Hindranir á vegi atvinnusköpunar

Akkilesarhæll Axarskaptsins í Stjórnarráðinu 2009-2013 var mikið atvinnuleysi, landflótti og lítil atvinnuþátttaka, þ.e. lág nýting á tiltæku vinnuafli.  Þetta er ávísun á ófremdarástand í þrælskuldsettu samfélagi. 

Það er fernt, sem málsvarar lítilla og meðalstórra fyrirtækja, með starfsmannafjölda 2-249 manns, töldu nýlega helzt standa vexti og viðgangi fyrirtækja sinna fyrir þrifum, og þar með draga úr nýráðningum þessara fyrirtækja, sem eru hryggjarstykkið á vinnumarkaðinum.  Tvö þessara atriða voru og eru trúaratriði vinstri flokkanna að auka sem hraðast í þjóðfélaginu (1,3):

  1. Skattar
  2. Háir vextir
  3. Regluverk í anda ESB (EES)
  4. Stjórnmálalegur og efnahagslegur óstöðugleiki

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Axarskaptið hækkaði skatta á síðasta kjörtímabili í á annað hundrað skipti.  Í hallæri, eins og þá var, gera skattahækkanir aðeins illt verra, lama framtak einstaklinga og fyrirtækja og magna upp svarta markaðinn, svo að hann grasserar nú hugsanlega sem aldrei fyrr, svo að viðkomandi skattstofnar skreppa saman.  Skattahækkanirnar, hvort sem um var að ræða tekjuskatt, virðisaukaskatt eða annað, skiluðu sér engan veginn í ríkissjóð, og varað var við því.  Hins vegar lömuðu þær neyzlu og framtak, og skilja má á ríkisskattstjóra, að hann telji skattaundanskot vera með mesta móti nú.  Axarskaptið lamaði hagkerfið og lengdi þar með í krepputíðinni.  Hjólum atvinnulífsins er erfitt að koma í gang aftur, ef þau festast.  Sameignarsinnar hafa kastað sandi í tannhjólin, svo að gangverkið er bilað.  Það sannast jafnvel á Landspítalanum.  Þar er greinilega við bilað gangverk að glíma.  Að vera valdur að því er gríðarlegur ábyrgðarhluti.  Ekki verður á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur logið. 

Vinstri menn hafa að sjálfsögðu ekki séð að sér, því að þá mundu þeir vissulega láta af sinni stjórnmálalegu villutrú.  Hræsnin og lýðskrumið keyra þó um þverbak hjá vinstri græningjanum Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, afturhaldsfyrirbrigði í þingmannslíki, þegar hún leggur til sérstakan viðbótar skatt á útgerðina, sem eyrnamerktur verði sjúkrageiranum.  Hér er um hræsni á háu stigi að ræða, af því að téður þingmaður hreyfði hvorki legg né lið á síðasta kjörtímabili til stuðnings sjúkrageiranum.  Þvert á móti lagði hún öllum niðurskurðarhugmyndum lið.

Hér er ennfremur um tilraun til lögbrots að ræða, af því að hún mismunar fyrirtækjum herfilega; Lilja Rafney vill þverbrjóta jafnræðisreglu við skattheimtu og jafnframt vill hún brjóta á atvinnuréttindum útgerðarmanna, en viðbótar skattheimta mundi sannanlega gera þeim erfitt um vik við að stunda sína atvinnustarfsemi, svo að minni útgerðir mundu sennilega lognast út af.  Veiðileyfagjöldin eru ekki skattlagning, heldur eignaupptaka vegna þess, hvernig í pottinn er búið.  Það mun koma í ljós fyrir dómstólum, verði látið á það reyna, að aðferðarfræðin við álagningu veiðileyfagjalda var og er kolólögleg.  Að brúka framlegð fyrirtækja sem skattaandlag er fordæmalaust á Íslandi, en kann að hafa verið tíðkað í Deutsche Demokratische Republik, DDR, sem varð gjaldþrota, eins og kunnugt er.  Tillaga Lilju Rafneyjar er lýðskrum, af því að hún ætlar að kúga fé út úr litlum minnihluta og sáldra því yfir starfsemi, sem margir þurfa á að halda og kostuð er af skattgreiðendum að mestu leyti.

Að skattleggja starfsemi svo grimmilega sem raun ber vitni um í tilviki sjávarútvegsins, dregur úr hagvexti, dregur úr vinnuframboði og eyðileggur samkeppnihæfni fyrirtækjanna á erlendum mörkuðum á skömmum tíma.  Hér er því verið að leika sér með fjöregg landsins.  Við svo búið má ekki standa.  Þess vegna er stefna núverandi stjórnvalda skynsamleg að hefja þá vegferð að létta skattaáþjánina á tíma, þegar hagvöxtur á næsta ári virðist ætla að verða dapurlega lágur og 1,0 % undir væntingum.  Hagkerfi Íslands er freðið, þó að vonandi sé það tekið að þiðna, og árferðið er slæmt í hagkerfi heimsins.

Í Viðskiptablaði Morgunblaðsins, fimmtudaginn 10. október 2013, er viðtal við Gunnþór Ingvason, forstjóra Síldarvinnslunnar á Neskaupstað.  Hann hefur eftirfarandi að segja um "skattaívilnanir til sægreifa", sem ýmsar mannvitsbrekkur telja Laugarvatnsstjórnina "seka" um, þar á meðal téð Lilja, en núverandi þing breytti ótækum og óframkvæmanlegum lögum sameignarsinna um eignaupptöku til bráðabirgða:

"Staðreyndin er sú, að, t.d. hér hjá okkur í Síldarvinnslunni, hafa veiðigjöld hækkað um 150 Mkr fyrstu 8 mánuði ársins, og þá er ég að tala um það, sem núverandi ríkisstjórn lagði á, í samanburði við það, sem fyrri ríkisstjórn lagði á.  Veiðigjöldin fyrstu 8 mánuðina á þessu ári á uppsjávarfiskiskip Síldarvinnslunnar voru 197 milljónir kr á skip samkvæmt núverandi lögum.  Svo breytti núverandi stjórn álagningunni.  Ríkisstjórnin, sem ætlaði sér að laga allt og reikna upp á nýtt, þannig að við borgum af þessum uppsjávarafla 290 milljónir kr.  Það er þannig verið að taka af okkur 18 %-19 % af tekjum beint í veiðigjöld." 

Það sjá allir góðviljaðir og sanngjarnir menn, að þarna er farið offari og að þarna á sér raunverulega stað þjóðnýting á afrakstri fyrirtækjanna, þó að þeim sé leyft að starfa áfram með óbreytt eignarhald.  Hér er rétt einu sinni á ferðinni sósíalismi andskotans.  Mikil er trú þeirra kvenna og karla, sem ganga með þær grillur, að slík skattheimta sé sjálfbær og skili ávinningi fyrir ríkissjóð til lengdar.  Það er óráð fyrir ríkissjóð að stunda afrán með þessum hætti, og verður að fella skattlagningu á sjávarútveg að því, sem tíðkast um aðra atvinnuvegi, þ.e. að skattaandlagið verði hagnaður fyrirtækjanna í stað framlegðarinnar.  

Þessi meðferð yfirvalda á undirstöðuatvinnuvegi landsins er sárgrætileg í ljósi lækkandi afurðaverðs hans og harðnandi samkeppni á erlendum mörkuðum, t.d. við Norðmenn (og Íslendinga í Noregi).  

Axarskaptastjórnin kvarnaði látlaust úr aflahlutdeildarkerfinu með magvíslegum sértækum ráðstöfunum, sem stjórnlyndra stjórnmálamanna með skammsýn og þröngsýn og jafnvel nærsýn viðhorf er háttur.  Varanlegt aflahlutdeildarkerfi með frjálsu framsali hefur reist útgerðina úr öskustó.  Þetta kerfi beygir sig undir vísindalega stjórnun á nýtingu sjávarauðlindarinnar, og umgengnin við hana er með bezta móti.  Þetta eru staðreyndir, sem blasa við og eru engan veginn séríslenzk fyrirbæri. 

Enginn á óveiddan fisk í sjó, enda eru miðin almenningur, en úthlutaðan veiðirétt eiga útgerðirnar, enda hafa þær keypt hann, og dómar kveða veiðiréttinn veðhæfan.  Slíkt er mikils virði fyrir fjárfestingargetu útgerðanna, sem eru fjármagnsfrekar nú á tímum.  Þeirra hagur er þjóðarhagur, þ.e., að stunduð sé sjálfbær nýtingarstefna.

Þess vegna þarf engum að koma á óvart frábær rekstrarárangur útgerða og fiskvinnslu.  Tæknin hefur verið tekin í þjónustu sjávarútvegsins, og há framlegð, sem nam 80 milljörðum kr árið 2012, notuð m.a. til að auka framleiðni og gæði, en ekki, eins og öfundarmenn útgerðar, fáránleikaboðberar og rógtungur, halda fram, til að fjárfesta í óskyldum greinum.  Þessu til stuðnings skal vísa til nýlegrar skýrslu Landsbankans um stöðu sjávarútvegs, en þar kom fram, að óverulegur hluti hagnaðar sjávarútvegs hafi farið í óskyldar greinar.  Hælbítar greinarinnar hafa gert úlfalda úr mýflugu, eins og þeim er tamt. 

Þó er verulegt átak framundan við endurnýjun veiðiskipastólsins, sem er orðinn a.m.k. tvöfalt eldri en sá norski, svo að dæmi sé tekið.  Útgerðarmenn hafa undanfarin misseri neyðzt til að kaupa notuð skip frá Noregi.  Það er bæði synd og skömm.  Íslenzkum sjómönnum, sem eru þeir duglegustu, sem þekkist, ber ekkert minna en bezta tækni, "state of the art technology".

Í nýrri skýrslu Íslandsbanka um stöðu íslenzka sjávarútvegsins kemur fram, að framlegð hans (EBITDA) árið 2012 var 26 % af veltu.  Þetta er það, sem starfsemin hefur upp í fastan kostnað sinn, og þessi hlutfallstala, sem er meðaltal sjávarútvegsins í heild, er lögð til grundvallar álagningu hins sérstaka veiðileyfagjalds, sem á sér engan sinn líka um víða veröld, enda kokkað upp í andlega og fræðilega gjaldþrota búi Steingríms og kumpána, sem sumum hverjum (Indriði H. Þorláksson) voru innrætt hin marxistísku fræði um alræði öreiganna í DDR, og hvernig ætti að gera út af við auðvaldið.  Þetta var ómálefnaleg álagning, af því að miðað var meðaltalsframlegð greinarinnar, og þess vegna studdist hún ekki við lagaheimildir.  Allt reyndist öreigatalið froðusnakk og gervifræði, hvort sem valinn er snöggur eða hægfara dauði.  Þess má geta, að sjávarútvegurinn er ekki hálfdrættingur á við áliðnaðinn, hvað framlegðina varðar, enda eru álverksmiðjur gríðarlega fjármagnsfrekar.  Steingrímur hefur jafnvel fundið þeim það til foráttu, þó að það sé eitt af því, sem viðheldur starfsemi þeirra og eykur þar með stöðugleika.  Menn hlaupa ekki svo glatt frá slíkum fjárfestingum.   

Nú verður vitnað í Gunnar Þórðarson í Fiskifréttum, fimmtudaginn 3. október 2013:

"Einnig kemur fram í skýrslunni (Íslandsbanka), að fjárfesting hafi verið langt undir því, sem eðlilegt gæti talizt m.v. afkomu í greininni.  Íslandsbanki telur ástæðurnar vera margþættar og nefnir fyrst óvissu síðustu ára vegna aðgerða stjórnvalda, og eins hafi fyrirtæki lagt áherzlu á að greiða niður skuldir. 

En fyrst og fremst sé ástæðan mikil óvissa, hvað fiskveiðistjórnunarkerfið varði, og hvers konar kerfi verði við lýði í framtíðinni.  "Ríkisstjórnin hafi sett fram nokkuð dramatískar breytingar á þessum tíma, þó að frumvarp um breytingar hafi ekki náð fram á þingi.  Þetta hafi dregið úr löngun manna til að keyra áfram, enda vilji menn vita, hvað er framundan."  Í skýrslunni er hvergi minnzt á misfarir stjórnenda með hagnað." 

Vinstri stjórnin vann skemmdarverk á sjávarútveginum með þjóðnýtingarstefnu sinni, sem hún hafði uppi alls konar fagurgala um.  Þetta voru dæmigerð afskipti forsjárhyggjumanna, sem sjást ekki fyrir og eru óttalegir óvitar, þegar kemur að því að verja hagsmuni almennings. Eftir stendur atvinnuvegur í sárum og í svo mikilli óvissu um framtíð sína, að hann hefur haldið að sér höndum, og atvinnusköpun hefur liðið fyrir það.  Það er eitt af meginhlutverkum hinnar borgaralegu ríkisstjórnar, sem nú er við völd, að sjá til þess, að allar atvinnugreinar sitji við sama borð af hendi löggjafa og skattayfirvalda og að öryggi og festa skapist með nýrri löggjöf um sjávarútveginn, sem taki mið af hlutlægu mati á árangri mismunandi kerfa fyrir þjóðarheildina, en ekki tilfinningaþrunginni, heimabrasaðri dellu, sem sækir fóður í ómerkilegar hvatir á borð við öfund.  Að öðrum kosti munu fjárfestar sjá hag sínum betur borgið annars staðar, og þá mun undirstöðuatvinnuvegur landsins grotna niður, sem aldrei má verða.                  

Frédéric Bastiat, rithöfundur

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband