Á hvítasunnu 2013

Miðað við tíðar sumarbústaðaferðir í fagurt umhverfi má búast við, að andinn komi yfir formenn borgaralegu flokkanna um hvítasunnuna, þó að hann verði fráleitt heilagur með öllu því kruðiríi, sem sögur fara af, að borið hafi verið á borð fyrir þá.  Slíkt matarræði er ekki afkastahvetjandi, en kallar á vandamál fyrir kyrrsetumenn. 

Þeim hefði verið nær að naga íslenzkar gulrætur, sem komnar eru á markaðinn, og bæta við lífrænt ræktuðum, nýjum innfluttum gulrófum.  Þá hefðu afköstin e.t.v. orðið enn meiri, þó að ekki skuli hér draga í efa aðferðarfræði formannanna til að kalla fram afurðagæði, sem öllu skipta við þessa ríkisstjórnarmyndun.  Það er virðingarvert, að þeir virðast gera sér far um að glöggva sig rækilega sjálfir á vandamálunum og virðast stika út leiðirnar, sem fara á til úrlausnar stórvöxnum þjóðfélagsvandamálum, en meira en 4 ár hafa algerlega farið í súginn, þar sem óhæft fólk hefur setið með hendur í skauti í Stjórnarráðinu, og eiginlega hvorki vitað í þennan heim né annan.  Nú síðast kom Þistilfirðingurinn fram í sjónvarpi, eins og álfur út úr hól, og svaraði út í hött um fjármál ríkisins, sem eru í ólestri enn þá, þ.e. tap er á rekstri ríkissjóðs, og skuldasöfnunin hefur verið geigvænleg.  Sem sagt alger óstjórn.   

Það hefur svo gert illt verra, að þetta óhæfa fólk vinstri flokkanna við stjórnvölinn hefur gert sér sérstakt far um að setja sand í tannhjól athafnalífsins og staðið gegn öllum málum, sem til framfara gætu horft.  Það er ein skýringin á minni fjárfestingum en nokkru sinni á lýðveldistímanum.  Það dugar ekki lengur að æpa, eins og illa upp alinn krakki, á torgum "en hér varð hrun".

Ráðherrar Jóhönnustjórnanna hafa verið holdgervingar stöðnunar þjóðfélagsins og reyndar hreykt sér af "að láta náttúruna njóta vafans", en þetta slagorð hafa þau misnotað fram úr hófi og beitt fyrir sig, þegar auðlindanýtingu hefur borið á góma.  Allir sjá, hversu ábyrgðarlaust það er gagnvart íbúum landsins að slá um sig með slíkum fullyrðingum í stað þess að rökræða áhætturnar.  Nú er að sjá, hversu afdráttarlaus stefnumörkun nýs Alþingis verður til nýrra virkjana og flutningslína.  Það er líka hægt að kynna afleiðingar nýtingar og nýtingarleysis fyrir þjóðinni og óska úrskurðar hennar í einstökum miklum deilumálum.  Hvort vill fólk búa við orkuskort, eins og nú hrjáir landsmenn á Norður-og Austurlandi, eða leyfa lagningu öflugrar línu á milli landshluta, t.d. yfir Sprengisand.  Það þarf að taka lýðræðislega ákvörðun á grundvelli staðreynda í þessu máli sem öðrum.  Nú hefur frétzt af lítilli ákomu jökla í vetur.  Verður raforkuskortur víðar á næsta ári ?     

Hér að ofan var minnzt á afköst við stjórnarmyndun í hálfkæringi, en afköst eru ekki gamanmál, heldur fúlasta alvara.  Til þess að stækka þjóðarkökuna, auka þjóðartekjurnar og það, sem er til skiptanna fyrir heimilin, þ.e. að auka ráðstöfunartekjur heimilanna, er aðeins ein leið fær: að auka afköst allra, sem vettlingi geta valdið, og þar með afköst heildarinnar. 

Það hefur verið lagt tölulegt mat á, hversu langt Íslendingar eiga í land m.v. t.d. Svía, og munar 20 % á framleiðni þjóðanna.  Á meðan svo er í pottinn búið, öflum við of lítils gjaldeyris til að geta búizt við stöðugu gengi gjaldmiðilsins.  Ef við værum með evruna núna, stæðum við frammi fyrir stórvandræðum útflutningsatvinnuveganna, og innlend framleiðsla ætti erfitt með að keppa við innflutning.  Hér væru dæmigerð kreppueinkenni nauðstaddra evrulanda með um 20 % atvinnuleysi.  Gætum við skellt skuldinni á Þjóðverja ?  Auðvitað ekki.  Hver er sinnar gæfu smiður.  Allir, sem tóku upp evruna, máttu þekkja leikreglurnar, og öllum var í lófa lagið að auka framleiðni sína með markvissum aðgerðum.  Þeir, sem höguðu sér samkvæmt Maastricht, hefur gengið vel.  Hinum hefur gengið hroðalega.  Einfeldningar jafnaðarmanna á Íslandi töldu evruna vera himnasendingu fyrir Íslendinga.  Hvílík fásinna !  Hvílík veruleikafirring !

Í ljósi mikilvægis hárrar framleiðni á öllum sviðum þjóðlífsins verða allar ráðstafanir Hvítasunnustjórnarinnar að ýta undir aukna framleiðni.  Það er þó alls ekki svo, að framleiðni í öllum geirum samfélagsins sé lág m.v. aðrar þjóðir, þó að meðaltalið sé allt of lágt.  Íslenzki sjávarútvegurinn er með mestu afköst og verðmætasköpun í heimi á hvern starfsmann.  Það þarf þó að hlúa að honum til að hann haldi forskoti sínu.  Vegna lögmálsins um hagkvæmni stærðarinnar þarf að lyfta kvótaþakinu upp í a.m.k. 20 %, en hjá Norðmönnum er það 25 %.  Þá þarf að afnema gerræðislega og eyðileggjandi gjaldtöku af greininni, en samkeppniaðilarnir erlendis hafa aldrei þurft að búa við þvílíka eignaupptökutilraun sameignarsinna sem íslenzki sjávarútvegurinn.

Íslenzki landbúnaðurinn hefur aukið framleiðni sína alveg gríðarlega með tæknivæðingu, nýjum verkunaraðferðum, ræktunaraðferðum reistum á vísindalegum rannsóknum, stækkun og fækkun búanna.  Höfundi er til efs, að nokkur landbúnaður á sama breiddargráðubili sýni hærri framleiðni en sá íslenzki.  Landbúnaðarins bíða gríðarleg útflutningstækifæri og akuryrkjutækifæri, t.d. á repju og nepju til olíuframleiðslu og fóðurframleiðslu.  Til að landbúnaðurinn geti eflzt þarf hið opinbera að gera stórátak í þrífösun sveitanna, sbr rafvæðingu sveitanna fyrir hálfri öld, um leið og loftlínur dreifikerfanna verði aflagðar á næstu 10 árum, en þær eru víða mjög farnar að líta upp á landið.  Þetta er opinber fjárfesting í innviðum landsins, sem mun skila sér í auknum gjaldeyristekjum og minni gjaldeyrisþörf til innflutnings.

Davíð Þorláksson heitir formaður SUS-Sambands ungra sjálfstæðismanna, hugsanlega hallur undir kruðirí, eins og fleiri, sbr hér að ofan. Hann reit nýlega grein í Morgunblaðið, þar sem hann lagðist gegn opinberri fyrirgreiðslu til stóriðju.  Höfundi þessa pistils er spurn: hvers vegna skyldi hið opinbera, ríki og sveitarfélög, ekki mega fjárfesta í innviðum til að búa í haginn fyrir margföldum tekjum sínum í framtíðinni á við téða fjárfestingu, búa í haginn fyrir ný fyrirtæki, sem greiða tiltölulega há laun, hækka tæknistigið í landinu, auka fjölbreytni atvinnulífsins, hlúa að sprotastarfsemi og auka gjaldeyristækjur landsins ?  Allt þetta hefur stóriðjan leitt af sér, en gegn henni og virkjunum í hennar þágu beindist gagnrýnin.  Raforkukerfi landsins án stóriðju væri ekki nema svipur hjá sjón, og orkuverð til almennings væri þá miklu hærra, en nú nýtur íslenzkur almenningur lægsta orkuverðs í Evrópu.  Þannig fær hann sína auðlindarentu beint í vasann, og allir eru sáttir.  Hvers vegna á að láta úrtölufólk komast upp með að rakka niður, leggjast þvert gegn og hindra, ef það kemst í aðstöðu til, tiltekna atvinnustarfsemi í landinu, sem er landinu ekki síður hagnýt en önnur ?  Að mála skrattann á vegginn er einkenni illa upplýstrar umræðu um athafnalífið, litlu gulu hænuna okkar allra.  

Landsvirkjun hefur verið nefnd í þessu sambandi.  Hún er alfarið í eigu ríkisins.  Hér skal taka undir það, að rétt er að afnema ríkisábyrgð af lánum Landsvirkjunar, því að slíkt getur skekkt samkeppnistöðu orkufyrirtækja hér innanlands, þó að endurgreiðslur komi til, og Landsvirkjun hefur vaxið svo fiskur um hrygg, að engin þörf er á slíkri baktryggingu skattborgaranna. 

Það má spyrja, hvort þetta eignarform hafi í alla staði góð áhrif á reksturinn, þegar viðfangsefnin, þau er hátt fara, eru gaumgæfð.  Þar má nefna sæstreng og vindmyllur, en hér skal fullyrða, að hvorugt þessara gæluverkefna gagnast eigendunum.  Þá hefur núverandi stjórnendum ekki tekizt að landa neinum samningi, sem líklegur sé til að auka virði Landsvirkjunar umtalsvert, og gæti vitlaus verðlagning átt þar hlut að máli.  Fyrir árangursleysi í ávöxtun mikilla opinberra verðmæta verður að refsa.  

Það er mjög líklegt, að fjölbreyttara eignarhald hefði heilbrigð áhrif á stefnumörkun Landsvirkjunar til langs tíma og mundi hraða virðisaukningu fyrirtækisins.  Andvirði sölu á hluta fyrirtækisins, t.d. 40 % í 4 áföngum, mundi bezt varið til lækkunar á skuldum ríkisins og gæti lækkað árlega vaxtabyrði um 10 milljarða kr eða 11 %, og munar um minni árlegan sparnað.  Slíkt er góð fjárfesting, og veldur ekki þenslu á fjármálamarkaðinum hér.

Mjög undarleg sjónarmið settu svip á afgreiðslu Alþingis á svo nefndri Rammaáætlun um verndun og nýtingu orkuauðlinda.  Þar voru borðleggjandi vatnsaflsvirkjanir settar í bið, en jarðgufuvirkjanir hafðar í nýtingarflokki.  Þetta skýtur mjög skökku við, þegar tekið er tillit til einkar lítils tjóns af völdum téðra vatnsaflsvirkjana, t.d. í Þjórsá, en alvarlegs heilsutjóns, sem H2S, brennisteinsvetni, og SO2, brennisteinstvíildi, frá jarðgufuvirkjunum geta haft í för með sér auk gæðarýrnunar á drykkjarvatni og tæringar í andrúmslofti.  Mengun frá jarðgufuvirkjunum á Suðvesturlandi í nágrenni mesta þéttbýlis landsins er nú þegar meiri en við verði unað, veldur vanlíðan og hefur slæm áhrif á heilsufar, sem veldur viðbótar kostnaði í samfélaginu, vinnutapi, lyfja- og lækniskostnaði.  Það hlýtur og verður að vera forgangsatriði viðkomandi orkufyrirtækja að draga stórlega úr þessari mengun.

Í þessu sambandi kemur sér illa fyrir íbúa Norðausturlands og er slæmt fyrir hag landsins, að ekki skuli mega virkja í Jökulsá á Fjöllum.  Ástæða er til fara í áhættugreiningu á öllum hliðum þessa máls, því að tækninni hefur fleygt fram síðan téð friðunarákvörðun var tekin.  Tryggja þarf, að lýðræðislegur vilji heimamanna og þjóðarinnar sé hafður í heiðri í þessum málum sem öðrum. 

Það er vel þekkt, að auðvelt er að sameina hagsmuni orkuöflunar og ferðamennsku.  Það er rangt, að Dettifoss yrði aðeins svipur hjá sjón eftir virkjun.  Það yrði aðeins óveruleg breyting á fossinum, þó að vatnsflæðið um hann yrði minnkað um 2/3 að jafnaði, og stórlega mundi hægja á bergsliti, sem eyðileggur fossinn með tímanum.  Vegna friðunar þessa mikla vatnsfalls er verið að kukla við jarðvarmavirkjanir, sem tæknin er ekki tilbúin fyrir, svo að allrar eðlilegrar varúðar sé gætt, bæði varðandi mengun Mývatns og hollustu andrúmslofts við Mývatn.  Íbúar Mývatnssveitar hafa eðlilega af þessum málum þungar áhyggjur, eins og fjölmennur fundur nýlega fyrir norðan leiddi í ljós.  Það dugar Landsvirkjun ekki að koma með innantómar fullyrðingar.  Henni ber að svara, hvernig hún ætlar að tryggja íbúana gegn heilsutjóni og Mývatn gegn tjóni á lífríkinu af völdum virkjana sinna.  Síðan á að spyrja íbúana, hvort þeir vilji heimila þessar virkjanir.  Landsvirkjun þarf að breyta framkomu sinni. 

Það eru tvær öflugar aðferðir þekktar til að auka framleiðni.  Önnur er miklar og arðsamar fjárfestingar, og hin er að bæta verkmenntun. Norðurál hefur lýst því yfir, að fyrirtækið sé tilbúið að fara á fulla ferð með framkvæmdir í Helguvík, þegar gengið hefur verið frá samningum um orkuafhendingu og orkuflutning.  Þar er sá hængur á, að HS-orka telur sig þurfa hærra verð en upphaflega var áætlað, og er það eðlilegt til að standa straum af nauðsynlegum mengunarvörnum.  Annar kostur er að virkja Neðri-Þjórsá fyrir Helguvík, þó að slík ráðstöfun sé umdeild.  Nýja flutningslínu þarf að reisa, hvaðan sem orkan kemur í upphafi, frá nýrri aðveitustöð í Hafnarfirði til að tengja Suðurnesin við stofnkerfi landsins.  Þar þykir orðið brýnt að færa línur að og frá aðveitustöð í Hamranesi í jörðu vegna nálægðar við byggð.  Það eru þess vegna margir, sem bíða lausnar á þessu máli, og ekki fer á milli mála, að atbeina ríkisins þarf til að leysa þennan Gordíonshnút. Eftir miklu er að slæðast fyrir ríkissjóð og fyrir Suðurnesin.

Mikil fjárfestingarþörf hefur safnazt fyrir í sjávarútvegi. Með því að hvetja til fjárfestinga og gera Ísland meira aðlaðandi fyrir fjárfesta með skattalegum ráðstöfunum og einföldun á fjárfestingarferlinu getur Hvítasunnustjórnin fljótt valdið umskiptum til hins betra í þessum efnum.  

Hitt meðalið til að auka framleiðnina er að fjárfesta í verkmenntun landsmanna.  Stjórnun menntamála hefur, eins og annað hjá vinstri stjórninni, einkennzt af stöðnun, enda versta afturhald landsins, VG, verið þar við stjórnvölinn.  Lítið sem ekkert hefur verið gert til að auka skilvirkni kerfisins, þó að mælingar sýni, að mikil sóun er í kerfinu; áherzlur eru kolrangar með þeim afleiðingum, að félagslegi geirinn útskrifar fleiri en atvinnulífið hefur þörf fyrir, en raungeirinn útskrifar allt of fáa, og áhöld eru um, hvort gæði verkmenntunar séu þau, sem brýn þörf er fyrir í athafnalífinu.  Hvítasunnustjórnin hefur í höndunum gögn til að leiðrétta stefnuna og lyfta hinni köldu hönd ríkisins af menntageiranum og leyfa þúsund blómum að blómstra.                                  

    

  

   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband