7.12.2014 | 18:26
Heimur batnandi fer ?
Matt Ridley hefur í bókinni, "Heimur batnandi fer", fært rök fyrir því, að svo megi líta á, að flest horfi til betri vegar fyrir almenning í heiminum. Er þetta í raun svo ?
Það eru aðallega tækniframfarir mannkyns, sem skjóta stoðum undir röksemdafærslu Ridleys. Þegar hins vegar kemur að skiptingu þjóðarteknanna á Vesturlöndum, kemur við rannsókn ýmislegt óæskilegt í ljós, því að fjármagnseigendur virðast toga sífellt meira til sín á kostnað hins vinnandi manns. Það getur ekki verið markmiðið með framleiðslu, hverju nafni, sem hún nefnist, nú á tímum, að fjarmagnseigendur fleyti rjómann ofan á, en launþegarnir megi lepja undanrennuna. Hinn vinnanandi maður og kona eiga að vera í öndvegi. Þetta er ekki Marxismi. Þetta er ekki síður viðhorf frjálshyggju í anda Adams Smiths.
Verklegar framfarir við vinnu eiga mestan þátt í aukinni verðmætasköpun, en fjármagn skapar eitt og sér ekki verðmæti, þó að það vissulega sé nauðsynlegt með, og fjármagnseigendum beri arður í hlutfalli við áhættuna, sem þeir leggja í. Að öðrum kosti þurrkast fjármagn upp, eins og undir Ráðstjórninni.
Í upphafi unnu menn allt sjálfir í sveita síns andlitis. Þá hélt verkaskipting, stéttaskipting og þrælahald í krafti vopnavalds innreið sína og dýr voru tekin í þjónustu mannsins. Þessu var stundum stjórnað af ríkisvaldi og stundum af héraðshöfðingjum. Um 1750 verða vatnaskil í þróun atvinnuhátta með Iðnbyltingunni, sem fól í sér nýtingu annarrar orku en manna og dýra, þ.e. vélvæðingu, fyrst með nýtingu varmaorku, t.d. fyrir tilstilli gufuvélar Skotans James Watt (1736-1819) og rúmri öld síðar með sprengihreyfli og raforku. Með Iðnbyltingunni hefst hraðfara þróun mannkyns á öllum sviðum. Vélvæðingin skapaði grunn að afnámi Þrælahalds og erfiðisvinnu manna og dýra og útheimti þess vegna endurskipulagningu á samfélagi manna, sem eftir gríðarleg átök endaði með afnámi lénsveldis og innleiðingu lýðræðis. Eftir styrjöldina, sem batt endi á lénsveldi Evrópu, voru gerðar tilraunir með annars konar stjórunarfyrirkomulag á grundvelli ritanna Das Kapital eftir Karl Marx og Mein Kampf eftir Adolf Hitler. Báðar þessar tilraunir leiddu til mikilla hörmunga í Evrópu og eru fullreyndar, þó að enn rembist svo kallaðir jafnaðarmenn eins og rjúpan við staurinn við að troða upp á fólk því, sem kalla mættilýðræðislega sameignarstefnu, en hún er hagfræðilegt viðrini, sem alltaf endar úti í mýri með yfirskuldsettan ríkissjóð.
Á fyrri hluta 19. aldar var lagður fræðilegur grunnur að nýtingu rafmagnsins með verkum manna á borð við Englendinginn Michael Faraday (1791-1867), sem m.a. hannaði rafhreyfil 1821, Skotans James Maxwell (1831-1879), sem sýndi fram á samband rafstraums og segulsviðs, og Þjóðverjans Georgs Ohm (1789-1854), sem leiddi út ýmis grundvallarlögmál rafmagnsfræðinnar.
Upp úr 1880 hefst nýting rafmagns fyrir alvöru með hönnun rafala, ljósapera, hreyfla, hitalda, spóla og þétta. Rafmagnið umbylti tilveru mannsins og jók framleiðslugetu, framleiðni og arðsemi fjármagns gríðarlega með þrifalegum hætti, en öll hafði þessi vélvæðing og rafvæðing hættur í för með sér.
