Stöðugleiki hér og þar

Eitt af því, sem vinstri stjórninni mistókst hrapallega að ná, var efnahagslegur stöðugleiki, enda má bæði efast um, að þeim dæmalausu ráðherrum hafi verið það sérstakt keppikefli og að þeir hafi gert sér grein fyrir, hvernig efnahagslegum stöðugleika yrði náð. 

Kjarasamningar, sem gerðir voru á hennar skeiði, voru almenningi dýrkeyptir og verri en engir, af því að þeir virkuðu sem olía á eld verðbólgubálsins.  Svo er það annað mál, að loforð Jóhönnustjórnarinnar í tengslum við þá kjarasamninga voru strax svikin, svo að traust aðila vinnumarkaðarins til Jóhönnu og Steingríms varð að engu.  Lánleysi þeirra skötuhjúa var algert.  Þar með var í raun úti um þá ríkisstjórn.

Með hækkunum á virðisaukaskatti, eldsneytisgjaldi, álagningu kolefnisgjalds og hækkunum á öllum gjöldum og sköttum, sem nöfnum tjáir að nefna, kynti vinstri stjórnin undir verðbólgu.  Það var eins og við manninn mælt; skattstofnar ríkissjóðs minnkuðu við þetta, t.d. minnkaði bifreiðaakstur og verzlun dróst saman.  Skattstofnarnir skruppu saman undan ofurskattheimtu upp úr kennslubókum frá Þýzka Alþýðulýðveldinu og færða í búning af Þistilfirðinginum, fyrrverandi formanni vinstri grænna.

Nú bregður meira að segja svo við, að íslenzka krónan braggast skyndilegar og meira en nokkur hagspekingur hafði látið í ljós.  Hefur gildi bandaríkjadals lækkað á einu ári úr u.þ.b.130 kr í u.þ.b. 115 kr. Hvort sem þetta má túlka sem traustsvott á hagstjórnina í landinu eða ekki, þá er þessi þróun mjög hjálpleg við að koma böndum á verðbólguna.  Við viljum stefna að því að uppfylla öll Maastricht-skilyrðin, og þá er frumskilyrði að ná verðbólgunni undir 2,0 % á ári og er reyndar ekki nóg miðað við núverandi ástand á evru-svæðinu, en það er reyndar óheilbrigt núna og ekki eftirsóknarvert, eins og rakið verður í þessum pistli. 

Það er hægt að fullyrða það með vísun til samkeppnihæfni útflutningsatvinnuveganna og með samanburði við evrulönd á borð við Írland, að hefði evran verið við lýði hérlendis, þegar peningakerfi heimsins hrundu, þá hefði endurreisnin gengið enn hægar, og hefur hún þó gengið allt of hægt vegna glataðra tækifæra, ofstækis og mistaka ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Nú óttast margir hagspekingar, en þeir hafa reyndar ekki reynzt góðir í hlutverki völvunnar með krystallskúluna, að vestræn ríki, t.d. evru-svæðið, séu að sogast ofan í hringiðu verðhjöðnunar, sem mjög erfitt geti verið að komast upp úr.  Verðhjöðnun leikur hag almennings jafnvel enn verr en verðbólga.  Það er vandrataður hinn gullni meðalvegur, og leiðin þangað liggur um afkastaaukningu, arðsamari fjárfestingar og þar með aukna verðmætasköpun, en hvorki hókus pókus fjármálagjörninga né peningalegra sjónhverfinga á borð við lögeyrisskipti án réttrar undirstöðu.  Það er hægt að vinna sig út úr vandanum.  

Á evru-svæðinu lækkaði 12 mánaða verðbólga í september 2013 úr 1,1 % í 0,7 % í október.  Fyrir ári var verðbólgan þarna 2,5 %.  Markmið evrópska seðlabankans (ECB) er "undir, en nálægt 2,0 %".  Í maí 2013 lækkaði þessi seðlabanki viðmiðunarvexti sína í 0,5 %, og nýlega voru þeir lækkaðir í 0,25 %, svo að þar á bæ óttast menn greinilega, að aðhaldsaðgerðir og mikil skuldsetning geti sogað ríkin ofan í hringiðu verðhjöðnunar.  ECB berst augsýnilega harðri baráttu við verðhjöðnunarvofuna, en það bendir ýmislegt til, að hann muni tapa þeirri baráttu, og þar með má búast við feykilegu félagslegu og peningalegu umróti á evrusvæðinu, sem getur fækkað aðildarlöndum evrunnar með miklum stjórnmálalegum afleiðingum.   

Merkilegust er nú um stundir hagþróunin í BNA-Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Verðbólgan er þar aðeins rúmlega 1,0 %, en verðbólgumarkmið bandaríska seðlabankans er 2,0 %.  Þetta gerist þrátt fyrir skefjalausa seðlaprentun bankans í 5 ár frá hruni, undanfarið um USD 85 milljarðar á mánuði, sem er miklu meiri seðlaprentun en ECB hefur stundað, enda hafa prússnesk viðhorf til fjármála átt hljómgrunn innan bankaráðsins við Frankafurðu.  Verðhjöðnunar hefur jafnvel gætt suma mánuðina í BNA. 

Hagfræðingar óttast, að þessi gríðarlega seðlaprentun muni valda hagbólu í náinni framtíð, en núna er svo mikill kraftur í bandaríska hagkerfinu, að það össlar áfram á 3,0 % hagvexti á ári og dregur lömuð hagkerfi evrusvæðisins og Japans með sér.  Japanir eru loksins eftir 20 ára verðhjöðnun að ná sér upp úr henni.  Svo mikill vágestur sem verðbólga er, þá er verðhjöðnun jafnvel enn verri, því að launin lækka þá, en skuldirnar standa í stað.  Hagkerfið dregst saman.  Þetta sýnir í hnotskurn, hversu stöðugleikinn er mikils virði.  Íslendingar geta náð stöðugleika í hagkerfinu, en þá verða allir að leggjast á eitt og fórna nokkru fyrir ávinning í náinni framtíð.  Hugmyndum um miklar krónutöluhækkanir í kjarasamningum fjölmennra stétta, opinberra starfsmanna eða annarra, verður að fórna að sinni þar til hinu opinbera vex fiskur um hrygg við lækkun hræðilegrar vaxtabyrðar af skuldum.  

Nú vokir vofa verðhjöðnunar yfir evrusvæðinu og hefur reyndar þegar hafið innreið sína í sum lönd Suður-Evrópu, þar sem laun hafa lækkað mikið, enda er það eina ráðið auk kerfisbreytinga og framleiðniaukningar fyrir þau til að ná sér aftur á strik eftir hrunið.  Á einu ári hefur verðbólgan á evru-svæðinu lækkað úr 1,5 % á ári í 0,8 % á ári og er lækkandi í þeim mæli, að seðlabanki evrópu virðist ekki fá við neitt ráðið.  

Þjóðarframleiðslan á evrusvæðinu í heild dróst saman um 0,4 % árið 2013, og er spáð vexti um 1,1 % í ár samkvæmt tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar 5. nóvember 2013.  Atvinnuleysið er á evru-svæðinu að jafnaði 12,2 % eða tvöfalt hærra að tiltölu á við BNA.  Hin sterka evra virkar hamlandi á efnahaginn vegna bágrar stöðu útflutningsgreina, nema þar sem afköstin eru mest.  Hlutfallið 1 EUR/1 USD = 1,35 er útflutningsgreinum evrusvæðisins þungt í skauti.  Hlutfallið er 5 % hærra en fyrir ári.  Evran dregur þess vegna hagkerfið í átt til verðhjöðnunar.  Mörg ytri skilyrði virka í sömu átt, eins og hér verður rakið.  

Kýpur, Írland, Portúgal og Spánn stríða við háar opinberar og einkaskuldir.  Grikkland og Ítalía búa við háar opinberar skuldir. Nafngildi skuldanna helzt óbreitt í verðhjöðnun, en greiðslugetan rýrnar.  Það mun hrikta gríðarlega í evrusamstarfinu og líklegt, að í það komi brestir, ef eitt eða fleiri þessara landa lenda í verðhjöðnunarbasli.  Evrusamstarfið hangir nú þegar á horriminni, svo að verðhjöðnun gæti riðið því að fullu.     

Meginástæða verðlagslækkananna er lækkun orkuverðs, en það hefur nú hafið lækkunarferli um allan heim vegna hagkerfisslaka og vegna aukins framboðs á olíu og jarðgasi, sem unnin eru með nýjum aðferðum úr sandsteini og leirlögum.  Þetta mun gera dýrustu lindirnir óhagkvæmar og vonlausar í rekstri.  Drekasvæðið er eitt þeirra.  Íslenzkir neytendur hafa orðið varir við eldsneytislækkanir, en enn meiri eldsneytislækkanir hljóta að fylgja fljótlega. 

Eldsneytislækkun hefur áhrif á allt vöruverð, af því að eldsneytið kemur alls staðar við sögu, þó að ekki sé nema flutningskostnaðurinn.  Flutningskostnaðurinn til landsins hlýtur að lækka og flugmiðaverðið sömuleiðis.  Allt á þetta að virka örvandi á íslenzka hagkerfið og auka kaupmátt almennings og draga þar með í sömu átt og skattalækkanir ríkisstjórnarinnar.  

  Við þessar aðstæður væntanlegs verðstöðugleika og hagvaxtar væri það algert ábyrgðarleysi af stéttarfélögum að spenna bogann hærra en um var samið á jólaföstunni 2013.  Það eru svo miklir hagsmunir í húfi hér fyrir þorra landsmanna varðandi framtíðar kjarabætur á traustum grunni, að öllum viðbótar launakröfum, hversu réttmætar sem þær kunna að virðast, verður að hafna af staðfestu og einurð.  Allir verða að bíða þess, að ávextirnir þroskist áður en þeir verða tíndir.    

Seðlabankavextir 2007-2013

 

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband