28.2.2014 | 21:52
Skollaleikurinn og skýrslan
Fyrsti þáttur skollaleiksins um Ísland inn í ESB fór fram á sumarþinginu 2009. Þá höfnuðu þáverandi stjórnarsinnar tillögu sjálfstæðismanna á þingi um að leyfa þjóðinni að tjá hug sinn til þess að senda aðildarumsókn til Brüssel.
Það var þó augljóslega kúvending í utanríkisstefnu Íslands að sækja um inngöngu í ríkjasamband Evrópu. Þetta var líka kúvending í stefnu annars stjórnarflokksins, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, enda voru sumir þingmenn flokksins augljóslega "í handjárnum" og með óbragð í munninum, þegar þeir samþykktu.
Eftirminnileg eru orð Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, sem sagði já við umsókn um aðild að samtökum stórauðvaldsins, sem væru á borð við hver önnur krimmasamtök. Þótti jafnvel andstæðingum umsóknar, sem á hlýddu, ráðherran taka nokkuð stórt upp í sig. Þingmenn með slíka fyrirvara með atkvæði sínu voru hins vegar bara að atast í ESB. Hugur fylgdi ekki máli, og því fór sem fór. Össur náði engum árangri og gafst upp. Ríkisstjórn Íslands varð að athlægi í Brüssel, af því að hún hélt, að hægt væri að töfra fram "sérlausnir". Þegar Össur minntist á þetta á blaðamannafundi í Brüssel, var hann umsvifalaust og skorinort, en kurteislega, leiðréttur af Füle. Þá hló marbendill. Að sækja um aðild að ESB án þess að ætla inn er einsdæmi fyrir ESB, og einvörðungu pólitískum furðudýrum getur dottið þvílík vitleysa í hug. Hvílíkur tvískinnungur !
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, var einn af stofnendum VG. Hann lætur ekki forystu flokksins teyma sig á asnaeyrunum og gerir grein fyrir afstöðu sinni til umsóknar að ESB og afturköllun hennar í frábærri grein í Morgunblaðinu, 25. febrúar 2014, "Stór áfangi í sjálfstæðismálum Íslendinga". Getur höfundur þessa bloggs vottað, og er sjálfur ekki minnst hissa, að hann getur skrifað undir þessa grein fyrrverandi iðnaðarráðherra með punkti og priki. Öðru vísi mér áður brá.
Í upphafi greinarinnar skrifar Hjörleifur:
"Samþykkt ríkisstjórnar Íslands síðast liðinn föstudag þess efnis að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er líklega merkasti áfangi í sjálfstæðismálum þjóðarinnar frá lýðveldisstofnun."
Hvaða afstöðu ætlar núverandi formaður VG að taka til téðrar þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar ? Ef hún hafnar henni, er hún gengin í ESB-björg Samfylkingarinnar, er á öndverðum meiði við fyrri og nýrri samþykktir flokks síns og grefur undan sjálfstæði landsins, sbr skrif Hjörleifs hér að ofan.
Ef hún skilar auðu í þessu sjálfstæðismáli, þá sannar hún, að hún er pólitískt viðrini. Að þora ekki að standa við stefnu flokks síns kann ekki góðru lukku að stýra. Það mun skaða flokkinn til lengdar og formanninn í bráð og lengd.
Ef hún á hinn bóginn styður þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar, þá tekur hún sér stöðu með sjálfstæðissinnum á borð við Hjörleif Guttormsson.
Með birtingu skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ, hófst seinni hluti skollaleiksins um aðildarviðræður íslenzku ríkisstjórnarinnar við Stefan Füle og stækkunarteymi ESB í Brüssel. Skýrslan ber með sér fræðilegan þokka, og er þess vegna vandað verk. Af henni má hvarvetna ráða, að Össur Skarphéðinsson, Þorsteinn Pálsson og félagar hafa engum árangri náð fyrir Íslands hönd í þessum viðræðum. Þar sem full aðlögun að "Acquis" (því sem hefur verið ákveðið af ESB) hefur verið náð, er allt klappað og klárt, en á sviðum, þar sem svo er ekki, hefur hvorki gengið né rekið. Með öðrum orðum hafa heitstrengingar Össurar Skarphéðinssonar um "sérlausnir" fyrir Ísland reynzt túður eitt út í loftið. Hann hafði til þess 3,5 ár og hundruði milljóna kr að semja um sérlausnir án árangurs. Þetta er fullreynt. Áframhald er ígildi hreins fíflagangs, þar sem ríkisstjórnin mundi stórskaða hagsmuni Íslands bæði innan ESB og utan með áframhaldandi aðlögun, sem við yrðum síðan að vinda ofan af, af því að hvorki þing né þjóð mun samþykkja óbreytta löggjöf og regluverk ESB t.d. í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Það er fullreynt í 3,5 ára þjarki Össurar og Þorsteins í Brüssel, að ekkert er í boði annað en allir sáttmálar ESB, þ.m.t. Rómarsáttmálinn og hin sameiginlega landbúnaðar- og sjávarútvegsstefna ESB. Flutningur á forræði auðlindanna til Brüssel blasir við, enda berjast aðildarsinnar einmitt fyrir því. Skilyrðislausri inngöngu Íslands í ESB.
Samfylkingin siglir undir fölsku flaggi í þessu máli, því að hún vill í raun skilyrðislaust þarna inn. Þess vegna ætlar allt um koll að keyra núna. Samfylkingin er af þessum sökum ófær um að ræða hina ágætu skýrslu efnislega. Þess í stað upphefur hún fádæma skítkast, og er formaður Sjálfstæðisflokksins aðalskotskífan. Það er ekki hægt annað en að fá skeifu, þegar hlustað er eða horft á varaformann Samfylkingar missa gjörsamlega stjórn á skapi sínu í ræðustóli Alþingis og belgja sig út af dólgslegum fúkyrðum í garð Bjarna Benediktssonar, þegar hann færði henni dagskrá Alþingis. Hún kórónaði svo barnalega hegðun sína með því að færa honum eitthvert snifsi í ræðustól ásamt með stöllu sinni. Innganga Íslands í ESB eru trúarbrögð Katrínar Júlíusdóttur, en rök hefur hún engin.
Fólk, sem hagar sér með þessum hætti og er gjörsamlega ófært um að rökræða sitt eina pólitíska stefnumál, skilyrðislausa inngöngu í ESB, má aldrei aftur komast í valdastóla á Íslandi.
Um hvað snýst allt fjaðrafokið ? Það snýst um misskilning og rangtúlkun á orðum formanns Sjálfstæðisflokksins og fleiri. Flokkinum var mótuð sú stefna á Landsfundi 2013 að slíta viðræðum við ESB og ekki taka upp viðræður að nýju, hvorki eftir núverandi hlé Össurar Skarphéðinssonar, sem gafst upp á limminu, né eftir viðræðuslit.
Það var að sjálfsögðu alls ekki á Landsfundi gert ráð fyrir því að setja stefnuna um viðræðuslit í þjóðaratkvæði. Flokkurinn stendur og fellur með stefnu sinni. Tal um slíkt er hreinræktuð heimska, því að enginn alvöru stjórnmálaflokkur markar eindregna stefnu í grundvallarmáli, og býður svo upp á þjóðaratkvæði um hana eftir Alþingiskosningar. Stuðningur við flokkinn er stuðningur við stefnu hans. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut mest fylgi allra flokka í Alþingiskosningunum, og að hverfa frá stefnu hans væru svik við kjósendur hans.
Þá er komið að hinum þætti ESB-stefnunnar, þættinum um þjóðaratkvæðið. Moldviðrið, sem stjórnarandstaðan hefur þyrlað upp um "svikin" loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjálfstæðismenn mótuðu kýrskýra stefnu á síðasta Landsfundi. Hún var ekki sú að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um, hvort ætti að slíta viðræðunum um aðild að ESB. Nei, alvöru stjórnmálaflokkur tekur ekki afstöðu í grundvallarmáli og skilyrðir stefnuna svo við þjóðaratkvæði. Flokkurinn leggur sjálfan sig undir í þessu máli og leggur stefnu sína undir í næstu kosningum. Til þess eru stjórnmálaflokkar að sameina fólk, sem berjast vill fyrir ákveðnum málum.
Hinn hluti hinnar mótuðu afstöðu Landsfundar var hins vegar yfirlýsing um það, að hvort sem Sjálfstæðisflokkurinn lenti innan eða utan ríkisstjórnar eftir þingkosningarnar 27. apríl 2013, ef svo má komast að orði, mundi flokkurinn berjast fyrir því, að þráðurinn yrði ekki tekinn upp að nýju við ESB, nema meirihluti yrði fyrir því í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu. Með öðrum orðum, ef sú stefna hefði orðið ofan á við ríkisstjórnarmyndun eftir síðustu kosningar að halda aðlöguninni áfram, þá mundi Sjálfstæðisflokkurinn berjast fyrir því, að svo yrði ekki gert án samþykkis í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þetta er of hart aðgöngu fyrir stjórnarandstöðuna til að hún geti og/eða vilji skilja boðskapinn rétt. Þess vegna hefur hún kosið að afflytja boðskap frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins, eins og henni hentar, en það er lítilmannlegt af fulltrúum hennar að velta sér upp úr meintri ónákvæmni þeirra í framsetningu stefnu flokksins. Enginn frambjóðandi hafði umboð til að útþynna stefnu flokksins. Segja má, að þeir, sem tjáðu sig með óljósum hætti, hvað þetta varðar, hafi ekki búizt við slíku afhroði beggja fyrrverandi stjórnarflokka í kosningum, að þeir lægju báðir afvelta úti í móa að þeim loknum. Hið umdeilda loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu var þannig varnagli flokksins.
Lágkúra Samfylkingar ríður ekki við einteyming þessi dægrin. Nú hefur varaformaðurinn "toppað" formanninn, hvað orðbragð og framkomu snertir. Andlegt jafnvægisleysi Katrínar Júlíusdóttur, sem fram kom í ræðustóli Alþingis um skýrslu HHÍ og ímyndað loforð stjórnmálaandstæðinga hennar í kosningabaráttu, er á svo alvarlegu stigi, að það má ekki blaka við henni án þess að hún falli kylliflöt. Þetta er ekki þingleg hegðun og svo sannarlega er ekki hægt að treysta manneskju, sem er svona veik á svellinu, fyrir ráðherraembætti. Hún hefur hins vegar komizt til metorða í Samfylkingunni, og þingið situr uppi með hana og sandkassaleik hennar þetta kjörtímabilið.
Nú er málum svo komið, að það verður vart hjá því komizt að taka snerruna um aðild eða ekki aðild. Skýrsla HHÍ, árangursleysi 3,5 ára aðildarviðræðna, orð stækkunarstjóra ESB og öll gögn stækkunardeildarinnar, sanna, að engar undanþágur aðrar en hreinn tittlingaskítur eru á boðstólum. Í þjóðaratkvæðagreiðslu verður að spyrja spurningarinnar: "Vilt þú, að Ísland fullnusti aðlögun að regluverki Evrópusambandsins og undirgangist síðan alla sáttmála og löggjöf þess með inngöngu í Evrópusambandið ?"
Það er ekki hægt að ljúka þessari grein með jafnleiðinlegu fyrirbrigði og Samfylkingunni og forystu hennar, heldur skal nú vitna í lokakafla téðrar Morgunblaðsgreinar Hjörleifs, náttúrufræðings:
"Sjálfstæðisbaráttu lítillar þjóðar lýkur aldrei, og í því efni þarf hver kynslóð að svara kalli. Ákvörðun um að slíta nú aðildarviðræðum við ESB skapar Íslendingum kærkomið andrúm til að hugsa sinn gang í samskiptum við aðrar þjóðir. Lega landsins, ríkulegar náttúruauðlindir og nálægðin við norðurskautið kalla í senn á árvekni og sveigjanleika í samskiptum út á við. Niðurnjörvun Íslands sem jaðarríkis í gangverki stórvelda meginlandsins er það, sem sízt hentar okkar hagsmunum í bráð og lengd. Yfirvegað mat á heildarhagsmunum á að ráða för nú sem endranær, og það er Alþingis í samvinnu við önnur stjórnvöld og almenning að vísa veginn."
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Get skrifað undir þetta líka...
Ólafur Björn Ólafsson, 28.2.2014 kl. 23:45
Allt sem þessi móðursýki snýst um er hvort hætta eigi heiðarlega og formlega við þessar viðræður i bili eða láta Etta liggja í salti til seinni tíma þegar byrja þarf allt ferlið upp á nýtt, vegna þess að það sem unnið er einskis nýtt þegar kemur að breyttum aðstæðum síðar.
Allt sem þetta snýst um er að halda þessu þarna svo það komi ekki að því að þjóðin fái að svara því hvort leggja á upp í ferðina. Hún var sniðgengin ítrekað með þau sjálfsögðu mannréttindi og þannig á að halda því.
Mér er sama hvort þetta liggi í limbói, en nú vil ég fá embættismenn sambandsins og stækkunarstjora til að tala út um málið og fræða fólk um hvað í þessú felst. Að það er enginn pakki að kikja í né neinna forrettinda að vænta umfram aðrar þjóðir. Að hugtakið samningur sé einvörðungu notað um það að sættast á hve hratt eða hægt þú tekur upp allan lagabalk sambandsins og framseljir fullveldið til miðstýringarvaldsins í Brusseldúmunni.
Ég er mest undrandi á því eftir öll þessi ár hversu clueless fólk er um það hvað er hér á ferð, þegar það er löngu ljóst og opinbert í raun.
Nu verðum við að gera það sem Samfylkingin kom sér hjá af augljósum ástæðum, en það er að koma þessum upplýsingum á framfæri svo ekki verður um villst og sýna um leið hverskonar blekkingarleikur hefur verið spilaður hér.
Jón Steinar Ragnarsson, 1.3.2014 kl. 04:31
Staðan er sú, þó að Samfylkingin reyni með látum á Alþingi, sem orðið hafa henni til skammar, að það er ekki hægt að halda aðildarferlinu áfram. Það er stopp vegna þess, að heimild skortir frá Alþingi til að verða við kröfum í rýniskýrslu ESB um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Ríkisstjórn Jóhönnu heyktist á að afla slíkra heimilda frá síðasta Alþingi, og þess vegna stöðvuðust viðræðurnar. Í þessu felst hinn "pólitíski ómöguleiki" framhalds á inngönguferlinu. Núverandi Alþingi er engu fúsara til að veita slíkar heimildir, og ríkisstjórnin getur ekki farið gegn stefnu sinni og reynt að afla slíkra heimilda.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 1.3.2014 kl. 14:01
Hér er skýring mín á þessu öllu í annarri athugasemd.
http://49beaverbrook.blog.is/blog/49beaverbrook/entry/1360224/#comments
Jón Steinar Ragnarsson, 1.3.2014 kl. 16:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.