Allt var þetta vafalaust til bóta í þeim skilningi að lyfta fjöldanum upp úr fátækt, eymd og vesöld, velmegun jókst á formi bætts húsakosts, styttri vinnutíma, minni barnadauða, bætts heilsufars og meira langlífis. Heimurinn fór vissulega batnandi á 19. öld, þó að mikill ófriður ríkti í Evrópu fram að Vínarsamkomulaginu 1815, sem haldinn var eftir að Frakkar voru brotnir á bak aftur af Englendingum, Rússum og Prússum undir forystu Wellingtons og von Blüchers. Hefur sól Frakka ekki risið í Evrópu síðan.
Eftir byltinguna í Frakklandi 1789 tekur aðallinn að missa fótanna um alla Evrópu og í staðinn tekur millistéttinni að vaxa fiskur um hrygg, er kemur fram á 19. öldina. Stéttabarátta magnast þó með vaxandi baráttu um auðinn, og Karl Marx og Friedrich Engels, sem var reyndar þýzkur iðjuhöldur á Englandi, rituðu um draumaríkið, þar sem sameignarstefnan réði ríkjum og enginn auðgaðist á annars vinnu. Þessi hugarheimur kaffihúsasnata allra tíma breyttist í martröð hins vinnandi manns undir verstu kúgurum mannkynssögunnar í Rússlandi 1917. Eftir sameiningu Þýzkalands 1871 jukust viðsjár með Evrópuríkjunum, sem náðu hámarki, þegar Fyrri heimsstyrjöldin brauzt út í ágúst 1914 og olli gríðarlegum þjóðfélagsbreytingum í Evrópu, en Þjóðverjum mistókst þar ætlunarverk sitt að sameina Evrópu, og voru það Bretar, sem komu í veg fyrir það, með stuðningi Norður-Ameríku í lokin.
Aðalsmerki frjálslynds og framsækins samfélags er jöfnun tækifæra fyrir alla. Evrópa og Bandaríkin, BNA, o.fl., fetuðu sig í þessa átt á 19. öldinni, þó að ekki ríkti þar alls staðar lýðræði. Með lýðræðinu hafa náðst fram beztu lífskjörin, en það hefur gengið á ýmsu með eignaskiptinguna. Eignir virðast hafa sterka tilhneigingu til að safnast á fáar hendur, og stjórnmálamenn þurfa að sporna við slíku; þó ekki með aðferðum sameignarsinna, sem snúa hringnum 360°, þ.e. öllum eignum er hjá þeim stjórnað af örfáum, nómenklatúrunni, eða ríkisauðvaldinu.
Erlendis er gjarna sagt sem svo, að 50 % fólksins eigi litlar sem engar eignir, skuldlaust, og þess vegna sé eignarhluti eignaminnstu 90 % þjóðanna í raun mælikvarði á eignir miðstéttarinnar, þ.e. sé fjölskyldum raðað eftir nettóeign, lenda öreigar á bilinu 0 - 50 %, miðstéttin á bilinu 50 % - 90 %, og stóreignafjölskyldur á bilinu 90 % - 100 %.
Til að leggja mat á jöfnuðinn í samfélaginu er hlutfallslegur eignarhluti miðstéttarinnar gjarna borinn saman við eignarhlut auðugustu 0,1 % samfélagsins. Þróun þessara mála í BNA gefur líklega vísbendingu um ástandið á Vesturlöndum almennt, en hún er með eftirfarandi hætti:
Ár Neðstu 90 % Efstu 0,1 %
1910 20 % 20 %
1920 20 % 16 %
1930 16 % 25 %
1940 20 % 18 %
1950 29 % 10 %
1960 28 % 10 %
1970 30 % 10 %
1980 34 % 8 %
1990 34 % 12 %
2000 30 % 16 %
2010 22 % 21 %
Á þessari öld hefur sigið á ógæfuhlið fyrir miðstéttinni, en ríkustu 0,1 % fjölskyldnanna hafa rakað saman fé. Þessi þróun stenzt ekki til lengdar í siðuðu samfélagi. Af þessum ástæðum er ekki hægt að fallast á, að allt stefni á hinn bezta veg í samfélögum Vesturlanda.
Það, sem dálkurinn um eignarhlut neðstu 90 % Bandaríkjamanna á eignakvarðanum sýnir, er, að hlutur miðstéttarinnar hefur ekki verið lakari síðan í upphafi Síðari heimsstyrjaldarinnar í lok kreppunnar miklu. Þetta hlutskipti er orsök vaxandi óróa á meðal miðstéttarinnar, sem telur flesta kjósendur. Þrátt fyrir vaxandi þjóðartekjur, hefur afkoma miðstéttarinnar lítið sem ekkert batnað á þessari öld, enda hlutdeild hennar minnkað á sama tíma og hlutdeild hinna eignamestu 0,1 % þjóðarinnar hefur vaxið. E.t.v. á tækniþróunin einhvern þátt í þessari óheillavænlegu þróun, því að margs konar störf hafa orðið óþörf með tilkomu tölvuvæðingarinnar, svo að dæmi sé nefnt. Tölvuvæðingin og gríðarleg sjálfvirknivæðing er síðata afsprengi tæknivæðingarinnar, sem er að umbylta heiminum aftur með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Í Evrópu gætir einnig vaxandi stjórnmálalegs óþols á meðal miðstéttarinnar, sem þjóðernissinnaðir stjórnmálaflokkar á borð við Þjóðfylkinguna í Frakklandi, Sjálfstæðisflokk Bretaveldis, Valkosta fyrir Þýzkaland, Sænska lýðræðisflokkinn og Frjálsa Finna hafa notið góðs af. Svipaðrar eignaþróunar hefur gætt í Evrópu og í BNA, og atvinnuleysið í ESB hefur reyndar verið miklu geigvænlegra en í BNA og fjölgað mjög í hópi öreiganna, því að sums staðar fær helmingur ungs fólks enga vinnu og hangir á horriminni. Að þessu leyti er ástandið mun betra á Íslandi, og hér er almennt betri eignastaða en annars staðar í Evrópu, þó að mikil skuldsetning vinni þar á móti. Eignadreifingin er líklega eðlilegri á Íslandi en víða annars staðar á Vesturlöndum vegna mikillar atvinnuþátttöku og almennrar húsnæðiseignar. Vandamálið á Íslandi hefur fremur verið að dreifa gæðunum áður en þau urðu til, og hefur slík óráðsía leitt til verðbólgins hagkerfis, sem kemur verst niður á kjörum almúgans.
Eftirsóknarverðasta þjóðfélagið er, þar sem allar stéttir hafa tök á að ganga menntaveginn samkvæmt eigin hæfileikum og án tillits til efnahags. Þá blandast stéttirnar og mannauður þjóðfélagsins fær bezt notið sín öllum til hagsbóta. Jafnframt eiga launþegar siðferðilegan rétt á kjarabótum samkvæmt eigin framleiðniaukningu, þ.e. fyrirtækisins, og að bera úr býtum samkvæmt eigin vinnuframlagi að teknu tilliti til eðlilegrar arðsemi fjárframlags eigenda starfseminnar, sem er háð áhættu fjárfestingarinnar. Auðsöfnun á fárra manna hendur er ósiðleg og óþolandi. Að búa í siðuðu samfélagi hlýtur að fela í sér, að arðurinn af vinnunni dreifist með einum eða öðrum hætti tiltölulega greiðlega um allt samfélagið. Annars ríkja frumskógalögmál í samskiptum manna, og slíkt vilja fæstir líða. Slíkt samfélag stenzt öðrum samfélögum ekki snúning til lengdar.
Á markaði eru framleiðsluöflin mannauður - hráefni - orka - fjármagn. Það hefur alltaf verið togstreita á milli vinnuafls og fjármagnseigenda um arð starfseminnar. Nauðsynlegt er að finna jafnvægi þar á milli, sem er þjóðhagslega hagkvæmast, en það er hins vegar hægara sagt en gert. Um flest Vesturlönd hefur þetta á seinni árum mistekizt með þeim afleiðingum, að hagur miðstéttarinnar hefur rýrnað hlutfallslega, en hagur hinna ríkustu hefur eflzt hlutfallslega, t.d. m.v. tímabilið 1950-1980, þ.e.a.s. Kaldastríðstímabilið. Í BNA magnast nú þjóðfélagsóánægja af þessum sökum, eins og sannaðist í þingkosningunum í haust, þar sem lýðveldisflokkurinn, repúblikanar, náðu meirihluta í efri deild, Öldungadeildinni, og juku meirihluta sinn í neðri deild þingsins, Fulltrúadeildinni. Lýðræðisflokkurinn, demókratarnir, sjá nú sína sæng út breidda og munu tapa Hvíta húsinu, nema stjórnmálalegt slys verði á hægri vængnum. Megn vantrú ríkir í flestum löndum á getu og vilja stjórnmálamanna á vinstri vængnum til að taka á þjóðfélagsmeinum, og meira er þá horft til hægri vængsins, t.d. í BNA og Evrópu.
Samt hefur helzti núlifandi hugmyndafræðingur vinstri manna því miður rétt fyrir sér í bókinni, "Capital in the Twenty-First Century", um, að auðurinn hafni nú í vaxandi mæli í höndum hinna ofurríku, eins og taflan hér að ofan ber með sér, en hann hefur hins vegar engar skynsamlegar lausnir á takteinum. Hugmyndafátækt einkennir einmitt málflutning vinstri manna á þessari öld. Eftir gjaldþrot sameignarstefnunnar í Evrópu árið 1989 hefur vinstra fólkið ekki haft neina burði til að fitja upp á nýjungum og að svara kalli tímans. Þetta hefur átakanlega sannazt á jafnaðarmönnum í Frakklandi, sem ráða í Elysée höllinni og í franska þinginu, en eru í bókstaflegum skilningi með allt á hælunum nótt sem nýtan dag.
Ekkert er nýtt undir sólunni, og við siglum nú inn í ástand 18. aldar, öld frönsku byltingarinnar, þar sem að kvænast erfingja ríkidæmis var greiðfærari leið til ríkidæmis en að stofnsetja fyrirtæki. Þetta er þjóðfélagslegt óréttlæti, sem endaði með fallöxinni á 18. öld, og mun enda með byltingum á 21. öldinni líka, verði ekki snúið af ógæfubraut. Ríkjum mun ganga misvel að fást við þetta vandamál. Í Kína hefur hundruðum milljóna manna verið lyft upp úr fátækt á 25 árum til bjargálna með innleiðingu auðvaldskerfis undir einræði kommúnistaflokksins, og þar hefur í miklum hagvexti fyrir vikið myndazt millistétt, en þar sem hægt hefur á hagvexti þar, hefur sókn hennar til bættra kjara stöðvazt, en auðurinn er tekinn að safnast í meira mæli á hendur örfárra. Millistéttin mun ekki sætta sig þetta ásamt einræði kommúnistaflokksins, og hún mun rísa upp og velta flokkinum úr sessi. Enginn veit, hversu blóðugt það verður.
Í Rússlandi á sér stað hrikaleg þróun, þar sem fámenn klíka dregur úr lýðræði með hverju árinu og skarar eld að eigin köku á meðan lýðurinn má éta, það sem úti frýs. Ólígarkar Pútíns skara eld að eigin köku, en hagkerfi Rússlands stendur að mestu á einum meiði, olíu og gasi, sem standa undir 60 % útflutningsteknanna.
Nú hallar mjög undan fæti hjá Rússum, efnahagslega. Með olíuverði undir 60 USD/tunna, sem vel getur orðið á næsta ári, það er nú um 70 USD/tunna, og viðskiptaþvingunum Vesturlanda mun gjaldeyrisvaraforði Rússlands brátt verða upp urinn, og fjöldagjaldþrot blasa við fyrirtækjum árið 2015. Rússneska ríkið gæti lent í greiðsluþroti þá eða árið eftir. Þetta kemur niður á útflutningshagsmunum Íslendinga. Þegar eru um ISK 2 milljarðar í vanskilum vegna kaupa Rússa á uppsjávartegundum af íslenzkum útflytjendum, og ef/þegar þessi markaður lokast, þýðir það um ISK 10 milljarða högg fyrir íslenzka sjávarútveginn, sem þá verður að leita á önnur útflutningsmið.
Hlutdeild miðstétta, þ.e. þeirra 50 % - 90 %, sem eiga minnstu nettóeignirnar, í nettó eignum allra fjölskyldna, ætti ekki að fara niður fyrir þriðjung, og engin ástæða er til að ríkustu 0,1 % fjölskyldnanna eigi meira en 10 % eignanna. Til þess að hindra óheillaþróun í þessum efnum verður að tryggja 90 % eignaminnsta fólksins sinn hlutfallslega skerf af vexti þjóðarkökunnar hverju sinni, tryggja hlutdeild þeirra í eignum, þ.e. lausafé, bankainnistæðum, verðbréfum og fasteignum, og að sem flestir eignist eigið húsnæði. Hægt er að nota skattkerfið til að örva þessa almennu eignamyndun, t.d. með skattafslætti á lífeyrissparnað, jafnvel enn meiri sparnað en nú er, og hærri skattheimtu af milljarðamæringum, þó að einhvers konar ofurskattlagning komi ekki til greina, því að hún leiðir einvörðungu til fjármagnsflótta, eins og 75 % skattheimta jafnaðarmanna af frönskum auðmönnum sýndi. Að neyða tekjulitla eldri borgara til að selja eignir, eins og vinstri stjórnin hér gerði á síðasta kjörtímabili með eignaskatti, er einnig afar ósanngjarnt.
Hluti af þessari óheillaþróun á Vesturlöndum er aukin skuldsetning almennings. Á Íslandi er nú verðhjöðnun, en samt eru Seðlabankavextir um 5,7 %. Þetta nær engri átt, enda eru nú raunvextir orðnir meira en tvöfalt hærri en þau 2 % - 3 %, sem Seðlabankinn hefur löngum miðað við. Vísitölutenging lána lækkar nú höfuðstólinn, en vísitölutenging gerir það almennt að verkum, að langan tíma tekur að greiða niður lán, t.d. til húsnæðiskaupa. Það er nú svigrúm núna til að draga úr vísitölutengingum án þess að lánsfé gufi upp í bankastofnunum.
Verðbólgan er versti fjárhagslegi óvinur allra, ekki sízt almennings, 90 % fólksins, og fyrirtækjanna, því að hún brennir upp verðmætum og skekkir allt arðsemismat. Það er allt í sölurnar leggjandi til að halda verðbólgu í skefjum. Þess vegna er ófært að verða við ósvífnum kröfum öflugra þrýstihópa um launastökk, jafnvel tíföldu á við það, sem hagkerfið þolir til almennings, þó að líf liggi við. Hóflegar og stöðugar kjarabætur er leiðin, sem fara verður. Allar aðrar leiðir lenda í ófæru.
Hinir ofurríku eru bæði af tegund Mark Zuckerbergs, þ.e. dugnaðarforkar með góðar viðskiptahugmyndir, sem auðgast í sveita síns andlitis, og af tegundinni Paris Hilton, sem erfði auðævi. Sá fyrrnefndi er með margt fólk í vinnu, og margir njóta þess vegna góðs af velgengninni, en það á varla við um síðara tilvikið. Það er ekkert athugunarvert við, og þvert á móti samfélagslegt keppikefli, að eignast sem flesta frumkvöðla, sem auðgast vel á eigin vinnu. Það er heldur ekki hægt að fetta fingur út í auðsöfnun þeirra, sem auðgast vegna góðra viðskiptahugmynda í fjármálaheiminum og jafnvel áhættutöku, þar sem fylgt er réttum spilareglum.
Menntakerfið er eitt öflugasta jöfnunartækið í samfélaginu. Með því nálgumst við markmiðið um jöfnun tækifæranna og blöndun stéttanna. Það er arðsamt, af því að það hjálpar til við að nýta sem bezt þá hæfileika, sem í öllum finnast, óháð stétt og stöðu.
Sama verður ekki sagt um heilbrigðiskerfið, því að það hjálpar fólki lítið við að lifa heilbrigðara lífi, aðeins lengra lífi. Þegar fólk hins vegar er komið í öngstræti með heilsu sína af einhverjum ástæðum, þá er nokkuð jöfn aðstaða til að fá bót meina sinna, sem er gott, svo langt sem það nær, þ.e. á meðan kerfið er ekki misnotað. Kerfið sjálft er hins vegar komið í öngstræti, því að það getur bætt árum við aldurinn, en hins vegar ekki gert lífsgæðin bærileg í öllum tilvikum. Það er þess vegna með hækkandi aldri á dánardægri mjög tímabært að taka líknardauða til rækilegrar umfjöllunar, og helzt ættu heilbrigðisstéttir að leiða þá umræðu. Fjöldi örvasa gamalmenna getur orðið samfélögum með háan meðalaldur mjög þungur í skauti.
Í erfðatækninni felast miklir möguleikar til sparnaðar á heilbrigðissviðinu. Það er svo miklu ódýrara að beita fyrirbyggjandi læknisfræðilegum aðferðum gegn þekktum sjúkdómum en úrræðum, sem nauðsynlegt er að beita til að fást við einkenni lífshættulegra sjúkdóma. Til þess að þessi þróun megi verða þarf að létta mjög á kröfum um persónuvernd, enda er slíkt eðlilegt, þegar þess er gætt, að megnið af sjúkrahússkostnaði á Íslandi lendir á skattgreiðendum. Fólk ætti að hafa val. Annaðhvort heimilar það yfirvöldum aðgang að erfðafræðilegum upplýsingum, sem fyrir hendi eru, og á þá kost á fyrirbyggjandi meðferð með verulegri kostnaðarþátttöku ríkisins, tryggingarfélaga eða lífeyrissjóða, eftir atvikum, eða fólk verður að standa straum af lækniskostnaði vegna fyrirsjáanlegra sjúkdóma án kostnaðarþátttöku ríkissjóðs. Núverandi kerfi er botnlaus hít og þarfnast uppstokkunar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Heilbrigðismál, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir fróðegan lestur, Bjarni. Þetta krefst eilítillar yfirlegu sem vonandi gefst síðar, en hægt er að taka undir margt í þessari samandregnu heims- og Íslandssögu síðari tíma.
Ívar Pálsson, 7.12.2014 kl. 23:14
Sæll, Ívar;
Þakka þér fyrir innlitið og athugasemdina. Það er rétt, að þessi vefgrein spannar vítt svið, enda er hún lengri en góðu hófi gegnir. Vonandi gefst þér tóm til að fletta aftur upp á greininni, þegar betra næði gefst. Boðskapurinn er sá, að tækniþróunin hefur knúið þróun mannlegs samfélags áfram, og tekjuskipting stóreignafólks og hinna vinnandi stétta hefur sigið á ógæfuhliðina á Vesturlöndum síðan 1990. Það þýðir engan veginn, að nú sé rétt að taka heljarstökk í launamálum á Íslandi. Þvert á móti gagnast almenningi stöðugleiki og lág verðbólga bezt með litlum, en öruggum skrefum í kjaramálum, eins og framleiðniaukning landsins stendur undir. Hvernig bezt er að vinda ofan af óheillaþróun eignaskiptingar er margbrotið viðfangsefni, sem þú og kollegar þínir getið örugglega lagt gott til mála um.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 8.12.2014 kl. 18:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.