19.8.2014 | 12:13
Orkumál víða í ólestri
Staða orkumála á Íslandi er einstök og ber að nýta þá stöðu enn betur en gert hefur verið til að styrkja samkeppnistöðu landsins. Frumorkugjafarnir eru að mestu endurnýjanlegir, þ.e. jarðhiti, sem sér fyrir 68 % orkuþarfarinnar, og vatnsorkan, sem sér fyrir 18 % orkuþarfarinnar, alls 86 %, en olía, kol og gas, aðeins sér okkur fyrir aðeins 14 % heildarorkuþarfar. Þetta er mjög óvenjuleg, sterk og góð staða fyrir þjóðarbúskapinn.
Þjóðverjar, sem mest allra leggja á sig til að losna undan óendurnýjanlegum frumorkugjöfum, hafa að markmiði að endurnýjanlegu frumorkugjafarnir, sól, vindur og lífmassi (vatnsorka og jarðhiti eru ekki talin sérstaklega), standi fyrir 80 % raforkuvinnslunnar og 60 % heildarorkunotkunar sinnar árið 2050. Þessi stefna er og mun verða gríðarleg byrði á þýzku efnahagslífi og mun hamla hagvexti þar. Þar af leiðandi er líklegt, að Þjóðverjar muni leita annarra leiða. Hægt er að benda á eina slíka leið, sem er þróun kjarnorkuvera með aðeins broti af áhættu kjarnorkuvera, sem kynt eru með úrani.
"Die Energiewende" eða Orkuvendipunktur Þjóðverja felur í sér að losna bæði við kjarnorku og jarðefnaeldsneyti úr rafmagnsvinnslunni. Þetta er þýzka hagkerfinu gríðarlega dýrkeypt, og að öllum líkindum er þetta röng stefnumörkun. Hún hefur enn litlu skilað til að draga úr gróðurhúsalofttegundum, því að brúnkol stóðu árið 2013 undir 26 % af raforkuvinnslunni, eins og árið 2003, og kol stóðu undir 20 % árið 2013, en 25 % árið 2003. Jarðgas stóð undir 10 %, eins og 2003.
Hins vegar hefur hlutur kjarnorku minnkað úr 27 % í 15 % á téðu tímabili. Á móti hefur endurnýjanleg frumorka, sól, vindur og lífmassi, aukið hlutdeild sína úr 8 % í 24 %. Samkvæmt Orkuvendipunktinum á að slökkva á síðasta kjarnorkuverinu árið 2022. Nú verður að telja líklegra, að Þjóðverjar hefji þróun á nýrri gerð kjarnorkuvera, sem nota Þóríum-eldsneyti. Verði það gert, verður hætt að greiða stórlega niður vinnslukostnað raforku með vindi, sól og lífmassa, og raforkuverð í Þýzkalandi mun lækka á markaðinum.
Þessi stefna orkusjálfbærni hefur notið hylli í Þýzkalandi af umhverfisverndarástæðum, en nú eru farnar að renna tvær grímur á almenning, og atvinnurekendur hafa allan tímann varað við afleiðingunum, sem eru töpuð störf og minni samkeppnihæfni. Orkulögin frá árinu 2000 tryggja hátt verð í 20 ár til virkjana, sem nota sól, vind eða lífmassa, og forgangsrétt þeirra til að selja sína orku inn á stofnkerfi Þýzkalands, meginflutningskerfið, sbr Landsnet hér.
Mismunur markaðsverðs og hins tryggða lágmarksverðs úr endurnýjanlegum lindum er borinn af notendum. Meðalheimili þarf nú að borga aukalega EUR 260 eða ISK 40.000 á ári í þessar niðurgreiðslur, sem er svipuð upphæð og greiða þarf fyrir ársnotkun rafmagns í einbýlishúsi á jarðhitasvæði á Íslandi án skatts. Alls nemur kostnaður þessara niðurgreiðslna í Þýzkalandi EUR 16 milljörðum, sem er umtalsvert fé á þýzkan mæalikvarða. Þýzk fyrirtæki, sem nota mikið rafmagn og standa í alþjóðlegri samkeppni, eru undanþegin greiðslu þessa mismunar, þ.e. niðurgreiðslu á endurnýjanlegri orku. Þetta orkar tvímælis frá sjónarhóli allra hinna. Það er víðar en á Íslandi, að hlaðið er undir fyrirtæki á útflutningsmarkaði, en almennt er viðurkennt, að slíkt ójafnræði getur aðeins gengið til bráðabirgða.
Afleiðing þessara styrkja og forgangs til endurnýjanlegra frumorkugjafa hefur verið gríðarleg söluaukning, og sólarhlöður eru nú á flestum þökum í Bæjaralandi, og vindmyllugarðar setja sterkan svip á landslagið víða í Þýzkalandi og sýnist sitt hverjum.
Sólarhlöður hafa lækkað um helming í verði á tímabilinu 2008-2013, og stofnkostnaður sólarorkuvers, þar sem sólarhlöður eru tæplega helmingur kostnaðar, lækkaði um 22 % á tímabilinu 2010-2013. Á fáeinum sólríkum stöðum í heiminum er nú rafmagnsvinnslukostnaður með sólarhlöðum svipaður og í hefðbundnum kola- og gaskyntum orkuverum, en slíkt á ekki við um Þýzkaland, en getur átt við um Suður-Evrópu.
Það er þó ekki allt, sem sýnist. Paul Joskow við Massachusetts Institute of Technology hefur sýnt fram á hulinn kostnað við sólarhlöður og vindmyllur vegna slitrótts rekstrar þeirra, þar sem birta og vindstyrkur eru breytileg. Þess vegna þarf að fjárfesta í og reka varaorkuver fyrir þessi vistvænu orkuver.
Við útreikninga sína notaði hann kostnaðinn 50 USD/t CO2 losunar, sem er meira en sjöfaldur kostnaður við losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu um þessar mundir, og þess vegna er hvergi hallað á kolefnisfríar orkulindir. Niðurstaða Paul Joskows, þegar hann bar saman tap og ávinning af mismunandi orkulindum miðað við kolakynt orkuver, er sláandi:
- Vindorka: tap kUSD 30 á ári per uppsett MW
- Sólarorka: tap kUSD 190 á ári per uppsett MW
- Vatnsorka: ávinningur kUSD 170 á ári per MW
- Kjarnorka: ávinningur kUSD 310 á ári per MW
- Jarðgas með endurnýtingu:ávinningur kUSD530 á ári á MW
Til að varpa ljósi á, hversu háar upphæðir er hér um að ræða, má geta þess, að virkjunarkostnaður fallvatna og jarðgufu á Íslandi er 2000 - 5000 kUSD/MW. Þrátt fyrir að losun koltvíildis sé mjög hátt verðlögð í þessu dæmi, er stórtap af vindorku- og sólarorkuverum. Það er m.a. út af lágum nýtingartíma þessara orkuvera, þ.e. samsvarandi því, að 25 % af tímanum séu vindorkuver á fullum afköstum og sólarorkuver aðeins 15 %, á meðan kjarnorkuver geta verið 90 % af tímanum á fullum afköstum, og stöðvanir þeirra eða afkastaminnkun eru flestar skipulagðar. Þess ber að geta, að vindorkuver á Íslandi mundu spara vatn í miðlunarlónum, nema á yfirfallstíma þeirra, sem er um einn mánuður á ári. Þess vegna þarf ekki varaafl fyrir vindorkuver hérlendis, en þau keppa í raun við þann valkost að auka miðlunargetu lónanna, sem nú er um 10 % of lítil.
Samkvæmt ofanrituðu spara kjarnorkuver verðgildi losunar gróðurhúsalofttegunda upp á 400 kUSD/MW á ári, en sólarorkuver aðeins 69,5 kUSD/MW og vindorkuver 107 kUSD/MW. Á Íslandi draga slík orkuver ekkert úr losun gróðurhúsalofttegunda, og hagkvæmni þeirra hérlendis má þess vegna mjög draga í efa.
Til að sólarorkuver borgi sig, m.v. þessa útreikninga, þyrfti losunargjald að nema 185 USD/t CO2. Þetta er tæplega þrítugföldun á núverandi kostnaði í Evrópu, og það er útilokað, að hagkerfi Evrópu eða annars staðar geti borið svo háan kostnað til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.
Af þessum sökum er hægt að draga þá ályktun, að Orkuvendipunktur Þjóðverja sé ósjálfbær, þ.e.a.s. þeir hafa valið leið, sem er svo dýr, að þeir munu ekki ráða við hana. Atvinnulíf þeirra og annarra, sem reyna þetta, mun lúta í lægra haldi í samkeppni vegna of mikils framleiðslukostnaðar. Hér hafa Þjóðverjar reist sér hurðarás um öxl, eins og gerðist fyrir einni öld, er þeir ætluðu að skapa Þýzkalandi yfirburðastöðu á heimsmörkuðum með því að færa rækilega út kvíarnar á skömmum tíma og berjast samtímis á vestur- og austurvígstöðvunum. Þeir réðu ekki við það, eins og sagan greinir frá.
Í þetta sinn eiga Þjóðverjar þó undankomuleið áður en þeir þurfa að lúta í gras. Hún er fólgin í að hanna og smíða kjarnorkuver, sem notar frumefnið Þóríum í stað úraníums og plútóníums í hefðbundnum kjarnorkuverum. Þeir verða þá lausir við mestu geislavirknihættuna í rekstri, og geislavirkur úrgangur verður viðráðanlegt vandamál, þar sem magnið er undir 1 % af úrgangi frá jafnstóru úraníumveri, og geislavirknin fellur niður fyrir öryggismörk á um tveimur öldum í stað tuga árþúsunda, eins og nú er.
Þóríum-kjarnorkuver hafa burði til að leysa orku vanda heimsins, og eiga þess vegna framtíðina fyrir sér. Þau geta staðið undir raunverulegri orkubyltingu, sem gæta mun um allan heim með jákvæðum hætti fyrir orkunotendur, og verður gerð nánari grein fyrir þeim á þessum vettvangi.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Umhverfismál, Viðskipti og fjármál, Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.