18.9.2013 | 18:59
Sér grefur gröf, þótt grafi
Furðu gegnir, hversu hart ESB-trúboðið á Íslandi sækir það að fá þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald á umsóknarferlinu um aðildina að Evrópusambandinu. Vegna einhverrar skoðanakönnunar, þar sem spurningin sjálf var úr lausu lofti gripin, og verður þess vegna ekki sett fram í kosningum, sem gaf ESB-trúboðinu von um framhaldslíf umsóknarinnar, sækir téð trúboð nú fast á um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna.
Trúboðið veit, að verði samþykkt að halda áfram viðræðum við ESB, þá fellur ríkisstjórnin, því að hún getur ekki leitað hófanna um inngöngu, þar sem hún er alfarið andvíg slíku. Geðklofarnir í Vinstri hreyfingunni grænu framboði (VG) fóru létt með slíka kúvendingu, enda var valdaþráin komin á sjúklegt stig, eins og fram kom í Búsáhaldabyltingunni. Eftirtekja VG er að vonum rýr, þar sem flokkurinn og formaður hans eru trausti rúin.
Ef slík þjóðaratkvæðagreiðsla verður haldin á þessu kjörtímabili, verður spurningin á atkvæðaseðlinum örugglega ekki, hvort þú viljir, að "samningaviðræðum við ESB" verði fram haldið og til lykta leiddar, svo að meta megi innihaldið, enda er það blekking, heldur hin, hvort þú viljir halda aðlögunarferlinu áfram til undirbúnings aðildar að Evrópusambandinu. Það er hin rétta spurning með vísun til skilgreiningar Evrópusambandsins sjálfs á ferlinu, sem hefst með umsókn um aðild ríkis að ESB.
Þá verður kjósendum gerð skilmerkileg grein fyrir "árangri" samningaviðræðnanna til þessa, og fyrir því, hvað það þýðir fyrir atvinnuvegi landsins, t.d. sjávarútveg og landbúnað, að gangast undir jarðarmen "CAP-Common Agricultural Policy" og "CFP-Common Fishery Policy", sem eru grundvallarreglur um landbúnaðarstefnu og sjávarútvegsstefnu, sem ekkert land getur samið sig undan til lengdar.
ESB-trúboðið er haldið sjálfseyðingarhvöt, að það skuli ímynda sér, að meirihluti kjósenda gjaldi jáyrði við slíkri spurningu. Flestir kjósendur núverandi stjórnarflokka og sennilega meirihluti kjósenda Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs munu hafna áframhaldandi aðlögun að regluverki ESB, sem einnig þýðir, að Ísland selur sig undir agavald og boðvald hinnar sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB, þar sem fiskveiðistefnan er jafnframt fólgin. Ísland yrði ekki lengur strandríki í skilningi alþjóðalaga, heldur yfirtæki ESB slíkt hlutverk. ESB mundi eftir það skammta Íslandi skerf af flökkustofnum, sem framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála leggur til og leiðtogaráðið samþykkir. Er líklegt, að óbilgirni ESB í garð Íslendinga mundi verða minni eftir inngöngu en á skeiði, þegar ESB reynir að lokka landsmenn til fylgilags við sig með ýmsum ráðum, þ.á.m. með því að bera á þá fé. Samstarfi við Færeyjar og Grænland með ríku innihaldi lyki daginn, sem Ísland gengi í ESB. Af sögulegum og hagsmunalegum ástæðum er innganga Íslands í ESB í sinni núverandi mynd ríkjasambands útilokað, hvað þá verði þróunin áfram í átt að sambandsríki, en vendipunktur í þeirri þróun kann að vera í nánd.
Í ljósi þessa og þess, hversu ókræsilega ESB horfir nú við Íslendingum af mörgum ástæðum, má ætla, að svo rækilega yrði gengið frá ESB-trúboðinu í kosningabaráttunni, þar sem aðildarandstæðingar mundu hvergi draga af sér, heldur berjast á bæði borð, þ.e. bæði til hægri og vinstri, unz yfir lyki, að ESB-trúboðið ætti sér ekki viðreisnar von.
