10.4.2015 | 10:46
Fjárfestingar og fjárfestar
Öllum velmegunarsamfélögum er þörf á talsverðum beinum erlendum fjárfestingum, a.m.k. 5 % af VLF, ef tryggja á æskilegt aðgengi að áhættufé til uppbyggingar atvinnuveganna og til að fá nýja verkþekkingu og stjórnunarþekkingu inn í landið. Til að svo megi verða, eru þróaðir innviðir og stöðugleiki stjórnvaldsaðgerða nauðsynleg. Þetta eru einföld sannindi, en samt ekki öllum stjórnmálaflokkunum hérlendis ljós, eins og krystallaðist á alræmdum landsfundi Samfylkingarinnar í marz 2015 og heyrzt hefur á forkólfum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í kjölfarið. Þar ræðir um afturköllun ríkisins á rannsóknar- og vinnsluleyfum fyrir olíu og gas á Drekasvæðinu.
Í Icesave-deilunum á síðasta kjörtímabili, þar sem stjórnvöld gengu erinda alþjóðlegra fjármagnseigenda, sumpart til að þóknast forkólfum í Berlaymont til að fá greiðari leið inn í ESB, héldu talsmenn ríkisstórnarinnar því fram henni til varnar, að ekki mætti koma illa fram við fjármagseigendur, því að þá mundu þeir styggjast og loka fyrir fjármagnsflæði til Íslands. Háttaði þó þannig til þar, að íslenzka þjóðin stóð nauðvörn fyrir sjálfstæði sitt, beitti fyrir sig Neyðarlögunum, svo nefndu, sem hún hafði fullveldisheimildir til, og hefur réttmæti þeirra síðan verið staðfest fyrir dómi, og mátti á sama tíma sæta beitingu brezkra hryðjuverkalaga á íslenzka banka og á ríkissjóð um hríð. Þetta var fruntaaðgerð verkamannaflokksstjórnarinnar í Lundúnum, sem þar sýndi sitt rétta andlit gagnvart þjóð í vanda. Þarna átti að sýna Skotum, hvernig færi fyrir sjálfstæðum þjóðum, þegar á bjátar. Allt var það vitlaust reiknað í Lundúnum.
Minnir þetta á lélega herstjórnarlist Breta í Síðari heimsstyrjöldinni, er þeir gátu stöðvað megnið af hergagnaiðnaði Þjóðverja árið 1943 með loftárásum á miðlunarlónsstíflur og virkjanir, er sáu Ruhr héraðinu fyrir raforku og stytt þannig styrjöldina í Evrópu um allt að 2 ár. Í staðinn beindu þeir sprengjuflugvélunum á borgirnar, t.d. Hamborg og Köln, eins og í hefndarskyni, því að Þjóðverjar höfðu auðvitað gert svipaða villu í stað þess einbeita sér að höfnum og flugvöllum Englands og samhæfa aðgerðir flota og flughers gegn skipalestunum til Englands.
Nú bregður svo við árið 2015, að Samfylkingin hefur snúið við blaðinu varðandi framkomu við fjárfesta og hefur lagt til, að stjórnvöld afturkalli rannsóknarheimildir og vinnsluleyfi, eða eins og segir þar:
"Nú þarf að vinda ofan af þeirri leit og vinnsluáformum og lýsa því yfir, að Íslendingar hyggist ekki nýta hugsanlega jarðefnaorkukosti í lögsögu sinni."
Það má heita alveg makalaust, að fyrrverandi "burðarflokkur" í ríkisstjórnarsamstarfi skuli ætla að grafa undan trúverðugri stjórnsýslu í landinu með þessum hætti, ef hann kemst til valda, því að atferli af þessu tagi berst út sem eldur í sínu á meðal fjárfesta, sem íhuga fjárfestingar á Íslandi, ekki bara á sviði olíuvinnslu, heldur líka á sviði kísils eða á hvaða sviði sem er.
Það er svo annað mál, að ívilnandi sérregur fyrir fjárfesta eru ósanngjarnar gagnvart starfsemi, sem fyrir er í landinu. Það ber að hætta þeim og leggja þess í stað höfuðáherzlu á að skapa sanngjarnt og aðlaðandi samkeppnisumhverfi fyrir alla. Að grípa skuli þurfa til ívilnandi skattaaðgerða fyrir fjárfesta sýnir í hnotskurn, að skattheimtan, sem komið var á á síðasta kjörtímabili, er ósjálfbær og mjög hamlandi. Þetta þýðir, að tryggingagjaldið, sem ætlað er að fjármagna atvinnuleysistryggingasjóð, er allt of hátt núna. Á föstu verðlagi 2015 námu tryggingagjöldin árið 2000 um 42 milljörðum kr, en á árinu 2015 um 82 milljörðum kr. Núverandi hlutfall þess af launum er um 7,5 % og á að lækka í 7,35 % árið 2016. Það ætti að tvöfalda hnigulinn, svo að hann verði 0,30% á ári í 6 ár þar til hlutfallið verður 5,7 %. Stöðva verður þessa lækkun, ef atvinnuleysi vex hér mikið og skyndilega, sem engan veginn er hægt að útiloka, ef boginn er spenntur umfram getu fyrirtækjanna. Önnur algeng ívilnun fyrir fjárfesta er tímabundin lækkun tekjuskatts úr 20 % í 15 %. Mismunurinn nemur hækkun vinstri stjórnarinnar. Boða ætti lækkun á þessari skattheimtu um 1 % á ári niður í 15 %.
Finnur Magnússon, lögmaður, hefur krufið olíuleyfismálið og birti um það grein á Sjónarhóli Viðskipta-Moggans, 2. apríl 2015. Þar er minnt á, að:
"fyrir nokkrum árum hélt íslenzka ríkið útboð til að laða að fjárfesta, sem hefðu bæði fjárhagslega burði og sérþekkingu til að finna olíu hér við land. Í útboðinu tóku þátt dótturfélög norskra og kínverskra ríkisolíufélaga, og ráðgerðu stjórnvöld, að íslenzkur olíuiðnaður myndi ekki einungis leiða til aukinna skattgreiðslna, ef olía fyndist, heldur myndi hér komast á laggirnar umfangsmikil þjónustustarfsemi við olíuiðnaðinn. Að loknu útboðsferli var m.a. kínverska ríkisolíufélaginu veitt leyfi til 12 ára til að leita að olíu."
Síðan rekur Finnur, að árið 1994 hafi ríkisstjórnir Kína og Íslands gert með sér tvíhliða fjárfestingarsamning. Þessi fjárfestingarsamningur slær téð olíuleyfi í gadda (orðalag að hætti gamla olíuráðherrans), svo að riftun olíuleyfisins gagnvart kínverska olíufélaginu væri skýlaust brot á þessum fjárfestingarsamningi. Er það hugmyndin með samþykkt Samfylkingarinnar að setja þennan tvíhliða fjárfestingarsamning Kína og Íslands í uppnám og þar með að girða fyrir frekari fjárfestingar Kínverja í íslenzkri lögsögu ?
Það má í þessu samhengi minna á tvíhliða viðskiptasamning Íslands og Kína, sem gerður var undir umsjón Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, og þótti brautryðjandi í Evrópu og var bending til Berlaymont um að minnka stífni sína eftir stöðvun þeirra á viðræðum um sjávarútvegsmál í aðlögunarferli Íslands að ESB í marz 2011. Þar skaut Össur framan við stefni ESB-freigátunnar.
Sennilega eru öfl innan Samfylkingarinnar, sem gráta mundu það krókódílstárum, þó að viðskiptasamband Íslands og Kína færi í hund og kött, því að ESB leyfir enga slíka tvíhliða samninga aðildarríkja sinna. Þessi nánast einróma samþykkt landsfundar Samfylkingar í marz 2015 mundi, væri henni framfylgt af íslenzkum stjórnvöldum, tæpast draga neitt úr hættunni á mengunarslysi á norðurslóðum, af því að téð leyfi eru aðeins brot af leyfunum, sem aðrar þjóðir hafa og munu gefa út. Hins vegar yrði Ísland örugglega fyrir álitshnekki á meðal fjárfesta við slíka afturköllun rannsóknar- og vinnsluleyfis, og samskiptin við Kínverja færu í frostmark. Er eitthvert vit í slíku framferði ? Ef Samfylkingin væri einstaklingur, mundi maður segja, að hún hefði gengið af göflunum á téðum landsfundi, og svo mikið gekk reyndar á þar, að eftirmálar gætu orðið.
Í lok merkrar greinar skrifaði Finnur Magnússon:
"Af framangreindu er ljóst, að það er vandkvæðum bundið "að vinda ofan af" leyfum, sem íslenzk stjórnvöld hafa gefið út. Umtalsverður vafi yrði um lögmæti stjórnvaldsákvarðana, sem teknar yrðu til að innleiða nýja pólitíska stefnu á þessu sviði, og kynni slík stefnubreyting ekki einungis að brjóta gegn meginreglum stjórnsýsluréttar, heldur ennfremur gegn ákvæðum tvíhliða fjárfestingasamnings Íslands og Kína, sem er ætlað að tryggja fjárfestum frá þessum ríkjum tiltekna réttarvernd."
Það er rétt, að heilbrigð skynsemi og Samfylkingin hafa sjaldan átt samleið, en í þessu máli hefði heilbrigð skynsemi og hagsmunir landsins að ósekju mátt njóta vafans í stað þess að mála skrattann á vegginn og taka síðan ákvörðun um kúvendingu í málefnum opinberra leyfisveitinga. Við slíka kúvendingu mundi íslenzk stjórnvöld setja ofan og jafnvel baka sér skaðabótaskyldu, þó að líklegast verði aldrei neitt af olíuvinnslu í íslenzka hluta Drekasvæðisins vegna kostnaðar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.