8.12.2013 | 14:30
Skipulagsmál í skötulíki
Á s.k. höfuðborgarsvæði eru ekki færri en 6 sveitarfélög og voru 7 til skamms tíma, er Garðabær og Álftanes sameinuðust með fremur knöppum meirihluta. Garðbæingum hraus mörgum hugur við bágbornu hlutfalli skulda og árstekna Álftaness, en sveitarstjórnin þar hafði umgengizt sveitarsjóðinn af léttúð og fullkomnu fyrirhyggjuleysi.
Er nú svo komið, að hlutfall skulda og árstekna Garðabæjar er u.þ.b. 1,0 og verður ekki unað við það hærra. Það má ekki slaka á klónni í meðferð skattfjár bæjarbúa og vinstra sleifarlag og sofandaháttur verður ekki liðið. Bærinn er vel skipulagður og rétt staðið að skipulagningunni og framkvæmd þess, þ.m.t. nýja Álftanessveginum, sem styr hefur staðið um, en hann er stormur í vatnsglasi, enda á þeirri sérvizku reistur, að ekki megi eyða hraunmyndunum, sem frægur listmálari notaði sem fyrirmyndir. Álfar hafa einnig verið leiddir fram og vitnað um hryggð sína yfir gjörðum mannanna. Er þá skörin tekin að færast upp í bekkinn og ljóst, að afturhaldið, sem notar hvert tækifæri, sem býðst, til að rísa upp á afurfæturna í nafni náttúrunnar til að slá stjórnmálalegar keilur, er örvæntingarfullt.
Í höfuðborginni sjálfri ríkir ringulreið í skipulagsmálum. Þar, sem annars staðar, ætti markmið skipuleggjenda að vera að flýta sem mest fyrir för vegfarenda. Slíkt sparar vefarendum tíma og fé, er þjóðhagslega hagkvæmt og dregur úr mengun. Hin dæmalausu yfirvöld Reykjavíkurborgar, Besti flokkurinn og Samfylkingin, þar sem saman fara hreinræktaður fíflagangur við stjórn borgarinnar ásamt þröngsyni, hafa þveröfuga stefnu. Þau leggja stein í götu bílsins með þrengingum, hraðahindrunum og sérakreinum fyrir strætisvagna. Strætisvagnana þarf að hugsa upp á nýtt. Nýting þeirra er mjög léleg, þ.e.a.s. allt of stórir vagnar aka utan annatímans.
Það má alls ekki þrengja að stofnleiðum borgarinnar, og það á þegar í stað að rifta fáránlegu samkomulagi borgar og ríkis um 10 ára framkvæmdastopp við stofnleiðir borgarinnar. Það á að leita lausna til að draga úr umferðarteppum með mislægum gatnamótum og hefjast þegar handa á mótum Kringlumýrar og Miklubrautar. Sundabrautin er orðin knýjandi til að létta á Ártúnsbrekkunni og Reykjanesbrautin gegnum Hafnarfjörð er til skammar. Núverandi valdhafar í Reykjavík hafa ekki nokkurn skilning á mikilvægi greiðra samgangna. Hugarheimur þeirra um borgarlífið er eins sviðsmynd í 100 ára gömlu leikriti.
Flugsamgöngur við höfuðborgarsvæðið gegna lykilhlutverki í samgöngukerfi landsins. Það leikur ekki á tveimur tungum, að flugtæknilega og samgöngulega er Vatnsmýrin í Reykjavík bezt fallin til að hýsa flugvöll höfuðborgarsvæðisins. Þetta er niðurstaða nokkurra faglegra rannsókna, sem draumóramenn eiga erfitt með að viðurkenna. Jafnframt er ljóst, að flutningur starfseminnar á Reykjavíkurflugvelli, t.d. flugstjórnarstarfseminnar, og flugvallarins sjálfs, mundi taka meira fé frá annarri innviðauppbyggingu en við yrði unað.
Flutningur starfseminnar til Keflavíkurflugvallar yrði dýr, og starfsemin á Reykjavíkurflugvelli samrýmist illa millilanda- og herfluginu, sem fram fer á Keflavíkurflugvelli. Ómetanlegt öryggi er að Reykjavíkurflugvelli fyrir sjúklinga og slasaða utan af landi eða af sjó. Í náttúruhamförum er ómetanlegt að hafa möguleika á aðkomu stórra þotna til rýmingar eða aðdrátta. Ekki þarf að minna á tekjustreymið um flugvöllinn og getu hans til að létta á bílaumferð út frá höfuðborgarsvæðinu, sem minnkar álag á vegina og dregur úr slysatíðni.
Af þessum sökum nær nýgert samkomulag innanríkisráðherra við borgarstjóra (samkomulag ríkis og borgar) allt of skammt til að vera boðlegt í skipulagslegu tilliti. Músarholusjónarmið um verðmætar húsbyggingarlóðir og þéttingu byggðar eru léttvæg í landi mesta mögulega byggingarlands á íbúa, sem um getur. Ríkið á flugvallarlandið, en skipulagsvaldið er í höndum borgarinnar. Er einhver glóra í því ? Nei, reynslan sýnir, að svo er ekki. Framtíðarsýn núverandi skipulagsyfirvalda í Reykjavík er músarholusýn, og slíkt gengur ekki. SV-NA-brautin verður að fá að vera áfram á Reykjavíkurflugvelli af öryggisástæðum, af því að engin trygging hefur fengizt frá yfirvöldum Keflavíkurflugvallar um, að sambærileg braut þar verði tekin í brúkið.
Umsátri músarholuvina um Reykjavíkurflugvöll verður að linna strax. Í þessari stöðu verður Alþingi að taka af skarið og setja sérstök skipulagslög um landareign ríkisins í Vatnsmýrinni, sem tryggi réttindi starfseminnar þar í 100 ár og kveði á um, hvernig skipulagi þar skuli vera háttað. Þar með gætu fyrirtæki og opinberir aðilar við Reykjavíkurflugvöll ótrauð hafið löngu tímabæra uppbyggingu þar og Reykjavíkurborg skipulagt háskólasvæði og byggð í grenndinni án óvissu um flugvöllinn.
Annað mál er, að skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins er ekki fyrir komið með bezta hætti. Ef vel á að vera, þarf að skipuleggja höfuðborgarsvæðið sem eina heild, enda eru hagsmunir sveitarfélaganna þar, fyrirtækja, stofnana og íbúa, samtvinnaðir. Það er ólíklegt, að hagkvæmasta lausn finnist á skipulagsmálunum, ef margir aðilar eru að bauka hver í sínu horni.
Samkomulag fulltrúa ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group um Reykjavíkurflugvöll, sem þeir undirrituðu í Hörpu 25. október 2013, kveður á um, að dauðaleit skuli hefja að nýju flugvallarstæði í Reykjavík, því að nú skal "fullkanna aðra kosti til rekstrar innanlandsflugs en framtíðarflugvöll í Vatnsmýri". Þetta er dæmigerð sóun stjórnmálamanna, sem ýta á undan sér nauðsynlegri stefnumörkun, enda er þetta 4. leit sinnar tegundar. Þessum vandræðagangi, sem R-listinn magnaði hér upp forðum tíð, verður að linna.
Fyrsta leitin fór fram á vegum skipulagsnefndar Reykjavíkur á árunum 1938-1940. Í bréfi nefndarinnar, sem starfaði að þessu og skoðaði 7 valkosti, til bæjarstjórnar, dags. 5. marz 1940, er mælt með flugvelli í Vatnsmýri, og samþykkti bæjarráð þá tillögu fyrir sitt leyti á fundi 8. marz 1940 og tilkynnti þá ákvörðun daginn eftir með bréfi til nefndarinnar. Brezka hernámsliðið valdi Vatnsmýrina fyrir sinn aðalflugvöll á Íslandi, og var völlurinn formlega opnaður fyrir flugumferð 4. júní 1941.
Því fer fjarri, að Vatnsmýrarvöllur sé einsdæmi um flugvöll í borgarlandi. Í Evrópu, sem þó glímir við landleysi, hafa yfirvöld ekki stuggað við gömlum flugvöllum. Nægir að nefna Berlín og Lundúni í þessu sambandi. Það væri skipulagsleg hneisa og mikil mistök með langvarandi áhrif á lífsgæði í þessu landi, ef grafið yrði undan starfseminni á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýrinni í Reykjavík.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Samgöngur, Sveitarstjórnarkosningar | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.