20.2.2014 | 21:01
Orkustefna í bráð og lengd
Við mótun orkustefnu fyrir Ísland verður ekki undan því vikizt að taka tillit til helztu dráttanna í orkumálum heimsins. Hverjir eru þeir ?
Þeir mótast um þessar mundir tvímælalaust af loftslagsmálunum. Dómsdagur vofir yfir mannkyni, ef það heldur áfram mengun láðs, lofts og lagar, í sama mæli og nú. Koltvíildi (CO2) var í fyrndinni í miklu meiri mæli en nú í andrúmsloftinu, líklega um 20 %, en jurtirnar hafa með sinni ljóstillífun, sem er undirstaða lífs á jörðunni, "étið" upp megnið af koltvíildinu, svo að það er nú aðeins brotabrot af því, sem áður var, eða um 400 ppm (hlutar úr milljón). Núverandi form lífs á jörðunni er háð ofurfínu jafnvægi, sem "sigurvegarinn", "homo sapiens", verður að gæta sín á að raska ekki um of.
Koltvíildið veldur s.k. gróðurhúsaáhrifum, þ.e. endurkastar hitageislum frá jörðu og aftur til jarðarinnar. Aukinn styrkur koltvíildis af manna völdum hitar þannig upp andrúmsloftið, og vísindamenn hafa áætlað, að 2°C meðalhlýnun gufuhvolfsins muni verða "óafturkræf" í þeim skilningi, að þá muni hlýna stöðugt hraðar, sama hvað mannkyn tekur sér fyrir hendur, og að lokum gera jörðina allsendis óbyggilega fyrir lífið í sinni núverandi mynd vegna hlýnunar og breyttrar samsetningar lofttegunda í andrúmsloftinu. Menn telja sig nú þegar geta rakið breytt eðli háloftavinda og veðurfars á jörðunni til hlýnunar. Hitt er annað mál, að aðrar kenningar eru um, að við lifum nú hlýskeið á milli ísalda, svo að hlýnun af manna völdum muni aðeins seinka ragnarökum af völdum fimbulkulda. Hér er ekkert fast í hendi, en rétt af mannkyni að gæta varfærni m.v. það, sem í húfi er.
Af þessu leiðir, að þjóðum heimsins ber að taka höndum saman um allar sjálfbærar aðgerðir, sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þ.á.m. um aðgerðir, sem leyst geta af hólmi jarðefnaeldsneyti, en af jarðefnaeldsneytinu stafar megnið af gróðurhúsaáhrifunum.
Þekktar birgðir jarðefnaeldsneytis eru nú meiri en óhætt er að brenna m.v. ofangreinda 2°C hitastigshækkun. Í raun ætti þess vegna að hætta frekari leit að jarðefnaeldsneyti og beina kröftunum fremur að þróun nýrra orkugjafa eða bindingu koltvíildis. Síðasta ríkisstjórn á Íslandi hafði samt ekki víðari sjóndeildarhring í orku- og umhverfismálum en svo, að hún lagði grunn að eldsneytisleit á Drekasvæðinu, en fækkaði virkjanakostum á Íslandi frá því, sem Verkefnastjórn um Rammaáætlun hafði lagt til. Þetta var algerlega glórulaus stefnumörkun og engan veginn í takti við orku- og umhverfisstefnu Evrópusambandsins, ESB, sem hún þó meig utan í við öll möguleg og ómöguleg tækifæri.
Íslenzka orkukerfið er eitt örfárra orkukerfa í heiminum, þar sem nánast engin vinnsla raforku fer fram með jarðefnaeldneyti. Þessu er farið með allt öðrum hætti í Evrópusambandinu, ESB, þar sem mjög dýrt átak er í gangi til að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda, eins og vinds, sólar og viðarkurls með litlum árangri þó. Af umræðunni í Þýzkalandi má reyndar ætla, að "die Energiewende", eða vendipunktur í orkumálum, hafi nú þegar steytt á skeri vegna kostnaðar og árangursleysis.
Einmitt, af því að mengunin virðir engin landamæri, þótti rétt, að ESB ætti frumkvæði að aðgerðum til að hamla gegn vágestinum, sem hlýnun gufuhvolfsins er. Í því skyni kom ESB á laggirnar ETS (Emission Trade System) til að lágmarka kostnaðinn við að draga úr losun koltvíildis, þó að sýnt væri, að kostnaður við losunarheimildir mundi virka íþyngjandi á evrópska atvinnustarfsemi. Núverandi verð á losunarkvóta er að vísu aðeins um 5 EUR/tonn af CO2, sem er ekki nægur hvati til að draga úr losun. Framkvæmdastjórn ESB framdi þau mistök að úthluta fyrirtækjum of stórum kvóta í upphafi, og önnur fengu undanþágur, sem skekkir innbyrðis samkeppnistöðu atvinnugreina um vinnuafl o.fl. Þrátt fyrir miklu minni losun íslenzks atvinnulífs á framleiðslueiningu ákvað síðasta ríkisstjórn samt, að íslenzk fyrirtæki skyldu sæta ETS, viðskiptum með losunarheimildir koltvíildis. Það var þó greinilega ekki af umhyggju við umhverfið, heldur af alræmdri þjónkun sinni við ESB.
Misheppnuð orku- og mengunarvarnastefna ESB hefur stórlega komið niður á samkeppnihæfni fyrirtækja innan ESB og lífskjörum almennings í ESB-löndunum án þess að dregið hafi úr losun gróðurhúsalofttegunda að sama skapi. Nægir í því sambandi að nefna, að fyrirtæki í ESB greiða nú þrefalt til fjórfalt verð fyrir eldsneytisgas og meira en tvöfalt verð fyrir raforkuna á við fyrirtæki í Bandaríkjunum, BNA, vegna vaxandi framboðs á leirsteinsgasi (shale gas) í BNA, en bann við slíkri vinnslu er víða í ESB, þó ekki á Bretlandi, sem er að hefja mikla gasvinnslu. Eina ástæða þess, að ESB hefur náð losunarmarkmiðum sínum er efnahagskreppan þar og flótti iðnfyrirtækja frá ESB m.a. vegna orkuverðsins. Þó voru hvorki efnahagskreppa né fyrirtækjaflótti þáttur í loftslagsstefnu ESB. Hún sætir þess vegna æ meiri gagnrýni aðildarlandanna.
Þessi frásögn sýnir í hnotskurn muninn á aðstöðu Íslendinga og umheimsins varðandi orkumálin. Umheimurinn berst við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en Íslendingar eru nú þar, sem margar aðrar þjóðir dreymir um að verða á síðari hluta 21. aldar. Af stefnu ESB í orkumálum má ráða, að hjá leiðtogaráði og framkvæmdastjórn ríki örvænting um framtíðina.
Núverandi stefna nefnist 20-20-20-20 og vísar til þess, að árið 2020 skuli aðildarlöndin hafa dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 20 % m.v. árið 1990 og að 20 % raforkunnar verði þá framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum og að orkunýtnin hafi þá batnað um 20 % á 30 árum. Þetta getur reynzt mörgum löndum ESB efnahagslega um megn.
Samt hefur framkvæmdastjórnin nú reitt svipuna enn hærra til höggs og hækkað markmiðin í 40 % minnkun losunar árið 2030, og hún vill skuldbinda aðildarríkin til að framleiða þá 27 % raforkunnar úr endurnýjanlegum lindum. Hér má kenna fingrafar þýzka sambandslýðveldisins, sem reynir að troða sínum "Orkuviðsnúningi" - "Energiewende" upp á hin ríkin, þó að árangur þessa viðsnúnings sé enginn, mælt í koltvíildislosun, en hefur verið hrikalega dýrkeyptur fyrir atvinnulíf, heimili og skattgreiðendur, því að orkuverð er svimandi hátt þrátt fyrir gríðarlegar niðurgreiðslur á raforku úr endurnýjanlegum lindum, s.s. vindi, sól og trjákurli. Það verður á brattann að sækja fyrir Berlín að fá hin ríkin til að taka upp kjarnorkustefnu Þýzkalands, sem snýst um að loka öllum kjarnorkuverum landsins innan 10 ára.
Vel þekkt er kjarnorkustefna Frakka, en a.m.k. helmingur raforku Frakklands kemur frá kjarnorkuverum, og er ekkert lát á, hvað sem "Energiewende" austan Rínar líður. Pólverjar hafa nú ákveðið að draga úr hlutdeild kola í raforkuvinnslu sinni, sem er um 80 %, með því að reisa tvö ný kjarnorkuver, þau fyrstu í sögu landsins, norður við Eystrasaltsströndina, skammt frá Kalíningrad, rússneskri hjálendu, þar sem eru kjarnorkuver og verða áfram. Til þessa ætla Pólverjar að verja allt að EUR 20 milljörðum. Verður þá Þýzkaland bókstaflega umlukið kjarnorkuverum á landi.
Þjóðverjar ætla að taka "stóra stökkið" þangað, sem Íslendingar eru í vinnslu raforku m.t.t. losunar gróðurhúsalofttegunda og taka þar með forystu í heiminum á þessu sviði. Mun Þjóðverjum takast þetta ? Það eru mörg ljón í veginum, eins og fyrri daginn. Ekki kæmi á óvart, að þeim tækist þetta með því að hætta við lokun allra kjarnorkuvera og leyfa kjarnorkuver af nýrri kynslóð.
Mörgum Þjóðverjum er um og ó út af ofurmetnaði leiðtoga þeirra í umhverfislegum efnum, en aðrir halda því fram, að ekki sé nógu langt gengið. Telja þeir, að til að ná markmiðinu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 80 % - 95 % m.v. 1990 árið 2050, sem talið er nauðsynlegt til að hindra hlýnun gufuhvolfsins yfir 2°C, þá verði árið 2030 að hafa náðst 55 % minnkun losunar og 45 % raforkunnar þurfi þá að koma úr endurnýjanlegum orkulindum. Þetta sjónarmið er sennilega rétt, en algerlega óraunhæft m.v. núverandi tækni. Líklega er samrunaorkan eina orkulindin, sem bjargað getur jörðunni frá of mikilli hlýnun og samtímis staðið undir vaxandi orkunotkun á mann.
Af þessu er ljóst, hversu mikið er talið vera í húfi. Nú er það einnig ljóst, að Íslendingar geta lagt sín litlu lóð á vogarskálarnar og sýnt umheiminum samstöðu í þessu örlagaríka máli. Spyrja má, hvernig við, sem framleiðum nánast enga raforku með jarðefnaeldsneyti, getum bætt um betur. Það getum við með því að framleiða enn meiri raforku hérlendis en gert er núna og létta þannig örlítið á raforkukerfum, sem menga miklu meira en okkar. Þetta getum við gert með sjálfbærum og afturkræfum hætti með því að beita beztu tækni við virkjanir og línulagnir, svo að það ætti ekki að vera áhorfsmál, ef útlendingar vilja kaupa af okkur orkuna á verði, sem stendur undir arðsemi fjárfestinga, sem er viðunandi m.v. áhættuna.
Nú vill svo til, að einn er sá málmur, sem svo hagar til um, að notkun hans vex hratt í heiminum, hann er talinn vera umhverfisvænn vegna hlutfalls styrks og eðlisþunga, hann er auðveldlega endurnýtanlegur, og tiltölulega mikla raforku þarf til að vinna hann í upphafi. Þetta er greinilega málmur framtíðarinnar, og þessi málmur er þess vegna kjörinn til framleiðslu á Íslandi til útflutnings. Þannig má draga örlítið úr framleiðsluþörf hans í löndum, sem ekki hafa umhverfislega jafnhagstæð skilyrði til þess og Íslendingar. Að móta slíka stefnu er vissulega umhverfisvernd í verki.
Glöggur lesandi hefur nú getið sér þess til með réttu, að hér muni vera átt við álið. Af þessum málmi eru nú þegar framleidd hérlendis um 900 kt/a (þúsund tonn á ári), og vinnslugeta orkulinda Íslands leyfir hæglega 2/3 aukningu, svo að framleiðslan verði 1,5 Mt/a (M=milljón). Viðbótin útheimtir viðbótar virkjanir upp á 9,0 TWh/a, sem er um 50 % aukning við núverandi vinnslugetu. Það er vel hægt að finna slíkum virkjunum stað án óbærilegra náttúrufórna. Þar sem slíkt er þó alltaf háð einstaklingsbundnu mati, má kjósa um valkostina í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef Alþingi sýnist svo, eða margir skrifa undir áskorun þess efnis. Þetta yrði okkar myndarlegasta framlag til aðstoðar við orkubyltinguna, sem nauðsynleg er að margra mati til að bjarga heiminum frá hreinu helvíti síhækkandi hitastigs. Er hægt að skjóta sér undan því að hlaupa undir slíkan bagga ?
Nú væri ekki furða, þó að einhver hugsaði með sér, hvort ekki væri vitlegra að beina íslenzku rafmagni, sem framleitt yrði með sjálfbærum hætti, beint inn á orkukerfi Evrópumanna, t.d. Breta, í stað þess að leggja í áhættusamar iðnaðarfjárfestingar á Íslandi með viðeigandi umhverfisraski og álagi á íslenzka náttúru á formi mengandi efna frá verksmiðjunum. Þessari spurningu er bezt að svara í nokkrum liðum:
- Það hefur enn ekki verið þróaður sæstrengur með nægilegt einangrunarþol fyrir þá háu jafnspennu, sem nauðsynleg er til að afltöpin verði viðunandi lág né með nægilegt togþol fyrir dýpið á lagnarleiðinni á milli Íslands og Skotlands. Líklegt er, að sæstrengjaframleiðendur teygi sig hægt og rólega í þá átt, sem gerir tæknilega kleift að framleiða, leggja og reka slíkan streng, en það verður tæpast fyrr en um 2025. Það verður alltaf dýrt og áhættusamt að reka slíkan streng, og hann gæti hæglega verið mánuðum saman úr rekstri vegna bilunar. Hver vill hætta fé sínu í mjög áhættusamt fyrirtæki, þar sem stofnkostnaðurinn er svo gríðarlegur, að flutningskostnaðurinn verður um 140 USD/MWh. Ef fást eiga yfir 30 USD/MWh fyrir orkuna Skotlandsmegin, þarf kaupandinn að snara út heildsöluverði 170 USD/MWh - 200 USD/MWh, og það er einfaldlega hærra en greitt er nú um stundir fyrir endurnýjanlega orku á Bretlandi í heildsölu. Allt bendir til, að aukið framboð á jarðgasi muni fella orkuverð í Evrópu, og einna fyrst á Bretlandi, eins og þegar hefur gerzt í Bandaríkjunum (BNA). Af þessum sökum dettur engum heilvita manni í hug að fjárfesta um ISK 500 milljarða í von og óvon um, að brezk yfirvöld muni skuldbinda ríkissjóð um áratuga skeið til að greiða niður græna raforku frá Íslandi til að bæta örlítið tölfræðina sína um hlutfall raforku úr endurnýjanlegum orkulindum. Í stuttu máli er enginn rekstrargrundvöllur fyrir aflsæstreng frá Íslandi til Skotlands í fyrirsjáanlegri framtíð.
Með nútíma tækni er unnt að draga mjög úr umhverfisraski bæði við virkjanir og iðjuver og draga svo úr mengun iðjuvera, að sáralítilla og hættulausra (afturkræfra) ummerkja sjái stað í viðkvæmri náttúru Íslands, enda er annað fullkomlega óboðlegt. Góð vísbending um gæði tæknilegs rekstrar álvera var birt í Aluminium International Today, janúar/febrúar hefti 2014, þar sem losun gróðurhúsalofttegunda sem CO2 jafngildi í t/t Al var birt. Af töflunni hér að neðan um 10 beztu löndin, hvað litla losun gróðurhúsalofttegunda varðar, má ráða, að álverin á Íslandi séu í hópi þeirra, sem tæknilega bezt eru rekin í heiminum. Það þýðir, að þau beita beztu fáanlegu tækni við sinn rekstur og að mannskapurinn ræður við þá tækni. Með beztu fáanlegu tækni nú á dögum er hægt að stunda iðnrekstur án þess að skilja eftir sig fótspor í náttúrunni. Þetta á sérstaklega vel við um Ísland, þar sem víða er enginn skortur á vatni, en álver þurfa á miklu vatni að halda.
- Þýzkaland: 1,72
- Ástralía: 1,86
- Spánn: 1,96
- Ísland: 2,11
- Brasilía: 2,17
- Noregur: 2,20
- Kanada: 2,36
- Frakkland: 2,66
- Rússland: 2,66
- Bandaríkin: 3,16
Að bæta við framleiðslugetu áls á Íslandi um 600 kt/a útheimtir virkjanir með vinnslugetu tæplega 9 TWh/a, sem er 50 % aukning m.v. núverandi stöðu, og færi vinnslugeta landsins þá upp í tæpar 27 TWh/a. Að bæta við aftöppun úr kerfinu upp á 900 MW um sæstreng til Bretlands gæti þýtt rúmlega 5 TWh/a orku, og Landsvirkjun ætlar ekki að virkja hana alla fyrir sæstrenginn. Það þýðir aðeins eitt. Landsvirkjun ætlar að skapa hér viðvarandi vatnsskort í miðlunarlónum, nema í beztu vatnsárum, eins og nú er að verða reyndin á Austurlandi með orkuflutningi frá Kárahnjúkavirkjun norður og suður vegna skorts á miðlunargetu á Suðurlandi og Norðurlandi.
Það er einkennilegt fólk, sem gengur með þær grillur, að friður geti skapazt um það fyrirkomulag á Íslandi að tæma lónin án virðisaukandi starfsemi hérlendis fyrir tilstuðlun orkunnar með þeim afleiðingum, að atvinnurekstur á Íslandi verði fyrir árvissum skakkaföllum vegna orkuskorts. Þessi hugmynd er með eindæmum illa ígrunduð og mun aldrei hljóta hljómgrunn hérlendis, hvernig sem áróðursmenn sæstrengs hamast. Það má segja um Landsvirkjun í þessu sambandi, að svo flýgur hver sem hann er fiðraður.
Það má hins vegar spyrja, hvort skynsamlegt sé að auka við álframleiðsluna, setja fleiri egg í sömu körfuna, eins og sagt er. Svarið við því veltur á ýmsu. Fyrst er til að taka markaðshorfur álsins. Verðið er lágt núna eða tæplega 2000 USD/t að meðtöldu gæðaálagi eða "premíu", en það er lítið vit í að framleiða ál á Íslandi án virðisaukandi forvinnslu fyrir lokavinnsluferli hjá kaupanda. Dæmi um slíka vinnslu er álverið í Straumsvík, ISAL, þar sem frá upphafi verksmiðjunnar árið 1969 til 2013 voru steyptir völsunarbarrar af fjölmörgum gerðum fyrir völsunarverksmiðjur, en nú er verið að bylta steypuskála fyrirtækisins til að steypa sívalninga, sem gefa enn meiri virðisauka og fara í þrýstimótun alls konar bita, t.d. fyrir bílaiðnaðinn, flugvélaiðnaðinn, skipaiðnaðinn, lestir og byggingariðnaðinn.
Nú eru mjög miklar birgðir áls í heiminum eða um 15 Mt, sem endast mundu framleiðendum í 15 vikur án viðbótar inn á markaðinn. Ástæðan er meiri aukning á framleiðslugetu en eftirspurnaraukning. Sú staða hefur nú snúizt við, og árið 2016 er talið, að verð taki að hækka umtalsvert að nýju. Aukning eftirspurnar hefur verið gríðarleg eða um 4-8 % á ári undanfarin ár, og hefur Kína leikið þar aðalhlutverkið. Horfur fyrir álframleiðendur, sem nota raforku úr endurnýjanlegum orkulindum og sem hafa náð góðum tökum á rekstrinum og þar með öryggis-, heilsu- og umhverfismálunum, eru mjög góðar.
Íslendingar hafa í raun allt sitt á þurru varðandi viðskiptin við eigendur álveranna. Þeir hætta ekki fé sínu til fjárfestinga, nema til þjónustustarfsemi við álverin. Raforkufyrirtækin hætta engu til, af því að arðsemi viðskiptanna er tryggð í orkusamningi með mjög hárri kaupskyldu, lágmarksverði, sem hækkar samkvæmt ýmsum álþjóðlegum vísitölum, og langtímasamningum, með 20-40 ára gildistíma. Með slíka samninga upp á vasann trítla fulltrúar virkjanafyrirtækjanna á fund lánastofnana og fá hagstæðustu fjármögnun, sem völ er á, vegna lágmarksáhættu. Þessum eggjum í títtnefndri körfu er þess vegna ekki hætta við að brotna, enda hefur áliðnaðurinn í 45 ára sögu sinni á Íslandi lagt sitt lóð á vogarskálar stöðugleikans.
Það þarf ekki að orðlengja það, að álframleiðsla á Íslandi er aðferð til að skapa fjölbreytileg störf í landinu og til að skapa álitlegan gjaldeyri úr orkulindum landsins, vatnsorku og jarðvarma. Vindorkan hérlendis er bara fyrir vindbelgi til að belgja sig út um, því að vindmyllurnar, þó að stórar séu, framleiða bæði lítið og dýrt rafmagn, sem hvergi er réttlætt, nema til að auka hlut endurnýjanlegra orkulinda. Hér hefur þessi hlutdeild í raforkuvinnslu verið fast að 100 % síðan um 1980. Vindmyllur án kolefnissparnaðar eru ekkert annað en aðhlátursefni, þótt með öðrum hætti sé en í skáldsögunni um riddarann sjónumhrygga.
Þá er spurningin sú, hvort landsmenn vilji fórna meira landi undir miðlunarlón, sem er óhjákvæmilegt, þó að engin aukning verði í iðnaðinum, til að geta afhent umsamda orku á útmánuðum sem aðra mánuði ársins. Þetta er unnt að gera án þess að eyðileggja varanlega nokkrar gersemar, eins og nýleg tillaga umhverfis- og auðlindaráðherra gefur vonir um.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Bjarni, ég hafði áhyggjur af þér fyrst við lesturinn, þar sem þú skrifar alltaf af viti um orkumál, en sem betur fer hafði ég þrautsegju til þess að lesa allt til enda, þar sem við erum algerlega sammála.
Maður verður að vera praktískur um loftslagsmálin, jafnvel þó að maður hafi þá trú að "Dómsdagur vofi yfir mannkyni", ef hinu og þessu er haldið áfram. Ísland er með bókstaflega allt á hreinu miðað við aðrar þjóðir og þarf ekki að fara í neinn prósentuleik. Opinber samþykkt og takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda er aðeins hjá 17% heildarlosunar manna heims. Jafnvel hinir fanatískustu þeirra (Þjóðverjar)brenna kolum eins og enginn sé morgundagurinn og loka kjarnorkuverum sínum.
Hafi ég haft áhyggjur af smálosun Íslendinga (sem ég hef ekki) þá hefur það eflaust farið af mér þegar ég horfði á Eyjafjallajökul losa ösku upp á 500 tonn á sekúndu og sannarlega árið eftir þegar öll losunin fór fram á einum degi í Vatnajökli.
En rétt hjá þér, við tökum þetta að okkur Íslendingar í álbræðslum fyrir heiminn. Umhverfisráðuneytið (undir vinstri stjórn) staðfesti hvort eð er að álbræðslan hér gæti vart verið með minni losun en hún er.
Ívar Pálsson, 20.2.2014 kl. 21:54
Sæll, Ívar;
Þakka þér fyrir þrautseigjuna. Hún hefur vonandi ekki verið til einskis. Lofthjúpur jarðar fylgir ekki landamærum. Siðferðislega er þess vegna vel verjanlegt að boða nokkrar breytingar á ásýnd landsins í nafni aðgerða, sem eru til þess fallnar að draga örlítið úr aukningu gróðurhúsaáhrifanna. Á Íslandi má virkja með sjálfbærum og afturkræfum hætti, þannig að fórnirnar eru litlar í samanburði við ávinninginn.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 20.2.2014 kl. 22:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.