17.4.2013 | 20:59
Loftkastalar
Framsóknarflokkurinn hefur fyrir kosningarnar 27. apríl 2013 varpað fram stærsta kosningaloforði Íslandssögunnar, eitthvað um 300 milljörðum kr. Ef rétt er skilið, á að verja téðu fé til að veita öllum fjárhagsstyrk, sem svo stóð á í október 2008, að skulduðu fé í húsnæði, og lánið var vísitölutryggt. Frakkir eru framsóknarmenn.
Hér er um grófa mismunun landsins barna að ræða, og engin þarfagreining virðist vera undanfari fjárúthlutunar. Þannig er engin tilraun gerð til að beina fénu fremur þangað, sem brýn þörf er fyrir það. Styrkurinn mun einvörðungu taka mið af upphæð "stökkbreytingarinnar" óháð því, hvort lánþeginn er með 5 milljónir í árstekjur, 15 milljónir eða 50 milljónir. Stóreignamaður á ekki síðri rétt til "leiðréttingar á stökkbreytingu" en unga fjölskyldan, sem var að kaupa sér sína fyrstu íbúð af veikum efnum. Hvernig má það vera, að önnur eins kosningabrella og þetta skuli ná hljómgrunni á meðal almennings ? Er nóg að hrópa á torgum, að við "hrægammasjóði" sé að eiga ? Það er mjög glannaleg fullyrðing, þegar engar opinberar upplýsingar eru til um þessa kröfuhafa, en líklegt er hins vegar, að í þessum hópi séu íslenzkir lífeyrissjóðir, upphaflegu kröfuhafarnir, verktakar þeirra, skuldabréfasjóðir og einhverjir vogunarsjóðir, sem keypt hafa kröfur.
Þeir, sem Framsóknarflokkurinn ætlar að láta blæða, eru að miklu leyti þeir, sem þegar hafa tapað stórfé á viðskiptum sínum við íslenzku bankana. Það á sem sagt að höggva tvisvar í sama knérunn. Hið fyrra skiptið var algerlega óhjákvæmilegt, og allar útgáfur Icesave-ánauðarinnar voru ósamþykkjanlegar, en nú ber að horfa til framtíðar og taka tillit til lánstrausts landsins og hvata fjárfesta til að fjárfesta á Íslandi á næstu misserum. Erlendar fjárfestingar eru orðnar okkur lífsnauðsynlegar. Við erum að lokast inni í hrörnandi samfélagi sameignarsinna. Herkví haftanna þarf að brjótast út úr. Framsóknarflokkurinn getur unnið landinu óbætanlegt tjón í fjölda ára, ef hann verður látinn komast upp með offorsið.
Í þjóðfélagi, þar sem skuldir eru bókstaflega að sliga ríkissjóð og reyndar ýmis sveitarfélög, er ekki unnt að sætta sig við ráðstöfun opinbers fjár með þeim hætti að kemba öllum með einum kambi án tillits til efnahags. Það er mun eðlilegra og sanngjarnara að nota allt, sem rekur á fjörur ríkissjóðs, til að greiða niður skuldir hans.
Það er þó ekki nóg með, að ráðstöfun fjárins sé algerlega óviðunandi. Hvernig á að afla þess eða ná því er óljóst, hversu há upphæðin verður er algerlega í þoku, og hvenær þessar upphæðir munu streyma til Seðlabanka Íslands eða í ríkissjóð veit enginn.
Þetta kosningaloforð er þess vegna algerlega óboðlegt og má jafnvel kalla siðferðilega óverjandi. Framsóknarflokkurinn hefur tekið gríðarlega áhættu, og hann er að uppskera vel í skoðanakönnunum, en hann er á hrikalega hálum ísi, þegar kemur að efndunum, og það er ekki til bóta fyrir samningamenn Íslands að vera með stjórnmálaflokk í valdastöðu, sem sýnt hefur á spilin þeirra, eins og talsmenn Framsóknarflokksins hafa gert. Enginn stjórnmálaflokkur er fús til að taka undir með Framsóknarflokkinum. Vinni flokkurinn stórsigur í kosningunum, er réttast, að hann myndi minnihlutastjórn til að koma kosningaloforði sínu í framkvæmd. Hann mun fljótlega guggna.
Lögfræðingar eru teknir að vara alvarlega við aðalkosningaloforði Framsóknarflokksins, og er grein Eiríks Elísar Þorlákssonar, lögfræðings, í Morgunblaðinu 16. apríl 2013 dæmi um slíkt. Hann skrifar m.a.:
"En hvaða líkur eru nú á því, að samningar um efnið hafi yfir höfuð nokkurt gildi ? Framsóknarmenn segjast ætla að gera þetta allt saman með "samningum". "Hrægammarnir" eiga hér að vísu mikið fé, en það fé hafi verið tekið í gíslingu og verði ekki sleppt, nema með "samningum" um, að "hrægammarnir" taki að sér að borga kosningaloforð Framsóknarflokksins á útleiðinni. Ef "hrægammarnir" vilji ekki semja, þá verði féð bara fast hér áfram og höftin föst í sessi. En hvaða gildi hefði slíkur "samningur" ? Allir lögfræðingar þekkja svokallaða ógildingarreglu samningaréttarins, sem á fræðimáli heitir 36. grein laga 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þar segir, að samningi megi "víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig". Við mat á þessu skuli líta til "efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina, og atvika, sem síðar komu til". Það er augljóst, að samningur, sem menn skrifa undir með byssuhlaup við gagnaugað, hefur ekkert gildi fyrir dómi. Þegar annar samningsaðilinn, íslenzka ríkið, hefur öll ráð hins í hendi sér með löggjafarvaldinu og heldur eigum gagnaðilans föstum árum saman til þess að knýja hann til samningsgerðar, er augljóst ójafnræði með þeim. Hvaða gildi mun slíkur samningur hafa fyrir dómi ? Þar dugir ekki að kalla gagnaðilann bara "hrægamm", eins og gefst víst vel í kosningabaráttu. Hversu líklegt er, að þeir "samningar", sem Framsóknarflokkurinn segist ætla að gera við ónafngreinda "hrægamma", og borga þannig stærstu kosningaloforð Íslandssögunnar, muni hafa mikið gildi, þegar þeir koma fyrir dómstóla ? Varla heldur neinn, að gagnaðilarnir láti ekki reyna á gildi samninganna. Sjálfir hrægammarnir."
Lögin, sem Eiríkur Elís vitnar til, eru mörgum þekkt, enda hefur margoft verið dæmt eftir þeim, einnig í Hæstarétti. Það má þess vegna hverjum leikmanni vera ljóst, að í þetta sinn er leið framsóknarmanna lögfræðileg ófæra. Ólíkt grasrótarsamtökum á borð við Indefence samtökin í Icesave-málinu þá er ljóst, að Framsóknarflokkurinn hefur alls ekki lögin með sér í þessu "hrægammamáli". Framsóknarflokkurinn mun verða étinn af hrægömmum í réttarsölunum, láti hann til skarar skríða.
Þá er spurningin, hvort aðrar leiðir séu færar til að leggja hald á hluta af þessu fé, t.d. útgönguskattur. Það eru fordæmi fyrir slíku, og rannsaka þarf rétt ríkisins til síkrar skattlagningar og þá, hversu há slík skattheimta megi verða, svo að ekki verði talin hætta á, að hún brjóti reglur meðalhófs og kalli á málssókn, sem ríkið ætti erfitt með að verjast.
Til að losa um gjaldeyrishöftin, sem er aðalmálið fyrir þrifnað íslenzka hagkerfisins, þarf gott samstarf við erlendar lánastofnanir, og óbilgirni á ekki heima í komandi samningaviðræðum við kröfuhafana, sem við munum þurfa að eiga áfram í viðskiptum við, því að s.k. vogunarsjóðir koma hér alls ekki einir við sögu, heldur gömlu lánastofnanirnar og aðrar, sem við munum þurfa að eiga fagleg samskipti við. Gegn samninganefnd kröfuhafanna verður að tefla úrvalslögfæðingum og fjármálasérfræðingum í samninganefnd Íslands, og íslenzk stjórnvöld verða að sýna refshátt, klókindi og þrautseigju. Galgopaháttur og stórkarlaleg loforð eru slæmt veganesti fyrir stjórnvöld, sem þurfa að vera samninganefnd Íslands traustur bakhjarl. Til þess eru vítin að varast þau.
Myndin hér til hliðar sýnir árlega hækkun vísitölu neyzluverðs á Íslandi á 30 ára skeiði. Hún gefur ekki til kynna, að verðbólgan ein og sér hafi skapað "forsendubrest", sem ekki séu dæmi um á seinni tímum. Viðbótar skýringa á miklum greiðsluerfiðleikum margra er að leita í hagstjórn ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Hagkerfið er enn í djúpri kreppu eftir Hrunið haustið 2008, og þetta ástand verður alfarið að skrifa á reikning afturhaldsaflanna við stjórn landsins, sem hafa verið atvinnueyðandi og athafnalamandi.
Á árinu 2012, 4 árum eftir bankahrun, var verg landsframleiðsla enn 5 % lægri en hún var árið 2007. Afturhaldsstjórn hefur kostað hverja fjölskyldu landsins um eina milljón kr á ári í tekjumissi. Stöðnun og fátækt er gjaldið fyrir vinstri stjórn.
Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur þó dregizt mun meira saman en þessu nemur. Heimilin hafa verið látin taka á sig 20 % skerðingu ráðstöfunartekna samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Þarna munar mest um stóraukna skattheimtu ríkis og sveitarfélaga og verðbólgu umfram launahækkanir. Þarna er vandamálið í hnotskurn. Ofan af hamslausri skattheimtu, sem er með þeirri hæstu í heiminum, þegar iðgjald til lífeyrissjóða er meðtalið, lausatökum á ríkisfjármálunum, svo að hallinn hefur verið um 6 % á ári (tvöfalt Maastricht-hámark) og fjárfestingafjandsamlegri hegðun stjórnvalda, verður að vinda strax. Það er lausnin á vanda heimilanna. Um þetta ritar prófessor Ragnar Árnason í Morgunblaðið þriðjudaginn 16. apríl 2013:
"Nú líður að kosningum. Miklu skiptir, að til forystu veljist ábyrgir einstaklingar og flokkar, sem bera skynbragð á efnahagsmál og hagsmuni þjóðarinnar til lengri tíma. Verði ekki gjörbreytt um efnahagsstefnu, er nánast öruggt, að kaupmáttur og lífskjör hér á landi munu halda áfram að dragast aftur úr nágrannalöndunum. Þá er ekki að sökum að spyrja. Mannauðurinn heldur áfram að streyma til útlanda og það sennilega í ríkari mæli en áður. Beztu fyrirtækin munu fylgja með. Fjárfestingar munu ekki ná sér á strik og fjármagnsstofninn smám saman dragast saman og úreldast. Íslendingar verða eftirbátar nágrannaþjóðanna til frambúðar."
Gegn fjárkúgun Framsóknarflokksins, sem auðvitað er ólögleg og mun þess vegna engu skila í vasa skuldugs fólks á Íslandi, og með Sjálfstæðisflokkinum í framfarasókn til eflingar atvinnulífsins til að skapa fleiri störf og til að hækka ráðstöfunartekjur heimilanna.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Kjaramál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.