Blekkingaveitan

Þann 1. febrúar 2009 var Stjórnarráði Íslands breytt í blekkingaveitu.  Sú breyting var innsigluð með Alþingiskosningunum í apríl 2009 og myndun meirihlutastjórnar vinstri manna, sem fræg varð að endemum og hékk við völd allt síðast liðið kjörtímabil og olli miklu tjóni.

  Ríkisstjórn þessi kom óheiðarlega fram gagnvart fólkinu í landinu, huldi bankamálin leyndarhjúpi og reyndi að smeygja um háls almenningi skuldaklafa fallinna banka í nafni lagalegrar nauðsynjar, sem var alls ekki fyrir hendi, og gerði ósvífna og svæsna tilraun til að smygla landinu inn í Evrópusambandið, ESB, með bolabrögðum á Alþingi og hráskinnaleik allt kjörtímabilið. Sá ljóti leikur heldur enn áfram, og er mál að linni.

Smám saman hefur reynzt unnt að fletta ofan af svívirðilegum blekkingum ráðherra vinstri stjórnarinnar, t.d. varðandi hina fádæma illa undirbúnu umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Í þessu sambandi er vert að rifja upp orð Abrahams Lincolns, lögfræðings og eins mikilhæfasta forseta Bandaríkja Norður Ameríku, BNA, en hann mælti þessi frægu orð:

"Það er stundum unnt að blekkja alla og jafnvel alltaf hægt að blekkja suma, en það er ekki mögulegt að blekkja alla alltaf."

Það er kominn tími til fyrir heimatrúboð ESB á Íslandi að gera sér grein fyrir því, hvað felst í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ, varðandi blekkingavefinn um umsóknina.  Einkennandi fyrir þetta heimatrúboð er reyndar, að það gefur dauðann og djöfulinn fyrir öll rök í málinu, en vill inn, hvað sem það kostar.  Þetta viðhorf jaðrar við landráð og er alveg dæmalaus eitruð blanda af þráhyggju, minnimáttarkennd, metnaðarleysi, fláræði og undirlægjuhætti.

  Þegar menn kynna sér málavöxtu, fer ekki hjá því, að upp fyrir þeim renni, að umsóknin var á sínum tíma andvana fædd, af því að Alþingi skilyrti hana með skilmálum, sem voru algerlega óaðgengilegir fyrir stækkunarteymi ESB og bakhjarla þess í framkvæmdastjórninni.  Össuri Skarphéðinssyni mistókst að fá utanríkismálanefnd Alþingis til að slá af kröfum sínum og koma til móts við kröfur stækkunarteymisins um tímasetta áætlun um aðlögun sjávarútvegsstefnu Íslands að hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB, sem Frakkar, Spánverjar og Portúgalir voru ófáanlegir til að vinna að "sérlausn" á fyrir Ísland.  Þar við bættist, að Frakkar töldu hreint ekki æskilegt út frá valdajafnvægi í ESB að fjölga norrænu þjóðunum í ríkjasambandinu.  Það var ekki einu sinni stjórnmálalegur grundvöllur fyrir inngöngu Íslands, hvað þá tæknilegur grundvöllur sameiginlegs hagsmunamats.  Að þessu hefði Össur komizt, hefði hann unnið heimavinnuna sína, en hann kaus að gösslast áfram og "kíkja í pakkann", en þetta var barnalegt slagorð hans, ætlað til heimabrúks, aðallega til að ginna auðtrúa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til fylgilags við þingsályktunartillögu sína um umsókn um aðild Íslands að ESB.  Þeir bitu flestir á agnið og misstu við það stjórnmálalegan trúverðugleika sinn.  Hvað er eftir af stjórnmálamanni, sem glatað hefur trausti kjósenda sinna ?

Um þessa "kíkja í pakkann" blekkingu Össurar hefur Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, eftirfarandi að segja í grein í Morgunblaðinu, 24. marz 2014, "ESB-viðræðunum lauk í mars 2011":

"Enginn þarf lengur að fara í grafgötur um stöðu ESB-málsins. Sé tilgangur ESB-viðræðna sá einn "að kíkja í pakkann", er augljóst, að Frakkar, Spánverjar og Portúgalar banna það að óbreyttu.  Brusselmenn vilja, að Íslendingar hverfi frá skilyrðum í sjávarútvegsmálum.  Hver vill stíga til móts við þá ?  

ESB-viðræðunum er sjálfhætt.  Formsatriði vefjast þó fyrir ríkisstjórn og alþingi.  Deilan snýst um, hver eigi að kasta rekunum.  Að rifist skuli um, hvort öll þjóðin eigi að koma að þeirri ákvörðun, er í raun óskiljanlegt."

    Til þess að breiða yfir þessar staðreyndir, sem fram komu í skýrslu HH'I, hefur verið þyrlað upp ótrúlegu moldviðri um eitthvað, sem heimatrúboðið kallar loforð stjórnmálamanna núverandi stjórnarflokka um þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort halda eigi aðlögun Íslands áfram eða halda umsókninni áfram á ís.  Þetta er argasti útúrsnúningur á stefnu beggja stjórnarflokkanna, því að þeir lofuðu því, að þjóðin fengi með bindandi hætti að tjá hug sinn áður en þeir tækju upp þráðinn aftur, og hún fengi þannig tækifæri til að stöðva vitleysuna. 

Þeir lofuðu því aldrei, enda höfðu þeir enga heimild til þess frá flokkum sínum, Landsfundi Sjálfstæðisflokksins og Flokksþingi Framsóknarflokksins, að lofa bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um að láta reka sig í framhald aðlögunarviðræðna, enda sjá allir, nema heimatrúboðið, hversu fjarstæðukennt slíkt hefði verið.  Annaðhvort skilur heimatrúboðið hvorki mælt né ritað mál, eða það rangtúlkar stefnu flokkanna með ósvífnum hætti að hætti öfgaafla: "Tilgangurinn helgar meðalið".  "Der Erfolg berechtigt den Mittel."

Leyndarhjúpur, blekkingar og beinar lygar hafa einkennt ESB-umsóknina frá upphafi.  Aðildarsinnar vilja halda áfram uppteknum hætti og spyrja þjóðina algjörlega marklausrar spurningar, þ.e. hvort halda eigi viðræðum áfram, sem stöðvaðar voru af gagnaðilanum.  Fólk, sem berst fyrir slíkri vitleysu, er annaðhvort á valdi mikilla blekkinga, eða purkunarlausir loddarar.  Ef spyrja á þjóðina marktækrar spurningar um framhald aðlögunar, verður hún að vera í þessum dúr:

"Gefur þú ríkisstjórninni samþykki þitt fyrir því, að fullveldi Alþingis yfir auðlindum Íslands til lands og sjávar verði fórnað í þeim mæli, sem nauðsynlegt kann að verða til að leiða aðlögun stjórnkerfis Íslands að stjórnkerfi ESB til lykta í umsóknarferli að ESB ?"

 

Svikabrigzl aðildarsinna hafa verið svakaleg, svo innihaldslaus sem þau hafa verið, og þess vegna er ekki úr vegi að rifja upp nokkur atriði úr ranni Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:

Kvöldið fyrir Alþingiskosningarnar í apríl 2009 lýsti Steingrímur J. Sigfússon því yfir, að hann teldi sig ekkert umboð hafa til samninga um að sækja um aðild að Evrópusambandinu.  Tveimur vikum seinna hafði hann snúizt um 180° í þessum efnum, eða hann gaf bara flokksmönnum sínum langt nef, sagði þeim að éta, það sem úti frýs, og settist í stól fjármálaráðherra ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. 

Þetta eru auðvitað ófyrirgefanleg svik að hálfu Steingríms og Katrínar Jakobsdóttur, þáverandi varaformanns VG, en það má þó sá flokkur eiga, að þingmenn hans í utanríkismálanefnd Alþingis studdu það síðar, að sett voru skilyrði varðandi íslenzkan landbúnað og sjávarútveg, sem ósamrýmanleg voru CAP, "Common Agricultural Policy".   Þessi skilyrði stöðvuðu feigðarflan Össurar og Þorsteins Pálssonar í marz 2011, en þá neitaði ESB-stækkunarteymið að sýna rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál, nema skilyrðum Alþingis í þeim málaflokki yrði gjörbreytt.  Þar sem núverandi Alþingi er sízt líklegra til að breyta þessum skilmálum í átt að kerfi ESB, eru engar líkur á, að unnt yrði að draga umsóknina af strandstað, þó að aftur yrði setzt við.  Þó að þjóðin mundi svara dökkletruðu, gæsalöppuðu spurningunni hér að ofan játandi, ber Alþingi engin skylda til þess að stjórnlögum að breyta skilyrðum sínum, því að slíkar þjóðaratkvæðagreiðslur eru aðeins ráðgefandi. 

Össur Skarphéðinsson lofaði því sumarið 2009, að umsókn Íslands færi á hraðferð um gáttir ESB og mundi taka 12-18 mánuði að leiða hana til lykta.  Þetta reyndist kolrangt hjá honum.  Það eru aðeins 2 skýringar í boði á því.  Annaðhvort skrökvaði hann þessu, eða hann vissi ekki út í hvað hann var að fara.  Ef fyrri kosturinn er réttur, verður að telja Össur lygalaup, og ef sá seinni er réttur, hafði hann alls enga þekkingu á umsóknarferlinu og gerði sér ekki grein fyrir, að ferlið er strangt aðlögunarferli, þar sem engin samningasnilli kemur við sögu, heldur einvörðungu heimavinna umsóknarríkis.  Heimavinnan fyrir umsóknarríkið reyndist gjörsamlega vera í skötulíki í tilviki Íslands, svo að skömm er að, reyndar, og því fór sem fór.  Það hafði engin vönduð greining á umsóknarferlinu átt sér stað, heldur var vaðið út í fenið af fullkominni óforsjálni.  Þess vegna horfir málið skammarlega við bæði frá Brüssel og Reykjavík.

Össur Skarphéðinsson og Þorsteinn Pálsson hafa allan tímann haldið því fram, að viðræðurnar gengju vel.  Síðan í marz 2011 hafa þetta verið helber ósannindi, því að síðan ESB neitaði í marzbyrjun 2011 að afhenda íslenzku "viðræðunefndinni" rýniskýrslu sína um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál Íslands, þá hefur hvorki gengið né rekið.  Stækkunarteymið sá, að kerfi Íslands og ESB eru ósamrýmanleg, og af skilyrðum Alþingis gat teymið ráðið, að íslenzka aðlögunarteymið hefði ekkert umboð til að aðlaga íslenzka sjávarútvegsstjórnun að CAP - hinni sameiginlegu stefnu ESB um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál.

Að undirlagi Frakka skipaði framkvæmdastjórnin svo fyrir, að rýniskýrslan skyldi ekki sýnd.  Össuri var tjáð, að svo yrði ekki gert fyrr en íslenzka "viðræðunefndin" rýmkaði opnunarskilyrði sjávarútvegskaflans, sem þýðir að koma með tímasetta áætlun um aðlögun íslenzka sjávarútvegsins að reglum ESB.  Málið er þó enn flóknara, því að Frakkar voru og eru á móti stækkun ESB til norðurs, sem þeir telja, að mest muni verða vatn á myllu Þjóðverja.  Íslenzkir inngöngusinnar gefa nákvæmlega ekkert fyrir íslenzka stjórnkerfið á þessum eða öðrum sviðum.  Þeir vilja inn, hvað sem það kostar.  Þeir eru helteknir hugarfari læmingjans, sem gengur fyrir björg. Þess vegna hrína engin rök á þeim.  Þeir eru sem steingervingar í íslenzkri umræðu, þora ekki að koma til dyranna, eins og þeir eru klæddir, en láta sem þeir viti ekkert og skilji fátt.

Enn þann dag í dag þegja þeir Össur og Þorsteinn þunnu hljóði um þessa stöðu umsóknarinnar.  Þess í stað þyrla þeir upp blekkingarskýi um, að hægt sé að taka upp þráðinn, þar sem frá var horfið, og leiða aðlögunina til lykta.  Það er haugalygi hjá þeim, nema Alþingi gjörbreyti skilmálum sínum.  Hvers vegna minnast þeir aldrei á, að þetta þurfi að gera til að unnt sé að halda áfram ?  Af því að þeir eru óheiðarlegir og þora ekki að standa þjóðinni reikningsskap gerða sinna.  Þeir stunda purkunarlausa blekkingariðju.  Við þurfum ekkert á slíkum mönnum að halda.  Þeir eru verri en engir.  

Þorsteinn Pálsson hefur með sérlega ómerkilegum hætti ausið úr skálum reiði sinnar yfir formann Sjálfstæðisflokksins á opinberum vettvangi, gjörsamlega að tilefnislausu, því að formaðurinn hefur í þessu máli aðeins framfylgt stefnumörkun Landsfundar síns flokks.  Þorsteinn Pálsson líkist í þessu máli kolkrabba, sem sprautar bleki til að fela sig.  Hann vill breiða yfir mistök sín og dómgreindarbrest.  Amma leikfélaga hans í bernsku kallaði þetta að klína smjörklípu á köttinn.  Kötturinn mundi ekki stunda veiðiskap á meðan hann væri að hreinsa sig. Þorsteini hefði verið nær að gera heiðarlega grein fyrir stöðu umsóknarinnar um aðild að ESB en ausa óhróðri yfir þá, sem nú standa í brúnni.  Lítilfjörleg framkoma það og aumkvunarverð.

Enn hefur ekkert komið fram, hvorki frá atvinnulífinu, öðrum hagsmunaaðilum né öðrum, sem breyti forsendum fyrir hagsmunamatinu, sem að baki lá eftirfarandi ályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins á árinu 2013:

"Áréttað er, að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur, nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu."

Þessa einföldu ályktun hafa margir misskilið eða rangtúlkað alveg herfilega, og í meðförum Alþingis verður eitthvað nýtt að koma í ljós, sem kippi stoðunum undan þessari ályktun, svo að þingmenn flokksins fái ástæðu til að sniðganga ályktunina.  Talsmenn aðildar landsins að ESB eru gjörsamlega rökvana; þeir fara með innantóma frasa um, að Íslendingar séu Evrópuþjóð og að þar séu landsins beztu markaðir.  Í ljósi aðildar landsins að Innri markaði ESB, eru þetta rökleysur einar fyrir aðild.  Forsendubrestur gæti t.d. verið fall EES-samningsins og útilokun tvíhliða samnings, en ekkert bendir í þá átt núna.  Þess vegna mega þingmenn Sjálfstæðisflokksins biðja guð að gleypa sig, ef þeir ætla ekki að raungera ofangreinda ályktun Landsfundar á kjörtímabilinu, og því fyrr, þeim mun betra, vonandi fyrir næsta Landsfund, svo að kasta megi rekunum á rétt eitt dellumál vinstri stjórnarinnar. 

Kanzlari Þýzkalands í brezka þinginu 27022014Evran lostin eldingu

   

 

 

 

 

 

 

   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Vonandi taka þingmenn Sjálfstæðisflokksins áskoruninni,um að uppfylla ályktun Lansfundarins. Við erum mörg orðin ansi óþolinmóð að bíða eftir því. Bjarni Ben er sífellt að vinna á,stóð sig mjög vel í Kastljósi kvöldsins,megum þakka fyrir að hann fékk að klára að svara því sem um var spurt.

Helga Kristjánsdóttir, 28.3.2014 kl. 00:25

2 Smámynd: Elle_

Hverju orði sannara um þessa falsara og ómerkinga.  Menn eins og Benedikt Jóhannesson, Þorsteinn Pálsson, Össur Skarpi, menn sem vilja inn í dýrðarveldi Brusselvaldsins sama hvað.  Og litlu ræflarnir sem dragast með þeim, ómerkingar eins og Jón Frímann og Ómar fjallamaður.  Óþolandi fólk og óþarfi að fara um þá vægum orðum.

Elle_, 28.3.2014 kl. 00:58

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Elle, Þeir þurfa fátt að kunna,enda ekkert að víla fyrir sér að halla réttu máli,það helgast af molunum sem kastað er til þeirra litlu.

Helga Kristjánsdóttir, 28.3.2014 kl. 12:40

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef "Ómar fjallamaður" á við mig, vekur það furðu mína. Ég hef aldrei, hvorki í ræðu né riti, tekið afstöðu til inngöngu Íslands í ESB. En hvað sem blekkingaveitum líður hélt ég í einfeldni minni að stærsta blekkingarveita Íslandssögunnar hefði verið sú sem leiddi til Hrunsins. En það kann að vera misskilningur hjá mér.

Ómar Ragnarsson, 28.3.2014 kl. 14:28

5 Smámynd: Elle_

Nei, Ómar, ég var örugglega ekki að tala um þig.  Og datt þú ekki í hug í þessu sambandi og þú ættir það ekki skilið. 

Umræddur maður er Ómar Bjarki Kristjánsson sem hefur farið um lengi með ósannindi og skítkast, laug upp á okkur erlendri skuld árum saman, hlustar ekki á rök og stingur höfðinu í steininn.

Elle_, 28.3.2014 kl. 16:26

6 Smámynd: Elle_

Og mér finnst það leitt, Ómar.  Þetta segir manni að passa að vera ekki óskýr meðan maður gagnrýnir harkalega þá sem manni mislíkar.

Elle_, 28.3.2014 kl. 16:41

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Helga;

Tek algerlega undir með þér.  Þingsályktunin er í s.k. þinglegri meðferð núna hjá nefnd, sem kallar eftir umsögnum.  Það kemur dálítið spánskt fyrir sjónir með þingsályktunartillögu, og þessi vinnubrögð voru a.m.k. ekki viðhöfð með þingsályktunartillögu Össurar um umsóknina.  Ef þingflokkur sjálfstæðismanna bregst Landsfundinum og flestum stuðningsmönnum flokksins og heykist á að samþykkja afturköllun umsóknarinnar, yrði landbrestur, en ég treysti því, að þeir geri skyldu sína.  Í þingflokkinum er auðvitað líka fólk annarrar skoðunar en við í þessu máli, og það er allt í lagi, því að allir vita, hvar þau standa.  Klofningshótanir eru aðeins hlálegar.  Það eru engir sannir hægri menn, sem berjast vilja fyrir auknu skrifræði í úthéraði stórríkis norður við heimskautsbaug.  Barnaleg hugmynd, að slík hugmyndafræði nái fótfestu á meðal hægri manna. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 28.3.2014 kl. 18:13

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Elle;

Það, sem flækir baráttu okkar, eru óheilindin hjá aðildarsinnum, sem viðurkenna ekki, að þeir vilja, að Ísland gangi skilyrðislaust inn í ESB.  Þar með eru þeir fúsir til að fórna öllum skilyrðum Alþingis, enda er slíkt nauðsynlegt til að koma inngönguferlinu aftur í gang. 

Síðan eru nytsömu sakleysingjarnir, sem vilja kíkja í pakkann.  Enginn jólasveinn í ESB er með slíkan pakka á boðstólum, enda er þetta ein af mörgum blekkingum Össurar Skarphéðinssonar.  Hann er blekkingasmiður, en um leið ákaflega glámskyggn.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 28.3.2014 kl. 18:44

9 Smámynd: Elle_

Já Bjarni, blekkjararnir vilja að ÍSLAND framselji fullveldið, fyrir þá og sama hvað, þó það þýði ofbeldi gegn vilja alþingis og brot gegn lýðræðinu (júlí, 09 og þessvegna á að stoppa þetta núna) og brot á stjórnarskránni.  Þeir geta farið sjálfir og hætt að skipta sér af fullveldi landsins.

Elle_, 28.3.2014 kl. 19:39

10 Smámynd: Bjarni Jónsson

Rétt, Elle, það ætti að vera hægurinn á hjá heimatrúboði ESB á Íslandi að flytjast til fyrirheitna landsins.  Það er að vísu erfiðara að fá vinnu þar en á Íslandi, en sælan við að anda að sér ESB lofti, sem að vísu er mjög mengað miðað við okkar, ætti að bæta atvinnuleysið upp. 

Kosningarnar til Evrópuþingsins í vor munu sýna, að í öllum löndum ESB er kraumandi óánægja með skrifræðið í Berlaymont.  Það hefur auðvitað ekki svör við vanda nútímans.  Það hefur ekki einu sinni eitt svar við ágangi Pútíns, sem er grafalvarlegur veikleiki.  ESB og BNA með NATO í broddi fylkingar geta brotið Pútín á bak aftur tiltölulega hratt og örugglega, en ESB dregur lappirnar.  Smáríkjum hótar ESB, en gagnvart Kreml er ESB sem tannlaust tígrisdýr.  ESB er misheppnað, siðspillt skrifræðisbákn, sem stenzt ekki tímans tönn.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 28.3.2014 kl. 21:24

11 Smámynd: Elle_

En er ekki Brusselvaldið verra en Rússland í þessu máli?  Persónulega vil ég engan hlut íslenskra stjórnvalda í að standa með Brussel gegn Rússum.  Helga, já, fólk við land- og sjósölu forherðist við ósýnilega mola.

Elle_, 28.3.2014 kl. 22:50

12 Smámynd: Bjarni Jónsson

Mér stendur stuggur af Vladimir Putin.  Aðferðir hans minna um of á þjóðernisjafnaðarmenn í Evrópu 4. áratugar 20. aldarinnar.  Aðferð Putins við að leggja Krím undir Rússland að nýjnu gefur slæmt fyrirheit um frið í Evrópu nú, þegar öld er liðin frá styrjöld Evrópuríkja, sem "binda átti endi á allar styrjaldir".  Það eru minnihlutahópar í flestum ríkjum Evrópu, sem nú munu eflast, og þetta mun skapa óróa í Evrópu.  Að draga saman mikið herlið í Rússlandi skammt austan landamæra Úkraínu er ósvífin ógnun.  Herir Evrópu eru núna í mjög bágbornu ástandi eftir langvarandi niðurskurð.  Það er hætt við, að Evrópa sjái sér nú þann kost vænstan að auka af veikum mætti útgjöld til hermála.  Það er gott til þess að vita, að íslenzkt ungviði á þó ekki á hættu að verða kvatt í sameiginlegan Evrópuher, sem gæti orðið svar ESB við núverandi stöðu.  Putin er einræðisherra með gamaldags hugmyndir um að styrkja stöðu Rússlands með landvinningum.  Slíkt virkar vel til heimabrúks, og hann þarf á slíku að halda nú, þegar fjarar undan fjárhagnum.

Bjarni Jónsson, 29.3.2014 kl. 14:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband