Að éta eða verða étinn

Markaðurinn er harður húsbóndi.  Barátta fyrirtækja fyrir viðhaldi á samkeppnihæfni sinni eða bættri samkeppnihæfni og aukinni markaðshlutdeild kemur oft niður á þeim, sem sízt skyldi, þ.e. starfsmönnum þessara fyrirtækja og fjölskyldum þeirra. 

Þegar viðfangsefnið er að auka framleiðni framleiðslu úr takmarkaðri auðlind, eins og á við um sjávarútvegsfyrirtækin, er oft ekki fær valkostur að auka framleiðni með því að auka framleiðsluna með sama mannafla og tækjabúnaði, eins og t.d. gert hefur verið í áliðnaðinum á Íslandi, heldur getur reynzt nauðsynlegt að fækka fólki, en það er líka fær leið að bæta nýtingu hráefnisins,t.d. með nýrri tækni, nýjum tækjabúnaði og markaðssetningu á vöru, sem áður var fleygt. 

Sjávarútvegurinn á Íslandi er bezt rekni sjávarútvegur, sem vitað er um, enda hefur hann farið allar þessar leiðir og er nú með hæstu framleiðni, sem þekkist, þó að alvarlegir váboðar séu framundan.  Landsmenn hafa undanfarið fylgzt með viðbrögðum fólks, sem boðizt hefur að fylgja fyrirtæki í annan landsfjórðung, þar sem forráðamenn fyrirtækisins hafa séð sig tilneydda til að þjappa starfseminni saman á einum stað að mestu. 

Í sumum löndum, t.d. í Bandaríkjunum, BNA, hefur alltaf verið mikill hreyfanleiki á starfsfólki, sem fylgt hefur sínu fyrirtæki á milli fylkja eða hefur hiklaust flutt um set, þegar vinnuframboð minnkaði, til fylkja, þar sem uppgangur var. 

Þannig var Innri markaður Evrópusambandsins, ESB, líka hugsaður, með frelsunum fjórum.  Eitt þeirra, frjáls för fólks á Innri markaðinum í atvinnuleit, átti að jafna kjörin, draga úr atvinnuleysi og minnka þenslu.  Það hefur þó innan EES orðið minni tilflutningur á fólki en búizt var við.  Það er aðallega innflutningur fólks frá löndum utan Innri markaðarins, sem veldur ólgu í ESB núna, eins og nýlegar kosningar til Evrópuþingsins, sem er stórt nafn um stóra umgjörð, en lítið innihald, eru til vitnis um.  Miklar áhyggjur eru greinilega á meðal almennings í ESB-löndunum og víðar í Evrópu út af innflytjendum, bæði þeim, sem eru af framandi menningarsvæðum, og hinum.  Allir eru þeir taldir þrýsta niður launum og auka byrðar opinberra velferðarsjóða með réttu eða röngu.  Auðvitað þarf hóf að vera á þessum fólksflutningum, því að annars fer samlögun að gestalandinu í handaskolum.

Uppbótaaðgerðir ríkisvaldsins til að skapa atvinnu í sjávarplássum, sem verða fyrir barðinu á óblíðum markaðskröftunum, eru varasamar og dýrar, því að þær eru allar í ætt við aflóga bæjarútgerðirnar og þess vegna ekki líklegar til eflingar sjávarútvegsins í alþjóðlegri samkeppni. 

Reyndar er sjávarútvegsráðherra handhafi eins stærsta kvótans eða 5,3 % veiðileyfanna. Þessi aflahlutdeild kemur auðvitað til frádráttar veiðileyfum hinna raunverulegu útgerða, sem að langmestu leyti hafa keypt sín veiðileyfi á frjálsum markaði.  Svo stór aflahlutdeild ríkisins orkar þess vegna mjög tvímælis og ætti að draga úr og helzt að afleggja, enda er hún fallin til að draga úr heildarhagkvæmni sjávarútvegs á Íslandi, eins og bent hefur verið á. 