Þegar skýrslan um stöðu ESB-viðræðnanna og stöðu og þróun ESB hefur verið birt almenningi og rædd á Alþingi, mun Alþingi taka afstöðu til framhaldsins, þ.e. hvort umsóknin verður afturkölluð, viðræðuhlé framlengt ótímabundið, eða viðræður teknar upp að nýju. Vonandi verður fyrsti kosturinn fyrir valinu. Ef miðkosturinn verður fyrir valinu, munu ESB-aðildarsinnar halda áfram sínu hvimleiða jarmi. Ef síðasti kosturinn verður fyrir valinu, verður um þá ákvörðun þjóðaratkvæðagreiðsla, og munu þá hvergi verða spöruð þau hin breiðu spjótin. Trójuhestar verða gerðir óskaðlegir í þeirri viðureign.
Þann 3. september 2013 skrifaði Bretinn Marta Andreasen grein í Morgunblaðið undir heitinu, "Reynslan hefur kennt mér að efast um elítuna í Brussel".
Hún skýrir þar frá því, að hún hafi gert sér háar hugmyndir um Evrópusambandið-ESB og talið það vinna að framgangi háleitra hugsjóna í þágu friðsamlegrar sambúðar og aukinna viðskipta á milli Evrópuríkjanna. Hún hafi þess vegna ráðizt til starfa hjá bákninu í Berlaymont, en fljótlega orðið fyrir gífurlegum vonbrigðum með vinnuveitandann. Í Berlaymont ríki mikil spilling, og kerfiskarlar liggi þar þversum á fleti fyrir og hindri allar umbætur. Hér minnir margt á frásagnir af skrifræðisbákninu í Kreml á tímum alræðis öreiganna. Dæmi um siðferðið í Berlaymont eru eftirfarandi orð Mörtu Andreasen:
"Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins freistar þess að ná til sín eins miklu skattfé íbúa Evrópu og kostur er, vegna þess að fjármagn er lykilþáttur í að afla stuðnings vítt og breitt um álfuna. Framkvæmdastjórnina varðar lítt um, hvernig skattfé er eytt, á meðan henni er sýnd tryggð fyrir "gjafmildina"."
Íslendingar kannast við þetta fyrirbrigði á formi svo kallaðra IPA-styrkja, sem eru til að greiða fyrir aðlögun stjórnkerfis umsóknarríkja að kröfum ESB. Að láta sér detta sú firra í hug að þiggja ölmusu frá ESB til að liðka fyrir aðlögun Íslands að stjórnkerfi ESB, lögum þess, reglugerðum og tilskipunum, sýnir fádæma siðleysi utanríkisráðherrans þáverandi, Össurar Skarphéðinssonar, vegna þess að slík aðlögun hafði aldrei verið samþykkt af eina aðilanum, sem getur tekið svo stóra ákvörðun, Alþingi, og slík aðlögun er að öllum líkindum í óþökk meirihluta þjóðarinnar. Hvernig í ósköpunum stóð á því, að Vinstri hreyfingin grænt framboð lét slíkt yfir sig ganga, er hulin ráðgáta ? Á að trúa svo einfeldningslegri röksemd, að VG hafi metið það meira, að fyrsta hreinræktaða vinstri stjórnin sæti heilt kjörtímabil ? Þá er forysta Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs gjörsamlega dómgreindarlaus og í engu treystandi, eins og Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi Alþingismaður og iðnaðarráðherra, hefur sýnt fram á í blaðagrein í sumar.
Gríðarleg sóun á sér stað á skattpeningum íbúa ESB, þegar framkvæmdastjórnin setur fé í alls konar gæluverkefni, aðallega í jaðarríkjunum, og sést oft lítill árangur af þeim fjárveitingum, enda er eftirfylgnin í skötulíki, eins og Marta Andreasen lýsir í greininni. Þessu fylgir ómæld spilling, og lendir skattfé greiðsluríkjanna að töluverðu leyti ofan í vasa auðmanna, sem lítið sem ekkert hafa til þess unnið. Ekki er kyn, þó að óánægjan með ESB og óvinsældir búrókratanna magnist nú í öllum aðildarlöndunum. Það er bara spurning um, hvenær upp úr sýður.
Megnið af fjárveitingunum, um 40 %, fer til landbúnaðarmála, og lendir bróðurparturinn í vasa stórjarðeigenda, sem fá greiðslur fyrir að nýta ekki framleiðslugetu sína, en á Íslandi þurfa menn hins vegar að kaupa sér framleiðslurétt, kvóta. Er ekki kominn tími til að endurskoða kvótakerfið í íslenzkum landbúnaði í ljósi vaxandi samkeppnihæfni íslenzks landbúnaðar á erlendum mörkuðum, því að þessi kvóti var settur á vegna offramleiðslu, þegar heimsmarkaðurinn var að mestu lokaður ?
Kína er dæmi um land, sem ekki getur brauðfætt sig, en íbúarnir eru að öðlast nægan kaupmátt til að geta greitt viðunandi verð fyrir íslenzkar landbúnaðarvörur. Það eru miklir möguleikar fólgnir í nýjum viðskiptasamningi við Rauða-Kína á þessu sviði, með sjávarafurðir og með iðnvarning. Í viðskiptastríði við Evrópusambandið, eins og kann að vera í uppsiglingu, er ómetanlegt að geta leitað til austurs og vesturs.
Kvótakerfið var sett á íslenzka landbúnaðinn vegna offramleiðslugetu hans m.v. innlendan markað. Þróunin hefur orðið, eins og til var ætlazt, þ.e. búum hefur fækkað stórlega og framleiðni búanna hefur vaxið gríðarlega og sömuleiðis gæðin. Íslenzki landbúnaðurinn stríðir ekki við sama vandamál og sjávarútvegurinn varðandi takmarkaða auðlind. Landið er nægilega gjöfult til að landbúnaðurinn getur með núverandi tæknistigi sínu margfaldað framleiðsluna. Hann þarf að geta framleitt ofan í 1,5 milljón erlenda túrhesta, þar sem hver um sig dvelur að meðaltali 10 daga. Það jafngildir 13 % íbúafjölgun í fæði hérlendis allt árið.
Ferðamannaiðnaðurinn getur hrunið, eins og hendi sé veifað. Samt þarf að fara út í miklar fjárfestingar til að geta tekið við þessum feiknafjölda, og landbúnaðurinn þyrfti að geta selt umframframleiðslu sína erlendis, þegar ferðamennskan tekur dýfur. Það væri hins vegar óskynsamlegt, þó að miklir markaðir mundu opnast á morgun, að fara út í miklar fjárfestingar vegna framleiðsluaukningar, því að slíkir markaðir geta lokast, eins og hendi sé veifað. Nóg er, að ákvörðun verði tekin á stórum markaðssvæðum að leyfa ræktun og neyzlu erfðabreyttra matvæla. Þá eykst framleiðslan þar mikið, en er það heilnæmt til lengdar ?
Svipað gerðist í fyrra með álið. Vestræn álfyrirtæki juku mikið framleiðslugetu sína og sáu fyrir sér ævintýralegan markaðsvöxt í Kína, en vöruðu sig ekki á því, að samtímis byggðu Kínverjar ný álver í Kína í miklum móði. Þetta endaði með offramleiðslu og verðfalli, sem sér ekki fyrir endann á fyrr en árið 2016. Þangað til lepja álframleiðendur dauðann úr skel, og sumir hafa hvorki bolmagn til eins né neins. Hið sama gæti gerzt í landbúnaði, t.d. ef Kínverjar taka upp á því að rækta erfðabreytt matvæli. Við það eykst framleiðslugetan á hverja flatareiningu, en það er beygur í mörgum varðandi heilnæmi slíkra matvæla, og íslenzkur landbúnaður ætti að halda sig frá slíku, en leggja höfuðáherzlu á gæði og náttúrulegt heilnæmi. Hægt stígandi lukka er affarasælust.
