Viðsnúningur hjá hinu opinbera

Til hins opinbera eru jafnan talin ríkissjóður, sveitarfélög og almannatryggingar.  Þegar verst lét, árið 2008, var halli á rekstri þessara aðila 202 milljarðar kr.  Hann hefur lækkað jafnt og þétt, með undantekningu ársins 2010, niður í 32 milljarða kr árið 2013 og 3 milljarða kr árið 2014.  Þessir aðilar hafa ekki efni á þessari skuldasöfnun lengur og verða að fara að greiða niður skuldir sínar.

Sveitarfélögin eru þarna eftirbátar, því að þar var árið 2014 hallarekstur að upphæð 5,7 milljarðar kr á meðan almannatryggingar skiluðu 2,0 milljarða afgangi og ríkissjóður 0,7 milljarða afgangi.

Við þessar aðstæður, þegar allt er í járnum og keppzt er við að lækka skuldir hins opinbera til að draga úr vaxtakostnaðinum, ákveða opinberir starfsmenn að ríða á vaðið og krefjast mikilla launahækkana áður en samið hefur verið á almenna markaðinum. Þetta er öfugsnúið.          Það er þó rétt, að menntun er síður metin til launa en víðast erlendis, af því að hérlendis ríkir meiri launajöfnuður en víðast annars staðar.  Það þarf þó að vera gamall "diehard"  Marxisti til að láta sér detta sú fásinna í hug að fara í verkfallsbaráttu á undan almenna markaðinum í stað þess að bíða eftir samningum þar og semja um starfsmat á hverjum vinnustað til að lyfta launum í samræmi við viðkomandi sérþekkingu. Núna er allt of mikil miðstýring á launamálunum, sem gerir þau óþarflega flókin. 

Það er gamla sagan, að fórnarlömb verkfallsaðgerða eru þeir, sem sízt skyldi, þ.e. þeir, sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér, alvarlega sjúkt fólk.  Þetta er engin hemja. Hvernig geta vinstri mennirnir, sem leiða þessa baráttu, réttlætt þessar heimskulegu aðfarir fyrir sjálfum sér og öðrum ?  Er lausnin sú, til að verja hagsmuni sjúklinganna, að hið opinbera bjóði út þessa starfsemi, sem BHM-fólkið sinnir á spítölunum, til að fjölga viðsemjendum og draga úr umfangi verkfallsaðgerða ? 

Hið opinbera, báknið, þenst út í anda jafnaðarstefnunnar, sem alls staðar hefur lent í ógöngum, þar sem hún fær að grassera, og er Frakkland skýrasta dæmið nú.  Ef aukning opinberra útgjalda hins vegar fer í arðsamar fjárfestingar eða niðurgreiðslu skulda, horfir málið öðru vísi við. Arðsamar fjárfestingar, t.d. samgöngubætur, eru hagvaxtarhvetjandi, og lækkun skulda dregur úr framtíðar fjármagnskostnaði. 

Árið 2014 voru tekjur hins opinbera 903 milljarður kr og jukust um 13,3 % frá árinu áður. Ríkið 3,5 faldaði bankaskattinn, og nam sú skattheimta 34,5 milljörðum kr árið 2014 eða um 5 % af tekjum ríkissjóðs.  Honum er ætlað að fjármagna skuldaleiðréttingu heimilanna og getur í framhaldinu vonandi hjálpað til við að greiða skuldabréf vegna endurfjármögnunar bankanna, sem nemur hundruðum milljarða kr.  Þess vegna er blóðugt, að eignarhald tveggja banka skyldi hafa verið fært kröfuhöfum gömlu bankanna algerlega að þarflausu, svo að arðurinn af þessu fjárframlagi ríkisins lendir ekki hjá ríkinu, heldur kröfuhöfunum. Þetta er vafasamasta og ólýðræðislegasta eignatilfærsla frá íslenzka ríkinu frá stofnun íslenzka ríkissjóðsins. Frá Landsbankanum, sem að mestu er ríkisbanki, þó að hann sem betur fer sé ekki enn orðinn "samfélagsbanki", fékkst hins vegar arðgreiðsla fyrir árið 2014 upp á tæplega 16 milljarða kr.  Afglöp vinstri stjórnarinnar og seðlabankastjóra hennar er hægt að verðleggja og skipta þá hunduðum milljarða í töpuðum tekjum og kostnaði á hverju ári, og er þá alger uppgjöf gagnvart verkefninu um afnám gjaldeyrishafta meðtalin.

Útgjöld hins opinbera jukust árið 2014 um 9,3 %, sem er um 8,5 % að raunvirði og er mikið á einu ári, og fóru útgjöldin þá í 906 milljarða kr eða 48 % af landsframleiðslu, VLF, sem er ógnvekjandi hátt á alþjóðlegan mælikvarða og skýrir að nokkru lága framleiðni á Íslandi, sem dregur úr krafti athafnalífsins til arðgreiðslna og raunlaunahækkana, því að í raun ber einkarekið athafnalífið báknið uppi. Launakostnaður hins opinbera nam þá 276 milljörðum og hafði hækkað um 7,4 % á árinu. Ef launakostnaður hækkar um t.d. 10 % árið 2015,  þá hækka útgjöld hins opinbera um 3 % einvörðungu vegna launa, þegar brýnt er að lækka útgjöld hins opinbera til að bæta afkomu athafnalífsins til aukinna fjárfestinga og launagreiðslna.  Ein af ástæðum þess, að athafnalífið getur nú aðeins staðið undir takmörkuðum raunlaunahækkunum, er mjög hátt hlutfall launatengdra gjalda hérlendis, og þar munar mest um greiðslur í lífeyrissjóðina, sem launþegar mega ekki vanmeta, því að fyrir vikið eiga þeir, að öðru jöfnu, fjárhagslega öruggara ævikvöld en kollegar þeirra erlendis.  

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, sagði í viðtali við Morgunblaðið 13. marz 2015 á bls. 18:

"Útgjöldin eru há í sögulegum samanburði og á alþjóðlegan mælikvarða. Það hefur tekizt að brúa bilið með aukinni skattbyrði, einkum á atvinnulífið, líkt og bankaskatturinn, og frestun á framkvæmdum, sem er í raun frestun útgjalda. Það er því mikilvægt núna, þegar umsvifin í hagkerfinu eru að aukast, að ríkissjóður sýni aðhald í sínum rekstri og auki ekki útgjöldin. "

Þetta eru orð í tíma töluð, og við þessar aðstæður er framganga opinberra starfsmanna í kröfugerð á hendur rikinu, ríkissjóði, þyngri en tárum taki, þar sem hún er algerlega ófagleg og virðist innblásin pólitískri heift í garð núverandi stjórnvalda í anda löngu liðins tíma. Það er alveg ábyggilegt, að hagsmunir félagsmanna eru illa varðir með því að spenna bogann allt of hátt.  Til lengri tíma eru opinberir starfsmenn í sama báti og aðrir landsmenn, og hagsmunir þeirra þess vegna fólgnir í því að minnka fjárhagsleg umsvif opinbera geirans í stað þess að auka þau, eins og stefna samtaka þeirra mun leiða til.  Launahækkanir umfram framleiðniaukningu og verðbólgu, hvað sem menntun starfsmanna líður, mun grafa undan kjörum þeirra og starfsöryggi.  BHM-félagar eru nú í óða önn að saga í sundur greinina, sem þeir sitja á.  Verði þeim að góðu. 

 

Heildarskuldir hins opinbera námu 2256 milljörðum kr í árslok 2014 eða 113 % af landsframleiðslu. Þetta er allt of hátt hlutfall, af því að fjármagnskostnaður sligar getu hins opinbera til nauðsynlegra útgjalda í þágu almennings, og brýnt að lækka sem hraðast, en hærri launakostnaður gerir viðfangsefnið óviðráðanlegt án uppstokkunar á starfseminni. Skuldahlutfallið hefur lækkað úr 127 % árið 2011, svo að lækkun er hafin, en þarf helzt að nema 8 % á ári næstu 7 árin, og komast þannig undir 60 % af VLF.

 

Í lok viðtalsins sagði Ásdís:

"Í gegnum tíðina hefur það verið þannig, að rikið eykur útgjöldin, þegar tekjurnar aukast. Því er mikilvægt, að ríkið ýti ekki undir enn frekari spennu og sýni frekar aukið aðhald í útgjöldum. Hið opinbera ætti að einbeita sér að því að greiða niður skuldir frekar en að nýta betri afkomu í að auka útgjöld hins opinbera. Þar sem vaxtakostnaður er hár útgjaldaliður, ætti að vera keppikefli að greiða niður skuldirnar til að draga úr þeim kostnaði."

Allt má þetta til sanns vegar færa og er í raun ástæða þess, að ekki er unnt að ganga að kröfum ríkisstarfsmanna um launahækkanir að svo stöddu. Að opinberir starfsmenn ætli sér þá dul að leiða kjaraþróun í landinu, ber vott um rangt stöðumat, sem jaðrar við dómgreindarleysi, og mun koma verst niður á þeim sjálfum auk fórnardýra átakanna.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband