29.8.2015 | 21:15
Umræða í eitruðu andrúmslofti
Það er ekki heil brú í málflutningi sumra um aðalatvinnuveg landsmanna, sjávarútveginn, á köflum. Dæmi um þetta gaf að líta í grein Jóns Steinssonar, hagfræðings, í Fréttablaðinu 21. ágúst 2015, undir fyrirsögninni: "Eitraður útgerðarauður".
Þar sem Jón Steinsson boðar í raun eignaupptöku á sjávarútveginum, verður ekki betur séð en hugmyndafræði hans sé reist á kenningum 19. aldar fyrirbrigðisins Karls Marx, þó að reynt sé að dulbúa boðskapinn með því að kalla hann "markaðslausn". Sé uppboð afnotaréttar einkaaðila "markaðslausn", þá er um að ræða ríkisrekið auðvaldskerfi, sem minnir örlítið á hina kínversku útgáfu kommúnismans, sem nú á mjög undir högg að sækja.
Téð grein hefst með þessum orðum:
"Ég hef lengi barizt fyrir því, að þjóðin fái fullt gjald fyrir afnot af fiskveiðiauðlindum sínum. [1]
Einföld og góð markaðslausn, sem myndi tryggja það, væri uppboð á veiðiheimildum. [2]
Rökin, sem ég hef lagt áherzlu á, eru aðallega af tvennum toga. Annars vegar er skýrt kveðið á um það í lögum, að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar. [3]
Í því ljósi er í hæsta máta óeðlilegt, að þeim sé ráðstafað til fámenns hóps útvalinna án þess, að fullt gjald sé tekið fyrir. [4]
Hins vegar eru leigutekjur af veiðiheimildum langhagvæmasta tekjulindin, sem ríkissjóður á völ á. [5]
Ef ríkissjóður fengi 40 milljarða króna árlega í leigutekjur af veiðiheimildum, væri unnt að lækka skatta til muna eða bæta velferðarkerfið til muna. [6]
Hér er í raun fullyrðingaflaumur illa ígrundaðra hugmynda um þjóðnýtingu sjávarútvegsins á ferðinni, sem reistar virðast á vanþekkingu á mikilvægi stöðugleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja fyrir arðsemina og vanmati á nauðsyn hvata fyrir fjárfesta til að leggja fé í áhætturekstur, sem sjávarútvegur óneitanlega er. Slíkt uppboðskerfi er sízt af öllum fiskveiðistjórnunarkerfum fallið til að skapa sátt um sjávarútveginn, enda myndi hann missa núverandi markaðsstöðu sína og veiðiheimildir safnast á enn færri hendur en nú. Þegar grannt er skoðað, stendur ekki steinn yfir steini hjá þessum eiturspúandi hagfræðingi, eins og nú skal greina með tilvitnunum í nokkra valinkunna menn:
- Árið 2013 greiddi sjávarútvegurinn um 25 milljarða kr í skatta, þar af um 10 milljarða kr (40 %) í veiðigjöld, 8 milljarða kr (32 %) í tekjuskatt og 7 milljarða kr (28 %) í tryggingagjöld. Samanlagður hagnaður útgerðarinnar, allt frá smábátum upp í stærstu fjölveiðiskip, nam 28 milljörðum kr árið 2013. Skattgreiðslur námu með öðrum orðum 89 % af hagnaðinum. Er það ekki meira en nóg ? Um það skrifaði Óli Björn Kárason í Morgunblaðið 4. marz 2015: "Á síðasta aldarfjórðungi hafa orðið algjör umskipti í íslenzkum sjávarútvegi, og Ísland er eina land innan OECD, sem ekki heldur úti umfangsmiklu styrkjakerfi fyrir fiskveiðar og vinnslu. Á meðan aðrar þjóðir eru með sjávarútveg á opinberu framfæri, greiða íslenzk fyrirtæki skatta og gjöld til ríkissjóðs. Skattlagning fyrirtækja, sem er umfram það, sem gengur og gerist í helztu samkeppnislöndum, veikir stöðu samkeppnisgreina, hvort heldur er á erlendum mörkuðum eða á heimamarkaði. Um þetta verður ekki deilt, enda sannindi, sem eiga að vera öllum augljós. Þetta á jafnt við um sjávarútveg sem aðrar atvinnugreinar. Hagkvæmni sjávarútvegsins, sem byggir á skynsömu stjórnkerfi fiskveiða - kvótakerfi með framsali - ásamt markvissri markaðssókn, auknum gæðum og nýtingu, hefur gert ríkissjóði kleift að leggja sérstakar byrðar á sjávarútveginn, sem keppir við ríkisstyrkta keppinauta. Þessu vilja pólitískir lukkuriddarar bylta og um leið stórauka álögur á sjávarútveginn. Jafnvel fyrrverandi fjármálaráðherra vinstri stjórnarinnar og þingmaður Norðausturkjördæmis krefst stórhækkunar á veiðigjaldi. Fyrir kjósendur á landsbyggðinni hlýtur sú krafa að vekja athygli ekki sízt, þegar haft er í huga, að um 72 % veiðigjaldsins eru greidd af fyrirtækjum á landsbyggðinni, en 28 % veiðigjaldsins af fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu."
- Í núverandi íslenzku fiskveiðistjórnunarkerfi er frumúthlutun aflahlutdeilda alfarið reist á veiðireynslu einstakra skipa á viðmiðunartíma veiðireynslunnar, en ella er unnt að taka tillit til fleiri þátta. Með þessu er tryggt, að aðeins þeir, sem kostað hafa fé og tíma til veiða á tiltekinni tegund skipta með sér afnotarétti á takmarkaðri auðlind. Finni þeir annað þarfara að gera, mega þeir framselja aflahlutdeild sína hvaða annarri íslenzkri útgerð, sem er. Hvergi í hinum siðmenntaða heimi er fyrirtækjum gert að búa við slíka óvissu um rekstur sinn að geta með engu móti vitað, hvort framhald verði á honum að ári. Geta menn rétt ímyndað sér, hvílíkur fjármagnsflótti yrði úr sjávarútveginum, ef slík ríkisrekin "markaðslausn" yrði tekin þar upp. Aðferðin er hagfræðilegt glapræði, eins og Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, og fleiri hafa bent á.
- Að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar þýðir einvörðungu, að íslenzka ríkisvaldið fer með auðlindastjórnun innan lögsögunnar til að tryggja sjálfbærni nýtingar og hámörkun afrakstrar af auðlindinni, en því fer hins vegar víðs fjarri, að þetta jafngildi eignarhaldi ríkisins á sjávarauðlindunum. Er alveg kostulegt til þess að vita, að hagfræðingur, sem tekur þátt í opinberri umræðu um stjórnun fiskveiða, skuli stöðugt berja hausnum við steininn og spúa eitraðri vitleysu sinni yfir landslýð.
- Það er fáránlegt að taka svo til orða, að veiðiheimildum sé úthlutað til "fámenns hóps útvalinna", þegar leikreglan er sú að úthluta að jafnaði til þeirra í upphafi, sem fjárfest hafa í þriggja ára veiðireynslu. Uppboðsleið Jóns, hins vegar, er braskleið, þar sem auðvaldið, t.d. bankarnir, geta hrifsað til sín lungann af veiðiheimildunum og gert útgerðarmenn að leiguliðum sínum. Útgerðum mundi við þetta snarfækka, og umgengnin við auðlindina yrði eins og búast má við, þegar útgerð og áhöfn er stjórnað alfarið af skammtímahagsmunum. Uppboðsleiðin er forkastanleg í alla staði, mundi kippa fótunum undan markaðssetningu útgerða og fiskvinnslufyrirtækja, sem er langtíma viðfangsefni, og þjónar engum öðrum tilgangi en lýðskrumi af ómerkilegasta tagi.
- Hugmyndin um "Leigutekjur af veiðiheimildum" til ríkisins er annaðhvort reist á þeim misskilningi, að ríkissjóður eigi óveiddan fisk í sjó, eða þeirri fyrirætlun að þjóðnýta aflahlutdeildir íslenzkra útgerða. Hvort tveggja er lagaleg ófæra, sem gæti aðeins valdið sjávarútveginum og ríkissjóði stórtjóni, því að aðferðarfræðin gengur ekki upp miðað við núverandi almenna lagatúlkun og eignarréttarákvæði Stjórnarskráar, þar sem afnotaréttur af almenningi með ítölu er eitt form eignarréttar.
- Að lokum boðar mannvitsbrekkan aukningu á skatttekjum ríkissjóðs um 30 milljarða kr á ári m.v. núverandi kerfi. Aukningin yrði að vísu aðeins 20 milljarðar kr og mjög skammvinn, því að tekjuskattur útgerðanna mundi þurrkast út. Fyrirtækin geta ekki staðið undir slíkri gjaldtöku, nema í örfá ár, eins og fram kemur í grein Kolbeins Árnasonar í Fréttablaðinu 7. maí 2015, "Sjávarútvegur á að skila miklu til samfélagsins": "Jón fullyrðir, að íslenzka ríkið sé hlunnfarið um 40-60 milljarða árlega, þar sem ekki hafi verið gengið nægilega hart fram í skattlagningu þessarar grundvallarstoðar íslenzks efnahags. Fullt tilefni er að staldra við þessa fullyrðingu. Samanlagður hagnaður útgerðarinnar, allt frá smábátum upp í stærstu fjölveiðiskip, nam 28 milljörðum króna á árinu 2013. Hér er undanskilinn hagnaður af vinnslunni, enda hafa veiðigjöld verið réttlætt með því, að um sé að ræða nýtingu á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Því getur varla fundizt stoð fyrir þessum fullyrðingum Jóns. [JS hugsar þetta kannski þannig að taka öll veiðigjöldin 2013 og allan hagnað útgerðar á sama ári og segja sem svo, að summuna geti útgerðin greitt ríkinu í afnotagjald af auðlindinni. Slíkur málflutningur er þó fyrir neðan virðingu hagfræðings, því að hann hlýtur að vita, að sé allur hagnaður gerður upptækur, þá hverfur hvatinn til atvinnurekstrar, og fjármagnseigendur eiga ekki síðri rétt til arðgreiðslna en sjómenn til síns hlutar. - Innsk. BJo]. Hagnaður útgerðarinnar er til kominn vegna sölu á fiski, m.a. til landvinnslunnar. Samanlagt keypti íslenzk fiskvinnsla afla fyrir um 130 milljarða króna árið 2013, en hagnaður fiskvinnslunnar í fyrra nam ríflega 30 milljörðum króna. Þetta þýðir, að Jón telur, að sjávarútvegurinn eigi einfaldlega að greiða allan hagnað af veiðum og vinnslu í veiðigjöld. Óþarfi er að fjölyrða um, hvaða áhrif slíkt skattaumhverfi hefði á fjárfestingu sjávarútvegsins og framgang hans. Rétt er að halda því til haga, að íslenzkar fiskvinnslur og útgerðir greiddu hátt í 30 milljarða samanlagt í skatta og opinber gjöld (tekjuskattur fyrirtækja, veiðigjöld og tryggingagjald árið 2013). Góð afkoma greinarinnar gerir að verkum, að skattgreiðslur urðu umtalsvert hærri, m.a. vegna aukningar á greiðslu tekjuskatts.
Enginn heilvita maður getur látið sér detta það í hug, að umrædd uppboðsleið fyrir veiðiheimildirnar yrði til að auka sátt á meðal þjóðarinnar um sjávarútveginn. Í núverandi aflahlutdeildarkerfi fara menn sjálfviljugir út úr kerfinu með því að selja aflahlutdeildir sínar. Í uppboðskerfinu er mönnum hent út af miðunum, því að uppi stendur aðeins hæstbjóðandi, og hann verður að hafa öflugan bakhjarl, sem annaðhvort er stórt sjávarútvegsfyrirtæki eða fjármálastofnun. Það er þess vegna undir hælinn lagt, hvar aflinn verður lagður upp. Allt þetta þýðir, að atvinnuöryggi sjómanna og landverkafólks verður ekki svipur hjá sjón. Félagslega er þetta fyrirkomulag algerlega óverjandi, og ólígarkar Rússlands eða auðjöfrar í Suður-Ameríku mundu sleikja út um báðum megin að verða boðið upp á annað eins dæmalaust félagslegt óréttlæti og íslenzka sjóræningjaflokkinum ásamt "mentor" sínum, Jóni Steinssyni, hefur nú þóknazt að bjóða þjóðinni upp á.
Þetta er annað stórmál sjóræningja, og hitt er að "tífalda" fjölda hælisleitenda á Íslandi eða skjólstæðinga "alþjóðlegrar verndar", eins og skriffinnskubákninu þóknast að kalla það umkomulausa fólk frá norðanverðri Afríku og Austurlöndum nær, sem nú streymir til Evrópu. Blekberi taldi þó, að landsmenn ættu fullt í fangi með að sjá eigin ungviði fyrir sómasamlegum innviðum, þó að árlega væri nú ekki hleypt inn fólki af framandi kynþáttum og trúarbrögðum í hundraða eða þúsundavís.
Það horfir dálítið öðruvísi við með innviðina á meðal þjóða Evrópu, sem hættar eru að fjölga sér og glíma nú við fólksfækkun. Þær glíma reyndar jafnframt við atvinnuleysi, og það getur hvenær sem er barið að dyrum Íslendinga, ef kínverska kreppan breiðist út um heiminn, því að þá munu gjaldeyristekjur landsmanna óhjákvæmilega skreppa saman.
Þjóðir á borð við Svía og Þjóðverja, sem tekið hafa við slíkum fjölda hælisleitenda, að nemur nokkrum hundraðshlutum af fjölda frumbyggjanna, gjalda nú mjög miklum varhug við þeirri flóttamannabylgju, sem nú skellur á ströndum Evrópu. Þetta sýnir fylgi stjórnmálaflokka í þessum löndum og öðrum, sem varað hafa við vandamálinu, sem mikill fjöldi framandi fólks með takmarkaða aðlögunargetu og aðlögunarvilja hefur í för með sér.
Sjóræningjaflokkur Íslands hefur nú sýnt á spilin sín. Þar eru eintómir hundar, og það er fjarri því, að hagsmunir íslenzkrar alþýðu og sjóræningjanna geti farið saman.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Ég ætla nú einfaldlega að taka undir hvert orð hjá þér Bjarni. Hvort heldur sem er fyrriparti eða seinniparti. Það er vægast sagt dularfull afstaða að ekki sé borgað nóg í hítina þegar hlutfallið er nánast það sama og sá sem tekur alla áhættuna fær fyrir sinn snúð.
Mér þætti fróðlegt að sjá bankarekstur á sama grunni.
Sindri Karl Sigurðsson, 29.8.2015 kl. 21:51
Að koma fólki í skilning um að hagnaður í sjáfarútvegi er blessun en ekki böl er eitt aðal mál nútímans
Endalausar upphrópanir og hreint út sagt atvinnurógur um stjórnendur fyrirtækjanna er skelfilegur.
En algjör þögn um ofsagróða banka sem skapa ekkert og eru aðeins milliliðir og afætur .
Það eru útflutnings fyrirtækin sem eru að draga okkur upp á rassgatinu uppúr bankahruninu.
Þau voru í fullri starfsemi í miðju hruni og björguðu því sem bjargað varð.
Snorri Hansson, 30.8.2015 kl. 10:10
Sælir, Sindri Karl og Snorri;
Hagnaður sjávarútvegs var svipaður og skatttekjur ríkisins af honum, en eigendurnir fá aðeins brot hagnaðarins sem arð í sinn hlut. Megnið af hagnaðinum er jafnan notað til uppbyggingar fyrirtækjanna, endurnýjunar á atvinnutækjum og fjárfestingu í búnaði. Augljóslega er ríkissjóður of aðgangsharður í garð útgerðarfyrirtækjanna miðað við annan atvinnurekstur í landinu og alþjóðlegt samkeppnisumhverfi íslenzku útgerðarinnar.
Hatursfull orðræða í garð útgerðarinnar hérlendis er einsdæmi og vitnar ekki um heilbrigða dómgreind. Það er rétt að flokka hana undir atvinnuróg, þar sem í raun er vegið að heiðri margra og atvinnuöryggi enn fleiri.
Vísitölutrygging útlána (sum innlán eru líka vísitölubundin) setur rekstur bankanna í ankannalegt ljós miðað við áhætturekstur annarra fyrirtækja. Kröfuhafar föllnu bankanna eiga megnið af tveimur af þremur bankanna, sem er óþolandi fyrirkomulag, sem vonandi verður ráðin bót á í kjölfar afléttingar fjármagnshaftanna.
Bjarni Jónsson, 30.8.2015 kl. 14:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.