30.3.2015 | 15:08
Drekasvæðið og mistækur stjórnmálaflokkur
Landsfundur Samfylkingarinnar í marz 2015 fletti ofan af flokkinum sem furðufyrirbæri, sem er fjarri því að vera stjórntækur. Skipuleggjendum landsfundarins tókst að flækja fundarboðið, svo að nokkrir félagarnir gripu í tómt, þegar þeir ætluðu að fá inngöngu á fundinn og/eða greiða atkvæði. Höfðu þeir svarað fundarboðinu, en slíkt taldist vera afboðun. Stjórnmálaflokkur, sem ekki er þess umkominn að halda landsfund, skammlaust, án stórfellds klúðurs, á ekki erindi í Stjórnarráðið. Fulltrúar hans geta gasprað og stundað einhvers konar málfundaræfingar á Alþingi, en þeim er ekki hægt að fela aukna ábyrgð.
Degi fyrir upphaf fundar barst mótframboð við sitjandi formann, sem kom honum gjörsamlega í opna skjöldu, þar sem venjan hefur verið sú, að flokksmenn allir hefðu atkvæðisrétt við formannskjör. Reyndist hér vera um tilræði við sitjandi formann að ræða, sem jafna má við rýtingsstungu í bak formanninum, þó að hann lifði þessa atlögu af með því að öllum líkindum að greiða sjálfum sér atkvæði. Pólitískt mun þessum vesalings formanni hins vegar blæða út, því að hann er augljóslega allt of umdeildur á meðal virkra flokksfélaga til að geta sameinað sundrað lið að baki sér, enda á við hann hið kunna máltæki, að hæst bylur í tómri tunnu.
Það eru hins vegar fleiri forkólfar þessarar flokksnefnu umdeildir þar innan stokks. Fyrrverandi formaður, sem var trúað fyrir umhverfisráðuneyti og iðnaðarráðuneyti á sinni tíð og skreytti sig á hátíðarstundum með skrýtnum titlum, eins og olíumálaráðherra Íslands, var gjörsamlega niðurlægður á téðum fundi og traðkaður niður í svaðið. Það hlýtur að styttast í, að þarna sjóði upp úr, enda eru engar hugsjónir eftir til að sameina flokksmenn. Jafnaðarstefnan er dauð, enda hefur hún ekki svör við vandamálum samtímans, eins og nú kemur í ljós í Frakklandi með lamaðan jafnaðarmann í Elysée, og um síðustu helgi var jafnaðarmönnum hegnt í kosningum til sýslustjórna fyrir óstjórn og árangursleysi við fjármálastjórn, þó að málefni innflytjenda, t.d. múslima, hafi vafalaust líka borið á góma. Fjölmenningarsamfélagið á enn langt í land.
Á Alþingi þann 27. janúar 2015 voru samþykkt lög, mótatkvæðalaust, og með stuðningi allra viðstaddra þingmanna Samfylkingar, sem m.a. fela í sér eftirfarandi:
"Ráðherra er heimilt að stofna opinbert hlutafélag, sem verður að fullu í eigu ríkisins og hefur það að markmiði að gæta hagsmuna íslenzka ríkisins vegna þátttöku þess í kolvetnisstarfsemi".
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi olíumálaráðherra, var frumkvöðull að hálfu íslenzkrar stjórnsýslu um útgáfu rannsóknar- og vinnsluleyfa á olíu og gasi á íslenzka hluta Drekasvæðisins. Téð lagasetning er til að létta vissum skyldum af Orkustofnun við rekstur íslenzkra vinnslusvæða á Drekanum, austur af Grænlandi, við Jan Mayen, á Skjálfanda, Axarfirði og víðar.
Á téðum landsfundi í marz 2015 var hleranum kippt undan fyrrverandi iðnaðarráðherrum, Össuri og Katrínu Júlíusdóttur, varaformanni flokksins, þannig að þau dúsa nú í kjallara flokksins, en um leið er ljóst, að þessi stjórnmálaflokkur er svo óstöðugur í rásinni, að honum er ekki unnt að treysta, eða hvað segja menn um eftirfarandi samþykkt flokksins, sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum gegn tveimur, undir heitinu: "Náttúran er lífsnauðsyn" (það má til sanns vegar færa, að öllum sé lífsnauðsynlegt að hafa náttúru):
"Vinnsla jarðefnaeldsneytis á íslenzku hafsvæði er í ósamræmi við hagsmuni Íslendinga í loftslagsmálum. ... Samfylkingin telur, að mistök hafi verið gerð, þegar leit var hleypt af stað á Drekasvæðinu. Nú þarf að vinda ofan af þeirri leit og vinnsluáformum og lýsa því yfir, að Íslendingar hyggist ekki nýta hugsanlega jarðefnaorkukosti í lögsögu sinni. Slík yfirlýsing verði hluti af framlagi Íslendinga til heildarsamkomulags um aðgerðir gegn loftslagsvá."
Spyrja má, hvaða ólyfjan landsfundarfulltrúar hafi gleypt áður en þeir samþykktu þessa dofrísku þvælu. Hugmyndafræðin hér að baki er röng vegna þess, að löngu er hætt að brenna gas á olíuborpöllunum, sem upp kemur með olíunni. Þess vegna fylgir þessari vinnslu engin teljandi losun gróðurhúsalofttegunda, þó að raforkan á borpöllunum verði væntanlega unnin með gashverflum.
Vinnslukostnaður á Drekasvæðinu er ekki undir 110 USD/tunnu, sem er með því hæsta sem gerist. Meðalolíuverð á markaðinum mun þess vegna ekki lækka við þessa vinnslu, og af þeim orsökum mun olíunotkun heimsins ekkert aukast, þó að þarna verði dælt upp olíu. Hún mun ella koma annars staðar frá. Ályktun Samfylkingarinnar er þess vegna út í hött, en ef stefnu hennar yrði nú framfylgt, þá mundu íslenzk stjórnvöld glata öllum trúverðugleika sínum gagnvart samstarfsaðilum í Noregi, þar sem þarlendir jafnaðarmenn hafa mótað olíustefnu þess ríkis, og ekki sízt gagnvart fjárfestum og sér í lagi þeim, sem Össur úthlutaði leyfunum við hátíðlega athöfn og innsiglaði gjörninginn með því að skála í botn. Við það tilefni var annar ráðherra, sem fagnaði tímamótunum með vínglas í hönd, og heitir hann Steingrímur Jóhann Sigfússon.
Fyrrverandi ríkisstjórn virðist hafa unnið að þessu máli með öfugum klónum, eins og nánast að öllum öðrum málum. Þannig er haft eftir Hjörleifi Guttormssyni, fyrrverandi þingmanni og ráðherra VG og stofnfélaga VG, að ákvarðanir um olíuleit hafi ekki verið bornar undir almenna félagsmenn og að leyfi til leitar og vinnslu hafi gengið þvert gegn stefnu flokksins, sem gengur undir heitinu "Græn framtíð".
Þáverandi forysta VG, Steingrímur J. Sigfússon, formaður, og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður, stórsköðuðu trúverðugleika Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs með ólýðræðislegum vinnubrögðum sínum að hunza flokksstofnanir sínar og þverbrjóta stefnu flokksins. Er nú jafnvel svo komið, að skilyrði eru að skapast fyrir græningjaflokk, sem þá væri væntanlega ekki endilega með vinstra viðskeyti eða forskeyti, heldur gæti höfðað bæði til vinstri og hægri. Er ekki örgrannt um, að Píratar séu að fiska í þessu vatni. Sumt af þessu kom fram í viðtali Baldurs Arnarsonar við Kolbrúnu Halldórsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra, í Morgunblaðinu 27. marz 2015.
Það er ekki nema von, að núverandi formaður og þáverandi varaformaður, sé stöðugt með lýðræðisástina á vörunum, þegar hún fótumtreður lýðræðið í eigin flokki. Hún gengur með kápuna á báðum öxlum. Nú hefur hún þó skarað eld að eigin höfði með geðþóttafullri umgengni sinni við lýðræðið. Það er ekki hægt að fara með lýðræðið eins og brókina sína. Hún hefur t.d. engu svarað til um það á hvaða vegferð hún eiginlega er með því að heimta þjóðaratkvæðagreiðslu í haust um spurninguna, hvort halda eigi "viðræðum áfram" við ESB um aðild Íslands, þó að það sé ekki hægt, af því að skuldbindingar Íslands í þessum viðræðum hingað til hafa verið afturkallaðar bréflega með óafturkræfum hætti, og hún hefur heldur ekki svarað því, hvort fella eigi niður skilyrði Alþingis frá 2009 fyrir samningi, en án þess er loku fyrir það skotið, að aðlögunarferlið nái lengra en reyndin varð í marz 2011. Skyldi maður þó ætla, að kjósendur VG, jafnvel öðrum kjósendum fremur, ættu heimtingu á svörum við þessum spurningum frá Katrínu Jakobsdóttur, því að meirihluti stuðningsfólks VG er andvígur aðild Íslands að ESB. Hvers vegna þetta endalausa og nú algerlega vonlausa daður við búrókratana í Berlaymont ?
Í téðri frétt Baldurs Arnarsonar er eftirfarandi haft eftir Hjörleifi Guttormssyni, sem sýnir, hversu alvarleg staðan er orðin innan VG út af hrossakaupum og einþykkni forystunnar:
"Undirbúningurinn var mér vitanlega aldrei til umræðu innan VG 2012, en um leyfisveitingarnar var fjallað í umhverfis- og atvinnuvegaráðuneytunum á vegum ráðherra flokksins. Þar var skrifað upp á leyfin, vissulega með áskorunum um varúð vegna mengunarhættu. En í grundvallaratriðum var ekki lagzt gegn þessu. Þvert á móti gerðist formaður flokksins eins konar merkisberi í þessum efnum, í samkeppni við Samfylkinguna. Þarna var ekki aðeins um leit að hugsanlegum kolvetnum að ræða, heldur fylgdi þessum leyfisveitingum heimild til olíuvinnslu í allt að 30 ár fram í tímann."
Þarna er lýst svikum forystu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs við kjósendur sína, sem á dauða sínum hefðu getað átt von, en ekki þessu. Steingrímur kann að hafa talið sig vera að ganga erinda hagsmunaafla í sínu kjördæmi, en hverra erinda gekk þá Katrín Jakobsdóttir ? Vegna svika hennar við kjósendur VG í ESB-málinu og í þessu olíumáli hlýtur að vera farið að hitna verulega undir henni. Pólitískur dauðdagi vegna svika gæti jafvel verið yfirvofandi. Það er líklega bara eftir að kasta rekunum.
Það, sem hér hefur verið rakið, sýnir, að þessir svo kölluðu vinstri flokkar virka ekki eins og stjórnmálaflokkar í venjulegum skilningi, heldur eru þeir valdastreitusamtök leiðtoganna, sem gefa ekkert í raun fyrir vilja og markaða stefnu félaganna, ef hægt er að gera góð hrossakaup og ná auknum völdum. Af þessum sökum eru kjósendur í fullkominni óvissu um það til hvers atkvæði greitt þessum flokkum leiðir. Er ekki von, að flokkaskipanin sé í upplausn, þegar grundvallarstefnan er föl í hrossakaupum leiðtoganna um völd ? Fólk lítur nú til Pírata sem valkost við þessi ósköp, en þar er engin kjölfesta til að sýna sjálfstæði og heiðarleika gagnvart kjósendum, eða hafa menn orðið varir við slík tilþrif hjá píratanum í meirihluta borgarstjórnar ?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Spaugilegt, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Athugasemdir
Ályktun Sf var ekki samþykkt út í bláinn heldur þvert á móti eftir ítarlega skoðun, fyrstu bitastæðu yfirferðina yfir þetta mál, sem Hjörleifur Guttormsson lýsir svo vel hve illa var haldið á hjá Vg.
Haldið var eina málþingið um þetta mál síðastliðið haust, þar sem öll nýjustu sjónarmið varðandi það komu í fyrsta skipti fram á einum stað og í einu samhengi.
Því er haldið fram að ályktun Sf muni fæla erlend fyrirtæki frá olíuvinnslu í íslenskri lögsögu.
En um daginn hætti annað tveggja fyrirtækja, sem fékk leyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu. Varla var það vegna Samfylkingarinnar?
Erlend fyrirtæki sem létu mikið með olíuvinnslu við Grænland hafa hætt við og Grænlendingar eru búnir að afskrifa óraunhæfar olíiugróðahugmyndir sínar. Varla var það vegna Samfylkingarinnar.
Vinnslukostnaðurinn á Drekasvæðinu verður minnsta kosti 3-4 sinnum hærri en í Arabalöndunum og ekkert bendir til annars en að hann verði langt fyrir ofan söluverðið það sem eftir er af olíuöldinni. Birgðir Arabalandanna eru til 20 ára hið minnsta og í heildinni í heiminum til 40 ára.
Sádi-Arabar stjórna ferðinni sem fyrr og ætla að gera það alveg í gegnum orkuskiptin síðar á öldinni.
Síðan Össur og aðrir þáverandi ráðamenn á Íslandi stukku á draumana um "heimshöfn" í Finnafirði með jarðgöng og hraðbraut beint til Reykjavíkur og ríkustu þjóð heims, hafa komið fram upplýsingar um stórfelldar framfarir í nýtingu annarra orkugjafa en olíu, sem benda til þess að þegar olíuöldinn lýkur óhjákvæmilega á síðari hluta þessarar aldar hafa farið fram orkuskipti í heiminum.
Össur og aðrir íslenskir stjórnmálamenn vissu ekki betur, vegna þess að enginn þorði að vita betur, heldur var látin ráða "áunnin fáfræði" allt frá því fyrir aldamót þegar fyrst voru lögð drög að olíubólu, sem átti að gera bankabóluna að smámunum einum.
Sérkennilegt er að mæra flokka, sem telja sig vera stjórntæka vegna þess að það sé veikleiki að viðurkenna veruleikann, flokka, sem vilja halda fram rangri stefnu til að sýna fram á hvað þeir séu staðfastir.
Ómar Ragnarsson, 30.3.2015 kl. 21:54
Sæll, Ómar, og þakka þér fyrir innleggið að ofan.
Íslenzki olíudraumurinn er dæmi um það, hversu illa stjórnmálamenn eru fallnir til að leiða þróun atvinnuhátta. Ég held, að áform um rannsóknir og vinnslu olíu þarna norður frá muni senn fjara út vegna kostnaðar og vegna þróunar á markaðinum. Það er betri þróun en afturköllun heimilda. Þetta hefur verið í augsýn, frá því að orkuverð snarlækkaði í Norður-Ameríku með láréttum borunum og setlagasundrun með vökvaþrýstingi ("fracking"). Kostnaður við endurnýjanlega orkugjafa lækkar mjög þessi misserin, og er sú áhugaverða þróun efni í nýja vefgrein.
Ég skil reyndar ekki í ljósi þessa alls, hvers vegna þótti æskilegt að stofna ríkisolíufélag á Íslandi í vetur, og ég skil heldur ekki í ljósi upplýsinga þinna um vinnu Sf í þessu máli í haust, hvers vegna engin gagnrýnisrödd heyrðist á þingi.
Bjarni Jónsson, 31.3.2015 kl. 13:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.