Hvað er svona eftirsóknarvert við ESB

Þó að stækkunarteymi Stefáns Füle hafi ómótmælanlega stöðvað inngönguferli Íslands í Evrópusambandið, ESB, í marz 2011, með því að neita alfarið að birta rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál Íslands vegna ósamrýmanlegra skilmála utanríkismálanefndar Alþingis við sjávarútvegsstefnu ESB, þá tyggur samt hver mannvitsbrekkan eftir annarri núna, að íslenzka ríkisstjórnin verði að leiða inngönguferlið til lykta, svo að unnt verði að kjósa um niðurstöðuna.  Þetta er svipað og að halda fjölskyldufund og hvetja þar ungling til að sækja um skólavist aftur, þó að honum hafi þar verið hafnað og horfur hans á að ná inn hafi ekkert skánað frá höfnun.  Þessi staða er með ólíkindum, og á hana verður að binda endi strax.  

Í þokkabót bendir allt til, eins og lesa má út úr bók hins misheppnaða utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, Ár drekans, að Frakkar hafi lagzt alfarið gegn stækkun ESB til norðurs og verið þar í forystu fyrir Suður-Evrópu, sem telur Ísland mundu skipa sér í sveit með Þýzkalandi í flokkadráttum innan ríkjasambandsins.  Það voru sem sagt "stórpólitískar" hindranir í vegi inngöngu Íslands í Evrópusambandið, sem benda til, að tímasetning umsóknarinnar sé kolröng.

Þorsteini Pálssyni, orðuðum við nýjan stjórnmálaflokk á hægri vængnum, og téðum Össuri, mistókst hrapallega í 2 ár að leiða fram sérlausnir með ESB í sjávarútvegsmálum fyrir Ísland.  Þess vegna er alveg ljóst, að sópa verður skilyrðum utanríkismálanefndar Alþingis út af borðinu, ef takast á að koma inngönguferlinu af stað aftur.  Slíkt er hins vegar ekki á valdi ríkisstjórnarinnar.  Það getur Alþingi eitt gert, og þar er eðlilega enginn vilji til þess.  Krafa Þorsteins, Össurar, Benedikts Jóhannessonar og félaga um kosningar um framhald eður ei er þess vegna eins ólýðræðisleg og hægt er að hugsa sér miðað við núverandi Stjórnlög landsins.  Miðað við ítrekaða höfnun ESB á Íslandi í þessu dæmalausa inngönguferli væri það lítillækkandi fyrir Íslendinga að koma nú á hnjánum og óska eftir meiri tilslökunum að hálfu ESB en sambandið reyndist fúst að veita Össuri.  Lítil eru geð guma.

Benedikt kvað á Austurvelli stefnumál nýs flokks verða vestræna samvinnu og frjálsa verzlun.  Þegar umbúðirnar hafa verið teknar utan af þessum pakka, kemur í ljós, að innihaldið er innganga í ESB og skilyrðislaus aðlögun að CAP, Common Agricultural Policy, þ.e. að sameiginlegu landbúnaðarstefnunni, þar sem sjávarútvegsstefnan er undir.  CAP er "acqui", eða það, sem þegar hefur verið ákveðið, og það er óumsemjanlegt.  

Það er mjög gott, að aðdáendur ESB komi nú til dyranna, eins og þeir eru klæddir, hætti þvættingi um "pakka", sem ESB bjóði landsmönnum að kíkja í, og játi hreinskilningslega fyrir þjóðinni, að þeir ætli að afhenda framkvæmdarstjórn ESB íslenzkan landbúnað og sjávarútveg á silfurfati til að ráðskast með. 

Aðdáendur ESB kalla andstæðinga ESB-umsóknar Íslands "einangrunarsinna".  Guð gefi, að við verðum sem mest einangruð frá boðvaldi Berlaymont.  Við höfum séð fantatökin í stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, þar sem ESB beitti sér gegn lánveitingu til Íslands.  Við höfum séð fantatökin í Icesave-málinu, þar sem breyta átti Íslandi í Kúbu norðursins, ef Icesave-skuldinni yrði ekki snarað um háls íslenzkra skattborgara, og við höfum séð makalausa meðferð ESB á andstæðingum sínum í deilum um veiðiheimildir á makríl, svo að dæmi séu nefnd. 

7. apríl 2014 var skýrsla birt, sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir ASÍ, SA, Félag atvinnurekenda og Viðskiptaráð Íslands, sem sagt fyrir landssamtök verkalýðsfélaga og auðvaldið í landinu, svo að ekki sé nú skafið utan af því.  Einhver mundi nú telja þetta vanheilagt bandalag, enda hefði alveg eins verið hægt að fá fréttamenn á RÚV eða Gróu á Leiti til að pára niður tilvitnanir í fólk á göngum Berlaymont-byggingarinnar, sem ekki er nokkur leið að festa hendur á.  Þetta eru arfaslök efnistök við umfjöllun örlagaríks deilumáls í landinu, og ekki virðist örla á sjálfstæðri greiningarvinnu, heldur engu líkara en fréttamenn hafi tekið viðtöl við skýrslukaupendurna.  Enginn er nokkru nær með vinnubrögð af þessu tagi.  Það er engin viðleitni sýnd til sjálfstæðrar rannsóknar á viðfangsefninu.  Þessi skýrsla stendur að þessu leyti langt að baki skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, þar sem greint var frá niðurstöðum umtalsverðrar greiningarvinnu, og nýjar mikils verðar upplýsingar komu fram.  Sú skýrsla varð mörgum mönnum opinberun á frámunalega slæleg vinnubrögð fulltrúa ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, Össurar Skarphéðinssonar, Þorsteins Pálssonar o.fl., og forkastanlegan blekkingarhjúp þeirra yfir stöðu umsóknarinnar, sem ESB stöðvaði í marz 2011 með því að neita að afhenda Össuri og Þorsteini rýniskýrslu sína, þar sem frávik sjávarútvegsstefnu Íslands (Alþingis) og sjávarútvegsstefnu ESB eru væntanlega tíunduð.  Á þessu eru aðeins tvær mögulegar skýringar, og útiloka þær ekki hvora aðra:

  1. Stækkunarteymi ESB mat það svo, réttilega, að himinn og haf skildi að Ísland og ESB, og þess vegna væri engin leið til að hefja aðlögunarferlið á sjávarútvegssviðinu.
  2. Framkvæmdastjórn ESB kærði sig ekki um stækkun ríkjasambandsins til norðurs.  Í skýrslu HHÍ eru leidd að því rök, að Frakkar hafi verið í forystu þeirra, sem ekki vildu Ísland inn að svo stöddu, enda mundi Ísland líklega leggjast á sveif með Þýzkalandi í átökum innan ESB.

Til staðfestingar á ofangreindri rökleiðslu er eftirfarandi tilkynning frá ESB í desember 2012, sem var rothögg á Össur og Þorstein, enda kastaði Össur hvíta handklæðinu inn í hringinn í janúar 2013 til merkis um fullkomna uppgjöf sína og ríkisstjórnar Jóhönnu í þessu ólukkulega umsóknarferli:

"Ráðherraráð ESB ítrekar, að Ísland verði að samþykkja og innleiða allan lagabálk ESB við mögulega inngöngu í sambandið."

Þegar þetta er lesið, sést, hversu lítils virði túður Össurar um sérlausnir fyrir Ísland er.  Túðrið er aðeins efniviður í blekkingavef hans.  Af sama meiði eru fullyrðingar hans og Þorsteins um, að Íslendingar geti leitt aðlögunarferlið til lykta með óbreyttum fyrirmælum frá Alþingi.  Það eru ósannindi.  Að láta þjóðina kjósa um þetta framhald ferlisins jafngildir þess vegna því að hafa þjóðina að ginningarfífli.  Núverandi stjórnvöld geta ómögulega staðið að slíku. Ómerkilegheitin eiga sér engin takmörk.  Samt blasir ósigur Össurar við.  Keisarinn er ekki í neinu.  Skýrsla Hagfræðistofnunar afhjúpaði hann.

Hláleg birtingarmynd þessa guðdómlega gleðileiks Össurar og Þorsteins er stofnun nýs stjórnmálaflokks um vestræna samvinnu og frjáls viðskipti.  Auðséð er, að kaupahéðnarnir eru ekki víðs fjarri, og búast má við, að krambúðarholusjónarmið móti stefnu viðrinisins, því að hvað annað en viðrini er hægt að kalla hægri flokk hvers æðsta stefnumál er að hámarka miðstýringarvald búrókratanna í Berlaymont á Íslandi, skrifræði, eftirlitsiðnað og leyfisveitingafargan ásamt laga- og reglugerðarflóði ESB-þingsins og framkvæmdastjórnarinnar.  Hægri menn vilja yfirleitt lágmarka forræðishyggju í þjóðfélaginu.  Þess vegna blandast hægri stefna og helztu pólitísku áhugamál Benedikts Jóhannessonar álíka vel saman og olía og vatn.  Fer ekki að koma eggjahljóð í Bjarta framtíð svo ákaft sem Benedikt gaggar ?  Því verður heldur ekki trúað, að gert verði út á hagsmunapeningana, s.k. IPA-styrki, til að halda téðum hægri flokki saman, enda virðist hann ekki munu hafa mikla þörf fyrir þá, þegar horft er til föðurhúsanna.

Að lokum má minna á makrílinn, en framkoma ESB við Íslendinga í því máli sýnir hug Grikkjans Damanaki og félaga hennar í framkvæmdastjórn ESB til smáríkis í norðri, sem enn hefur stöðu umsóknarríkis að sambandinu, illu heilli.  Hvernig halda menn, að framkoman yrði, ef landið hefði ekki lengur stöðu strandríkis, heldur væri sem dropi í hafi a.m.k. 500 milljóna manna ríkjasambands á leið til að verða sambandsríki ?  Er ekki rétt að staldra við og halda í þennan Brüsselleiðangur frá nýjum og gæfulegri upphafspunkti, þegar við getum áttað okkur betur á þróun Evrópusambandsins, en núna er þar hver höndin upp á móti annarri og erfitt að spá um framhaldið.  Slíkt nýtt inngönguferli verður að hefjast með rækilegri stefnumótun og samþykki á Alþingi, jafnvel með auknum meirihluta þings eftir breytingar á Stjórnarskrá og staðfestingu þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu. 

Það yrði nákvæmlega ekkert hlustað á fulltrúa Íslands í framkvæmdastjórn ESB, sem mundi vilja halda uppi sjónarmiðum sjálfbærni, en um þau stóð styrinn á samningafundum Íslands við Noreg, Færeyjar og ESB.  Um ráðleggingar Alþjóða hafrannsóknarráðsins sagði Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs, og Damanaki skrifaði undir þetta með gerð hrikalegs samnings um ofveiði:

"Ráðleggingarnar eru ekki reistar á vísindalegum rökum og eru engin vísbending um, hversu mikið er rétt að veiða á árinu 2014."

Alþjóða hafrannsóknarráðið ráðlagði 890 000 t veiði á makríl 2014.  Téður hneykslissamningur er um veiði Norðmanna, Færeyinga og ESB á 1 046 000 t eða 17,5 % umfram ráðleggingar ráðsins.  Téð 17,5 % eða 156 000 t fara til Fæeyinga, en 0,7 x 890 000 = 623 000 t fara til ESB og 0,3 x 890 000 = 267 000 t fara til Norðmanna.  Til að spanna veiðar Rússa, Grænlendinga og Íslendinga er líklegt, að bæta þurfi við a.m.k. 300 000 t, og verða veiðarnar þá alls um 1350 000 t eða 52 % umfram ráðleggingu Alþjóða hafrannsóknaráðsins.  Er þetta hægt, Matthías ?

Þessi meðferð auðlindarinnar er fyrir neðan allar hellur og hreinræktuð heimska, því að svo mikið framboð mun fella verðið.  Svona gera aðeins umhverfissóðar, enda hæla búrókratarnir í Berlaymont sér með eftirfarandi tilkynningu:

"Í umræðunum hefur ESB haldið á lofti þýðingu sjálfbærs makrílstofns og réttlátu samkomulagi um kvótaskiptingu fyrir öll strandríkin."´

Hér er hrúgað saman ósannindum, eins og Kremlverjar Ráðstjórnarinnar væru að verki, og Ísland, Grænland og Rússland eru ekki einu sinni talin til strandríkja.  Þetta er ögrun af versta tagi.  Í slíkt ríkjabandalag vilja Össur, Þorsteinn og Benedikt Jóhannesson ólmir fara. 

Hér fer vel á því að vitna í grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu 5. apríl 2014: "Fiskur í sjó með stjörnur á maganum":

"Engum þarf að koma á óvart, að þessi smánarlega framkoma og innrásarsamningur ESB á strandríki N-Atlantshafsins gerist á sama tíma og stjórnarandstaðan reynir að hindra eðlilega afturköllun aðildarumsóknar meirihluta síðasta Alþingis að ESB.  ESB og Samfylkingin/Vinstri grænir hafa ávallt verið samferða í árásum sínum á Ísland.  Nú sem fyrr er markmiðið að komast yfir gjöful fiskimið Íslands, og makríllinn er bara byrjunin."  

Ný tegund í lögsögu Íslands, makríllErna Solberg, formaður norska Hægri

 

    

 

      

   

EU


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Góð lesning fyrir svefninn takk.

Helga Kristjánsdóttir, 11.4.2014 kl. 02:23

2 Smámynd: Bjarni Einar Einarsson

Mjög góð grein hjá þér.

Bjarni Einar Einarsson, 11.4.2014 kl. 12:32

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð samantekt og frábær pistill takk fyrir mig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.4.2014 kl. 13:51

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég þakka ykkur fyrir góðar umsagnir hér að ofan.  Það er ánægjulegt fyrir mig, að ykkur hefur fallið greinin vel í geð.  Það er enn haldið uppi argvítugum áróðri um nauðsyn þess að "klára samningana, svo að þjóðin geti tekið afstöðu".  Slíkir áróðursmenn slá hausnum í steininn og neita að horfa framan í staðreyndirnar um örlög aðlögunarferlisins og árangursleysi Össurar. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 11.4.2014 kl. 20:16

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já því miður berja menn hausnum við steininn og halda í þann barnaskap að við séum í samningaferli, þegar innlimun er eina framkvæmdin.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.4.2014 kl. 21:20

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já. rétt skal vera rétt: "berja þeir  hausnum við steininn" og hafa reyndar lengi steininn klappað.

Bjarni Jónsson, 11.4.2014 kl. 22:55

7 Smámynd: Elle_

Nákvæmlega ekki neitt er eftirsóknarvert þarna, Bjarni, svona miðað við fórnirnar, fullveldismissinn, miðstýringu erlends vald.  Og orðið samningur í samhenginu er verulega farið að fara í taugarnar á mér.  Líka þeir sem nota það enn og orðið samningaviðræður, eins og þeir heyri ekki neitt og skilji.

Elle_, 12.4.2014 kl. 00:29

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Elle;

Hið hlálega kom fram í skýrslu Gróu á Leiti, sem átti víst að vera um kosti og lesti inngöngu, að á göngum Berlaymont hefði heyrzt hvíslað, að enginn ESB-fulltrúi gæti haldið öðru fram en um einskært aðlögunarferli væri að ræða, enda héldu vanir samningamenn spilunum þétt upp að sér þar til á lokasprettinum, að boðið væri upp á sérlausnir.  Þetta má nú segja, að sé síðasta hálmstráið og minnir því miður á örvæntinguna í Þriðja ríkinu, er menn börðust áfram vonlausri baráttu í biðinni eftir "Wunderwaffen" eða undravopnunum.  Það er hreinlegast að gefa þetta ferli, sem ESB sjálft hefur stöðvað til að þvinga okkur til eftirgjafar, upp á bátinn og fylgjast með þróuninni álengdar.  Það væsir ekki svo um okkur núna, að við þurfum að taka stóráhættu í utanríkismálum. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 12.4.2014 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband