate capacity. Yet, the mean realized value for Europe
over the last five years is below 21%; accordingly private cost is two-third higher and the reduction of
carbon emissions is 40% less than previously expected.
We document this discrepancy and offer
rationalizations that emphasize the long termvariations of wind speeds, the behavior of the wind power
industry, political interference and the mode of finance. We conclude with the consequences of the
capacity factor miscalculation and some policy recommendations."

http://www.rocks.org.hk/activity2009/Capacity_factor%5B1%5D.pdf

Ágúst H Bjarnason, 26.3.2013 kl. 06:14

10 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Anna Sigríður;

Því er borið við af áhugamönnum um tengingu íslenzka raforkukerfisins við Skotland og þar með við meginlandið að nafninu til (raftenging Englands og Skotlands er veik), að til mótvægis hækkuðu rafmagnsverði á Íslandi í kjölfar slíkrar tengingar gætu stjórnvöld hérlendis greitt niður rafmagnsverð hérlendis.  Þetta er rangur málflutningur, þar sem skautað er framhjá því, að Ísland er í EES, sem er yzta skel ESB.  Þar á bæ er stjórnvöldum bannað að mismuna þegnum EES með niðurgreiðslum, sem leiða mundu til lægra orkuverðs á Íslandi en í Danmörku eða annars staðar á EES svæðinu.  Það er bezt að hafa þetta á hreinu, svo að áróður fylgjenda spákaupmennsku með orku nái ekki að skjóta rótum.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 26.3.2013 kl. 09:52

11 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sindri Karl;

Orkan fer ekki hring eftir hring í kerfi Landsnets, heldur er væntanlega geymd í miðlunarlónunum og í iðrum jarðar.  Til að nýta hana þarf hins vegar hverfla og rafala.  Nú er verið að setja upp 90 MW virkjun við Búðarháls.  Búið er að ráðstafa um 80 MW af henni til ISAL.  Ef til eru núna um 2,0 TWh/a á lausu í kerfinu, þá þarf ekki minna en 300 MW vélarafl að vera á lausu til að framleiða þetta.  Mér vitanlega fer því fjarri, að það sé til.  Ef það er til, þá er það furðulegt sinnuleysi að fjárfesta í svo miklu afli án þess að gera tilraun til að fá verkefni fyrir það.  Þetta sæstrengsmas er ekki hægt að taka alvarlega og er ekki hægt að kalla markaðssetningartilraun.

Auðvitað átti fyrir löngu að gera hér markaðsátak á sviði ótryggðrar orku, og eru sjávarútvegurinn með sínar verksmiðjur og landbúnaðurinn með gróðurhús og þrífösun sveitanna augljós viðfangsefni. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 26.3.2013 kl. 10:10

12 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ágúst, og þakka þér kærlega fyrir upplýsingarnar.  Ég hafði haft veður af svipuðum reynslutölum og þú nefnir, þ.e. nýtingu uppsetts afls eða hlutfalla meðalafls og uppsetts afls um 20 % í Evrópu, nánar tiltekið í Danmörku.  Þess vegna koma upplýsingar frá Þórarni hér að ofan um, að LV vænti 45 % nýtingar, verulega á óvart.  Það hljóta að standa veðurfarsleg rök til þess og gögn frá Veðurstofu Íslands.  Mér segir samt svo hugur um, að óvissuþættir eins og meira viðhald hérlendis vegna verri veðra, sandstorma og ísingar gætu dregið úr tímanum, sem vindmyllur hérlendis eru tiltækar í rekstur ("availability"). 

Með nýtingu upp á 20 % efast ég stórlega um, að vindmyllur skili nokkrum sköpuðum hlut til minni minni mengunar og gróðurhúsalofttegunda á líftíma sínum, og þær eru mikill baggi á neytendum og skattgreiðendum.  Getur þú tínt til einhver rök fyrir því, að opinberu fé sé varið í tilraun með vindmyllur á Íslandi ? 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 26.3.2013 kl. 10:28

13 Smámynd: Ívar Pálsson

Þakka þér fyrir þessa fróðlegu og gagnmerku grein, Bjarni. Ég tek heilshugar undir niðurstöður þínar.

Vindorkan er getur aldrei verið annað en umframorka, þ.e. ekki orka sem er seld sem örugg orka, en það er ekki beint skortur á orku sem er ekki seljanleg sem örugg.

Sæstrengurinn sem viðskiptamódel gengur því aðeins upp að seld sé í hann örugg orka að einhverju leyti, annars fengist aldrei lánað til verkefnisins. Svo þarf að láta þá fjárfestingu ganga upp, sem gerist aðeins með orkusölu, þannig að bullandi samkeppni er við íslenskan iðnað, eins og þú tekur réttilega fram, Bjarni.

Eitt sinn hitti ég Hörð um miðjan vetur og hann var áhyggjufullur yfir því hvort nóg væri í lónunum og hvort þyrfti að fara að skammta rafmagn á álvinnslurnar. Ef strengur væri kominn, þá myndu áhyggjurnar aukast til muna, því að annaðhvort væri sókn í það litla sem væri til skiptanna hér, eða að við þyrftum að kaupa rándýrt rafmagn heim komið.

Eitt að lokum: Fyrst stóriðnaður vill helst vera sem næst orkuupprunanum (líklega vegna öryggis, leiðnitaps ofl.) er þá vænlegt að taka rafmagn frá öðrum löndum? Norðmenn loka vatnsorkuverum og Þjóðverjar kjarnorkuverum og kolaverin rjúka upp!

Ívar Pálsson, 26.3.2013 kl. 11:39

14 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ívar;

Það er alveg rétt athugað, að enginn virkjar ótryggða orku eða afgangsorku.  Ef vindorkan væri ekki svo ósamkeppnifær sem hún er, mætti hugsa sér hana sem viðbót í því skyni að spara vatn í miðlunarlónum, sem síðan má selja sem afgangsorku.  Verð afgangsorku á Íslandi hefur verið svo lágt og verður væntanlega, að það getur aldrei staðið undir fjárfestingu í vindmyllum.  Viðskiptalíkanið gengur ekki upp, nema margfalda orkuverð á Íslandi.  Hafa stjórnendur Landsvirkjunar umboð frá eiganda sínum, ríkinu, að vinna samkvæmt slíkri hugmyndafræði ?  Ég held, að þessi hlið málsins þarfnist rækilegrar umfjöllunar og skýrrar stefnumörkunar eiganda.

Það er hárrétt, að sæstrengur verður að hafa mjög háan nýtingartíma, þ.e. vera í fullri nýtingu megnið af árinu, ef hann á einhvern tíma að geta borið sig.  Ég tel reyndar, að hann muni ekki geta borið sig án flutnings a.m.k. 8 TWh/a og a.m.k. 120 USmill/kWh jafnaðarverðs.  Það hillir ekki undir þetta verð, enda fer orkuverðið lækkandi á heimsmarkaði með auknu framboði á gasi og olíu, sem unnið er með nýrri tækni, setlagasundrun ("fracking"). 

Um 10 % af orkusamningum a.m.k. sumra álveranna er ótryggð orka, svo að Landsvirkjun hefur ákveðinn sveigjanleika þar.  Hvað hefur breytzt síðan þú hittir hörð með áhyggjur sínar, svo að hann getur nú ráðstafað 2,0 TWh/a af ótryggðri orku ?  Þessi sæstrengsumræða að hálfu Landsvirkjunar er torskiljanleg.  "Cuo bono" spurðu Rómverjar, þegar þeir áttuðu sig ekki á málsatvikum, þ.e. hverjum í hag, og ég spyr, hverjum er slíkur málflutningur í hag, sem horfir við sumum sem hreinn blekkingaleikur ?

Ég tók það einmitt fram í pistlinum, að sú stefna að tæma miðlunarlónin eftir markaðsaðstæðum erlendis og vera síðan háður einum naflastreng, væri gjörsamlega óásættanlegt gagnvart raforkunotendum á Íslandi, stórum sem smáum. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 26.3.2013 kl. 13:35

15 Smámynd: Samstaða þjóðar

Ég tel að varla sé önnur skýring á hugleiðingum Landsvirkjunar, um sæstreng til Evrópu og vindmyllur, en að verið sé að búa til peninga-farveg fyrir vildar vini ríkisstjórnarinnar. Undarlegt er að engin andmæli skuli heyrast frá einhverjum stjórnarmanni, en þessir eru í stjórn:

 

Bryndís Hlöðversdóttir, Sigurbjörg Gísladóttir,

Stefán Arnórsson, Ingimundur Sigurpálsson, Arnar Bjarnason.

 

Einhver þyrfti að veita þessu fólki leiðsögn.

 

Loftur Altice Þorsteinsson.

 

 

Samstaða þjóðar, 26.3.2013 kl. 15:05

16 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Loftur;

Er ekki vinnustaður a.m.k. sumra vildarvina ríkisstjórnarinnar í Berlaymont í Brüssel ?  Ef þetta er rétt tilgáta, þá er hér um hreinræktaða moldvörpustarfsemi að ræða, þ.e. 5. herdeildin að störfum.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 26.3.2013 kl. 15:13

17 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Það sem ég meinti með hringlanda raforkunnar í kerfinu er að Hörður endurskilgreindi hugtakið afgangsorka með því að afneita því að að væri til eitthvað sem héti því nafni. Með því er ekkert annað í gangi en það sem nefnt er að framan; moldvörpustarfsemi í þágu annarlegra sjónarmiða.

Fiskimjölsiðnaðurinn er búinn að berjast við þessar vindmyllur í nokkuð mörg ár, eða síðan að mönnum datt sú fáránlega hugmynd í hug að samþykkja raforkutilskipun EU. Það væri löngu búið að raforkuvæða allan þann iðnað ef ekki fyrir tréhesta og þröngsýni.

Sindri Karl Sigurðsson, 26.3.2013 kl. 20:24

18 Smámynd: Bjarni Jónsson

Landsvirkjun á að þjóna atvinnustarfseminni í landinu, en ekki að vera ríki í ríkinu.  Þar stendur hnífurinn í kúnni.  Það er ófyrirgefanleg hegðun að skera einhliða og fyrirvaralítið á afgangsorkusamninga við innlend fyrirtæki, en kvarta svo skömmu seinna undan mikilli afgangsorku í kerfinu, 2 TWh/a, og rökstyðja sæstrengsviðskipti með því.  "Something is rotten in the State of Danemark."  Það ber allt að sama brunni.  Ef alvöru atvinnustefna á að komast á koppinn hér eftir næstu Alþingiskosningar, verður skúring að fara fram í Háaleitinu. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 26.3.2013 kl. 21:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband