15.8.2014 | 15:02
Fjórða byltingin
Adrian Wooldridge og John Micklethwait á The Economist hafa skrifað áhugaverða bók, sem þeir nefna "Fjórðu byltinguna". Hún er um þær ógöngur, sem vestræn þjóðfélög hafa ratað í með innleiðingu ríkisrekinnar velferðar, sem ríkið hefur yfirleitt ekki lengur efni á.
Þegar sameignarstefnan lét undan síga með gjaldþroti og hruni Ráðstjórnarríkjanna árið 1989, töldu sumir, að lýðræði að vestrænni fyrirmynd og frjálst hagkerfi í anda Adams Smiths hefðu borið endanlegt sigurorð af einræðisöflum og miðstýrðum hagkerfum. Þeirra á meðal var stjórnmálafræðingurinn Francis Fukuyama, sem sumarið 1989 lýsti yfir "endalokum sögunnar" í frægri ritgerð sinni.
Þetta reyndist álíka áreiðanlegur spádómur og spádómur Rómarklúbbsins á 7. áratug 20. aldarinnar um endimörk vaxtar, "Limits to Growth", en samkvæmt honum átti olía og alls konar önnur verðmæt og eftirsótt efni, aðallega málmar, að klárast á 20. öldinni. Rómarklúbburinn reyndist vera algerlega úti að aka í tæknilegum efnum og ekki gera sér nokkra grein fyrir hreyfiafli sögunnar, sem eru tækniframfarir og sókn mannsins eftir auknum lífsgæðum. Þessi sókn leiðir til bættrar nýtingar á orku og hráefnum, aukinnar endurnýtingar og bættrar tækni við leit að og vinnslu auðlinda. Rómarklúbburinn vanmat mátt samkeppni og markaðshagkerfisins.
Það er hins vegar alveg rétt hjá þeim félögunum á The Economist, að þjóðfélagsaðstæður hafa í sögunnar rás þvingað fram róttækar breytingar í mannlegu samfélagi, sem hafa haft mótandi áhrif á hina sögulegu þróun.
Fyrsta byltingin, sem þeir Wooldridge og Micklethwait tíunda, varð á 17. öld. Þá hafði norðanverð Evrópa losnað úr viðjum kaþólsku kirkjunnar, sem ríghélt í forna guðfræði og kenningakerfi um alheim, en hafnaði vísindalegum kenningum um eðlisfræði og sólkerfið o.fl., sbr baráttu Galileo Galileis og Johannesar Keplers.
Á 17. öld stóð kirkjan, einnig mótmælendakirkjur, jafnframt fyrir hrikalegum ofsóknum á hendur sjálfstætt hugsandi fólki, og brenndi það á báli í galdraofsóknum í því skyni að kveða niður frelsisanda og mótþróa. Bókabrennur voru haldnar og hótunum um eilífa útskúfun allra efasemdarmanna og kuklara. Hún reyndi þar að halda í leifar alls umlykjandi valds síns yfir almúga og aðli með ógnarstjórn, en slíkt tekur alltaf enda. Þótt náttúran sé lamin með lurki, þá leitar hún út um síðir, sögðu Rómverjar, og hið sama á við um sannleikann.
Árið 1648 lauk Þrjátíu ára stríðinu í Evrópu, sem var á yfirborðinu trúarbragða styrjöld, en í raun var verið að knésetja Þýzkaland, sem var vígvöllur þessarar styrjaldar og var í heila öld að ná sér eftir hamfarir af manna völdum.
Bylting 17. aldar var gerð til að styrkja ríkisvaldið, konung og keisara, til að gæta öryggis almennings. Miðstýrðu ríkin í Evrópu, sem þá risu, náðu forystu í tæknilegum efnum á sviði skipasmíða, siglingatækni og vopnasmíði og gerðust í krafti þessa nýlenduveldi. Miklar framfarir í raunvísindum og grózka í listum urðu í kjölfarið undir handarjaðri einvaldskonunga, sem deildu og drottnuðu með aðlinum. Náði þessi þróun hámarki í Evrópu með iðnbyltingunni og kenningum Adams Smiths um Auðlegð þjóðanna, og hvernig skynsamlegast væri að skipuleggja hagkerfið og samfélagið til hámarks ávinnings fyrir sem flesta.
Iðnbyltingin braut viðjar af almúganum, sem flykktist úr ánauð landeigenda og til bæjanna, þar sem hann fékk vinnu og eignaðist peninga í sveita síns andlitis. Spillt forréttindakerfi aðalsins stóðst ekki þessa breytingu, og seint á 18. öld og snemma á 19. öld varð Önnur byltingin.
Þar beittu frjálslyndir umbótasinnar sér í nafni Upplýsingastefnunnar gegn þunglamalegu konungsveldi og niðurnjörvuðu aðalsveldi og beittu sér fyrir ábyrgara stjórnkerfi, sem leyfði fleirum en aðalbornum að njóta sín. Þetta varð grundvöllurinn að myndun borgarastéttarinnar, sem náði þjóðfélagslegum undirtökum í Evrópu, Bandaríkjunum, Ástralíu og víðar á 19. öld. Mikilvægasta framlag borgarastéttarinnar til samfélagsþróunarinnar var afnám forréttinda aðalsins og blöndun stéttanna þannig, að dugnaðarforkum og öðru atgervisfólki veittist tækifæri til að klifra upp stéttastigann og að komast í álnir. Þessi jöfnun tækifæranna hefur síðan í senn viðhaldið völdum borgarastéttarinnar og knúið þjóðfélagsþróun áfram.
Þessi þróun var síðan innsigluð með algerri kollsteypu konunga, keisara og aðals í Fyrri heimsstyrjöldinni og stofnun velferðarkerfa í byrjun 20. aldarinnar í hinni svo kölluðu Þriðju byltingu. Hér verður reyndar að geta snjallræðis Ottós von Bismarck seint á 19. öldinni að innleiða lífeyriskerfið til að friðmælast við þyzku borgara stéttina.
Nú er hins vegar svo komið, að velferðarkerfin hafa vaxið getu þjóðarbúanna yfir höfuð, þar sem þau hafa í sér innbyggðan hvata til að þenjast stöðugt út og þjóðirnar eru sífellt að eldast. Gamalmennum fjölgar stöðugt, og á sama tíma fækkar ungu fólki. Þetta hefur þegar leitt til skuldasöfnunar ríkissjóða margra Vesturlanda, sem getur orðið óviðráðanleg án 4. byltingarinnar, sem þá miðar að því að minnka umfang ríkisvaldsins. Höfundar "The Fourth Revolution" skrifa um þetta í bókinni:
"Eftir að hafa ofhlaðið ríkið með kröfum sínum, eru kjósendur ævareiðir yfir því, hvað það virkar illa."
Vandinn er sá, að stjórnmálamenn hafa orðið við sívaxandi kröfum kjósenda, en velt byrðunum yfir á næstu kynslóð með lántökum. Þetta er ósiðlegt og verður að stöðva. Höfundar bókarinnar boða hins vegar ekki niðurrif ríkisvaldsins, heldur vilja þeir berjast fyrir straumlínulögun þess og aukinni skilvirkni. Það þarf að fást meira fyrir minna, sem þýðir uppstokkun og endurskipulagningu starfseminnar og minnkun sóunar. Það verður að fara betur með skattféð. Nær t.d. einhverri átt, að Alþingi gangsetji alls kyns rannsóknir á atburðum og stöðu stofnana og fyrirtækja án þess að skilgreina fyrst umfangið og afmarka hverri rannsókn kostnaðarramma ? Rannsókn á falli banka, sparisjóða og stöðu Íbúðalánasjóðs hefur kostað hátt í 2 milljarða kr, og enn eru reikningar að berast. Nei, þetta nær engri átt. Það þarf að reka ríkissjóð, eins og vel rekið einkafyrirtæki, þar sem leitað er hagkvæmustu leiðar til að leysa hvert verkefni, þar með að úthýsa starfsemi með útboðum til að nýta mátt samkeppninnar, eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa þegar gert í meiri mæli en við, enda mælast þær miklu hærri á frelsismælikvarða.
Hér er verk að vinna fyrir núverandi ríkisstjórn. Hún hefur á stefnuskrá sinni að lækka skatta og að lækka verðlag í landinu. Þetta mun þó aðeins um skamma hríð draga úr tekjum ríkissjóðs, því að umsvif einstaklinga og fyrirtækja munu vaxa fyrir vikið, sem eykur skatttekjur hins opinbera, þó að skattheimtan lækki. Þetta hefur þegar nú á árinu 2014 komið berlega í ljós. Skatttekjur ríkisins eru meiri í ár en búizt var við, þó að skattar hafi verið lítillega lækkaðir og meiri skattalækkun sé boðuð. Sú boðun hefur líka jákvæð áhrif á umsvifin. Þetta eru þveröfug áhrif við þau, sem aukin skattheimta hafði á dögum vinstri stjórnarinnar og boðakapurinn, sem fólst í hótun þáverandi fjármálaráðherra: "you a´int seen nothing yet".
Allir, nema ríkið, draga saman seglin við slíkar aðstæður, og skatttekjur ríkisins lækka þrátt fyrir hærri skattheimtu. Að sjálfsögðu gjalla strax hjaroma raddir um, að osiðlegt sé að sýna aðhald í ríkisfjármálum á sama tíma og verið sé að lækka skattheimtu. Þarna er einmitt komin meinloka jafnaðarmanna, sem alls staðar hefur leitt til óviðráðanlegra byrða á skattborgarana, sbr dæmið frá Svíþjóð, þar sem jafnaðarmenn voru búnir að koma ríku þjóðfélagi á kné, þegar kjósendur fólu borgaraflokkunum völdin seint á síðustu öld.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Lífstíll, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.