15.7.2015 | 20:34
Rándýr reykbomba í Hvassahrauni
Fíllinn tók jóðsótt, og fæddist lítil mús. Margir urðu fyrir vonbrigðum með þunnan þrettánda Rögnunefndarinnar, svo kölluðu. Að einhverju leyti var það vegna þess, að það var vitlaust gefið. Henni var uppálagt að halda sig utan Vatnsmýrar og Miðnesheiðar.
Niðurstaðan er sú eftir langdregna leit að flugvallarstæði í stað Vatnsmýrarvallar, að það er fátt um fína drætti. Nefndin telur Hvassahraun henta skárst, en bent hefur verið á svo alvarlega annmarka, að sá valkostur er vonlaus. Meinloka er niðurstaðan, sem margir telja að engu hafandi, heldur skuli nú fara "back to business" og tryggja framtíð þriggja flugbrauta í Vatnsmýri og byggja þar upp sæmilega (til sóma) aðstöðu.
Það er rangt hjá Rögnunefndinni, að Hvassahraun bjóði upp á mikla þróunarmöguleika. Byggðaþróun mun eftir fáeina áratugi þrengja að þessum flugvelli, og menn munu þá lenda á hrakhólum með hann.
Vanir flugmenn hafa tjáð sig um lendingar- og flugtaksskilyrðin. Reykjanesfjallgarður er of nærri til að kyrrð í lofti jafnist á við Vatnsmýrina. Þá telja sumir næsta nágrenni flugvallarstæðisins, úfið hraunið, hafa neikvæð áhrif á öryggið.
Ný Suðvesturlína er rétt óreist um Hvassahraunið, og stór háspennulína í grennd við flugvöll gengur ekki.
Bent hefur verið á, að fáránlegt sé og yrði hvergi gert að byggja nýjan varaflugvöll alþjóðaflugs svo stutt frá honum sem hér um ræðir.
Í stað þess að benda á mjög vafasaman valkost, sem virkar eins og reykbomba inn á leikvöll, hefði Rögnunefnd verið nær að álykta, að ekkert annað flugvallarstæði væri finnanlegt á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefðu menn staðið frammi fyrir hinum raunverulegu valkostum, sem nú blasa við, þ.e. að tryggja óskertum innanlandsflugvelli og jafnframt varaflugvelli fyrir Miðnesvöllinn starfsfrið um ókomna tíð í Vatnsmýri og leyfa allar nauðsynlegar framkvæmdir honum tengdar, eða að kodda innanlandsfluginu og gera millilandaflugið dýrara og óöruggara með því að leggja Vatnsmýrarvöllinn af, svo að hefja megi undirbúning að 15 þúsund manna byggð í Vatnsmýrinni.
Mál er, að Vatnsmýrarsirkusinum linni. Það er búið að færa þjóðhagsleg og öryggisleg rök fyrir eflingu innanlandsflugsins með miðstöð í Vatnsmýri. Það mætti draga úr opinberum álögum á innanlandsflugið til að efla samkeppnisstöðu þess gagnvart umferð á vegunum. Rökin fyrir eflingu flugsins eru miklu veigameiri en þörfin fyrir byggingarland í Vatnsmýrinni. Það er enginn hörgull á byggingarlandi á höfuðborgarsvæðinu, en þar finnst hins vegar ekkert annað flugvallarstæði, sem glóra er að fjárfesta í.
Þjóðin, þ.m.t. Reykvíkingar, virðist hafa keypt þessi rök. Ef Dagur & Co. vilja ekki beygja sig undir heilbrigða skynsemi og niðurstöðu Rögnunefndar, sem fann engan frambærilegan valkost við Vatnsmýrina, að minni hagsmunir víki fyrir meiri, eru aðeins tveir valkostir, sem báðir snúast um að taka af honum ráðin. Annar er að samþykkja frumvarp Höskuldar Þórarinssonar o.fl. um nýja tilhögun skipulagsvaldsins í Vatnsmýri, og hin að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, sem Alþingi álykti fyrst um, að skuli verða bindandi fyrir yfirvöld í borginni og ríkisstjórn.
Skýrsla stýrinefndar um leit að heppilegasta flugvallarstæði fyrir miðstöð innanlandsflugs, s.k. Rögnunefndar, hefur hlotið harða gagnrýni. Beittasta og rökfastasta gagnrýnin, sem blekbóndi hefur séð á prenti, birtist í Morgunblaðinu 07.07.2015. Þar er um að ræða grein eftir Jóhannes Loftsson, verkfræðing og frumkvöðul, undir fyrirsögninni:
"Rögnuskýrsla ótrúverðug vegna ólöglegra reikniskekkja".
Eftir lestur þessarar greinar blasir við, að Rögnunefndin hefur ekki valdið hlutverki sínu. Mistök voru að velja silkihúfur í nefnd, sem fjalla átti um sérhæft og viðkvæmt svið. Þessar silkihúfur virðast ekki hafa kunnað mikið fyrir sér í verkefnastjórnun, því að þær láta ráðgjafann leika lausum hala. Árangursrík verkefnastjórnun felur m.a. í sér að hafa hönd í bagga með forsendunum, sem ráðgjafinn á að vinna eftir, og síðan að rýna allt, sem frá honum kemur, og bera saman við ytri skilyrði verkefnisins, s.s. lög, reglugerðir og staðla. Á þessu hefur orðið alvarlegur misbrestur, og þess vegna er afkvæmi Rögnunefndar örverpi, eins og sjá má á eftirfarandi tilvitnunum í grein Jóhannesar Loftssonar, verkfræðings:
"Í töflu 1 bls 17, og víða annars staðar í Rögnuskýrslu, kemur fram, að útreikningar á nothæfisstuðli Hvassahraunsflugvallar miði við 13 hnúta hámarks hliðarvind, en það er gildi, sem samkvæmt íslenzkri reglugerð má eingöngu nota fyrir stærri flugvélar. [Ef stýrinefndin hefði kynnt sér viðfangsefnið rækilega, hefði hún leiðbeint ráðgjafanum hér - Innsk. BJo] Ekki eru birtar niðurstöður útreikninga fyrir minni flugvélar, sem þola minni hliðarvind, þrátt fyrir að sagt sé, að útreikningar á þeim hafi farið fram. Þetta er mjög undarleg framsetning í ljósi þess, að nothæfisstuðull minni vélanna er sá þáttur, sem er takmarkandi fyrir hönnun flugvallarins. Að ekki skuli birtur nothæfisstuðull fyrir þessar vélar, bendir til þess, að skýrsluhöfundar telji viðunandi að miða hönnunina við að tryggja öryggi sumra flugvéla, en ekki allra. Slíkt væri galin nálgun, sem stæðist ekki lög."
"Það, að ekki hafi verið tekið tillit til sjúkraflugs, er síðan sérstaklega alvarlegt í ljósi mikilvægis þess. Reynt er að fljúga sjúkraflug í öllum veðrum, og þar sem líf sjúklingsins er oft í hættu, er aukinn þrýstingur á sjúkraflugmenn að reyna lendingu, þó að aðstæður séu erfiðar."
"Grunnforsendur Rögnuskýrslu standast engan veginn, því að allir flugvallarkostirnir, sem eru kostnaðarreiknaðir, eru tveggja brauta og því líklega ólöglegir. Óráðlegt er að eyða meira opinberu fé í nokkra könnun á svæðinu fyrr en hæfir aðilar hafa verið fengnir í að reikna nothæfisstuðulinn."
Hér er skýrsla Rögnunefndar vegin og léttvæg fundin. Rögnunefndin sjálf hlýtur falleinkunn fyrir verkið, enda virðist hún ekki hafa haft neina burði til að leiða þessa rannsóknarvinnu. Fyrir vikið birtir hún kostnaðaráætlun, sem að öllum líkindum er allt of lág, af því að hún kemst að þeirri röngu niðurstöðu, vegna rangra forsendna, að tvær flugbrautir dugi. Villandi skýrsla er verri en engin og virðist fénu, sem varið var í rannsóknarvinnu og skýrslu, hafa verið kastað á glæ, af því að stýrinefndin skilaði hlutverki sínu illa.
Undir lok greinarinnar skrifar Jóhannes Loftsson eftirfarandi um Vatnsmýrarvöllinn:
"Vegna áhrifa ýmissa hagsmunaaðila hefur undanfarið verið settur verulegur þrýstingur á, að neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar verði lokað. Vandamálið er hins vegar það, að nothæfisstuðullinn, sem þessir aðilar bera fyrir sig, byggir á útreikningum verkfræðistofunnar "Exyz", sem eru með stórum reikniskekkjum, og standast engan veginn íslenzkar lagakröfur. Lokun brautarinnar yrði því ólögleg."
Blekbóndi sér ekki átæðu til að tilgreina hér nafn verkfræðistofunnar, sem hér á í hlut, þó að það hafi verið birt annars staðar.
Samkvæmt Jóhannesi Loftssyni mundi lokun einnar flugbrautar í Vatnsmýrinni stríða gegn lögum. Reykjavík Dags er þess vegna komin í öngstræti með flugvallarmálið og virðist alveg sama, hvort hún leyfir eða bannar byggingaframkvæmdir, hún verður sótt til saka. Borgarstjórn undir "forystu" Samfylkingar hefur hafið stríð, sem hún er dæmd til að tapa.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Ferðalög, Samgöngur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.