30.1.2015 | 18:27
Hrakfallabálkur og örlagavaldur
Fimmtudaginn 22. janúar 2015 tilkynnti Seðlabanki Evrópusambandsins, SE, um kúvendingu í peningamálastefnu bankans, sem er í blóra við hefðbundna aðhaldsstefnu þýzka seðlabankans. Mikil óánægja er með þessa stefnubreytingu SE í Þýzkalandi, og kann hún að sá fræjum sundrungar innan myntsamstarfsins, og var þó ekki á vandræði evrunnar bætandi, einkum og sér í lagi nú eftir myndun ríkisstjórnar tveggja flokka í Grikklandi af sitt hvorum væng stjórnmálanna.
Kúvendingin er til vitnis um örvæntingu í Frankfurt, þar sem Mario Draghi, hinn ítalski formaður bankastjórnar, og fjölmennt bankaráð SE, hefur aðsetur. Þar óttast menn að missa evrusvæðið niður í verðhjöðnunarspíral, sem gæti reynzt afar erfitt að snúa við úr, eins og reynsla Japana af slíku ferðalagi sýnir. Eftir að lækkun olíuverðs hófst í júní 2014 hefur reyndar víðast hvar ríkt verðhjöðnun, þ.á.m. í BNA, þrátt fyrir 4500 milljarða USD seðlaprentun þar. Ætli megi ekki líkja þessu seðlaprentunarúrræði við inflúensusprautu gegn annarri veiru en þeirri, sem herjar næst. Sprautan gerir illt verra með því að veikja ónæmiskerfi líkamans ?
Fyrsta afleiðing téðrar tilkynningar var fall evrunnar. Þann 14. janúar 2015 seig evran niður í sögulegt hlutfall við bandaríkjadal, þ.e. 1,17 USD=1,00 EUR, sem var upphaflega hlutfallið, þegar evran var kynnt til sögunnar 1. janúar 1999. Síðan veiktist evran og var á pari við bandaríkjadal á fyrsta ársfjórðungi 2000 og hrundi svo niður í 0,83 USD í október 2000. Þá tóku öflugir seðlabankar sig saman um að reisa evruna úr öskustó, og komst hún í 1,6 USD, þegar dýrust var. Þessi rússíbanareið "hinna stóru" er næstum því 1:2, og kannast minni þjóðir við slíkt á eigin skinni og hefur verið kallaður "forsendubrestur".
Nú telur The Economist, að evran verði á pari við dalinn á þessu ári af stjórnmála- og efnahagslegum ástæðum. Stjórnmálaástæðurnar eru nú um stundir aðallega tengdar Grikklandi og kosningunum þar 25. janúar 2015, og stjórnarmyndun lýðskrumara þar, sem eru farnir að gera hosur sínar grænar fyrir Kremlverjum. Þeir eru hins vegar ekki aflögufærir og alveg áhrifalausir eftir að hafa böðlazt inn á Krím og inn í Austur-Úkraínu undir fölsku flaggi.
Evran yrði fyrir alvarlegu áfalli við útgöngu Grikkja, Grexit. Grikkir hafa orðið fyrir ólýsanlegum hörmungum af völdum evrunnar, af því að hagkerfi þeirra var ekki í stakkinn búið fyrir hana. Samfylkingin á Grikklandi, PASOK, gösslaðist áfram, eins og sú íslenzka, hugsunarlaust og fyrirhyggjulaust, og smyglaði Grikklandi inn á evrusvæðið með hvítri lygi og bókhaldsbrellum og e.t.v. öðru verra. Á Íslandi var hins vegar tekið í taumana áður en glórulausir amlóðar, sumir í klóm Bakkusar, en aðrir ekki, náðu að vinna hér óbætanlegt tjón. Urðu stjórnarár VG og Saf kjósendum víti til varnaðar.
Miðað við skuldir gríska ríkisins uppi í rjáfri, 170 % af VLF, og samfelldan samdrátt hagkerfisins fram að þessu frá Hruni um u.þ.b. 20 % alls, og atvinnuleysi yfir 20 %, eiga Grikkir sér ekki viðreisnar von án nýrra og stórfelldra (um 50 %) afskrifta skulda. Takist ekki samningar við nýja valdhafa í Grikklandi um þetta, munu Grikkir halda sína leið, hvað sem tautar og raular í Berlín, Frankfurt og Brüssel. Þá mun jörð nötra í Frankafurðu, eins og í Bárðarbungu, þó að gosið komi annars staðar upp. Í Berlín hefur sennilega verið reiknað út, að ódýrara verði fyrir Þýzkaland að Grikkir hverfi úr myntsamstarfinu en að halda þeim þar. Vegna fordæmisins fyrir aðra nauðstadda, t.d. Portúgali, er ekki víst, að evrusamstarfið lifi Grexit lengi af. Nú dregur til tíðinda.
Verðlag lækkaði á evru svæðinu um 0,2 % á 12 mánaða tímabilinu desember 2013-nóvember 2014. Til að ráða bót á þessu er nú verið að smyrja peningaprentvélarnar í Frankfurt, sem á að ræsa í marz 2015, og þær eiga að ganga í 1,5 ár og senda frá sér mia EUR 1200 á tímabilinu. Þetta er mjög svipuð upphæð og bandaríski seðlabankinn sendi frá sér á 1,5 árum, en alls prentaði hann hins vegar mia USD 4500 á 6 árum frá Hruni. Ekki er víst, að árangurinn verði jafngóður og í BNA, því að fjármálakerfi evrunnar er ekki jafnþróað og bandaríkjadals. Þá á eftir að sjá Þjóðverja leyfa kaup bankans á skuldabréfum þýzkra fyrirtækja. Þýzki seðlabankinn hefur hótað að hindra það og að setja að öðru leyti sand í tannhjól peningaprentvélar ECB, og þá þarf nú ekki að spyrja að leikslokum hjá ítalska prentvélstjóranum.
Allt mun þetta leiða til mikils falls evrunnar, sem verður vítamínssprauta fyrir útflutningsiðnað alls evru-svæðisins. Útflutningsiðnaðurinn mun þess vegna verða driffjöður efnahagsbata þar, ef hann lætur á sér kræla. Það er hins vegar mjög hætt við því, að ferðamönnum frá evru-svæðinu muni fækka, m.a til Íslands. Hvort aðrir bæta það upp hérlendis og fylli hundruði spánýrra hótelherbergja á eftir að koma í ljós.
Mjög lágt gengi evru, t.d. 1 EUR = 0,8 USD, mun valda mikilli óánægju, t.d. á meðal Engilsaxa, sem munu ekki taka þessu þegjandi, heldur væntanlega gera gagnráðstafanir, t.d. með kaupum á evrum á útsöluverði. Hvernig slíkt viðskiptastríð fer saman við viðskiptastríð Vesturveldanna við Rússa, er óvíst. Árin 2015-2016 skera úr um þetta og verða spennandi.
Gagnvart Íslandi hefur mikil lækkun á gengi evrunnar líklega neikvæð áhrif á geiðslujöfnuðinn við útlönd, af því að verðmæti útflutnings minnkar mælt í öðrum myntum, og líklega mun innflutningur vaxa vegna lækkandi verða frá evrusvæðinu og gjaldmiðils, sem veikist. Þess skal þó geta hér, að viðskipti álveranna með aðföng og afurðir fara að mestu leyti fram í bandaríkjadölum.
Varnarbarátta evruríkjanna getur orðið harðvítug og langvinn og dregið úr kaupmætti almennings sem og ferðagleði út fyrir evrusvæðið. Allt hefur þetta neikvæð áhrif á eimreiðar íslenzku atvinnuveganna, utan áliðnaðar, sjávarútveg/fiskiðnað og ferðamannaiðnaðinn.
Á móti kemur meira en helmingslækkun á FOB eldsneytiskostnaði í bandaríkjadölum, sem hins vegar styrkist nú mjög. Með Innri markað Evrópu í lamasessi og Rússland lamað vegna refsiaðgerða Vesturveldanna út af Krím og Austur-Úkraínu, er líklegast, að heildarbreyting á viðskiptakjörum muni draga úr vexti landsframleiðslunnar hérlendis. Að leggja á sama tíma fram uppþembdar launakröfur sýnir, að verkalýðsforystan mætir algerlega ólesin í tíma og sýnir sig vera utangátta um hagsmuni umbjóðenda sinna með því að svara öllum spurningum með því, að læknar hafi fengið svo og svo mikið.
Hvenær fóru ýstrusafnarar að bera sig saman við lækna ? Var ekki verið að forða íslenzka heilbrigðiskerfinu frá því, að hér yrði að manna læknisstöður með útlendingum, sem engan veginn gætu veitt sambærilega þjónustu og innfæddir kollegar þeirra af ýmsum orsökum ? Hvert % í launahækkun til hinna fjölmennu stétta ASÍ jafngildir 10 milljörðum kr í aukin launaútgjöld fyrirtækjanna, og það er einfaldlega miklu meira en kostnaðaraukning á ári af læknasamningunum.
Við þessar aðstæður er eins ótímabært og hugsazt getur að heimta launahækkanir, sem eru langt umfram getu atvinnuveganna, sem aðilar beggja vegna samningaborðs hafa sjálfir öll tök á að reikna út, hver er, og eru líklega nokkurn veginn sammála um, hver er. Verkfall nú á tímum er nokkurn veginn eins heimskuleg aðgerð og hægt er að hugsa sér, því að á verkfalli tapa allir, þegar upp er staðið, og þeir mest, er sízt skyldu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Kjaramál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.