Fjárkúgun

Framsóknarflokkurinn skákar í því skjólinu, að enginn reki hljóðnemann upp í snjáldrið á "hrægamminum", sem er heiti framsóknarmanna á aðalandstæðingi þeirra fyrir kosningarnar 27. apríl 2013, til að leita eftir viðbögðum téðs "hrægamms" við stærstu kosningablekkingu Íslandssögunnar, sem er í boði Framsóknarflokksins á kostnað "hrægammsins" og valda mundi óðaverðbólgu hér, ef loforðið yrði efnt.

Fé "hrægammsins" hefur verið haldið í gíslingu með lögum um gjaldeyrishöft árum saman, og nú lofar Framsóknarflokkurinn því að sleppa þessu fé úr gíslingu gegn því, að "hrægammurinn" greiði lausnargjald upp á 300 milljarða kr eða svo.  Undir samheitinu "hrægammur" hér eru m.a. norrænir lífeyrissjóðir, lánadrottnar gömlu bankanna og verktakar þeirra.  Framsóknarflokkurinn ætlar þar með að höggva í sama knérunn, og þjóðarnauðsyn bar til með Neyðarlögunum haustið 2008, sem alltaf hefur þótt ógæfumerki.

Fram til þessa hafa "hrægammarnir" fengið sáralitlar greiðslur út úr búunum.  Ef málum mun verða skipað með hagkvæmum hætti fyrir "hrægammana", á íslenzka þjóðin þá rétt á hlutdeild í hagnaði þeirra ?  Sennilega á hún svipað tilkall til þeirrar hagnaðarhlutdeildar og kröfuhafarnir, sem seldu "hrægömmunum" þessar kröfur, eiga heimtingu á því, að íslenzka þjóðin deili með þeim tapinu af þessum viðskiptum.  Lögfræðilega er þessi hugmynd framsóknarmanna hæpin, en það kann þó að myndast eitthvert löglegt svigrúm til samninga í tengslum við losun gjaldeyrishafta.  Hér veldur þó, hver á heldur, en það er fullkomið ábyrgðarleysi að fara á flot með kosningaloforð um hlutdeild í fé, sem ríkið á enga heimtingu á.       

Að beita þvingunum af ýmsu tagi við samningsgerð stríðir gegn íslenzkum lögum nr 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógildingu löggerninga.  Atferlislýsingar framsóknarmanna minna ekki á neitt annað en fjárkúgun, sem þeir munu áreiðanlega verða gerðir afturreka með fyrir íslenzkum dómstólum, geri þeir alvöru úr fyrirætlunum sínum.  Hörð framganga á þessum vígstöðvum veitti þess vegna aðeins Phyrrosarsigur, sem er ekki eftirsóknarverður fyrir íslenzka ríkið. 

Að beita þvingunum við kröfuhafana er löglaus aðferð og mun þess vegna engu skila.  Það er hins vegar ekki hægt að útiloka samning á milli ríkisins og fulltrúa kröfuhafa föllnu bankanna í tengslum við afnám gjaldeyrishaftanna, sem felur í sér einhverja eftirgjöf fjár, greiðslur til ríkisins eða skattlagningu.  Þá er einboðið, að sú eftirtekja gangi til ríkissjóðs og fari til greiðslu skulda hans.  Mikilvægast af öllu við stjórn ríkisfjármálanna á næsta kjörtímabili verður að draga úr vaxtabyrði ríkissjóðs, sem nú er um 90 mia kr á ári eða um 15 % af útgjöldum ríkissjóðs.

Ef samningar nást um, að ríkið yfirtaki innlendar eignir þrotabúanna gegn því, að þau fái að taka hluta eða allar erlendar eignir búanna úr landi, væri hægt að minnka peningamagn í umferð og þar með áhættuna við losun haftanna, þar sem þessar "kviku" krónueignir setja helzt þrýsting á krónuna niður á við við losun haftanna.

Verði þessu fé hins vegar varið til að þjóðnýta skuldir landsmanna, mun peningamagn í umferð aukast á ný, sem gera mun ókleift að afnema gjaldeyrishöftin.  Þetta mundi hafa í för með sér mikla verðbólgu hérlendis, neikvæðan greiðslujöfnuð við útlönd og lækkun á gengi krónunnar, þar sem innflutningur mundi aukast við skyndilega skuldalækkun landsmanna.  Eru skuldarar þá nokkru nær ? 

Hagspekingur undir höfundarnafninu "Óðinn" skrifar eftirfarandi í Viðskiptablaðið, 11. apríl 2013:

"Hugmyndir Framsóknarflokksins grafa undan losun haftanna og þar með, að efnahagslífið komist af stað á ný og laun og fasteignaverð taki að hækka.  Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur haldið því fram, að með því að gefa skuldurum fjármuni þá muni neyzla þeirra snúa hjólum efnahagslífsins í gang.  Þetta hefur nú þegar verið reynt með útgreiðslu séreignarlífeyrissparnaðar, sem hafði töluverð áhrif á einkaneyzlu án þess, að það ýtti undir sjálfbæran hagvöxt.  Tiltölulega lítill hluti af neyzlu heimilanna er innlend framleiðsla, þannig að peningainnspýting af þessu tagi eykur miklu frekar innflutning á vöru og þjónustu en innlenda framleiðslu.  Íslenzk heimili þurfa ekki á ölmusu frá ríkinu að halda, enda lendir reikningurinn af henni alltaf á heimilunum sjálfum.  Heimilin þurfa á auknum sparnaði að halda og lagaumgjörð, sem stuðlar að aukinni fjárfestingu.  Þannig geta heimilin borgað skuldir í stað þess að velta þeim á milli sín í kosningum á fjögurra ára fresti."     

Hin alræmda afturhaldsríkisstjórn 2009-2013 á mikla sök á því, hvernig komið er.  Ráðherrarnir gorta af því í tíma og ótíma að hafa lækkað árlegan halla á rekstri ríkissjóðs úr 216 mia kr í 3 mia kr.  Þetta er blekking af ómerkilegasta tagi, sem sameignarsinnarnir éta hver upp eftir öðrum.  Einskiptis kostnaður féll á ríkissjóð 2009 vegna Hrunsins, en ráðherrarnir gefa jafnan í skyn, að um kerfislægan halla hafi verið að ræða.  Það er tóm vitleysa, af því að ríkisstjórnin á undan hafði stöðugt lækkað skuldirnar og vaxtabyrðin var orðin léttbær.  Öll fjárlög afturhaldsins hafa reynzt vera út í loftið.  Árið 2012 voru þau með 20 mia kr halla, en reyndin varð þreföldun hallans við árslok.  Fjárlagahallinn síðustu 4 árin nemur samtals 460 mia kr, halli Íbúðalánasjóðs á sama tíma nemur 150 mia kr, og hallinn á lífeyrissjóði opinberra starfsmanna nemur á þessu tímabili yfir 500 mia kr.  Þetta sukk sameignarsinna á kostnað afkomenda okkar er um 1100 mia kr skuldahali.  Ráðherrar og þingmenn hennar gera ekkert annað en kenna öðrum um, hvernig komið er.  Þeir áttu ekki annað erindi í valdastólana en að vinna skemmdarverk á hagkerfinu.  Þeir komu tómhentir og fara trausti rúnir.

Allir sjá, að afturhaldinu er engan veginn treystandi, hvorki fyrir stjórnun ríkisfjármála né almennri hagstjórn.  Þau náðu engum tökum á verkefnum sínum, voru úrræðalaus varðandi hagvaxtarhvetjandi aðgerðir og án nokkurrar uppbyggilegrar framtíðarsýnar fyrir þjóðfélagið.  Verðbólgan, sem einnig er mælikvarði á frammistöðu stjórnvalda, hefur verið um þreföld á við verðbólgu í helztu viðskiptalöndum Íslands.

Verðbólgan er vágesturinn.  Til að sporna við honum ber að hvetja til sparnaðar með lækkun fjármagnstekjuskatts í 10 %, hagstæðum sparnaðarleiðum í bönkum, með traustum verðbréfamarkaði, með því að endurlífga hlutabréfamarkaðinn og síðast en ekki sízt með því að hækka ráðstöfunartekjur fólks með lækkun á beinum og óbeinum sköttum. 

Það þarf að örva fjárfestingar með arðsemihvötum, svo sem lækkun á tryggingagjaldi til að hvetja fyrirtæki til stækkunar, og lækkun á tekjuskatti fyrirtækja niður í 15 %.  Einkum er brýnt að örva fjárfestingar í gjaldeyrissparandi og gjaldeyrisskapandi greinum til að ráðrúm fáist til að greiða niður erlend lán og til að krónan styrkist fremur en hitt.  Staða þjóðarbúsins leyfir þó vart sterkari krónu en 115 kr/USD til lengdar á næstunni.    

Afturhaldið hefur starfað með öfugum klónum; hagstjórn þess hefur verið í skötulíki og fylgt hefur verið löngu úreltum hagstjórnarkenningum um ofurskattlagningu fyrirtækja og borgarastéttarinnar, sem gamlir hagfræðingar lærðu austan járntjalds á sinni tíð.  Þetta athæfi hefur spennt upp verðlagið í landinu með 200 skattahækkunum, sem felast í nýjum sköttum, nýjum skattþrepum og almennt mikilli hækkun skattheimtu.  Með þessu háttarlagi hefur afturhaldið rænt fjölskyldur í landinu 20 % af kaupmætti sínum, án þess að lækna ríkisbúskapinn af þrálátum halla, og valdið slíkri stöðnun hagkerfisins, að enn vantar 5 % upp á að ná jafnhárri landsframleiðslu og 2007 að raunvirði þrátt fyrir gott árferði til lands og sjávar.  Þetta er með eindæmum lélegur árangur, enda verðskuldar ríkisstjórnin falleinkunn.  Eftirmæli einnar ríkisstjórnar geta vart orðið ömurlegri en afturhaldsins 2009-2013, enda stendur nú fyrir dyrum að kasta því á öskuhauga sögunnar með brauki og bramli.     

Ofurskattheimtan hefur auðvitað skilað miklu minnu í ríkissjóð en vinstri menn voru búnir að reikna með.  Þeir skilja ekki lögmál vestrænnar hagfræði. Skýringarnar eru sígildar.  Hagkerfið hefur leitað í auknum mæli undir yfirborðið, og fólk breytir atferli sínu til að verjast ósanngjarnri skattheimtu.  Þar sem núverandi skattheimtustig (á lárétta X-ásnum) er hægra megin við topp svo kallaðrar Laffler kúrfu, þá munu skattekjur (á lóðrétta Y-ásnum) aukast við það að draga úr skattheimtunni fyrst í stað samkvæmt svo kölluðu Laffler-lögmáli.  Þetta mun verða enn meira áberandi, ef lögð verður fram í upphafi kjörtímabils trúverðug efnahagsstefna, er spanni allt kjörtímabilið.

Flest bendir til, að Framsóknarflokkurinn verði í lykilstöðu eftir komandi kosningar.  Sá flokkur hefur ekki skattalækkanir á sinni stefnuskrá.  Óðaverðbólga og veik króna verða óhjákvæmilegir fylgifiskar af framkvæmd stefnu hans og hafa löngum fylgt Framsóknarflokkinum. 

Það eru miklar líkur á, að Framsóknarflokkurinn muni leita til vinstri um stjórnarsamstarf.  Það sýnir saga flokksins. Eitraða peðið á vinstri vængnum, eins máls flokkurinn, sem VG hefur tapað um 15 % fylgi á að vera í einni sæng með, mun kosta öllu til að komast að kjötkötlunum, því að ella bíður ekkert annað en enn meiri sundrung, því að nýi formaðurinn, sem virðist við það að fara af hjörunum nú orðið, er enginn bógur til að halda saman flokki, sem glatað hefur trausti landsmanna.  Hvor stjórnarflokkanna gengur nú til kosninga í þrennu lagi, og er þar með sundrung vinstri manna innsigluð.

Merki Sjálfstæðisflokksins      

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband