4.2.2015 | 20:17
Skotgrafir grafnar í kringum bankana
Mjög þungar ásakanir hafa verið hafðar í frammi opinberlega gegn fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Steingrími Jóhanni Sigfússyni, að hálfu Víglundar Þorsteinssonar, lögfræðings, sem rannsakað hefur endurreisnarferli bankakerfisins íslenzka frá hruni þess 8. október 2008 og um eins árs skeið.
Sagan mun sennilega dæma Neyðarlögin og mótvægisaðgerðir við Hruninu, sem reistar voru á Neyðarlögunum, sem afreksverk. Neyðarlögin, sem Hæstiréttur Íslands hefur úrskurðað, að standist Stjórnarskrá, lágmörkuðu tjón almennings, þó að það yrði mikið hjá mörgum, og gerðu kleift að halda atvinnustarfseminni, þ.m.t. greiðslumiðlun, gangandi að miklu leyti, þó að auðvitað yrðu gjaldþrot, samdráttur og atvinnuleysi.
Morgunblaðið hefur gert rækilega grein fyrir þessu máli, enda varðar það þjóðina alla. Agnes Bragadóttir, blaðamaður, gerir grein fyrir bréfi Víglundar til Forseta Alþingis og allra þingmanna í fréttaskýringu 23. janúar 2015 undir fyrirsögninni, "Brotin voru stórfelld". Þá er fjallað um uppljóstranir "nýja litla símamannsins" í forystugrein Morgunblaðsins, "Alvarlegar ásakanir", þann 26. janúar 2015. Spakmæli segir, að þar sem sé reykur, þar sé eldur undir. Það er þess vegna rétt að kynna sér málavöxtu í þessu meinta hundruða milljarða kr máli.
Það er sitthvað, sem þarfnast rannsóknar af því, sem komið hefur fram, eins og t.d. eftirfarandi úr forystugreininni:
"Niðurstaðan hafi verið sú, að Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, hafi árið 2009 "gert samninga við skilanefndir gömlu bankanna um að hleypa þeim inn í nýju bankana í þeim tilgangi að taka upp stofnúrskurði FME frá haustinu 2008 til ábata fyrir kröfuhafa gömlu bankana."
Hvað er átt við með þessu ? Hvaða samningar voru gerðir við kröfuhafa gömlu bankanna um eignarhald á þeim nýju, og hvers vegna voru slíkir samningar gerðir ? Vonandi lætur Alþingi eða ríkisstjórnin kryfja það mál til mergjar.
Þá segir í forystugreininni, að ""ólögmætur hagnaður skilanefnda/slitastjórna af meintum fjársvikum og auðgunarbrotum kunni að nema á bilinu 300-400 milljörðum króna í bönkunum þremur"".
Það er höfundi þessa pistils ekki ljóst, hvernig þetta talnabil er fundið, og þá er líklegt, að fleirum sé farið á sama veg. Við þurfum útskýringar á þessari fullyrðingu Víglundar Þorsteinssonar, sem er í sverara laginu.
Neyðarlögin fólu Fjármálaeftirlitinu, FME, framkvæmd á björgun bankainnistæðna landsmanna úr rústum banka í greiðsluþroti. Þetta eru skuldir bankanna og voru, er hér var komið sögu, aðeins tölur á blaði. Þess vegna urðu að koma eignir á móti, og það voru útlán bankanna. Þau voru tekin eignarnámi og flutt yfir í nýju bankana með heimild í Neyðarlögunum. Eignarnám er hins vegar óheimilt án þess að greiðsla komi fyrir, en hvaða greiðslu átti að inna af hendi í þessu tilviki ? Svar við þeirri spurningu gat aðeins verið til bráðabirgða haustið 2008, af því að rannsaka þurfti stærstu skuldunautana og taka stikkprufur á öðrum hópum.
FME útbjó bráðabirgða mat á eignum og skuldum, sem færðar voru úr gömlu og yfir í nýju bankana, og birti þessi gögn á heimasíðu FME 14. nóvember 2008. Hvað eignunum viðkom, átti þetta mat aðeins að standa til bráðabirgða. Til að standa sterkar að vígi gagnvart lögsókn kröfuhafanna gegn nauðsynlegu eignarnámi varð að fá óháðan aðila til þessa mats. Þessi s.k. stofnúrskurður FME var bráðabirgða gjörningur, og það var heppilegt fyrir íslenzka ríkið, því að hið óháða mat reyndist vera 740 milljörðum kr lægra en bráðabirgða stofnúrskurður FME.
Til lokamats réð FME Deloitte LLP í Lundúnum í desember 2008, og var því skilað í apríl 2009. Mat Deloitte var, að líkast til fengjust 1880-2204 milljarðar kr fyrir skuldabréfin, sem flutt höfðu verið úr gömlu og í nýju bankana. Miðjan á þessu bili er 2042 milljarðar kr. Það lætur nærri, að þetta séu 50 % af upphaflegu virði skuldabéfanna. Þetta jafngildir þó engan veginn jöfnum 50 % afskriftum á öllum lánum, þegar þau fluttust úr gömlu bönkunum í nýju bankana. Þetta er tölfræðileg spá um niðurstöðu úr innheimtuferli allra skuldabréfanna, sem voru metin frá 0 virði og upp í 100 %. Við þessa spá var ekki reiknað með neinum heildar afslætti á alla línuna, því að þá yrðu endurheimtur undir 50 %, heldur að reynt yrði að innheimta allar skuldirnar, eins og ekkert hefði í skorizt. Um þetta er búið að hafa mjög stór orð af stjórnmálamönnum og öðrum, en hér er samt allt með felldu. Afskriftir á skuldum gömlu bankanna við lánadrottna sína koma þessu máli ekkert við, enda voru þær utan seilingar Neyðarlaganna.
Ríkið tók skuldabréfin (eignir gömlu bankanna) eignarnámi, og hið mikla fall í verðmati bréfanna á 5 mánaða skeiði frá FME-frummati í nóvember 2008 til Deloitte matsins í apríl 2009 ber vott um vaxandi svartsýni um efnahagshorfur og aukna óvissu við mat á greiðslugetu skuldunautanna. Landið gat hreinlega orðið gjaldþrota, er hér var komið sögu, og þá hefðu þessar eignir lækkað enn í verði.
Innistæðurnar, þ.e. skuldir gömlu bankanna, sem fluttar voru yfir í nýju bankana, numu um 1400 milljörðum kr. Ef lággildi Deloitte, 1880 milljarðar kr, hefði verið valið af FME og stýrihópi Fjármálaráðuneytisins, þá hefðu nýju bankarnir þurft að reiða fram mismuninn, 480 milljarða kr, til gömlu bankanna. Þetta fé hefði getað verið á formi skuldabréfa, sem nýju bankarnir gæfu út og afhentu hinum gömlu, væntanlega með ríkisábyrgð, eins og á stóð, þ.e. að meðaltali 160 mia kr per banka í ISK til 10 ára. Þetta hefði ekki orðið nýju bönkunum, sem á þessum tíma voru í ríkiseigu, mjög erfið byrði, en búast hefði mátt við litlum arðgreiðslum til ríkisins á meðan afborganir og vextir væru greiddir af skuldabréfunum.
Af ástæðum, sem ábyrgðaraðilar þessara samninga, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, þáverandi stjórn FME og stýrihópurinn, sem stjórnaði aðgerðum frá degi til dags, verða að útskýra opinberlega, var farin önnur og afdrifarík leið, sem aldrei var borin undir Alþingi.
Það var samið um grunnmat, 1760 milljarðar kr, sem er 120 milljörðum kr lægra en lágmark Deloitte. Með þessum hætti voru yfirfærðar eignir frá Kaupþingi til Arion banka metnar 38 milljörðum lægri en skuldirnar, eignir frá Glitni til Íslandsbanka 52 milljörðum hærri en skuldirnar, og eignir til nýja Landsbankans voru 275 milljörðum hærri en skuldirnar, svo að bótaskyldan samkvæmt þessu til þrotabúanna nam þá 289 milljörðum kr, sem er 191 milljarði kr lægri upphæð en með Deloitte matinu, en böggull fylgdi skammrifi.
Í samkomulaginu voru skilyrtar viðbótargreiðslur upp á allt að 215 milljörðum kr, sem voru gerðar háðar innheimtu lána fyrirtækja, þar sem mikill vafi lék á um greiðslugetu og verðmæti. Til viðbótar þessari eftirgjöf við gömlu bankana var samið um, að Kaupþing og Glitnir gætu yfirtekið meirihluta hlutafjár í viðkomandi nýja banka og að hlutafjárframlag kæmi frá LBI, gamla Landsbankanum, inn í nýja Landsbankann, en sem kunnugt er heldur ríkið meirihlutaeign í honum. Þessar eignarheimildir slitastjórna gömlu bankanna, eru mistök við þessa samningagerð, enda fóru þær mjög hljótt, en hefði hiklaust þurft að bera undir Alþingi, svo að þær voru og eru heimildarlausar og þess vegna að líkindum ólöglegar.
Eignarhlutdeild slitastjórna á nýju bönkunum færir þessum slitastjórnum tekjur á formi arðgreiðslna, sem eru fordæmalausar. Engu að síður undanskildi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur slitabú gömlu bankanna sem skattaandlag, þegar hún fékk Alþingi til að samþykkja bankaskatt í lok árs 2010 með lögum nr 155/2010. Þessi gjörð ásamt framgöngu þeirrar ríkisstjórnar í Icesave-máli sýnir vel þjónkun hennar og undirlægjuhátt við erlent auðvald, aðallega evrópska peningamenn, sem alla tíð hafa haft mikil ítök í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB, eins og Íslendingar máttu finna á eigin skinni, er þeir gengu svipugöng AGS til að fá þar lán og síðar fyrir EFTA-dómstólinum, þar sem þeir voru losaðir undan þessu fargi evrópska fjármálakerfisins, sem var sagt að éta það, sem úti frýs.
Um téðan undirlægjuhátt vinstri aflanna við evrópsk fjármálaöfl skrifaði Einar Hugi Bjarnason, hæstaréttarlögmaður, í Morgunblaðsgrein 31. janúar 2015,
"Bankaskattur á slitabú-Þó fyrr hefði verið":
"Ákvörðunina um að undanskilja slitabúin skattlagningu er erfitt að skilja, enda hafði hún í för með sér, að ríkissjóður varð af verulegum skatttekjum. Þannig var, án sýnilegra raka, slegið skjaldborg um erlenda kröfuhafa, sem keyptu kröfurnar á hrakvirði, en ekki heimilin í landinu í samræmi við yfirlýst markmið fyrri ríkisstjórnar.
Undanþága slitabúanna verður svo enn illskiljanlegri, þegar haft er í huga, að markmið laga nr 155/2010 var m.a. að afla ríkinu tekna til að mæta þeim mikla kostnaði, sem féll á ríkissjóð vegna hruns íslenzka fjármálakerfisins. Þrátt fyrir þetta var tekin ákvörðun um að undanskilja aðalgerendurna frá skattlagningu, þ.e. hin föllnu fjármálafyrirtæki, sem stunduðu áhættusama starfsemi, sem leiddi til skuldasöfnunar, sem þau réðu ekki við.
Þessi mistök leiðrétti núverandi ríkisstjórn í lok desember 2013, þegar breytingar voru gerðar á lögum nr 155/2010 um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Í breytingunni fólst m.a., að bankaskatturinn var hækkaður og undanþága slitabúanna var afnumin, og tekur skattskylda samkvæmt lögunum nú einnig til lögaðila, sem sæta slitameðferð. Þessi breyting var mikilvæg, enda veigamesti liðurinn í tekjuöflunaraðgerðum fjárlagafrumvarps 2014 og mun auka tekjur ríkissjóðs um tugi milljarða."
Þann 27. janúar 2015 birtist í Morgunblaðinu fróðleg grein eftir Jóhannes Karl Sveinsson, lögmann, og Þorstein Þorsteinsson, rekstrarhagfræðing, sem báðir eru kunnugir endurreisn bankakerfisins, en það var einmitt heitið á grein þeirra. Þeir útskýra þar m.a. ástæður umræddra 50 % bóta ríkisins við eignarnám þess á eignum, þ.e. lánasöfnum, föllnu bankanna, og hvers vegna það hefði ekki samrýmzt kröfum um lágmarks afkomuöryggi nýju bankanna að veita skuldunautum þeirra almennan afslátt á skuldarupphæð, þó að hún hafi hækkað við verðbólguskotið, sem varð í árslok 2008 og fram eftir 2009:
"Heildarmatið á lánasöfnum bankanna, sem var og er aðaleign þeirra, tók mið af því, að lánin voru mislíkleg til innheimtu. Sum lán voru talin innheimtast að fullu, önnur minna, og enn önnur voru með öllu töpuð. Meðaltalið var nálægt því að vera helmingur af stöðu lánanna. Fyrir það var greitt. Lánin voru því ekki lækkuð, heldur tók matsverðið eingöngu mið af mismunandi innheimtulíkum. Heildarkaupverðið gerði það einnig.
Sumir hafa nefnt í umræðunni, að skuldarar lánanna hafi verið hlunnfarnir um afsláttinn. Sú röksemd getur ekki staðizt, því að matið tók einmitt mið af því, að sum lán kynnu að greiðast að fullu og önnur alls ekki. Afslátturinn fór þannig í afskriftasjóð til að mæta afskriftum við endurskipulagningu lána þeirra, sem ekki gátu greitt þau, en lánin sjálf voru færð yfir á nafnverði."
Ef afgangur er núna í afskriftasjóði bankanna, eins og líklegt má telja með hliðsjón af þróun hagkerfis landsins, er eðlilegt að nota hann til að greiða skuldir bankanna, sem af yfirtöku eigna (útlána) gömlu bankanna leiddi, og síðan fari afgangur til að mynda eigið fé bankanna, sem eigendur nytu arðs af. Það er þess vegna með öllu ótækt, að ríkið skyldi afsala sér eignarhaldi á nýju bönkunum í hendur kröfuhafa gömlu bankanna, enda verður ekki séð, t.d. af téðri grein Jóhannesar Karls, lögmanns, og Þorsteins, rekstrarhagfræðings, að neinar nauðir hafi rekið ríkið til slíks gjörnings, sem kalla má örlætisgjörning, hvað þá í skjóli myrkurs.
Erlendir kröfuhafar í slitabúin hófu málsóknir á hendur íslenzka ríkinu fyrir eignamatið, sem hér hefur verið gert að umfjöllunarefni og sem varð grundvöllur bóta fyrir eignarnámið. Þeir töpuðu málaferlum fyrir Hæstarétti Íslands, en þar liggur endanleg lögsaga í þessu máli.
Niðurstaðan er sú, að íslenzka ríkið, þ.e. hinn íslenzki skattborgari, sem upphaflega átti alla nýju bankana þrjá, á aðeins meirihlutann í einum núna, og virðist hafa orðið fyrir tjóni af völdum þeirra, sem ábyrgð báru á samningum við kröfuhafa gömlu bankanna, sem öðluðust eignarhald á umræddum afskriftarsjóði ásamt öðrum eignum bankanna. Refsiábyrgð á þessum gjörningi þarfnast nákvæmrar lögfræðilegrar greiningar.
Hins vegar bar nýju bönkunum hvorki lagaleg né siðferðileg skylda til að veita skuldunautum sínum öllum afslátt yfir línuna, því að þeir bættu gömlu bönkunum eignarnám þeirra við verði, sem áætlað var, að nýju bankarnir fengju fyrir þær með tímanum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.2.2015 kl. 18:47 | Facebook
Athugasemdir
Það er þvæla að kröfuhöfum í þrotabú gömlu bankanna hafi verið gefið eitthvað sem ríkið átti þegar lánasöfnin voru seld yfir í nýju bankanna. Ríkið átti aldrei þessi lánasöfn og seldi því kröfuhöfunum aldrei neitt Og málaferli kröfuhafana á hendur ríkinu snerust ekki um verðmat á eignsöfnunum heldur um það að innistæður væru settar í forgang á kostnað almennra krafna í þrotabúið. Um verðmat á eigasöfnunum var einfaldlega samið við kröfuhafana enda aldrei möguleiki á því vegna eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar að færa þau á milli á undirverði.
Ríkið seldi heldur aldrei kröfuhöfunum neinn hlut í nýju bönkunum. Þeir voru í fyrstu starfandi á undanþágum enda ófjármagnaðir að mestu. Það var búið að fjármagna um tvo milljarða af 400 til 650 milljarða eigin fjármögnun sem nauðsynleg var. Ef ríkið ætlaði sér að eiga alla bankana hefði ríkisjóður þurft að leggaj þessa upphæð til við formlega stofnun nýju bankanna til að ná lágmarks eigin fjármögnun. Og þar sem staðan var mjög óljós bæði hér heima og í helstu viðskiptalöndum okkar í miðri kreppu þá var mjög óljóst her afkoma nýju bankanna yrði. Þeir gátu hæglega orðið gjaldþrota og ríkið þar með tapað öllu eiginfjárframlagi sinu.
Þetta var því meiri áhætta en ásættanlegt var að leggja á ríkissjóð enda hefði ríkissjóður þurft að fjármagna þetta eiginfjárframlag með lántöku í því formi að gefa út skuldabréf til kaupa á hlutafé í bönkunum. Í því efni þarf að haf í huga að á tímabili fóru um 20% af útgjöldum ríkisins í að greiða vexti og var því ekki við það bætandi. Jafnvel þó bankarnir færu ekki í gjaldþrot þá hefði taprekstur á þeim leitt til þess að fljótlega hefði þurft að leggja til meira eigin fé til að halda þeim gangandi. Það var því einfaldlega of tór biti af áhættufjárfestingu fyrir ríkissjóð að eiga alla bankana.
Við þetta þarf svo að hafa í huga að ástæða þess að kröfuhafarnir í þrotabú Kaupþings og Íslandsbanka sættu sig við að lánasöfnin væru metin á lágmarkdverðmati við sölu til nýju bankana var sú að þeir áttu að vera eigiendur nýju bankanna og fengju því hagnaðin ef lánasöfnin reyndust verðmætari en það. Ef ríkið hefði ætlað að eiga þá banka hefðu þeir aldrei sætt sig við lægra verð en miðverðið í verðmatinu eða að gert væri eins og í tilfelli Landsbankans að verðmætið yrði endurskoðað síðar og nýja bankanum gert að greiða meira fyrir lánasöfnin síðar ef í ljós kæmi að þau væru verðmætari. Og líklega hefðu þeir einnig gert kröfu um það eins og kröfuhafar í þrotabú Landabankans að þeir starfsmenn sem áttu að sjá um innheimtuna væru á bónuskerfi við innheimtu krafna á fyrirtæki þar sem þeir hefðu persónulega hagsmuni af því að sem mest næðist inn.
Það er því alveg ljóst að kröfuhafarnir hafa ekki fengið meira fyrir sinn snúð hefði ríkið tekið yfir alla bankana. Þeim var því aldrei gefið neitt á kostnað skattgreiðenda. Hvað varðar arðgreiðslur vegna hagnaðar bankanna þá er það einfaldlega þannig að sá sem tekur áhættuna og tekur á sig tapið ef illa gengur fær hagnaðinn ef vel gengur. En mikill hagnaður bankanna sem orðið hefur frá stofnun þerra var ekki fyrirséður þá og þaðan af síður í hendi. Einnig ber að hafa í huga að sú mikla skuldsetning ríkissjóðs sem það að hann keyptu öll hlutabréf í öllum bönkunum hefði kallað á hefði leitt til lakari vaxtakjara ríkissjóðs og það á þeim tíma sem skuldsetning hans var það mikil að 20% ríkisútgjalda voru vextir. Það er því ólíklegt að það hefði bætt hag ríkisins eða skattgreiðenda að ríkið hefði keypt alla bankana. Og svo þarf líka að hafa í huga að slík aukning á skuldsetningu ríkisins með tilfellandi minna trausti á ríkinu sem skuldara hefði jafnvel getað leitt til þess að ríkisskuldabréf hefðu ekki verið talin nægjanlega traustir pappírar til þess að traus væri á að þau ríkisskuldabréf í eignasafni bankanna sem voru grundvöllur eiginfjármögnun þeirra væri nægjanlega traustir pappírar til að aðilar á markaði litu svo á að bankarnir ættu í raun nauðsynlegt eigin fé til að hægt væri að treysta á þá sem lántaka.
Sigurður M Grétarsson, 7.2.2015 kl. 11:50
Hér er komin ítarleg varnarræða fyrir þá, sem stóðu að stofnun nýju bankanna að hálfu ríkisins árið 2009 og að því að gera kröfuhafa gömlu bankanna að eigendum tveggja nýrra banka af þremur. Er hún efni í sjálfstæða svargrein hér á þessu vefsetri við tækifæri við margháttuðum "útskýringum" Sigurðar M. Grétarssonar.
Bjarni Jónsson, 7.2.2015 kl. 14:31
Þetta er nú ekki nein sérstök varnarræða heldur er ég einfaldlega að leiðrétta rangfærslur í þinni grein. Staðreyndin er sú að þeir sem að þessu stóðu lögðu sig fram við að gæta ýrtrustu hagsmuna ríkissóðs og íslensks almennings og þar ekki hvað síst lántaka. Því eru þessar ómaklegu árásir sem þeir hafa þurft að sæta þeim til minnkunar sem að þeim standa og vita betur og er ég þar fyrst og fremst að tala um þá þingmenn sem hafa tekið undir árásir Víglundar þvi þeir fengu á sínum tíma um 110 blaðsíðna skýrslu sem skýrði þetta vel út og því vita þeir betur.
Í þessu efni er rétt að benda á að það var í tíð ríkisstjórnar Geirs Haarde sem sú stefna var tekin að fá kröfuhafana til að vera aðal hluthafarnir í nýja Kaupþingi og nýja Íslandsbanka. Þá var Árni Matthiessen fjármálaráðherra. Sú ríkisstjórn sem tók síðan við af henni hélt þeirri stefnu áfram einfaldlega vegna þess að það var nokkuð góð samstaða um það bæði meðal þeirra fjármálasérfræðinga sem voru til ráðgjafar og stjórmálamanna um að fara þá leið enda allt of mikil áhætta fyrir ríkissjóð að leggja öllum bönkunum til eigin fé með lántöku.
Sigurður M Grétarsson, 7.2.2015 kl. 15:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.