Á hinn bóginn er mikil ásókn í strandveiðar, og þar hefur einkaframtakið blómstrað.  Það er þess vegna íhugunarvert, hvort eigi að leyfa "frjálsar" strandveiðar, e.t.v. takmarkaðar við dagafjölda og að sjálfsögðu við bátsstærð og veiðarfæri,  við landið, upp að ákveðnu sóknarmarki í hverri tegund á hverju svæði og að teknu tilliti til nauðsynlegra verndarráðstafana Hafrannsóknarstofnunar.  

Áhugaverðar hugleiðingar um stjórnun fiskveiða ritaði Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur, í Fiskifréttir, fimmtudaginn 15. maí 2014, undir fyrirsögninni, "Markaður eða ráðstjórn":

"Íslendingar verða að gera upp við sig, hvort þeir vilja reka sjávarútveg sinn á markaðslegum fosendum eða með ráðstjórn, þar sem stjórnmálamenn ákveða, hver veiðir hvað, hvernig og hvar.  Markaðurinn er ekki fullkominn, en hann er forsenda fyrir verðmætasköpun í sjávarútvegi til að standa undir lífskjörum þjóðarinnar.  Grundvöllur verðmætasköpunar er framleiðni, þar sem við hámörkum framleiðslu með lágmarks fyrirhöfn."

Síðan ber Gunnar saman framleiðni íslenzks og norsks sjávarútvegs, þar sem við höfum enn yfirhöndina, en Norðmenn sækja á, af því að þeir fjárfesta tiltölulega meira í sjávarútveginum en Íslendingar, eins og bezt kemur fram í meðalaldri skipastóla landanna.  

Hrottaleg inngrip ríkisvaldsins í fiskveiðistjórnunina ásamt ofurskattlagningu á greinina lamar fjárfestingarvilja og -getu, setur afkomu smáfyrirtækjanna í stórhættu og getur umturnað heilu þorpunum.  Á Íslandi þarf að viðurkenna atvinnufrelsi sjávarútvegsins innan þröngra marka veiðiheimilda og/eða sóknarmarks og rétt hans til jafnréttis á við aðrar atvinnugreinar gagnvart aðgerðum ríkisvaldsins að skattheimtu meðtalinni.   

Í framleiðnisamanburði á milli Íslands og Noregs kom fram hjá Gunnari, að heildarvirðisauki á hvern starfsmann er kUSD 170 (MISK 19) á ári í íslenzka sjávarútveginum eða 21 % hærri en í Noregi.  Fjármagn á hvern starfsmann er kUSD 300 (MISK 34) í hinum íslenzka, sem er 15 % hærra en í hinum norska.  Nýting sjávaraflans er jafnframt mun betri á Íslandi eða 57 %, en 41 % hjá Norðmönnum, og verðmæti veiðanna hér eru 380 kr/kg, en 280 kr/kg þar. 

Að loknum þessum áhugaverða samanburði, sem er lofsöngur um íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið, útgerðarmenn, sjómenn, fiskverkafólk, birgja og markaðsfólk íslenzka sjávarútvegsins, tekur Gunnar sér fyrir hendur að greina veiðigjöldin og afleiðingar þeirra:

"Með núverandi hugmyndum um veiðigjöld munu Íslendingar ekki halda þessari stöðu sinni.  Íslenzki flotinn, ef smábátaútgerðinni er haldið utan sviga, er sá elzti frá upphafi.  Aldur togara er kominn yfir 40 ár og flest stærri línuskip orðin gömul og úrelt.  Vinnsluskip flotans eru flest komin yfir tvítugt og orðin úrelt og úr sér gengin.  Ekki er möguleiki á að halda uppi framleiðni með úreltum skipum.  Lítið hefur verið fjárfest í botnfiskvinnslum á Íslandi, sem mun fyrr en síðar koma niður á samkeppnishæfni Íslendinga gagnvart keppinautum."

Þetta er alvarleg ógnun við stöðu íslenzka sjávarútvegsins og lífsafkomu landsmanna allra, og hið fyrsta verður að létta viðbótar kvöðum af útgerðinni, svo að hún dragist ekki aftur úr samkeppniaðilum í öðrum löndum, sem stöðugt sækja í sig veðrið, enda kveður Gunnar Þórðarson upp dauðadóm yfir þeirri stefnu, sem síðasta ríkisstjórn mótaði á grundvelli fjandskapar við athafnalífið og í algerri fávizku eða skeytingarleysi um lögmál efnahagslífsins og kostnaðarstig sjávarútvegs í nágrannalöndunum.   

Fyrrverandi ríkisstjórn hóf að saga í sundur greinina, sem við öll sitjum á, og núverandi ríkisstjórn hefur því miður enn sem komið er ekki unnizt ráðrúm til að hverfa af þessari óheillabraut og hefja sóknarskeið á öllum vígstöðvum hins íslenzka athafnalífs, enda þröngt um vik. 

Hún hefur samt uppi góða tilburði í þeim efnum, og fjármála- og efnahagsráðherra veit nákvæmlega, hvar skórinn kreppir og hvað þarf til að skapa hér réttu aðstæðurnar fyrir hagvöxt og raunverulegar kjarabætur.  Landsmenn virðast margir hverjir vera vel með á nótunum í þessum efnum, ef marka má úrslit sveitarstjórnarkosninganna 31. maí 2014, er þeir völdu sjálfstæðismenn í 45 % allra sæta í sveitarstjórnum 15 stærstu sveitarfélaga landsins, þó að aðrir séu staurblindir á samband efnahagsstefnu hins opinbera og eigin hags.  Eftirfarandi eru varnaðarorð Gunnars Þórðarsonar í þessum efnum:

"Óvissa í stjórnun fiskveiða og óhófleg veiðigjöld koma í veg fyrir fjárfestingu í sjávarútvegi, sem er forsenda þróunar.  Stjórnmálamenn vilja nota sjávarútveg til að leysa byggða "vanda" og fjárþörf ríkissjóðs, en það verður alltaf á kostnað verðmætasköpunar í greininni."

Í raun er engu við þetta að bæta, en þó skal undirstrika, að verðmætasköpun er lykilatriði fyrir vöxt hagkerfisins og tekjur einstaklinganna og hins opinbera.  Sjálfstæðisflokkurinn setur verðmætasköpun hvarvetna í þjóðfélaginu, á öllum vígstöðvum, á oddinn.  Það merkir, að hann vill virkja fyrirtæki og einstaklinga til verðmætasköpunar fyrir sig sjálf í þeirri vissu, að hámarks verðmætasköpun, að teknu tilliti til sjálfbærni, gagnast hinu opinbera og þjóðinni í heild bezt.

Þess vegna er það stefna flokksins, að aðgerðir hins opinbera hvetji til verðmætasköpunar fremur en að letja til hennar, eins og virtust vera ær og kýr fyrrverandi ríkisstjórnar, sem lengdi í kreppuskeiðinu eftir hrun fjármálakerfisins með forneskjulegri hugmyndafræði sinni um framlegð fyrirtækja og ráðstöfunartekjur einstaklinga.   

Þetta leiðir auðvitað hugann að gjaldeyrishöftunum, en lausn á þeim er nú komin í "nefnd".  Það er vissulega freistandi í þeim efnum að fara leið efnahagsráðherra Vestur-Þýzkalands nokkru eftir stofnun Sambandslýðveldisins, 1949, og stofnsetningu þýzka marksins, DEM, í stað ríkismarksins, Reichsmark, Þriðja ríkisins.  Þá voru illvígar gjaldeyrishömlur við lýði í Vestur-Þýzkalandi, en Dr Ludwig Erhard, efnahagsráðherra og höfundur "Sozial-Marktwirtschaft" eða markaðshagkerfi með félagslegu ívafi, afnam gjaldeyrishöftin á einni nóttu með einu pennastriki.  Með lagasetningu um trektaráhrif á snjóhengjuna er e.t.v. útlátaminnst til lengdar að fylgja fordæmi Dr Erhards ?

 

 

 

 

 

    

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband