Þjóðerniskennd sækir í sig veðrið

Þessi misserin blása ferskir vindar um Evrópu á stjórnmálasviðinu.  Birtingarmynd þeirra er aðallega með tvennum hætti:

Annars vegar hefur flokkum vaxið ásmegin, sem eru gagnrýnir á myndun fjölmenningarsamfélaga í sínu hefðbundna þjóðríki.  Þessir flokkar gefa ekki mikið fyrir frelsin fjögur á Innri markaði Evrópusambandsins, ESB, a.m.k. ekki regluna um óhefta för vinnuafls á milli landa, og þeir eru yfirleitt í andstöðu við valdaframsal þjóðþinga sinna til embættismanna ESB í Brüssel og s.k. Evrópuþings.

Öflugastir þessara flokka eru Þjóðfylkingin í Frakklandi undir forystu Marie Le Pen, sem nýtur mikils fylgis í Frakklandi og vaxandi, eftir því sem getuleysi jafnaðarmanna á þjóðþingi Frakklands og í Elysée-höllinni í París til að fást við vandamál Frakklands verður lýðum ljósara.  

Frakkland er að sökkva í botnlaust skuldafen, þar sem ríkisskuldir eru komnar langt yfir 60 % af VLF, sem er viðmiðunin samkvæmt Maastricht-samninginum, og þar ríkir almenn svartsýni, verðhjöðnun er á næsta leyti og atvinnuleysi fer vaxandi.  Ef ekki verður snúið af braut árlegs ríkissjóðshalla upp á 4 %-5 %, þá verða munu skuldirnar innan 5 ára geta orðið Frökkum óviðráðanlegar, og þá mun hrikta í evrunni. 

Jafnaðarmenn hafa ekkert bein í nefinu til að kljást við vandamál með þeim meðulum, sem duga, og skila rekstrarafgangi á ríkissjóði.  Ráðstafanir samkvæmt hagspeki jafnaðarmanna eru eins og að hella olíu á eld. Hagspeki þeirra um að sáldra fé úr ríkissjóði um samfélagið og gera allt að helming landsmanna að bótaþegum, gengur ekki upp í raunveruleikanum, þó að málpípur þeirra séu oft býsna liðugar um málbeinið.  Endar ná sjaldnast saman hjá jafnaðarmönnum, og þá er unga fólkinu sendur reikningurinn með því að slá lán á æ verri kjörum eftir því sem dýpra er sokkið í skuldaforina. 

Annar flokkur á þjóðernislegum væng stjórnmálanna er UKIP-United Kingdom Independence Party á Bretlandseyjum.  Sá vill draga Bretland úr ESB. Hann fékk mikið fylgi, 25 %-30 %, í síðustu kosningum þar til Evrópuþingsins, og hefur þegar fengið fulltrúa í sveitarstjórn, og flótti er tekinn að bresta í þingmannalið Íhaldsflokksins yfir til UKIP Nigel Farage. 

David Cameron, forsætisráðherra brezku samsteypustjórnarinnar, hefur neyðzt til að reyna að hamla sérstaklega gegn UKIP með því að heita Bretum að semja völd til baka til Westminster og White Hall frá Berlaymont í Brüssel og síðan að leyfa þeim að kjósa um veru Bretlands í ESB.  Benda skoðanakannanir til, að stjórnmálalegt líf Camerons sé undir því komið, að honum verði mjög vel ágengt í Brüssel, svo að Bretar samþykki áframhaldandi veru lands síns í ESB.  Á eftirgjöf að hálfu Brüsselvaldsins eru hins vegar taldar litlar líkur.  Cameron gæti bjargað sér og flokki sínum með því að söðla um og hvetja Breta til að samþykkja úrsögn.  Dagar ESB í sinni núverandi mynd eru þess vegna taldir, enda er almenn óánægja í Evrópu með stjórnsýslu þess og lýðræðishalla.  Hér uppi á Íslandi lætur formaður jafnaðarmanna, Árni Páll Árnason, hins vegar út úr sér þvætting á borð við þann, að Íslendingar séu eina þjóðin í Evrópu, sem viti ekki, hvaða gjaldmiðil þeir muni nota eftir 10 ár.  Í Evrópu er ekki einu sinni vitað, hvernig ESB mun líta út eftir 10 ár, hvað þá hvort evran verður þá við lýði.   

Stuðningsmenn Þjóðfylkingarinnar, UKIP, Svíþjóðardemókratanna, Sannra Finna og annarra svipaðra um alla Evrópu, hafa þróun evrópskra samfélaga í átt til fjölmenningarsamfélaga á hornum sér og telja hana vega að rótum hefðbundinnar þjóðmenningar sinnar, sem þeir vilja fyrir engan mun fórna á altari samfélagsgerðar, sem þeir telja boðflennu í sínum ranni í þeim skilningi, að aldrei hafi alvarleg umræða farið fram um svo veigamikið mál eða kosningar um það.  Fólki finnst því vera troðið um tær, og að það og menning þess eigi í vök að verjast. 

Á tímum efnahagslegrar stöðnunar og vaxandi atvinnuleysis má líkja þessari þjóðfélagsgerjun við púðurtunnu, sem getur sprungið með byltingu, eins og t.d. valdataka Marie Le Pen í Elysée væri og úrsögn Bretlands úr ESB.  Þetta er nú allur stöðugleikinn, sem búrókrötunum í Brüssel hefur tekizt að koma á.  Hræringar Evrópu eru ekki hliðhollar ríkjasambandi í Evrópu.  Hræringar Evrópu stefna þvert á móti í átt til sundrunar Evrópu og miðstýrðra ríkja Evrópu.

Stærsta ríkið, að undanskildu Rússlandi, Þýzkaland, er ekki miðstýrt, heldur er mikil valddreifing í Sambandslýðveldinu, þar sem hvert fylki á sér þing og höfuðstað og fer með skattlagningarvald.  Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins í Berlín fer aðeins með málefni, sem telja má sameiginleg fyrir tvö eða fleiri fylki, landvarnir og utanríkismál og að sjálfsögðu rekstur á sameiginlegum ríkissjóði Þjóðverja.  Margir þjóðflokkar búa innan þýzku landamæranna með mismunandi menningu og mállýzkur.  Þjóðverjar verða margir hverjir að grípa til háþýzkunnar til að skilja hvern annan. 

Otto von Bismarck sameinaði þessa þjóðflokka m.a. með Deutsche Industrie Normen - DIN, svo að Svabar gætu framleitt íhluti fyrir Prússa, sem síðan gætu selt Rínlendingum tæki o.s.frv.  Jafnvel Bæjarar, sem sumir vilja ekki láta kalla sig Þjóðverja, heldur Bæjara, og að geðslagi svipar að sumu leyti mest til Austurríkismanna, una sér vel í þessu sambandsríki.  Stjórnarfyrirkomulag, sem Engilsaxar hönnuðu með Þjóðverjum eftir fall Þriðja ríkisins, virðist henta Þýzkalandi vel.  Reyndar spjara þeir sig undir hvaða kerfi sem er.  

Það er ekki hið sama uppi á teninginum í hinu Sameinaða brezka konungdæmi.  Brezka stjórnskipanin, sem fleytti þeim áfram til mesta heimsveldis sögunnar og sem réði niðurlögum einræðisherra á borð við Napóleon Bonaparte frá Korsíku, Vilhjálm 2. Prússakeisara af ætt Junkera, og Adolfs Hitlers, furðufugls með mikilmennskubrjálæði, ættaðan frá Linz í Austurríki, sem afarkostir Frakka í Versalasamningunum frá 1919 skoluðu að afloknum kosningum upp í kanzlarasæti í Berlín 30. janúar 1933, er nú að liðast í sundur, af því að sú gamla stjórnskipan svarar ekki kalli nútímans um sjálfstjórn minnihluta þjóða, sem af sögulegum, menningarlegum og efnahagslegum ástæðum vilja sjálfstjórn og jafnvel sjálfstæði. 

Þegar grannt er skoðað, eru það oft efnahagslegar ástæður, sem kynda undir sjálfstæðisbaráttu þjóða.  Olía og gas í lögsögu Skotlands hefur vafalítið lagzt á sveif með sjálfstæðissinnum Skotlands.  Katalóníubúar telja Madrid vera afætu á sér, og Quebeck er ríkt frá náttúrunnar hendi.  Boðskapur íslenzkra sjálfstæðissinna í upphafi 20. aldar var og, að auðlindir á hvern mann hérlendis væru miklar, og nægir að minna á herhvatir Einars Benediktssonar, skálds, um virkjun íslenzkra fallvatna. 

Þá er vert að hafa í huga, að viðskiptafrelsi, t.d. á Innri markaði ESB, hjálpar minni þjóðum við að afsetja sínar vörur og þjónustu, eins og um stórríki væri að ræða.  

 

Þjóðaratkvæðagreiðslan í Skotlandi 18. september 2014 setti af stað óstöðvandi þróun alls konar þjóðabrota í Evrópu í átt til sjálfstæðis.  Bretar ræða nú af kappi, hvað ný stjórnarskrá þeirra eigi að fjalla um.  Cameron hefur skipað William Hague, fyrrverandi leiðtoga Íhaldsmanna, formann stjórnarnefndar, sem á að koma með stjórnarskrártillögu. Vaxandi fylgi er fyrir því á Englandi, að aðeins þingmenn Englendinga fái að fjalla um ensk málefni og greiða um þau atkvæði, en hvorki þingmenn Skota, Wales-búa né Norður-Íra.  Við þetta ykist styrkur Íhaldsmanna á enska þinginu á kostnað jafnaðarmanna í Verkamannaflokkinum.

Um aldamótin síðustu voru 60 % Englendinga hlynntir því, að um ensk málefni á brezka þinginu yrði aðeins fjallað af þingmönnum Englendinga, samkvæmt Institute for Public Policy Research, en árið 2012 voru þeir orðnir 80 %.  Samkvæmt British Social Attitude Survey kölluðu 55 % af enskum kjósendum sig Breta árið 1997, en árið 2012 hafði þeim fækkað í 43 %, og kölluðu þá einnig 43 % sig Englendinga, en 14 % höfðu ekki gert upp hug sinn.  Þetta, þ.e. 43 %, sem líta fyrst á sig sem Englendinga og síðan Breta, er hærra hlutfall en á meðal Bæjara, Galisíumanna á Spáni og Bretóna á Bretagne-skaganum.  Hins vegar er þessi þróun komin lengra á meðal Skota og á meðal Katalóna og Baska á Spáni, þar sem aðskilnaðarhreyfingar eru öflugar.  Líklega er sama uppi á teninginum í Quebec, þar sem er starfandi öflug aðskilnaðarhreyfing. 

Fleiri svæði í Evrópu má nefna, þar sem sjálfstjórnartilhneiging hefur látið á sér kræla.  Má þar nefna Suður-Týról, þar sem þýzkumælandi fólk á erfitt með að sætta sig við ítalskt ríkisfang, Slésíu í Póllandi, þar sem margir Þjóðverjar hafa búið um aldir, og síðan auðvitað Úkraínu, þar sem rússneski björninn hefur beitt hervaldi í tilraun til að kljúfa ríkið og hernam hluta þess, Krím, og innlimaði í Rússland, þó að þar séu Úkraínumenn fjölmennir og einnig Tartarar, sem Jósef Djúgasvílí Stalín lét flytja nauðungarflutningum langt austur eftir í lok "Föðurlandsstríðsins mikla", sem hann reyndar sjálfur hóf með kumpánanum Adolf Hitler 1. september 1939 eftir að þeir skiptu Evrópu upp á milli sín u.þ.b. 10 dögum áður.

Belgía er nánast í stöðugri stjórnarkreppu vegna slæms samkomulags á milli Flæmingja og Vallóna, enda var Belgíu komið á fót til að verða stuðpúði á milli Þjóðverja og Frakka, sem eru þjóðir með ólíkar lyndiseinkunnir, svo að ekki sé meira sagt.

Hvaða ályktanir af ofangreindum róstum er hægt að draga með hagsmuni íslenzku þjóðarinnar fyrir augum ?

Í fyrsta lagi voru sambandsslitin við Dani árið 1918 og lýðveldisstofnun árið 1944 sögulega réttar og tímabærar ákvarðanir, sem e.t.v. með vissum hætti hafa gefið tóninn fyrir þjóðríkjaþróunina í Evrópu nú í byrjun 21. aldarinnar.  Það er tekið eftir því, hvernig smáþjóðum Evrópu vegnar, þ.á.m. hinni íslenzku, lengst norður í Atlantshafi, og hvernig hún í kjölfar fjármálakreppu heimsins 2007-2008 hristi af sér fjötra fjármálakerfisins með tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og vann síðan mikilvægt dómsmál í krafti eigin fullveldis í blóra við Brüssel og í fullkominni óþökk Breta og Hollendinga.  Það hefur verið dregin burst úr nefi gömlu nýlenduveldanna.   

Vinstri stjórnin stundaði ósæmilegt daður við framkvæmdastjórn ESB í Brüssel.  Þar léku skessur sér með fjöregg þjóðarinnar.  Upphafið var ósæmilegt vegna þess, að sú ríkisstjórn neitaði þjóðinni um að tjá sig sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort hún vildi fara á fjörurnar við ESB með hjónaband í huga eður ei.  Það er ótrúlega ósvífinn gjörningur að taka slíka umdeilda U-beygju í utanríkismálum án þess að leita fyrst eftir samþykki þjóðarinnar þar að lútandi.  Í stað þess var farin sú ósæmilega og ólýðræðislega leið að handjárna  þingmenn þáverandi stjórnarmeirihluta og skipa þeim að samþykkja aðildarumsóknina. Jafnvel ráðherrar gerðu grein fyrir atkvæði sínu með megnasta óbragð í munninum, og verður munnsöfnuður þeirra, t.d. Svandísar Svavarsdóttur, lengi í minnum hafður.

Þessi umsókn reyndist hið mesta feigðarflan, og viðræður í helztu málaflokkunum, sjávarútvegi og landbúnaði, báru engan árangur, svo að ESB sleit í raun viðræðunum með því að neita að afhenda nauðsynleg gögn, s.k. rýniskýrslu um sjávarútvegsmál, til að hægt væri að halda áfram.  Fyrri ríkisstjórn gerði þá hlé, og eftir kosningarnar í maí 2013 ákvað ný ríkisstjórn, að frekari viðræður væru vita vonlausar og leysti samninganefnd Íslands frá störfum.  Síðan það gerðist hafa mál þróazt með þeim hætti í Brüssel, að ákveðið var að hætta við allar stækkunartilraunir um 5 ára skeið, enda aðildarríkin að nálgast 30, og stjórnkerfi ESB orðið mjög þungt í vöfum og væri í bráðri þörf fyrir straumlínulögun.  Þar að auki blasa alvarleg vandamál við ESB-forystunni, bæði innan frá og utan, t.d. Bretar og Rússar, og efnahagslíf evru-ríkjanna er í kaldakolum. 

Að öllu þessu virtu blasir við, að það er tímaskekkja, að ofan í skúffu búrókrata í Berlaymont hvíli nú umsókn frá Íslandi um aðildarviðræður og aðlögunarferli.  Hvaða erindi á Ísland inn í það öngþveiti, sem þarna ríkir ?  Jafnaðarmennina á Íslandi dreymir um að koma Íslandi í enn samansúrraðra forræðis- og leyfisveitingasamfélag en reyndin er á nú þegar, og er þó nóg samt.  Þetta mun aðeins hafa í för með sér enn fleiri afætur á fámennum hópi vinnandi manna en raunin er á nú þegar og þess vegna versnandi hag allra, nema þeirra, sem fara á ESB-jötuna.  Allt tal um, að evran verði þá innan seilingar, er fávíslegt bull.  Ef menn vilja aðra mynt, eru aðrar leiðir útlátaminni en innganga í ríkjasamband. 

Umsóknarbréf Jóhönnu og Össurar á að afturkalla með þingsályktun frá Alþingi vafningalaust, hvernig sem fimmta herdeildin lætur.  Lýðræðislega séð er engin ástæða til að halda um þetta þjóðaratkvæðagreiðslu, af því að þjóðin var ekki spurð um þetta á sínum tíma.  Ef þingið vill ekki taka af skarið, getur það vísað málinu til þjóðarinnar, og þá verður sú snerra tekin, og getur orðið atgangur allharður, en enginn vafi getur leikið á um, að herfræði og vopnabúnaður sjálfstæðissinna er með þeim hætti, að fimmta herdeildin mun þurfa að lúta í gras.  Stólparitið að neðan sýnir gamlar kannanir.  Síðan þá hefur þróun mála orðið sjálfstæðissinnum í vil.      

Skoðun þjóðar

     

     

 

 

 

 

   

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll vertu, augljóslega vex sjálfstæðissinnum fiskur um hrygg um alla Evrópu,enda ótrúlegt að gróin þjóðríki uni þessari taumlausu íhlutun Esb í stjórn þeirra. Hvað þá á Íslandi þar sem þeir þekkja hvorki sporð né hala,(frekar en hvalafriðunarsinnar) á lífsbaráttu og lífríki strandríkja.- Það er komið að skuldadögum,vegna svokallaðrar umsóknar í Esb. Sækjum gulnaða blaðið í skúffuna,það virðist allt drullumall Samfylkingar vera falið í skúffum út um víða veröld.

Helga Kristjánsdóttir, 11.10.2014 kl. 04:55

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Helga Kristjánsdóttir;

Það liggur í loftinu, að sjálfstæðum ríkjum fjölgi enn í Evrópu og víðar, nema ríkjandi þjóðir viðkomandi ríkja, t.d. Katilíumenn og Englendingar, bjóði upp á sambandsríki, þar sem hvert ríki hefur skattlagningarvald, þó að alríkisstjórnin hafi það líka, en þá í mjög takmörkuðum mæli. 

Bjarni Jónsson, 11.10.2014 kl. 12:05

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Lykilorðið er skattlagningarvald.  Almúginn óróast þegar hann er skattlagður umfram það sem upphaflega var lagt upp með; þarfir samfélags hans. 

Þetta verða stjórnmálamenn að skilja.

Kolbrún Hilmars, 11.10.2014 kl. 18:04

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir góða grein, Bjarni, þótt hún sé í lengra lagi. Vonandi lesa þetta sem flestir.

Ívar Pálsson, 11.10.2014 kl. 20:37

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er þannig með Katalóníumenn, að þeim þykir þing Spánar í Madrid, þar sem Kastilíumenn eru fjölmennastir, skattleggja sig of mikið, og Katalóníumönnum þykir hinir Spánverjarnir vera afætur á sér.  Þegar menningarlegur munur er talsverður í þokkabót, er kominn göróttur drykkur, sem minnihlutaþjóðum svelgist gjarna á. 

Bjarni Jónsson, 11.10.2014 kl. 21:02

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þegar víða er komið við, er hætt við lengingu, þó vonandi ekki málalengingum í þessari vefgrein.  Hugmyndin var að setja sjálfstæði Íslands, sem er vissulega ekki sjálfgefið utan frá séð, í samhengi við almenna þróun á sambandi hinna fjölmörgu þjóða og þjóðabrota Evrópu.  Ég held, að það hafi tekizt að vissu leyti, þó að vafalaust mætti betur gera. 

Bjarni Jónsson, 11.10.2014 kl. 21:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband