6.11.2013 | 21:14
Hvítbók um hvítflibba í Brüssel
Það vakti athygli á dögunum, er Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB, lagði þá lykkju á leið sína, kanski í einhvers konar stöðubaráttu, að ESB hefði aðeins verið spottakorn frá því að geta lagt tillögu að aðildarsamningi fyrir Íslendinga, þegar Laugarvatnsstjórnin gerði hlé á aðlögunarferlinu.
Taka skal fram, að síðasta orðið er ekki valið til að kasta rýrð á það, sem ESB-trúboðið kallar samningaviðræður, heldur er viðræðuferli ESB og umsóknarlands klárlega skilgreint sem aðlögunarferli umsóknarríkis að lögum og tilskipunum ESB af framkvæmdastjórninni sjálfri.
Hinum fyrrverandi félaga í Kommúnistaflokki Tékkóslóvakíu, Stefan Füle, félögum hans í stækkunarteyminu og e.t.v. fleirum í Framkvæmdastjórn ESB, er greinilega nokkuð í mun að fá Ísland inn undir sinn verndarvæng.
Hvað getur hangið á spýtunni ? Þeir vilja veikja varnir norðursins og komast sjálfir þar til áhrifa. Þeir misstu Grænland úr klóm sér og skortir algerlega aðgang að Norður-Atlantshafi og Íshafinu, þar sem eru miklar auðlindir, og stórveldin keppast þar um yfirráð. ESB vill mynda mótvægi við Rússland, Kanada, Bandaríkin og Kína. Búrókratar í Berlaymont, sem móta framtíðarstefnuna og hafa framkvæmdastjórana í hendi sér, vita sem er, að falli Ísland eða Noregur, getur eftirleikurinn orðið auðveldur með hitt landið. Norskir stjórnmálamenn og aðildarsinnar eru brenndir eftir tvær hafnanir norsku þjóðarinnar á aðild, svo að þeir þora ekki af stað aftur, nema forsendur og andrúmsloftið í Noregi breytist. Ný ríkisstjórn Noregs, sem mynduð er af Hægri flokkinum og flokki til hægri við hann, Framfaraflokkinum, með stuðningi hinna borgaraflokkanna, eftir tap rauðliðanna, virðist litlu munu breyta um þetta.
Íslenzkir stjórnmálamenn, sem samþykktu alræmda þingsályktun 16. júlí 2009, ættu að vera brenndir líka eftir afhroð aðildarsinna í kosningunum 28. apríl 2013, en þeir berja samt hausnum við steininn. Þessi hegðun má heita þráhyggja. Nú heimta þeir, að aðlögunarferlið verði hafið, þar sem frá var horfið. Samt bendir ýmislegt til, að aðildarviðræður Össurar Skarphéðinssonar hafi hvorki verið fugl né fiskur og allt, sem máli skiptir, sé ósnert. Össur baukaði við "selvfölgeligheder" í 4 ár, og Hvítbókin mun sýna hlálegt árangursleysi. Samningamenn núverandi ríkisstjórnar munu auðvitað ekki komast hænufeti lengra með menn Stefans Füle, því að þeir mundu standa enn fastar á hagsmunamálum Íslands. "Aðildarviðræður" Íslands við ESB eru "Mission Impossible", eða óframkvæmanlegar, nema Alþingi fleygi fullveldinu fyrir róða. Þingmenn hafa svarið Stjórnarskránni eið, og þeim verður kastað út í hafsauga, sem svo mikla afslætti vilja gefa, að dugi til viðunandi aðlögunar að dómi Füles.
Ef Alþingi telur samt brýnt að leiða þetta mál til lykta, eftir útgáfu Hvítbókar um málið, þá verður fljótlega haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um það, hvort halda skuli aðlögunarferlinu áfram með öllum þeim tilkostnaði fyrir ríkið og álagi á stjórnkerfið að ógleymdum IPA-styrkjum, sem þessu dauðadæmda ferli fylgir. Það væri þá einfaldlega röng forgangsröðun á fjár- og tímanotkun að reyna nú, þegar enginn veit, hvert ESB stefnir, að komast þar inn. Hvernig á ríkisstjórn, sem andvíg er inngöngu, að semja um inngöngu af einhverju viti ? Það mundi reyna mjög á innviði ríkisstjórnarinnar algerlega að óþörfu. Halda aðildarsinnar, að andvíg ríkisstjórn muni búa svo um hnútana í Brüssel, að þjóðin telji sér hag í að samþykkja það ? Það vantar mikið upp á rökræna hugsun aðildarsinna, hvað þetta varðar, hvað sem öðru líður.
Hvítbók um stöðu aðildarviðræðnanna mun verða til umræðu á næsta ári, 2014, hvernig sem allt veltur. Þá er hætt við, að mörgum verði að orði: "fíllinn (þ.e. Össur) tók jóðsótt og fæddist lítil mús (þ.e. loknir samningskaflar)". Hverjum þykir þó sinn fugl fagur og líklegt, að rithöfundurinn Össur mæri mjög hlut utanríkisráðherrans í bók sinni, en Össur iðulega í upphafningu um sjálfan sig í þriðju persónu, svo kindugt sem það nú er. Kindugur kvistur, Össur.
Þar sem mikilvægustu atriðin varðandi aðildina að ESB voru ekki komin á dagskrá undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar, má segja, að svo nefndar aðildarviðræður hafi verið hvorki fugl né fiskur hingað til, en samt með ærnum kostnaði. Spyrja má, hvað valdi þeirri þráhyggju allmargra, að Íslandi verði bezt borgið innan vébanda ESB ?
Ekki er það hagvöxturinn. Nú er spáð meiri hagvexti á næstu árum á Íslandi en í ESB, og búizt er við lægri hagvexti á evru-svæðinu en utan þess innan ESB. Það er ekki hægt að fullyrða, að evran sé þar sökudólgurinn, en þessi tíðindi eru a.m.k. ekki meðmæli með henni. Spákaupmennska heldur nú verðgildi hennar óeðlilega háu, af því að Kínverjar og aðrir eru að losa sig við dollaraeignir og kaupa evrur. Þetta er útflutningsgreinar margra evru-landa lifandi að drepa, og nú er jafnvel farið að hægja á hagkerfi Þýzkalands. Andþýzkur áróður blossar upp, Þjóðverjar verja hendur sínar, og saka nú Breta, sem eiga að heita bandamenn þeirra, um svæsnar njósnir í Þýzkalandi. Evrópa er á suðupunkti.
Samt er svar flestra hérlandsmanna, sem inn vilja, gjaldmiðillinn. Það er eins konar mantra, trúarstef, án djúphygli. Þeir vilja taka upp erlenda mynt og kasta íslenzku krónunni fyrir róða. Fyrir þessu færa þeir þau rök, að krónan ýti undir óstöðugleika hagkerfisins, dragi úr fjárfestingum hérlendis og hafi í för með sér aukinn viðskiptakostnað, þar sem hún sé ekki gjaldgeng erlendis. Þá muni vaxtastigið lækka, sem létti undir með skuldurum og örvi athafnalífið. Sumir innan Samtaka atvinnulífsins halda þessu fram sem og forseti Alþýðusambands Íslands. Til að finna beztu lausnina hér þarf hins vegar að horfa vítt til veggja og skoða heildaráhrifin á hagkerfið.
Þetta virðist vera fremur grunnrist umræða vegna þess, að hún fjallar ekkert um það, hvernig við eigum að komast héðan og þangað. Það er mergurinn málsins og meginviðfangsefnin við stjórnun efnahagsmálanna núna. Um það ættu allir að geta sameinazt að þróa hagkerfið þannig, að það uppfylli alla Maastricht skilmálana fyrir upptöku evru. Það fullnægir enn engum þessara skilmála, og það mun fyrirsjáanlega taka allt að einum áratugi að fullnusta þá alla og sýna evru-bankanum í Frankfurt fram á trúverðugan styrkleika og stöðugleika hagkerfis og peningamálastjórnunar til að landið verði tekið sem fullgildur aðili að evru-samstarfinu.
Nú er seðlabankastjóri tekinn til við að gefa forskrift að kjarasamningum og hefur nefnt 2,0 % - 2.5 % hækkun, en nefndi ekki á hversu löngu tímabili, sem er þó lykilatriði. Væri honum ekki nær að rökstyðja vaxtaákvörðun peningastefnunefndar með meira sannfærandi hætti en hann gerir. Vaxtastig Seðlabankans á sína sök á, að hagkerfið er staðnað. 6,0 % millibankavextir ná engri átt hér, þegar vextir eru 1 - 2 % víðast annars staðar. Það er svo mikill slaki hér í hagkerfinu, þ.e. ónýtt framleiðslugeta, að það er afar ólíklegt, að t.d. 4 % vextir mundu valda hér verðbólgu. Væri það ekki skársta framlag peningastefnunefndar til hóflegra kjarasamninga og stöðugleika hagkerfisins og þar með í þágu verðbólgumarkmiðsins að lækka vextina um 1/3 ?
Að lækna hagkerfið er verðugt verkefni, og einn af fyrstu áföngunum er að losna við gjaldeyrishöftin. Það verður vart gert í bráð, nema að knýja þrotabú bankanna í gjaldþrotameðferð. Slitastjórnirnar hafa allt of lengi setið hér að sumbli. Uppgjöri þrotabús Lehman Brothers, sem lenti í greiðsluþroti, svo að Seðlabanki Bandaríkjanna yfirtók rekstur hans 15. september 2008, hefur fyrir löngu verið gerður upp. Það er kapítuli í háskasögu ríkisstjórnarómyndarinnar 2009-2013 að gera kröfuhafa föllnu bankanna að aðaleigendum hinna nýju og láta nýja Landsbankann samþykkja 300 milljarða kr skuldabréf í gjaldeyri handa kröfuhöfum gamla Landsbankans. Slitastjórnirnar hafa svo fengið að leika lausum hala, og stjórnvöld téðs tímabils þorðu ekki einu sinni að skattleggja téð þrotabú. Ræfildómurinn reið ekki við einteyming, og þýðir lítið fyrir fyrrverandi ráðherra að skrifa sig frá því. Sagan mun dæma þá af verkum sínum, en varla af varnarræðum þeirra sjálfra.
Formlega má land ekki taka upp evru, nema það hafi gengið í ESB. Þó að Ísland mundi fullnægja upptökuskilmálum evrunnar eftir um áratug, er engan veginn þar með sagt, að aðildarviðræður skili árangri, sem Íslendingar sætti sig við. Þá eru tveir til, meti menn ávinning að lögeyrisskiptum greinilegan:
a) að semja um undanþágu á aðildarskilmálum EMU (European Monetary Union), þ.e. skilyrðið um aðild að ESB, með það að markmiði að taka hér upp EUR í stað ISK. Einhver dæmi munu vera um þetta, þó að óvíst sé, að þau hafi fordæmisgildi. Það væri samt óráðlegt, nema krónan hefði í minnst 3 ár fylgt evrunni vandræðalaust, og hlutfallslega svipaður jöfnuður í viðskiptum við útlönd væri á Íslandi og í Þýzkalandi, sem er mótandi til lengdar um þróun evrunnar.
b) að semja við ríkisstjórn og seðlabanka annars lands um aðild að myntsvæði þess lands. Þetta hefur gefizt misjafnlega, t.d. fyrir þjóðir Suður-Ameríku, sem tekið hafa upp bandaríkjadal. Ef verðbólgan er hærri en í móðurlandi myntarinnar, rýrnar samkeppnihæfnin og útflutningsatvinnuvegunum er riðið á slig. Slíkt endar með harmkvælum launalækkana og samdráttar opinberra útgjalda, sbr Suður-Evrópu nú, eða með gjaldþroti, sbr Argentínu.
Nokkrar myntir hafa verið nefndar í þessu sambandi, t.d. NOK, SEK, CHF, GBP, CAD og USD, en það er algerlega ótímabært að velta fyrir sér, hver kæmi helzt til greina fyrr en trúverðugum stöðugleika hefur verið náð í peningamálum hérlendis. Þó hlýtur umfang viðskipta og grennd að ráða miklu, og þá verður GBP efst á blaði. Ísland var um hríð í myntbandalagi við Bretland á 3. áratugi 20. aldarinnar, en þá stóð pundið á gullfæti, og íslenzka hagkerfið stóðst ekki þá hágengisstefnu, sem leiddi til atvinnuleysis. Nú er öldin önnur, og efnahagslífið hérlendis hefur tekið stórstígum framförum á tæpri öld. Áður en til myntbandalags við Breta getur komið þarf þó að gera upp við þá peningalegar sakir frá kollsteypunni haustið 2008, þegar íslenzka peningakerfið féll og það brezka riðaði til falls. Skýringar þurfa að fást á framkomu brezkra, bandarískra og norrænna stjórnvalda gagnvart lítilli þjóð norður í Atlantshafi í nauðvörn.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Kjaramál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.