Eiginn afli og annarra

Ein hjákátlegasta gagnrýni stjórnarandstöðunnar á núverandi ríkisstjórn og þingmeirihluta hennar er, að hún hafi "afsalað ríkissjóði tekjum" með því að draga úr skattheimtu, sem vinstri stjórnin lagði á, oft á tíðum með ósvífnum hætti með vísun til réttlætis að hætti sameignarsinna.

Þessi afstaða virðist vera reist á því viðhorfi, að skattborgarar og lögaðilar séu í ánauð ríkisins við að afla því fjár í þeim mæli, sem valdhöfunum þóknast hverju sinni. Svipaðs sjónarmiðs gætti í hinu undirfurðulega Fréttablaði nýlega, þar sem forsíðufyrirsögn var á þá leið, að upphæð arðgreiðslu útgerðarfyrirtækja væri hærri en næmi veiðigjöldum sömu fyrirtækja !  Hvers eiga fjárfestar í útgerðarfélögum eiginlega að gjalda ? Halda menn, að þeir hafi fjárfest í útgerðinni til að hún geti greitt sem allra hæst veiðigjöld, svo að þeir fái sáralítinn arð af fjárfestingu sinni ? Fíflagangur blaðamanna ríður ekki við einteyming. Mál er, að mismunun heiðarlegra atvinnugreina í landinu linni.  

Téð sjónarmið vinstri manna og latte lepjandi listafígúra í R-101, þ.e. í sumum tilvikum hinna steingeldu "skapandi stétta", sem vart vita, hvað sköpun er, er í algerri andstöðu við sjónarmið hægri manna, sem sumum finnst nú reyndar kaffisopinn góður, sem er önnur saga, um, að hvati einstaklinga og lögaðila til tekjuöflunar sé ráðstöfunarréttur þeirra sjálfra á sem mestu af þessum tekjum, og þess vegna verði að gæta mikils hófs við tekjuöflun hins opinbera, ef heimtufrekja stjórnmálamanna í nafni hins opinbera ekki á að skrúfa fyrir verðmætasköpunina.    

Kenningar hægri manna í þessum efnum hafa reyndar verið margsannaðar. Á vinstri stjórnar árunum ríkti gegndarlaus skattheimta, og gekk á með stöðugum skattahækkunum, en tekjur ríkissjóðs jukust samt sáralítið, og staðnað hagkerfið komst ekkert upp úr kreppuhjólförunum, af því að raunverulega hvata skorti til fjárfestinga og meiri tekjuöflunar. Ær og kýr jafnaðarmannanna eru að sníða af tekjuöfluninni allt, sem forræðishyggjunni þykir umfram marka, og færa það til "samneyzlunnar", sem er gegndarlaus og botnlaus hít, af því að þar er féð án hirðis. Þessu má líkja við löglegan en siðlausan þjófnað. 

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs árið 2013 var kveðið á um skattalækkanir, og strax sumarið 2013 var dregið úr stórskaðlegri skattheimtu fyrri stjórnvalda á sumum sviðum.  Það var eins og við manninn mælt; þessi stefnubreyting hafði strax jákvæð áhrif á fjárfestingar og neyzlu, og hagkerfið hrökk í gír, hagvöxtur er nú 3-4 %, og tekjur ríkissjóðs árið 2014 stefna í að verða tugum milljarða kr yfir áætlun í fjárlögum ársins, sem er ótrúlega hraður viðsnúningur. Með öðrum orðum voru vinstri stjórnar árin ár hinna glötuðu tækifæra, en blómatími stórkarlalegra hrossakaupa og sóunar með rándýrum  gæluverkefnum, svo að ekki sé nú minnzt á dekrið við kröfuhafa föllnu bankanna, hvort sem skósólar þeirra voru sleiktir í Berlaymont eða í höfuðstöðvum Landsbankans.

Staðreyndin er þess vegna sú, að minni skattheimta felur ekki í sér "afsal tekna ríkissjóðs", heldur aukningu skatttekna vegna aukinna umsvifa borgaranna, fjárfestinga og neyzlu í samfélaginu. Auðvitað er borin von, að vinstri menn átti sig á henni, enda er hluti af möntrunni þeirra að beita skuli skattkerfinu til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu í nafni réttlætis.  Sú stefna jafngildir stefnu riddarans hugumprúða, sem barðist við vindmyllur.

Hér sannast enn sem oftar, hversu skaðlega þröngt sjónarhorn vinstri manna á hagræn málefni er, enda á það ekki upp á pallborðið hjá kjósendum að öðru jöfnu. Jafnaðarmenn einblína á það, að þeir, sem afla teknanna, halda meiru eftir af þeim en þeir, forræðishyggjumennirnir, telja góðu hófi gegna, og ala síðan á stanzlausri öfund annarra í framhaldi af því, en gæta ekki að því að horfa á heildarmyndina, sem er vöxtur hagkerfisins, knúinn áfram af hvatanum um hærri tekjur, þegar upp er staðið, og bætta þjóðfélagsstöðu fyrir sig og fjölskyldu sína. 

Þetta er gamla sagan um að lýsa öllum fílnum með því að einblína á löppina á honum. Að taka úr vasa eins og setja í vasa annars, sem í mörgum tilvikum nennir ekki að leggja sig jafnmikið fram og hinn, er argasta óréttlæti.  Jafnaðarmenn stunda hins vegar endalausan öfugmælakveðskap, að hætti forvera sinna, kommúnistanna, og nefna þetta athæfi öfugmælinu "samfélagslegt réttlæti í anda jafnaðar". "Hvílíkur Jón í Hvammi" var haft á orði á Héraðinu, þegar fólki blöskraði atferli.   

Eitt harðasta deilumál síðari tíma hérlendis er fiskveiðistjórnunarkerfið. Fræðimenn, innlendir sem erlendir, láta nú hver um annan þveran í ljós þá skoðun, að íslenzka kerfið sameini betur en nokkurt annað fiskveiðistjórnunarkerfi hagsmuni umhverfisverndar, þ.e. sjálfbærrar nýtingar, og hagkvæma nýtingu, enda er íslenzkur sjávarútvegur sá arðsamasti í heimi, að talið er. 

Að sjálfsögðu spretta þá upp heimaalningar af ýmsu tagi, sjálfskipaðir spekingar og beturvitar, sem finna kerfinu allt til foráttu og gagnrýna það með ljótu orðbragði og réttlæti á vörunum.  Hvaða atvinnugrein er sniðin til að fullnægja réttlætiskennd sérvitringa og sjálflægra nöldurseggja ?

Þessi velgengni fiskveiðistjórnunarkerfisins íslenzka leiddi til þess á árum "fyrstu tæru vinstri stjórnarinnar" (hún var reyndar glær í gegn), að farin var skattheimtuherferð gegn sjávarútveginum í anda sjúklegrar öfundar í garð velgengni og andúðar á útgerð, sem líkja má við eignaupptöku eða hægfara þjóðnýtingu að hætti sameignarsinna. Þessi aðför jafnaðarmanna leiddi til þess, að lítil útgerðarfyrirtæki voru tekin að leggja upp laupana, er núverandi ríkisstjórn tók við valdataumunum, kippti í taumana og lagfærði verstu agnúa ofurhás veiðigjalds, þó að enn sé langt í land með, að sjávarútvegurinn sitji við sama borð og aðrir atvinnuvegir í skattalegum efnum. Hér sem endranær gildir Laffler-lögmálið, að lækkun ofurhárrar skattheimtu eykur skatttekjurnar. Þetta lögmál hentar "hugsjónum" villta vinstrisins (eða er það vinstursins, sem er meltingarfæri jórturdýra-stutt á milli). 

Aðstöðugjald á formi veiðileyfagjalds er fásinna að leggja á atvinnugrein í alþjóðlegri samkeppni við niðurgreiddar greinar. Þetta verða stjórnvöld að bera gæfu til að skilja, annars beita þau greinina órétti og stórskaða hagsmuni þjóðarinnar. Síðan veiðileyfagjaldið var hækkað upp úr öllu valdi, hefur hægt á vexti íslenzka sjávarútvegsins í samanburði við þann norska og færeyska, enda þora útgerðarmenn ekki lengur að fjárfesta í greininni, eins og eðlilegt væri. Hvernig stjórnarandstaðan ræðir um minnkun skattbyrðar á útveginn sem glataðar skatttekjur er reginhneyksli og sýnir í hnotskurn algert skilningsleysi viðkomandi þingmanna á hagsmunum atvinnuveganna og efnahagskerfinu. Þar kemur enn við sögu hin fyrr nefnda og alræmda þrönga sýn á fílinn.   

Á meðan almennt auðlindagjald er ekki lagt á landnytjar, er ekki hægt að fallast á réttmæti auðlindagjalds af sjávarnytjum, en í staðinn kæmi til greina t.d. 5 % hærri tekjuskattur af greininni en af öðrum atvinnugreinum, enda verði  umframskattheimtunni einvörðungu varið að hálfu ríkisins til að þjónusta  sjávarútveginn; t.d. færu þessi framlög til Hafrannsóknarstofnunar, Landhelgisgæzlunnar og Stýrimannaskólans. Tæplega væri þó réttlætanlegt að verja þessu fé til vopnakaupa, enda varða þau þjóðaröryggi.

Þá verður ekki séð, að neina nauðsyn beri til að veikja greinina með aukinni óvissu um framtíðina með því að rífa af henni eign hennar, þjóðnýta hana, og leigja aftur út afnotarétt þessarar eignar til tiltekins og tiltölulega stutts tíma m.v. afskriftatíma fjárfestinga. Slíkar æfingar í jafnaðarmennsku eru þjóðfélagstilraunir, sem skaða sjávarútveginn og sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar, enda eru slíkar aðfarir fordæmalausar og kokkaðar upp í einhverju stjórnmálaeldhúsi vinstra megin við miðju. 

Hætt er við, að slík tilraunastarfsemi muni fæla fjármagn út úr greininni og þangað, sem arðsemi eigin fjár er hærri en í sjávarútvegi.  Auðlindarenta í sjávarútvegi er tómur hugarburður draumóramanna, enda hefur hún aldrei fundizt. Er kominn tími til að slá striki yfir vitleysuna, sem ættuð er frá fólki, sem ekkert skynbragð ber á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, en er uppfullt af þvættingi um þjóðareign á auðlindinni og ruglar henni saman við ríkiseign fiskistofnanna.   

Í Viðskiptablaðinu 6. nóvember 2014 birtist viðtal við Birgi Þór Runólfsson, dósent í hagfræði við HÍ, sem hélt erindi í húsakynnum Gamma nýlega í tilefni af útgáfu bókarinnar, "Heimur batnandi fer", eftir Matt Ridley:

"Sá árangur, sem náðst hefur í fiskveiðistjórnun hér á landi, er að mestu leyti til kominn vegna þess, að fiskveiðiheimildir, eða kvóti, fela í sér varanlegan nýtingarrétt. Þessi varanleiki hefur fellt saman hagsmuni útgerða af því að hámarka arðsemi sína og þau umhverfissjónarmið, sem snúa að viðhaldi fiskistofna."

"Segja má, að mitt erindi hafi verið framhald af erindi Ridleys", segir Birgir Þór. "Ridley færir rök fyrir því, að eignarrétturinn stuðli að hagkvæmri nýtingu auðlinda, einkum út frá umhverfissjónarmiðum og vísar þar til fiskveiða við Ísland."

Íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið hefur öðlazt sess sem fyrirmynd annarra þjóða á þessu sviði.  Hérlendis eru þó hjáróma raddir um, að það sé ekki nógu "réttlátt", og er þá oftast vísað til upphaflegrar úthlutunar á kvótanum. Um það segir Birgir Þór, "að þegar svona kerfi sé komið á, sé einmitt mikilvægt að úthluta kvóta til þeirra, sem stunda veiðarnar á þessum tíma.  Það leiðir til þess, að hagkvæmnin og uppstokkunin komi fram fyrr.  Hlutverk þeirra, sem halda áfram í geiranum er svo að bæta þeim upp tapið, sem hverfa úr greininni.  Með því að úthluta kvótanum ókeypis í upphafi er verið að viðhalda fjármagni, svo að hægt sé að fara strax í nauðsynlegar fjárfestingar."

Niðurstaða rannsókna Birgis Þórs Runólfssonar er ennfremur, að grundvallaratriði vel heppnaðs fiskveiðistjórnunarkerfis sé ótímabundinn nýtingarréttur og að útgerðarmenn og fjárfestar geti treyst á stöðugleika í þeim efnum.  Það er mjög margt, sem bendir til, að þetta sé hárrétt niðurstaða.

Núverandi stjórnvöld verða að setja vísindalegar niðurstöður á borð við þessa á oddinn við mótun væntanlegs frumvarps um stjórnun fiskveiða, en mega ekki láta undan tilfinningaþrungnu væli fákunnandi og ofstækisfulls fólks um að koma verði nýtingarréttinum í "félagslega eign" og að hann skuli leigja til tiltekins tíma, svona 15-25 ára. Til þess standa engin hagfræðileg né siðferðileg rök, og þar með mundu stjórnvöld grafa undan arðsemi fiskveiðistjórnunarkerfisins og letja til beztu umgengni við auðlindina vegna þess, að ákvarðanir útgerðarmanna verða þá í meira mæli reistar á skammtíma sjónarmiðum en langtíma mati á því, hvað komi fyrirtækjum þeirra bezt. 

 Eigandi gengur betur um eign sínaLogandi heit Fernanda í drætti   

 

            

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband