17.1.2014 | 22:17
Beðið eftir Berlaymont
Minnihluti Evrópumanna vestan Rússlands skynjar nú Evrópusambandið, ESB, og höfuðstöðvar þess í Brüssel í Berlaymont-byggingunni, sem framtíðarlausnina fyrir Evrópu samkvæmt skoðanakönnunum. Þessar auknu efasemdir um starfsemi ESB endurspeglast í vaxandi fylgi stjórnmálaflokka á móti aðild landa sinna að ESB og með auknum þjóðernislegum áherzlum.
Austur-Evrópumönnum þykir að sönnu gott að þiggja styrki til uppbyggingar innviða sinna og efnahagslegrar verndar gegn ásælni Rússa, sem þeir eru búnir að fá nóg af, en vestar í álfunni er annað uppi á teninginum. T.d. eru aðeins 30 % Þjóðverja ánægðir með ESB, þó að meirihluti Þjóðverja, minnkandi þó, telji hag sínum enn betur borgið innan ESB en utan.
Vonbrigði og óánægja Evrópumanna með ESB hefur magnazt í evru-kreppunni, þar sem mönnum þykir ESB og evru-bankanum hafa tekizt með endemum illa upp við úrlausn vandamála, enda sér ekki fyrir endann á þessari kreppu. Evru-kreppan lýsir sér í gríðarlegu og vaxandi atvinnuleysi, einkum á meðal 18-30 ára, en í sumum evru-landanna gengur annar hver atvinnulaus á þessum aldri. Skyldi engan undra, að slíkt valdi stjórnmálalegri ólgu, og það á sér einmitt stað í Evrópu núna, eins og vikið verður að. Vandamálin hrannast upp í Evrópu í stað þess að vera leyst. Löng stjórnarkreppa er að vísu nýafstaðin í Þýzkalandi, og á meðan hafa öll alvarleg mál ESB beðið. Engum ráðum er nú ráðið um örlög Evrópu án aðkomu Berlínarbænda.
Annað einkenni evru-kreppunnar, þó að það finnist víðar, er gríðarleg skuldsetning á flestum sviðum þjóðfélagsins, þ.e. í opinbera geiranum, á meðal einkafyrirtækja og á vegum ríkis og sveitarfélaga. Verst er ástandið á Grikklandi, þar sem aðgerðir þríeykis ESB, ECB (Seðlabanka ESB) og AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðsins) hafa rústað innviðum Grikklands, svo að lífskjör almennings hafa horfið marga áratugi aftur í tímann. Það er nú samstaðan með bágstöddum á þeim bænum.
Í Evrópu er í kjölfarið að rísa þjóðernissinnuð bylgja andstæðinga ESB, sem mun skella á land í kosningunum til ESB-þingsins í sumar, þar sem almenningur mun láta óánægju sína með starfsemina í Berlaymont í ljós. Róttækust þessara hreyfinga er Gullin dögun, sem nú er með 18 fulltrúa á gríska þinginu. Gullin dögun sækir fyrirmyndir til stjórnmálaflokka Kreppunnar miklu í Evrópu, einkennismynd (lógó) flokksins minnir á hakakrossinn og félagarnir syngja Horst Wessel sönginn á hópsamkomum og fá eins konar herþjálfun með svipuðum hætti og Stormsveitirnar, SA, Sturmabteilungen, Þjóðernisjafnaðarflokksins þýzka, er hann var og hét. Formaðurinn, Nikos Michaloliakos, situr í fangelsi, en ekki fer sögum af því, að hann sitji þar við skriftir, eins og höfundur bókarinnar Mein Kampf eða Barátta mín eftir Bjórkjallarauppreisnina í München. Augljóslega er loftið á Grikklandi lævi blandið um þessar mundir, og staðan getur brugðið til beggja vona. ESB hefur mistekizt hrapallega ætlunarverk sitt um að stytta afkomubilið á milli Norður- og Suður-Evrópu, því að í Suður-Evrópu hefur hallazt á merinni, og hún verður fyrir spekileka norður yfir Karpatafjöll, Alpafjöll og Pyreneafjöll.
Ítalía er "sjúki maðurinn" í Evrópu. Skuldir ríkisins nema yfir 100 % af VLF, og hagvöxtur hefur enginn verið í meira en hálfan áratug. Framleiðni vex ekkert, og framleiðslukostnaður hefur vaxið mun meira en að meðaltali á evru-svæðinu. Landið er þess vegna orðið ósamkeppnihæft og hagkerfið staðnað. Það er svo stórt, að ESB hefur ekki bolmagn til að bjarga því. Stjórnmálalegur óstöðugleiki hefur síður en svo skánað við evruaðildina. Norðurbandalagið vill kljúfa Ítalíu, hefur mikið fylgi á Norður-Ítalíu og 7 manns á ESB-þinginu. Fái "sjúki maðurinn" slæmt iðrakvef, þá mun evrusvæðið fá niðurgang. Nú er svo komið, að margir hagfræðingar telja evruna vera dragbít á hagvöxt og spá því, að árið 2040 verði Stóra-Bretland með sitt Sterlingspund og tiltölulega miklu viðkomu orðið stærsta hagkerfi í Evrópu.
Frakkland er ekki rismikið þessa dagana, nema e.t.v að næturþeli. Kratinn í Elysée, forsetahöllinni, hefur heykzt á að reka sína vinstri stefnu, sem er keimlík stefnu fyrrverandi ríkisstjórnar á Íslandi í efnahagsmálum, þar sem ofurskattheimta er versta einkennið, og keyrir hagkerfið í þrot, hvar sem hún er reynd.
Reyndar virðist téður Frakklandsforseti undanfarnar vikur, slúðurblöð segja í 2 ár, hafa verið uppteknari við lendar hinnar háfættu leikkonu, Julie Gayet, en við lendur Gaulverja. Skrifað var í leiðara Morgunblaðsins, 15. janúar 2014, að slíkt kæmi fyrir á beztu bæjum, hvaðan sem ritstjórinn (afmælisbarn dagsins ?) hefur það. Undir það geta a.m.k. Engilsaxar ekki skrifað, sem telja háttarlag af þessu tagi til vitnis um dómgreindarbrest, sem þá einnig geti gert vart við sig, þegar hæst á að hóa og að opinberum málefnum kemur, en ekki bara berum kroppum.
Í Frakklandi velgir annar kvenmaður Hollande undir uggum á daginn, en það er fröken Marine Le Pen, formaður Þjóðarframlínunnar (National Front), sem nýtur vaxandi fylgis í Frakklandi, og er flokkur hennar talinn munu fá mikið fylgi í komandi kosningum til Evrópuþingsins. Sumar mælingar sýna yfir helming atkvæða, sem sýnir ástandið í Frakklandi í hnotskurn.
Flokkurinn hafnar forréttindastéttinni (elítunni), Berlaymontveldinu, og þykir fjöldi innflytjenda í Frakklandi orðinn allt of mikill og vill stemma stigu við innflytjendum. Þessi flokkur gæti farið að slaga upp í þriðjungsfylgi í mörgum sveitarstjórnum Frakklands, og er þetta að verða keimlíkt stjórnmálaástand og var austan Rínar undir hinum óréttláta og þrúgandi Versalasamningi frá 1919, sem Frakkar voru reyndar aðalhvatamenn að og fengu síðan sem bjúgverpil árið 1940 vestan Maginot-línunnar, sem var háðung mikil á tveimur vikum.
Ekki má gleyma, að þeir voru einnig aðalhvatamenn að evrunni, sem er aðalsökudólgurinn nú eða blóraböggullinn eftir því, hvernig á málið er litið, vegna ófara Evrópu nútímans. Styrrinn í Frakklandi mun ekki standa um, hver á að verða 1. konan (First Lady) eða önnur konan í Elysée, eða hvort ástarhreiðrið er á valdi Korsíkumafíunnar, og heldur ekki um svannatök forsetans, heldur um stjórnarhætti í þjóðfélaginu, almannahag og stjórnmál. Þar verða jafnaðarmenn jafnan að gjalti og hafa upp á ekkert að bjóða, nema þeir leiti í smiðju til annarra, eins og Francois Hollande er gott dæmi um. Greinilegt er líka, að Árna Páli þykir betra að veifa röngu tré en öngu uppi á Íslandi, þó að hvorki orðstír hans sjálfs né flokksómyndarinnar, sem hann veitir formennsku um stundarsakir, batni við það. Var þó ekki úr háum söðli að detta.
Handan Ermarsundsins eru að verða merkilegar vendingar í Evrópumálum, knúnar áfram af vaxandi fylgi við UKIP, Sjálfstæðisflokk Bretlands, undir forystu Nigel Farage, sem berst fyrir úrsögn Bretlands úr ESB. Honum hefur tekizt að höggva svo mjög í raðir Íhaldsflokksins, brezka, að sá er að sveigja inn á leið, sem líklega mun leiða til úrsagnar Bretlands innan tíðar og þar með klofnings ESB. Bretar heimta sáttmálabreytingar, sem tryggja hagsmuni þjóða utan evrusvæðisins, og að aflögð verði stefnan um æ nánara ríkjasamband allra hinna. Þetta setur strik í reikninginn hjá kumpánunum í Berlaymont, en það er bættur skaði. Eftir samningaviðræður, og þetta yrðu raunverulegar samningaviðræður, þar sem sáttmálarnir eru undir, verður niðurstaðan lögð fyrir brezku þjóðina í atkvæðagreiðslu, eða það, sem eftir verður af henni, ef Skotar ákveða í ár að stofna sjálfstætt ríki.
Af þessu er ljóst, að ESB í sinni núverandi mynd er komið á leiðarenda. Annaðhvort verða sáttmálabreytingar, eða ESB klofnar. Af þessum sökum, og mörgum öðrum, er einboðið að afturkalla formlega hina vanreifuðu umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, sem óvitar skrifuðu undir eftir ofbeldisfullt atferli á Alþingi. Annar þingheimur þarf að leiðrétta fortíðarmistök löggjafarsamkundunnar.
Við þessar aðstæður ræðst mannvitsbrekkan, formaður Samfylkingarinnar á Íslandi, fram á völlinn og segir með þjósti miklum og merkikertissvip, að hefði verið haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um, hvort sækja ætti um aðild að ESB árið 2009 eður ei, þá hefðu ESB verið færð vopn upp í hendurnar, ef landsmenn hefðu samþykkt, af því að þá hefði ESB fengið vitneskju um, að hugur landsmanna stæði til inngöngu, svo að ESB hefði þá staðið fast á sínu og ekkert gefið eftir.
Hvers konar endemis rugludallur er þessi maður ? Hann snýr yfirleitt röksemdum á haus og dregur kolrangar ályktanir. Slíkir eru auðvitað óhæfir Alþingismenn, hvað þá ráðherrar. Í þessu máli blasir við, að "samningsstaða" íslenzku sendinefndarinnar hjá Stækkunarstjóra ESB var engin, af því að um lítið var að semja nema innleiðingartímann og af því að bæði þing og ríkisstjórn voru þverklofin til umsóknarinnar, hvað þá aðildar. Með samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu má ljá umsókn trúverðugleika. Nú, aftur á móti, er hún ekki á dagskrá, samkvæmt ríkisstjórnarsáttmálanum, nema Alþingi ákveði að halda vonlausu þjarkinu í Brüssel til streitu.
Sjálfstæðismenn hafa litið svo á, að aðild að Evrópusambandinu væri þvílíkt stórmál, að réttlætti tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, þ.e. fyrst um það, hvort sækja ætti um á grundvelli samningsskilmála, sem Alþingi þyrfti þá að vera búið að samþykkja, vitandi, að um aðlögunarferli að sáttmálum, lögum og reglum ESB, með IPA-styrkjum og öllu því, er að ræða, og síðan, ef Alþingi samþykkir ákvæðin, sem út úr inngönguferlinu kemur, að þjóðin fái tækifæri til að tjá hug sinn til afgreiðslu Alþingis á inngönguskilmálum.
ESB er ríkjabandalag, sem ætlast til, að umsóknarríki hafi kynnt sér stofnsáttmála þess, sé fúst til að aðlaga sig þeim og sæki um aðild til að fara í aðlögunarferli með aðstoð stækkunarteymis ESB. Það má líkja þessu við nemanda og skóla, þar sem nemandinn er umsóknarlandið, skólastjórinn er stækkunarstjórinn og kennararnir eru starfsmenn í stækkunarteymi ESB. Þegar umsóknarlandið hefur lagað stjórnsýslu sína, löggjöf og reglugerðir, að kröfum ESB, að dómi stækkunarteymis þess, þá er nemandinn útskrifaður og fyrr ekki.
Það er auðvitað hlálegt að búast við einhverju óvæntu út úr þessu ferli, þar sem "námsskráin í skólanum" er algerlega þekkt. Nemandinn þarf hins vegar að tileinka sér efniviðinn, svo að hann standist próf og verði útskrifaður.
Samþykkt Alþingis og síðan þjóðaratkvæðagreiðsla um, hvort halda eigi áfram umsóknarferlinu, er þess vegna í raun spurning um, hvort landsmenn vilji, að landið gerist aðili að ESB í þeirri mynd, sem það er, þegar aðlögunarferlinu lýkur. Málflutningur um samningaviðræður er annaðhvort reistur á vanþekkingu um umsóknarferlið eða hann er purkunarlaus blekkingariðja. Dylgjur um, að heybrókarháttur ráði því, að ekki sé farið strax í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, eru þess vegna ómálefnalegar með öllu og bera vott um málefnafátækt.
Ríkisstjórninni er sem sagt legið á hálsi fyrir að vilja ekki efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald "viðræðna" við ESB. Hún er þó nú að láta taka saman skýrslu um stöðu aðlögunarferlisins, sem var skrípaleikur, þar sem aðeins var fengizt við einföldustu úrlausnarefnin, en allt annað látið sitja á hakanum. Til að geta tekið upplýsta ákvörðun þarf núverandi staða að vera ljós, en vinstri stjórnin fór alltaf með ferlið eins og mannsmorð, enda þoldi það ekki dagsljósið.
Spurningin, sem þarf í kjölfar umræðna um téða skýrslu að spyrja, er í raun, hvort fólk vilji, að nemandinn klári skólann, sem hann er rétt byrjaður í, eða hætti í þessum skóla og hugsi sitt ráð, þ.e.a.s.:
Vilt þú, að aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu verði haldið áfram með það að markmiði að leiða það til lykta ?
Já eða Nei.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.1.2014 kl. 13:11 | Facebook
Athugasemdir
Nei!
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 19.1.2014 kl. 12:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.