Hitnar í kolum Evrópusambandsins

Joschka Fischer heitir snarpur náungi og var utanríkisráðherra græningja hjá jafnaðarmannaforingjanum Gerhard Schröder um aldamótin síðustu.  Þeir félagar sniðu agnúa af hagkerfi Þýzkalands, sem dugði til að koma landinu á skrið eftir verð-og eignabólur í kjölfar Endursameiningar Þýzkalands 1990.  Þeir lögðu grunninn að Viðreisn Þýzkalands eftir bóluhagkerfið í kjölfar gríðarlegrar uppbyggingar austurhéraðanna.  Það var gert með ströngum aðhaldsaðgerðum. 

Fischer fylgist vel með og skrifar í blöðin.  Greinin, "Það sem grefur undan Evrópu", sem hér verður vitnað til, sýnir, að stund endalokanna nálgast fyrir ESB, eða ESB verður sambandsríki.  Í nýlokinni kosningabaráttu á Íslandi framdi forysta jafnaðarmanna það axarskapt að láta málflutning sinn hverfast um aðild Íslands að ESB.  Þetta ráðslag Samfylkingarforystunnar sýndi afdrifaríkan dómgreindarskort hennar, enda er þessi aðildarhugmynd sem steinbarn í móðurlífi Samfylkingarinnar. Andstæðingum skefjalauss aðlögunarferlis Ísland að þessu ríkjasambandi á fallanda fæti voru þessi mistök frá upphafi ljós, og jafnaðarmönnum tókst að vonum ekki að selja kjósendum á Íslandi þá hugmynd, að lausn allra vandamála fælist í að hlaupa inn í hið brennandi hús.  Ráðaleysi jafnaðarmannaforystunnar reið ekki við einteyming, og einsmálsflokkurinn á sér nú vart viðreisnar von. 

Það verða allir hérlandsmenn og Berlaymont-bændur guðsfegnir, nema Össur og Árni, beizkur, þegar nýtt Alþingi afturkallar heimild til ríkisstjórnarinnar um aðildarviðræður, sem eru í þessu tilviki rangnefni á aðlögunarferli.  Það mun senn koma í ljós, að þessar furðuviðræður hafa verið hreint húmbúkk. 

Þessi umsókn kom enda undir á röngum forsendum og er þess vegna misheppnuð.  Þegar betur árar hjá ESB og á Íslandi, verður unnt að taka upp þráðinn að nýju, en þá ekki með bjálfalegum formerkjum, eins og að "kíkja í pakkann", heldur á fullri ferð inn eftir samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu um að stefna að inngöngu, þar sem spurningin verður skýr og hnitmiðuð, en ekki loðin og teygjanleg, eins og hjá "Axarskaptinu" varðandi afstöðu þjóarinnar til draga að stjórnarskrá.  Það er nú alveg ljóst, að slík aðildarumsókn verður þá send einhvers konar samtökum, sem verða allt annars eðlis en núverandi ESB.   

Laugardaginn 4. maí 2013 var birt geysifróðleg grein í Morgunblaðinu eftir téðan J. Fischer, sem ekki skóf utan af því.  Hér eru nokkrar tilvitnanir í greinina "Það sem grefur undan Evrópu" eftir Herrn Fischer: "Minniháttar vandamál (að minnsta kosti að umfangi), eins og á Kýpur, var nóg til að gera úlfalda úr mýflugu, þegar saman fór næstum ótrúleg vanhæfni "þríeykisins" (framkvæmdastjórn ESB, Seðlabanka Evrópu og AGS)."  Og nokkru síðar: "Evrópusambandið er að liðast í sundur í kjarnanum.  Skortur Evrópumanna á tiltrú á Evrópu um þessar mundir er mun hættulegri en sá titringur á mörkuðum, sem borið hefur á á ný, enda verður hann ekki leystur með því, að Seðlabanki Evrópu auki peningamagn í umferð."

Þar sem þessi orð koma ekki frá neinum aukvisa, marka þau vatnaskil í stöðumati fyrir Evrópu.  Herr Fischer fullyrðir, að Evrópusambandið muni senn líða undir lok í sinni núverandi mynd, og ástæðan fyrir því er evran.  Forkólfar evrunnar misreiknuðu sig alveg herfilega, þegar þeir lögðu drögin að hinni sameiginlegu mynt.  Þeir litu framhjá þeirri grundvallar staðreynd, að menning þjóðanna er gjörólík, sem auðvitað blasir við þeim, sem ferðast um Evrópu.  Það má kalla þetta mismunandi skipulagshæfileika, aga og dugnað í vinnunni, sem óhjákvæmilega leiðir til mismikillar framleiðniaukningar þjóðanna.  Á þessum 14 árum, sem evran hefur verið við lýði, hefur mismunurinn á framleiðniaukningu Þjóðverja og hinna lökustu á þessu sviði orðið allt að 30 %, sem jafngildir yfirburða samkeppniaðstöðu Þjóðverja.

Joschka Fischer heldur, að hann hafi lausn á þessu á takteinum, en sú lausn er óraunhæf, af því að hún snýst um, að Þjóðverjar borgi brúsann, þ.e. niðurgreiði framleiðslukostnað annarra.  Þjóðverjar munu aldrei fallast á þetta, og þess vegna mun evran splundrast, sennilega eigi síðar en árið 2015.

Á meðan þessi ægilegu umbrot eru í Evrópu, þá grefur  efnahagskreppa um sig þar, og Evrópa sekkur nú þegar ofan í kviksyndið.  Á evrusvæðinu í heild hefur gætt samdráttar síðan í ársbyrjun 2012, og er hann nú um 2 % síðan þá, og evrulöndin gætu jafnvel lent í vítahring verðhjöðnunar.  Spánn og Ítalía eru á langvarandi samdráttarskeiði, sem hlýtur að enda með ósköpum. Á Spáni eru 67 % vinnuaflsins hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, og á Ítalíu er þetta hlutfall 80 %.  Þessi fyrirtæki búa nú við 6 % raunvexti, og það er ljóst, að þau eru að kikna undan þessu háa vaxtastigi.  Stýrivextir evrubankans eru aðeins 0,5 %, svo að sparnaður er í uppnámi, en óvissuálagið í löndum, þar sem framleiðniaukning hefur lökust verið, er þrúgandi hátt. 

Það eru svo miklir þverbrestir í hagkerfi "Evrulands", að það fær ekki staðizt.  Gjálfur hérlendra kaffihúsaspekinga um gósentíð með lága vexti, ef unnt yrði að smygla Íslandi inn um Gullna hliðið og inn í "Evruland", eins og kerlingunni tókst að smygla sálinni hans Jóns síns fram hjá Sankta Pétri, eru innantómir draumórar, fjarri öllum sanni.  Það, sem Ísland þarf, er viti borin og öguð hagstjórn og samtaka athafnalíf (vinnuveitendur og launþegar) um launahækkanir, sem fari ekki fram úr framleiðniaukningu, þannig að um varanlega kaupmáttaraukningu verði að ræða.

Joschka Fischer greindi vanda ESB rétt í téðri grein, en meðul hans munu drepa sjúklinginn, ef þau verða einhvern tímann að veruleika, sem hæpið er, að stjórnmálaleg eining náist um:

"Það hefur lengi verið ljóst, hvað þarf að gera.  Verðmiðinn á því, að myntbandalagið komist af, og þar með Evrópuverkefnið, er nánara samstarf: bankabandalag, fjármálalegt bandalag.  Þeir, sem eru þessu mótfallnir vegna þess, að þeir óttast sameiginlega ábyrgð, tilfærslu fjármuna frá ríkum til fátækra og að missa fullveldið, munu þurfa að sætta sig við endurkomu þjóðríkisins í Evrópu - og þar með brotthvarf hennar af alþjóðasviðinu.  Enginn valkostur - og svo sannarlega ekki óbreytt ástand mun þar duga."

Það er ljóst, að lausn Joschka Fischer jafngildir stöðugum straumi fjár, e.t.v.  um 300 milljörðum evra árlega, frá Þýzkalandi og hinum ríkari þjóðum, til Frakklands og suður á bóginn til hinna fátækari.  Þetta er botnlaus hít, og það veit þýzkur almenningur og mun alls ekki sætta sig við þessa ráðstöfun skattfjár.  Joschka Fischer ógnar stjórnmálamönnum og almenningi með þjóðríkinu, og í þeirri ógnun liggur, að Þjóðverjar muni ella aftur lenda í hernaðarátökum í Evrópu, eins og á dögum keisaradæmisins og Þriðja ríkisins.  Þessi ógnarsviðsetning Joschka stenzt ekki.  Hvers vegna ættu lýðræðisríki Evrópu að taka upp á því, þó að ESB hrynji, að berast á banaspjótum ?  Ríkin eru flest í NATO, og hagsmunir þeirra eru samantvinnaðir.  Hver veit, nema hugmynd Bretanna um þjóðríki, sem keppa á sameiginlegum Innri markaði, verði ofan á ?  

Seðlabankavextir 2007-2013

       

        

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir að taka grein Fischers fyrir, Bjarni. Þörf er á því og að ræða greiningu hans frekar, um björgun Evrópu og Evrunnar. Ljóst er að núverandi ástand gengur ekki, en pólitísk lausn Fischers ofl er ómöguleg, sameining Evrópu, bankanna og alls kerfisins í eitt Autokratískt sósialistabatterí (eins og það sé ekki þegar orðið til).

Ívar Pálsson, 10.5.2013 kl. 00:12

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ívar;

Sambandsríkissinnar í Evrópu líta mjög til BNA, en þeir líta þá framhjá því, að miklu meiri menningarmunur er á ríkjum Evrópu innbyrðis en á milli fylkja BNA.  Í BNA er líka miklu meiri hreyfanleiki á vinnuafli.  Sambandsríkissinnar, þ.á.m. Joschka Fischer, hafa ekki útskýrt það, hvernig þeir ætla að jafna framleiðniaukninguna á milli landanna með því að útbúa eitt ríkisvald.  Ég sé fyrir mér, að tilburðir til slíks geti hreinlega leitt til einræðistilburða ríkisstjórnar Evrulands og skerðingar á lýðræðisréttindum íbúanna.  Að öðrum kosti verður um að ræða stöðugan tilflutning skattfjár frá háframleiðnilöndum til hinna.  Hvaða vit er í slíku ?  Það er siðlaust og stórhættulegt stjórnmálalegum stöðugleika.  Slíkt fer að minna óþægilega mikið á Versalasamningana og mun vafalaust efla einræðisöfl til valda.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 10.5.2013 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband