3.4.2014 | 20:06
Jöfnuðurinn og réttlætið
"Sex, brains and inequality" nefndist grein í The Economist þann 8. febrúar 2014 með undirfyrirsögn: "Hvernig jafnrétti kynjanna eykur bilið á milli ríkra og fátækra fjölskyldna".
"Nú á dögum eru framgangsríkir karlar líklegri til að kvænast framgangsríkum konum en áður var. Þetta er gott, því að það ber vott um, að meira er um "háfleygar" konur en áður. Karlkyns læknar kvæntust hjúkrunarfræðingum á 7. áratugi 20. aldar, af því að þá voru kvenkyns læknar sjaldgæfir. Nú eru þeir algengir. Hjónabönd jafningja (assortative mating) eykur ójöfnuð á milli fjölskyldna - tveir lögfræðingar í sambúð/hjónabandi eru miklu ríkari en einstæð móðir í verzlunarvinnu. Ný rannsókn á hundruðum þúsunda para staðfestir kenninguna, sem hér hefur verið sett fram.
Launamunur á milli vel menntaðs og minna menntaðs starfsfólks hefur vaxið, og sá munur er ekki lengur verulega kynbundinn vegna batnandi menntunar kvenna. Hefði makaval verið tilviljanakennt, þá mundu margar hálaunaðar konur hafa kvænzt illa launuðum körlum og öfugt. Launamunur hefði vaxið, en munurinn á tekjum heimilanna mundi ekki hafa aukizt. Þeir, sem rannsakað hafa þetta, telja, að Gini-stuðullinn, sem er 0 við algeran jöfnuð og 1 við algeran ójöfnuð, mundi lítið hafa breytzt með tilviljanakenndu makavali, eða farið úr 0,33 árið 1960 í 0,34 árið 2005.
Reynslan sýnir hins vegar, að vel menntað fólk dregst saman og stofnar heimili í æ ríkari mæli. Árið 1960 kvæntust 25 % karla með háskólagráðu konu með háskólagráðu. Árið 2005 var þetta hlutfall 48 %. Af þessum sökum hækkaði Gini úr 0,33 árið 1960 í 0,43 árið 2005. ...
Kona með háskólagráðu, sem hefði gifzt manni, sem hætt hefði skólagöngu á gagnfræðastigi, hefði samt notið 40 % hærri heimilistekna en fjölskylda með meðallaun árið 1960, en árið 2005 hefði slík fjölskylda haft laun 8 % undir meðaltalinu. Árið 1960 voru heimilistekjur háskólamenntaðra hjóna 76 % yfir meðallaunum, en árið 2005 höfðu þau 119 % yfir meðaltalinu. "
Niðurstöður þessara félagsfræðilegu rannsókna eru athygliverðar fyrir nokkurra hluta sakir:
- Vafstur stjórnmálamanna, sem hallir eru undir forræðishyggju og eru stöðugt með jafnrétti og jöfnuð á vörunum, er unnið fyrir gýg, vegna þess að þjóðfélagsþróunin veldur auknum mun á fjölskyldutekjum. Hvernig ætlar stjórnmálamaður á borð við Katrínu Jakobsdóttur, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem kveður Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, vitja sín í draumum, að bregðast við niðurstöðum þessarar rannsóknar ? Mun hún beita sér gegn þjóðfélagsþróuninni, sem lýst er hér að ofan, til að lækka GINI-stuðulinn, eða mun hún halda áfram að berjast við vindmyllur, eins og eru hennar ær og kýr ?
- Enginn stöðvar tímans þunga nið. Hin gleðilega þróun menntunar kvenna verður ekki sveigð af leið til að framkalla meiri jöfnuð í tekjum fjölskyldna. Góð menntun kvenna á borð við karla þýðir, að þjóðfélagslega vannýtt auðlind er nú betur nýtt og leysir úr læðingi verðmætasköpun, sem áður var ekki fyrir hendi. Þetta eykur tekjustig samfélagsins, en aukningin dreifist ekki jafnt, eins og rannsóknin sýnir, heldur leitar fé þangað, sem fé er fyrir. Katrín Jakobsdóttir er nú um stundir helzti handhafi þjóðfélagslegs réttlætis, sem hún er síknt og heilagt með á vörunum. Hún er sem Don Kíkóti nútímans samkvæmt ofangreindri rannsókn. Aðalbaráttumál Katrínar er tímaskekkja. Hún virðist sjaldan veðja á réttan hest, eins og afstaða hennar til ESB 16. júlí 2009 og aftur í febrúar-marz 2014 sýnir.
- Nú má spyrja, hvort eitthvert réttlæti felist í því, að Katrín Jakobsdóttir og hennar meðreiðarsveinar, þegar þau komast til valda, hækki tekjuskattheimtuna upp úr öllu valdi á menntafólki með góðar tekjur undir yfirskyni "réttlætis"? Það mun ekki hafa þær afleiðingar, að slíkt fólk hætti að draga sig saman til að skapa meiri jöfnuð í fjölskyldutekjum í landinu, þó að forræðishyggjunni væri vel trúandi til að vilja stjórna slíkum samdrætti í nafni "þjóðfélagsréttlætis". Menntafólkið mun hins vegar flýja land undan ofurréttlætisskattheimtu Kötu Jak og hennar nóta. Slíkt minnkar skattstofninn, dýrmætri fjárfestingu hins opinbera er fórnað á altari jöfnuðar, þannig að allir verða fátækari, nema þeir sem flúðu. Jafnaðarstefna Katrínar Jakobsdóttur er jafnaðarstefna andskotans, af því að hún leiðir til verri afkomu allra.
- Það er hroðalegt að hlusta á forsprakka vinstri flokkanna, sem alræmdir urðu af kosningaloforði sínu 2009 um "skjaldborg heimilanna", sem í framkvæmd breyttist í "skjaldborg bankanna", tuða um það á Alþingi og á vettvangi ASÍ, að aðgerðir ríkisstjórnar og Tryggva Þórs Herbertssonar gagnist helzt hinum tekjuhærri þegnum þjóðfélagsins. Það vill svo til, að hinir tekjuhærri og skuldsettu eru í flestum tilvikum ungt fólk, sem er að koma sér þaki yfir höfuðið með mikilli vinnu. Þetta fólk tók eðlilega hærri lán en hinir, af því að það hafði meiri greiðslugetu. Það breytir ekki því, að stökkbreyting lána og hrun peningakerfisins gat komið þessu fólki á vonarvöl, og margir þeirra leituðu í atvinnuskyni til útlanda. Verkefnið er að fá upp svo góðan hagvöxt á Íslandi, sem knúinn verði af fjárfestingum, helzt í útflutningsatvinnuvegum, að "flóttafólkið" sjái sér hag í því, þegar öllu er á botninn hvolft, að leita heim á ný. Það er ljóst, að spor vinstri stjórnarinnar hræða á öllum sviðum, en lág verðbólga og stöðugur hagvöxtur yfir 3-4 % er bezta bólusetningin gegn þröngsýni, neikvæðni og afturhaldsstefnu vinstri manna. Ef launahækkanir í landinu verða ekki innistæðulausar, þ.e. ekki umfram framleiðniaukningu, þá er ekki lögmál, að hér verði meiri verðbólga en annars staðar. Það eru þegar í gangi aðgerðir til að hefta aukningu peningamagns í umferð. Mikil aukning peningamagns í umferð, þ.e. seðlaprentun bankanna með miklum lánveitingum, er verðbólguhvetjandi og ber að halda í skefjum.
Góður hagvöxtur er bezta jöfnunartækið fyrir afkomu þjóðfélagsþegnanna. Þá eru flest tækifæri til að bæta kjör sín, ekki sízt í hópum hinna efnaminnstu, og hækkandi jaðarskattur með tekjustigi hefur útjafnandi áhrif. Hagvöxtur bætir einnig hag hins opinbera, svo að aukið svigrúm myndast fyrir bætur og millifærslur.
Nú eru ljón í vegi hagvaxtar. Bolfiskverð er fremur lágt og verð á uppsjávartegundum einnig vegna ansjósuframboðs frá Suður-Ameríku. Norðmenn, ESB og Færeyingar gerðu arfavitlausan samning um 50 % aukningu á makrílveiðum, sem öll er umfram ráðgjöf fiskifræðinga og getur valdið verðfalli á makríl í ár.
Ferðamennskan getur unnið á móti þessu. Árið 2013 komu 800 þúsund erlendir ferðamenn til landsins, og í ár er spáð hátt í einni milljón ferðamanna, en ferðamenn virðast hafa æ minna fé á milli handanna, svo að ekki er á vísan að róa í þessum efnum heldur.
Áliðnaðurinn á mjög undir högg að sækja hérlendis um þessar mundir og hefur neyðzt til að fækka fólki vegna slæms markaðar og óvenju lágra verða. Áliðnaðurinn skilar tapi, eða afkoma hans er í járnum vegna markaðarins. Ofan á þessi vandræði bætist heimatilbúinn vandi af völdum orkuskorts í landinu, sem hefur valdið íslenzkum áliðnaði miklum búsifjum. Alþekktur er niðurdráttur í jarðgufuvirkjunum á Hellisheiði, sem Orkuveita Reykjavíkur hefur bætt sér upp með kaupum á raforku af Landsvirkjun. Landsvirkjun, á hinn bóginn, er engan veginn aflögufær, því að hana skortir bæði miðlunarrými og fleiri virkjanir í Þjórsá til að nýta takmarkað vatn úr Þórisvatni betur.
Fyrirhyggjuleysið, sem þetta alvarlega ástand lýsir, hefur nú leitt til forgangsorkuskerðinga til margra notenda, og Þórisvatn kann að tæmast í vor, og þá mun koma til skömmtunar á rafmagni til almenningsveitna. Hér er ekki aðeins um gríðarlegt fjárhagstjón að ræða, tjón sem hleypur á tugum milljarða króna, heldur er stórhætta á ferðum fyrir almenning vegna yfirvofandi straumrofs. Ný stjórn Landsvirkjunar verður að sýna meira lífsmark en sú gamla, þar sem þjóðarhagur liggur við.
Yfirvöld í landinu eru ábyrg gagnvart almenningi varðandi öruggt aðgengi að orku. Þau verða nú að fara að taka sér tak. Þeir, sem alltaf rísa upp á afturfæturna, þegar aukin miðlunargeta eða nýjar virkjanir koma til tals, eru stikkfrí, verða ekki krafðir um bætur vegna tjóns af völdum raforkuskorts, enda algerlega ábyrgðarlausir. Það er ábyrgðarleysi að hálfu yfirvalda orkumála í landinu að láta við svo búið standa. Miðlunargeta lónanna er allt of lítil orðin, enda hefur ekkert við hana bætzt hér sunnanlands síðan síðasta áfanga Kvíslaveitu lauk, líklega um aldamótin, og Hálslón er síðasta miðlunarframkvæmd landsins, tekin í notkun árið 2007. Hið undarlega gerist, að það fylltist í fyrrahaust, en samt hefur þurft að grípa til raforkuskerðingar í vetur hjá Fjarðaáli, fiskimjölsverksmiðjum o.fl. fyrir austan, annað árið í röð. Þetta er grafalvarlegt ástand fyrir öryggi landsmanna og fyrir hagkerfið, sem fyrir vikið mun verða stöðnun að bráð. Arðsömustu fjárfestingar hins opinbera eru styrking innviðanna, og raforkusalan endurspeglar umsvifin í samfélaginu og þar með landsframleiðslu og hagvöxt.
Nú dugar ekki lengur dauðyflisháttur í orkumálunum, framkvæmdir við virkjanir, miðlanir og flutningslínur verða að fara strax af stað. Raddir um 1650 GWh/a (200 MW) af ónýttri raforku í landskerfinu, sem afsetja verði um sæstreng til Skotlands, hafa hljóðnað, enda hljóma þær nú sem gjörsamlega út úr kú. Afleggið draumóra og hefjizt handa.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Lífstíll, Spaugilegt, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.