Sömuleiðis ber að stemma stigu við fjölda ferðamanna með verðhækkunum, þar til ráðstafanir hafa verið gerðar til að verjast landspjöllum af völdum ágangs ferðamanna. Það gerist með göngustígum og með því að selja þeim aðgengi að hverjum stað. Verðið ræðst þá af framboði og eftirspurn og gæti verið breytilegt eftir árstíma og staðsetningu. Ferðamenn eru nú þegar orðnir umhverfisvandamál vegna slælegrar skipulagningar og sofandaháttar yfirvalda. Yfirvöld ferðamála eru svo lágskreið, að þau hafa heykzt á að gera tillögu til ráðherra um form gjaldtökunnar. Er einhver þörf á slíkum ríkiskontórum ?
Aftur að athugun téðrar Mörtu á fjárframlögum ESB til ríkja, sem voru talin þurfa að þróa innviði sína til að virka vel á Innra markaði ESB, sem er merkasta framlag ESB til Evrópu. Hún hefur séð skattpeninga borgunarríkjanna í norðurhlutanum fara í súginn, enda hefur ársuppgjör á fjárhagsbókhaldi ESB ekki hlotið samþykki löggilts endurskoðanda í háa herrans tíð:
"Fjárframlög ESB eiga að stuðla að hagvexti aðildarríkja. En hvað gerðist í Grikklandi, svo að dæmi sé tekið. Grikkir fengu 60 milljarða evra í uppbyggingu innviða samfélagsins á árunum 1998-2008. Hvert fóru þessir peningar ? Svarið er, að það veit enginn. Þeir fóru í botnlausa hít. Hvert fóru 70 milljarðar evra, sem voru eyrnamerktir Portúgal ? Hvert fóru 80 milljarðar evra, sem voru eyrnamerktir Ítalíu ? Hvert fóru 120 milljarðar evra, sem voru eyrnamerktir Spáni ? Öll eiga þessi ríki í djúpstæðum vanda þrátt fyrir, að fé hafi verið mokað inn í þau."
Þetta eru svakalegar lýsingar á gjörspilltu embættismannakerfi ESB í Berlaymont. Búrókratarnir hafa undirtökin og halda stöðum sínum, þó að framkvæmdastjórar og ráðherrar komi og fari. Þetta fyrirkomulag minnir mjög á lýsingarnar frá Ráðstjórnarríkjunum, sálugu, enda er Marta Andreasen, fyrrverandi aðalbókari framkvæmdastjórnar ESB, þeirrar skoðunar, að báknið í Brüssel, þ.e. ESB í sinni núverandi mynd, muni falla.
Það mun ekki verða meirihluta Þjóðverja harmdauði samkvæmt nýlegri könnun í Þýzkalandi á afstöðu Þjóðverja til ESB. Niðurstaða hennar er sú, að afstaða Þjóðverja til ESB leitar nú í sömu átt og afstaða Breta, þó að enn kæri meirihluti Þjóðverja sig ekki um úrsögn Þýzkalands úr ESB, eins og meirihluti Breta, sem kýs framtíðar tilveru utan ESB.
Marta þekkir vel til framkvæmdar sjávarútvegsstefnu framkvæmdastjórnar ESB og afleiðinga hennar fyrir strandbúa og lífríki sjávar. Dæmigert Ráðstjórnarkerfi ríkir í sjávarútvegi aðildarríkja ESB, sem kraumandi óánægja er með víða, t.d. á Bretlandseyjum:
"Ég vil nefna sem dæmi sameiginlega fiskveiðistefnu ESB, sem ég efast ekki um, að Íslendingar eru lítt hrifnir af. Raunar lýsti fiskveiðikommissarinn sjálf því yfir á síðast liðnu ári, að stefnan væri misheppnuð. Skömmu áður en Maria Damanaki gaf út yfirlýsingu sína, hafði ég tekið þátt í að gefa álit um afleiðingar sjávarútvegsstefnunnar, þar sem fram kom, að 1,7 milljörðum evra hafði verið kastað á glæ með úreldingu skipa með engum sjáanlegum árangri, að 90 % fiskistofnanna eru ofveidd og 100 þúsund störf hafa glatazt í sjávarútvegi. Óháðir sérfræðingar köstuðu sökinni á þessari sóun að mestu á framkvæmdastjórn ESB. Þeir gagnrýndu hana fyrir slakleg vinnubrögð og óskýrar reglur um fiskveiðar. Í þingsáliti komst ég að þeirri niðurstöðu, að fiskveiðistefnan stuðlaði ekki að verðmætasköpun, heldur sóun. Hún væri dragbítur á fiskiðnað í Evrópu. Hana ætti að leggja niður, af því að hún væri sóun á almannafé."
Þegar þessi yfirlýsing innanbúðarmanns á gjaldþroti hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB er lesin, ætti öllum að verða ljós skýringin á því, að hvorki ESB né "íslenzka samninganefndin" sáu sér fært að opna kaflann um landbúnað og fiskveiðar, svo að Íslendingar gætu hafið aðlögun sína að hinni handónýtu og stórskaðlegu fiskveiðistefnu ESB. Þá hefði nú heyrzt hljóð úr horni ofan af Íslandi, því að kúvending yrði þá hjá sjávarútveginum.
Þar sem hann er öflugasta tekjulind þjóðarinnar, sem stendur undir 40 % útflutningsteknanna, er fullkomið óráð að fara út í einhvers konar tilraunastarfsemi með hann. Kvótakerfið, íslenzka, hefur komið í veg fyrir ofveiði á stofnum í íslenzku lögsögunni og straumlínulagað útgerðirnar, svo að þær eru reknar með hæstu þekktu framleiðni nokkurs sjávarútvegs, og skila íslenzku útgerðirnar bæði eigendum og þjóðarbúi dágóðum arði að meðaltali, en þessi umsögn á ekki við um þær allar.
Allt þetta vildi og vill Össur Skarphéðinsson setja í uppnám gegn því að fá einn framkvæmdastjóra í Brüssel og örfáa þingmenn á Evrópuþinginu auk setu í leiðtogaráðinu. Hann vill taka gríðarlega áhættu fyrir hönd Íslands með sjávarútveg og landbúnað gegn mjög hæpnum ávinningi. Að sigla þjóðarskútunni inn í þennan ólgusjó gríðarlegrar óvissu á báða bóga er algerlega þarflaust tiltæki og er í rauninni sálfræðilegt viðfangsefni að finna haldbæra skýringu á.
Tal um nýjan gjaldmiðil í þessu sambandi stendur á brauðfótum, því að við yrðum ekki hænufeti nær evrunni við inngöngu. Þar að auki hefur engin rannsókn farið fram á því, hvort hérlendis yrði meiri hagvöxtur eða minni eftir slík gjaldmiðilsskipti. Bretar rannsökuðu þetta fyrir sitt leyti og komust að hinu gagnstæða; á Bretlandi yrði minni hagvöxtur með evru en sterlingspundið. Það kostar klof að ríða röftum og að vera í myntbandalagi með Þýzkalandi er ekki heiglum hent um þessar mundir, hvað sem verður, ef/þegar Þjóðverjum tekur að fækka hratt, af því að þeir kjósa fremur að eiga hund en barn.
Það var svínslegur leikur til að þreyta fiskinn að bíða með sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflann þar til í lokin, svo að þjóðin stæði frammi fyrir "fait accompli", fullnaðaraðlögun á öllum öðrum sviðum, fjöldi fólks kominn á spena ESB undir merkjum IPU eða öðrum, og þess vegna yrði ekki talið við hæfi að neita ESB um lokahnykkinn, aðlögun að "Common Fishery Policy, CFP, og CAP, Common Agriculture Policy". Aðildarumsókn og aðildarferli voru þannig mörkuð blekkingum og svikum hins fláráða Össurar Skarphéðinssonar frá upphafi til enda.
Réttast væri, að Alþingi fæli ríkisstjórninni haustið 2013 að falla frá umsókninni, sem kreist var út úr Alþingi 16. júlí 2009 með meiri harmkvælum en sögur fara af í samskiptum við erlend ríki síðan á Kópavogsfundinum 28. júlí 1662, er höfðingjar Íslands sóru einvaldskonungi Danaveldis hollustueiða grátandi undir fallbyssukjöftum danska flotans og illvígum ófbeldishótunum. Þeir vissu, hvað þetta þýddi, en gátu ekkert að gert. Vítin eru til þess að varast þau.
Ef aðstæður breytast og aðildarríkin endurheimta fullveldi sitt, eins og Bretum er umhugað, gætu skapazt forsendur fyrir því að sækja um aðild að annars konar fyrirbrigði en núverandi ESB, en þó aðeins eftir heimild þjóðarinnar fyrir slíkri umsókn í almennri atkvæðagreiðslu. Núverandi ríkisstjórn og þingmeirihluti hennar vilja ekki ganga í Evrópusambandið, og þess vegna er alveg út í hött, að þessir aðilar beiti sér fyrir atkvæðagreiðslu þar um. Þetta var kosningamál 27. apríl 2013, og þess vegna er ekki lýðræðislegt að kjósa um þetta aftur fyrr en ríkisstjórn og Alþingi snýst hugur.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Fjármál | Facebook
Athugasemdir
Ser grefur gröf, sem grefur.
Her er att vid, ad ef thu villt ödrum illt. Mun ther sjalfum illt farnast.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 19.9.2013 kl. 14:01
Þakka þér fyrir góða og skilmerkilega grein Bjarni. Þau sjónarmið sem þú setur hér fram þurfa að heyrast sem víðast.
Hafðu þökk fyrir.
Tómas Ibsen Halldórsson, 19.9.2013 kl. 14:12
Sæll Bjarni
Þetta er rökfastur og í alla staði frábær pistill, sérdeilislega það feitletraða og enn fremur það rauðletraða og hittir beint í mark, ef dæma má af fyrstu sjáanlegum viðbrögðum ESB áhangenda
Jónatan Karlsson, 19.9.2013 kl. 18:10
Sæll nafni, Örn Hansen;
Þegar ég valdi þessari vefgrein fyrirsögn, hafði ég í huga fyrirgang þeirra, sem mjög tala nú fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald inngönguferlisins, sem hófst með umsókninni um aðild að Evrópusambandinu. Þeir munu falla á eigin bragði, ef slíkar kosningar verða haldnar áður en leyst hefur verið úr yfirþyrmandi vandamálum ESB. Þetta tel ég vera inntak málsháttarins.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 19.9.2013 kl. 18:24
Sæll, Tómas Ibsen;
Það má furðu gegna eftir skýr kosningaúrslit 27. apríl 2013 og kýrskýran sáttmála ríkisstjórnar, hvað afstöðuna til ESB varðar, að hávær krafa sé þá uppi um að greiða atkvæði eigi síðar en í næstu sveitarstjórnarkosningum um framhald umsóknarinnar um aðild að Evrópusambandinu. Þetta fár ríður yfir á sama tíma og ESB sýnir heldur betur tennurnar. Er skýringanna að leita í ótta ESB-sinna við að horfast í augu við greinargerð um árangursleysi fjögurra ára samningaferlis við ESB og niðurstöður rannsóknar á stöðu og horfum ESB ? ESB-sinnar eru brjóstumkennanlegir í umkomuleysi sínu úti á berangri hugsjónaleysis og þýlindis.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 19.9.2013 kl. 18:42
Sæll, Jónatan;
Marta varð okkur hvalreki. Hún er einstæð og hægt að gera sér mat úr minni feng. Hún er í hópi fjölmargra Breta, sem endursemja vilja við ESB til að endurheimta völd frá Brüssel til London. Síðan verður þjóðaratkvæðagreiðsla um veru Bretlands í ESB. Þjóðverjar vilja ekki missa Breta útbyrðis, því að þá skekkist valdahlutfallið á milli norðurs og suðurs. Við eigum eftir að sjá gjörningaveður innan ESB, þar sem Berlín (Mutti) mun taka af skarið með einum eða öðrum hætti.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 19.9.2013 kl. 18:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.