Evrópa í dróma

Sláandi mikill munur er nú á hagþróun í Bandaríkjum Norður-Ameríku, BNA, og í ríkjum Evrópusambandsins, ESB.  Í BNA var yfir 5,0 % hagvöxtur árið 2014, um 1,5 % verðbólga og til urðu yfir 300 000 störf á mánuði síðustu mánuði ársins, og atvinnuleysi þar nam 5,8 % í nóvember 2014.  Í ESB var hagvöxtur um 0,3 % 2014, verðhjöðnun 0,2 % og atvinnuleysið á evru-svæðinu var 11,5 % í október 2014 og vaxandi. Hver skyldi vera skýringin á þessum reginmun á árangri hagstjórnar í BNA og ESB ?  Svarið leiðir í ljós, að evran er meinloka stjórnmálamanna, sem hagfræðingar reyna að lappa upp á.

Í BNA er seðlabankinn búinn að stunda mjög öflugar örvunaraðgerðir, sem líkja má við seðlaprentun upp á trilljónir bandaríkjadala frá fjármálakreppunni 2008, þegar Lehman Brothers-bankinn féll.  Í BNA er auðvelt að fitja upp á nýjungum og stofna frumkvöðlafyrirtæki, launatengd gjöld eru lág og litlar hömlur eru á vinnumarkaði til ráðninga og brottrekstrar. 

Í seðlabanka ESB, ECB-bankanum, hefur ríkt grundvallarágreiningur um peningamálastefnuna.  Þjóðverjar vilja ekki, að ECB kaupi skuldabréf aðildarríkjanna, því að slíkt geti sett af stað verðbólgu, þó að síðar verði.  Þjóðverjar voru andvígir lækkun vaxta bankans niður fyrir núll.  ÉCB er sem sagt með neikvæða vexti á fé, sem hann fær til geymslu.  Slíkt er algert örvæntingarmerki.

Þýzkir sparifjáreigendur urðu óhressir með það, og þeir munu verða æfir, ef verðbólgan fer af stað. Þýzki seðlabankinn með Jens Weidemann í broddi fylkingar, ver hagsmuni þeirra með kjafti og klóm, því að þeir eru undirstaða þýzka bankakerfisins og þar með athafnalífsins.  Það reynir talsvert á umburðarlyndi þýzkra sparifjáreigenda núna, þegar evran tapar fjórðungi af verðgildi sínu gagnvart bandaríkjadal.  Ef ofan á þetta mundi bætast verðbólga í Þýzkalandi, mundu sparifjáreigendur þar fara að hugsa sér til hreyfings úr bönkunum, og þá hristast undirstöður þýzka hagkerfisins. 

Alls konar vandamál hrannast upp á ESB-himninum, svo að auðvelt er að rökstyðja, að forsendur hafa breytzt frá því, að meirihluti Alþingis var handjárnaður 16. júlí 2009 til að samþykkja umsókn um aðild að ESB.  Það er með engu móti hægt að halda því fram lengur, að Íslandi gæti gagnast aðild að Evrópusambandinu, eins og leikar standa nú. 

ESB-ríkin standa frammi fyrir orkukreppu, því að um fjórðungur af orkunotkuninni kemur eftir gasleiðslum frá Rússlandi.  Síðan árið 2014 stendur yfir efnahagsstríð á milli vestrænna ríkja og Rússlands, sem leitt getur til greiðslufalls á þessu ári á skuldum rússneska ríkisins.  Þá gætu Rússar hæglega gripið til þess örþrifaráðs að skrúfa fyrir gasið til Mið- og Vestur-Evrópu. 

ESB-ríkin búa við um 11 % og vaxandi atvinnuleysi.  Þar er kerfisvandi á ferðinni, sem bitnar verst á ungu fólki, 18-30 ára, og er atvinnuleysi í þessum hópi um 50 % í Suður-Evrópu.  Um er að ræða illvígt og langvarandi atvinnuleysi, sem aðeins öldrun þjóðfélaganna virðist geta breytt til batnaðar. Kerfisvandinn er fólginn í miklum kostnaði fyrir fyrirtækin við hverja ráðningu og miklum hömlum á brottrekstri.  Víða í ESB keyrir skattheimta á fyrirtæki og einstaklinga úr hófi fram, og launatengd gjöld eru há.  Þannig nema t.d. skatttekjur ríkisins sem hlutfall af VLF (vergri landsframleiðslu) 2013 í Danmörku 49 %, í Frakklandi 45 % og á Ítalíu 42 % á meðan meðaltalið nam 34,1 % í OECD.  Skattheimta af þessu tagi hamlar hagvexti og eyðileggur samkeppnihæfni, en hún er ær og kýr jafnaðarmanna, sem þykjast stjórna með því að rífa fé af þeim, sem leggja sig fram, og færa til hinna, sem minna mega sín, af því að þeir annaðhvort geta ekki eða nenna ekki að leggja sig fram.  Þetta er réttlæti ræningjans, því að hlutverk Hróa hattar er það engan veginn í nútíma vestrænu þjóðfélagi.  Hrói höttur starfaði undir lénskipulagi, og stundum mætti ætla af málflutningi vinstri manna hérlendis, að þeir telji sig þrúgaða undir lénskipulagi. 

Hagvöxtur er nánast enginn í ESB, enda þarf að öðru jöfnu mannaflaaukningu á vinnumarkaði til að um hagvöxt geti verið að ræða.  Annar þáttur er framleiðniaukning, en þar sem fjárfesting er af jafnskornum skammti og í ESB, er ekki hægt að búast við umtalsverðri framleiðniaukningu. Ástandið í hagkerfum Evrópu er alvarlegt og veldur nú alvarlegum eftirspurnarskorti í Evrópu, sem m.a. kemur niður á utanríkisviðskiptum Íslands. 

Hlutdeild launakostnaðar í heildarkostnaði fyrirtækja er 57 % í ESB að meðaltali.  Um er að ræða laun og launatengd gjöld.  Á Íslandi er þetta hlutfall hið hæsta í Evrópu, og þó að víðar væri leitað, eða 70 %.  Launabogi íslenzkra fyrirtækja er þess vegna spenntur til hins ýtrasta.  Vegna lítillar framleiðniaukningar felst svigrúm fyrirtækja til launahækkana aðallega í að fækka starfsfólki, en um helmingur launatengdu gjaldanna felst í framlögum til lífeyrissjóða, og þessi framlög verður að meta til launa, því að þau fela í sér sparnað launþeganna til elliáranna.  Málflutningí verkalýðsleiðtoganna nú í aðdraganda kjaraviðræðna má líkja við, að þeir ætli að saga í sundur greinina, sem þeir, og allir launþegar landsins, sitja á.  Ábyrgðarleysi þeirra er með algerum ólíkindum, ef þeir ætla að steypa landinu í glötun núna með kröfum, sem, ef samþykktar verða, munu valda mikilli hækkun á öllum vörum, gengislækkun, skuldahækkun, atvinnuleysi og minni ávöxtun lífeyrissjóðanna, sem þeir þó bera svo mjög fyrir brjósti.  Að vísa til kjarasamnings lækna, sem vinna hjá ríkinu, er eins fávíslegt og hugsazt getur.  Menntun lækna og starfsvettvangur er einfaldlega algerlega ósambærileg við aðstæður félaga í verkalýðsfélögunum.  Auk þess aflar téður vinnuveitandi tekna til launagreiðslna og annars með skattlagningarvaldi, sem viðsemjendur verkalýðsfélaganna hafa ekki.  Það fer bezt á því að gleyma læknum og kjarasamningi þeirra og hætta að bera saman ósambærilega hluti, enda leiðir slíkt aðeins út í ógöngur.  

Annar kostnaður fyrirtækjanna en launakostnaður nemur að jafnaði 30 % af verðmætasköpun þeirra, og er hann kallaður vergur rekstrarafgangur.  Hann samanstendur að mestu af afskriftum til endurnýjunar á fastafjármunum, vaxtakostnaði, tekjuskatti og hagnaði.  Síðasti liðurinn er nauðsynlegur til að umbuna fjármagnseigendum fyrir þá áhættu að leggja eigið fé í fyrirtækið, og þarf þess vegna að vera hærri en vaxtatekjur af bankainnistæðum eða skuldabréfum.  Fjárfestingar á Íslandi eru allt of litlar til að viðhalda hér þokkalegum hagvexti.  Skýringanna er m.a. að leita í mjög háum vaxtakostnaði og mjög háum launakostnaði í hlutfalli við getu fyrirtækjanna, svo að arðgreiðslur verða í mörgum tilvikum lægri en nemur eðlilegri ávöxtun eigin fjár fyrirtækjanna.

Ef t.d. launakostnaðarhlutfallið á Íslandi væri hið sama og að meðaltali í ESB, 57 %, þá ykist rekstarafgangur fyrirtækjanna um 90 mia kr, sem mundi þýða yfir 0,5 Mkr (milljónir króna) á hvern vinnandi mann á Íslandi á ári.  Yfirfært á samkeppnihæfni fyrirtækja á Íslandi má halda því fram, að íslenzkir launþegar fái um þessar mundir meira í sinn hlut en íslenzk fyrirtæki þola í raun og veru.    Það er þannig ljóst, að launþegar á Íslandi fá nú þegar meira í sinn hlut af þjóðarkökunni en með sanngirni má ætlast til.  Allir þurfa hins vegar að sameinast um að stækka þessa þjóðarköku, en það verður ekki gert með því að spenna launabogann um of, heldur með aukinni framleiðni og með auknum útflutningsverðmætum. 

Að sjálfsögðu jafngildir ofangreint hámarkshlutfall launakostnaðar, 70 %, ekki því, að kaupmáttur á Íslandi sé sá hæsti í Evrópu.  Hann er nú sá 11. hæsti, en hann vex hins vegar hraðast hérlendis og yfir 5,0 % árið 2014.  Til að viðhalda þeim vexti þurfa tekjur fyrirtækjanna að vaxa að raunvirði.  Þar eru lág verðbólga, efnahagsstöðugleiki og beinar erlendar fjárfestingar, lykilatriði.  Verðbólgan var árið 2014 undir 1,0 %, sem er mjög gott fyrir alla, ekki sízt unga fólkið, og nú hillir undir beinar erlendar fjárfestingar í kísiliðnaði á Íslandi.  Þeim munu fylgja fjárfestingar í orkuiðnaði fyrir lánsfé og eigið fé, sem kjörið er fyrir lífeyrissjóðina að taka þátt í.  Lífeyrissjóðir hafa árlega úr um 100 mia kr að spila í fjárfestingar, og ekki óeðlilegt, að fimmtungur þess fari til virkjana, en öllu vafasamara er af þeim að fjármagna kísilverin sjálf.  Þar er of mikil óvissa og áhætta fyrir þá, en orkufyrirtækin eru vön að setja varnagla í langtíma orkusölusamninga sína, sem veitir þeim forgangsrétt í þrotabú, ef illa fer, svo að þau hafa allt sitt á þurru.  Verkalýðsforingjum ber að gera sér grein fyrir því, hversu gríðarlegt tjón þeir vinna umbjóðendum sínum með því að standa fast á kröfugerð, sem er umfram getu atvinnuveganna að standa undir.

Það, sem hér hefur verið rakið, sýnir, að verðmætaskiptingin á milli fjármagnseigenda og launþega er hinum síðar nefndu meira í hag á Íslandi en nokkurs staðar þekkist.  Þetta er að mörgu leyti ánægjulegt og sýnir, að mikilvægar forsendur eru hér uppfylltar til að hagkerfið megi flokka sem Félagslegt markaðshagkerfi með dreifingu 70 % auðævanna til launþega, en eftir sitja 30 % hjá fjármagnseigendum.  Þetta er góður grunnur að tiltölulega miklum jöfnuði í þjóðfélaginu. Ef samkeppni á markaði væri virkari en raun ber vitni um, væri hér bezta dæmið um vel heppnað Félagslegt markaðshagkerfi, sem fyrirmyndar má leita að í Þýzkalandi og er að mörgu leyti eftirsóknarvert. 

Næstu ríki á eftir Íslandi í hlutdeild launakostnaðar af verðmætasköpun eru Svíþjóð með 65 % og Danmörk með 64 %.  Noregur og Finnland eru mun neðar á þessum lista.  Af þessu má draga þá ályktun, að þar, sem launakostnaðarhlutfallið er hátt, ríki meiri tekjujöfnuður en annars staðar.  Þetta er jákvætt fyrir lífsgildi þegnanna og markmiðin, sem flestir geta sameinazt um, að athafnalífið eigi að hafa.  Andstæðan væri lágt launakostnaðarhlutfall, þar sem fjármagnseigendur sópuðu að sér megninu af ávinningi atvinnustarfseminnar.

Með hliðsjón af þessari upptalningu verður ekki komið auga á veigamikla íslenzka hagsmuni, sem betur væru settir innan ESB en utan.  Þar er meiri ójöfnuður í tekjudreifingu og meira atvinnuleysi, svo að ekki sé nú minnzt á þjóðfélagsóróann.  Ef við værum með evru og launahækkanir færu úr böndunum, mundum við fá hér gríkskt ástand. Fljótt á litið er það helzt stjórnmálastéttin og embættismenn, sem hagsmuni hafa af inngöngu Íslands í Evrópusambandið, því að Berlaymont er kjörlendi fyrir þessa hópa.  Sem betur fer setur þó meirihlutinn í þessum hópum hagsmuni Íslands ofar eigin hagsmunum.   

Hugsanlega mundu fésýslustofnanir hérlendis þrífast betur innan ESB en utan.  Það er hins vegar enn of skammt liðið frá því, að fésýslukerfi landsins var knésett af Bretum, sem ekki liðu fésýslumiðstöð á Íslandi, eins og þá var orðin raunin.  Rússnesk lánveiting til Seðlabanka Íslands var í boði 7. október 2008, en þá þótti hins vegar vænlegra að halla sér að AGS, sem lengi vel setti samþykkt Icesave-kvaðanna sem skilyrði lánveitinga.  ESB studdi þessar kröfur eindregið og tók beina afstöðu gegn Íslendingum með Bretum og Hollendingum í málaferlunum fyrir EFTA-dómstólinum þrátt fyrir hrottalega meðferð Breta á íslenzku bönkunum á Bretlandi og beitingu hryðjuverkalaga á Ísland, svo að ekki ætti nú reynslan að laða íslenzka fjármálageirann að ESB. 

Innflytjendur mundu væntanlega kætast við niðurfellingu tolla, t.d. á matvælum, en gæðum á íslenzka matvörumarkaðinum mundi hraka, ef íslenzkar landbúnaðarvörur yrðu að láta undan síga, og fyrir vikið yrði gjaldeyri kastað á glæ. Tollaniðurfelling þarf að gerast skipulega og getur gert það með gagnkvæmum samningum, þó að Ísland standi utan ríkjasambands.   

Ýmsir hérlendir starfsmenn stjórnsýslunnar og tilvonandi slíkir horfa með öfundaraugum með græðgibliki til búrókratanna í Brüssel, sem lifa þar í vellystingum og njóta skattfríðinda. 

Nú liggur umsókn Íslands um aðild að ESB í skúffu búrókrata stækkunarstjórans í Brüssel og rykfellur þar.  Með því að láta umsóknina liggja í láginni, gefa íslenzk stjórnvöld ranglega til kynna, að þau vilji sæta færis á inngöngu strax og ESB þóknast að gefa kost á viðræðum að nýju.  Þetta er algerlega ótækt, með fullri virðingu fyrir framkvæmdastjórninni í Berlaymont, af því að meirihluti þjóðarinnar, meirihluti þingmanna og ríkisstjórnin sjálf er andvígur aðild Íslands að ESB. 

Af ummælum margra þingmanna við atkvæðagreiðsluna um téða umsókn á Alþingi 16. júlí 2009 má ráða, að þáverandi meirihluti hafi verið beittur flokksagavaldi, þ.e. þvingaður með hótunum, til að samþykkja umsóknina.  Þjóðaratkvæðagreiðslu um málið var þá hafnað af Alþingi.  Hvorugur ríkisstjórnarflokkanna núverandi hefur í stefnuskrá sinni að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um afturköllun umsóknar.  Hins vegar er þar að finna viljayfirlýsingu um þjóðaratkvæðagreiðslu, ef flokkarnir vilja afla heimildar til viðræðna um aðild að ESB.  Hvað sagt kann að hafa verið á einhverjum kosningafundum af einstökum frambjóðendum, bindur ekki hendur þingflokkanna.  Þeir hafa fullt lýðræðislegt umboð til að afturkalla umsóknina, og verður ekki betur séð en slíkt þjóni hagsmunum landsins bezt í núverandi stöðu.  Það mun hvort eð er þurfa að byrja frá grunni, vilji menn taka upp þráðinn aftur.

Þingmenn hafa líka fullt lýðræðislegt umboð til að óska eftir staðfestingu þjóðarinnar á slíkri ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Til að spara fé væri þá ráðlegt, að slík atkvæðagreiðsla færi fram samhliða kjöri forseta lýðveldisins, sem verða munu næstu reglubundnu allsherjar kosningar í landinu 2016.    

 Evran krosssprungin 

 

     

 

   

     

 

    

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband