2.10.2015 | 13:35
Ótilhlýðilegur dilkadráttur
Dilkadráttur er einkennandi fyrir málflutning umhverfisskrumara, og mundi einhver jafna til eineltis í sumum tilvikum. Dæmigert fyrir téða skrumara er að stilla orkukræfum iðnaði upp sem óæskilegri starfsemi í samfélaginu, af því að hann hafi mikil og neikvæð áhrif á náttúruna, þó að vinstri menn, t.d. vinstri grænir, hafi reyndar alltaf haft horn í síðu erlendra fjárfestinga, og þeir eru grunaðir um að vera aðallega af þeim ástæðum andsnúnir téðum verksmiðjum enn í dag.
"Eitthvað annað" í atvinnulegu tilliti þótti löngum bera keim af fortíðarþrá og jafnvel torfkofadálæti í atvinnulegum efnum í stað iðnaðarins, en nú vísar afturhaldið jafnan til ferðaþjónustunnar sem hins umhverfisvæna valkosts. Á þotuöld er ekkert fjær sanni, og það verður að rekja það í nokkrum orðum til að sýna, að umhverfisskrumarar kasta steinum úr glerhúsi, þó að fyrir þeim sé komið eins og námuhestunum með augnablöðkurnar.
Fótspor 1,5 milljónar erlendra ferðamanna, auk innlendra, í umhverfinu er miklu stærra og verra viðfangs en umhverfisfótspor iðnaðarins, hvort sem er á láði, í legi eða í lofti.
Losun koltvíildis, CO2, frá þeim farkostum, sem ferðamennina flytja til og frá landinu og á landinu, gefur mun stærra kolefnis- og brennisteinsfótspor en samanlagður málmiðnaðurinn (Al, FeSi, Si (væntanleg kísilver meðtalin)). Þetta er auðvelt að sýna fram á, og blekbóndi hefur gert það á þessum vettvangi,http://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/1822032/ , þar sem fram kemur, að losun farþegaþotna til og frá Íslandi á koltvíildi á hverju ári er tvöföld á við losun orkukræfs iðnaðar í landinu.
Viðkvæm náttúra landsins liggur undir skemmdum, sumum óafturkræfum, svöðusár gróa seint á hálendinu, tront hesta og manna hefur farið mjög illa með landið víða, einkum hálendið, og sóðaskapur verið slíkur, jafnvel á fjölförnum stöðum, að valdið gæti sóttkveikjufaraldri.
Saurmengun ferðamanna í náttúrunni var fréttaefni fjölmiðla í sumar. Um hættuna af henni sagði Vilhjálmur Svansson, sérfræðingur í veirufræði á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, í Morgunblaðinu 23. september 2015, í samtali við Baldur Arnarson, blaðamann:
"Við höfum ekki enn leyft okkur að gera kröfu um, að nautakjöt, sem er flutt inn til landsins, sé laust við þessa bakteríu. En þessi sermisgerð, af E. coli [tegund], hefur verið að dreifast um heiminn á síðustu áratugum og er það smitefni í matvælum, sem veldur hvað alvarlegustum matvælasýkingum, þ.e.s.s. blóðugum niðurgangi, nýrnabilun og dauða. Ungum börnum, gamalmennum, og ónæmisveikluðum einstaklingum, er hættara en öðrum við að veikjast eftir neyslu á smituðum afurðum. Saurmengun frá landbúnaði, þá sérstaklega nautgripum, í matvælum virðist vera helsta uppspretta þessara matarsýkinga. Ólíkt því, sem gerist hjá mönnum, þá veldur bakterían litlum eða engum einkennum í nautgripum. Með aukinni neyslu á innfluttu nautakjöti gæti bakterían borist með saurmengun frá mönnum út í lífríkið og þar með í nautgripi hér á landi."
Sóðaskapur, og ófullnægjandi hreinlætisaðstaða, gríðarlegs fjölda erlendra gesta er þannig bein ógn við heilsufar landsmanna. Gríðarleg álagsaukning er á frárennsliskerfi í bæjum og sveitum, sem víða voru óbeysin fyrir, svo að fosföt og níturefni hafa minnkað súrefni í vötnum og valdið óæskilegum þörungagróðri.
Þessu síðasta er ekki þannig varið hjá málmiðnaðinum. Vísindalegar rannsóknir óvilhallra íslenzkra stofnana sýna t.d., að nánast ekkert efnafótspor er í Straumsvík, sem rekja megi til álversins þar. Á landi er spurningin aðallega um flúor, og hann er ekki meiri í jurtum þar en var fyrir upphaf starfrækslu álversins. Þannig hefur það ekki alltaf verið, en gríðarlegar fjárfestingar í hreinsibúnaði kerreyks hafa borið mjög góðan árangur.
Hvar er árangur ferðaþjónustunnar í umhverfis- og öryggismálum ? Hann er örugglega fyrir hendi hjá sumum ferðaþjónustufyrirtækjum, sem eru rekin af metnaði, þar sem starfsfólk vinnur störf sín af elju, þekkingu og samvizkusemi, en heildarmyndin í umhverfis- og öryggislegu tilliti er of slæm og ber ferðaþjónustunni því miður ekki fagurt vitni í heild. Kannski á ofboðsleg fjölgun ferðamanna á 5 árum sinn þátt í því, að náttúran a víða undir högg að sækja af völdum ferðamanna.
Ferðaþjónustan kemst ekki með tærnar, þar sem álverin hafa hælana í umhverfisvernd og öryggismálum, og þannig virðist staðan munu verða enn um langa hríð. Af þessum ástæðum væri talsmönnum ferðaþjónustunnar og umhverfisskrumurum, sem þykjast vilja "láta náttúruna njóta vafans", sæmst að hætta að draga atvinnugreinar landsins í dilka og setja sig á háan hest gagnvart innviðauppbyggingu, t.d. raforkugeirans, sem verður öllum atvinnugreinum að gagni.
Dapurlegt dæmi um þennan dilkadrátt gat að líta í umræðugrein í Morgunblaðinu, 19. september 2015, eftir Snorra Baldursson, formann Landverndar, undir fyrirsögninni: "Kerfisáætlun og bleiki fíllinn"
Hér verður gripið niður í þessa grein, en þar gefur að líta illskeytta gagnrýni á Landsnet í kaflanum "Orkudreifing og orkuflutningur", sem ekki verða gerð skil hér, því að það er hlutverk Landsnets að gera almenningi grein fyrir sinni hlið málsins, svo að fólk geti myndað sér hlutlæga skoðun.
Fyrsta millifyrirsögnin er röng fullyrðing:"Stóriðjan veldur, en almenningur borgar". Kaflinn hefst svona:
"Það, sem stingur einna mest í augu, er, að forstjóri Landsnets kemst í gegnum opnuviðtal án þess að nefna stóriðjuna, bleika fílinn í stofunni, einu nafni. Aftur á móti talar hann um, að styrkja þurfi raforkuflutningskerfið fyrir almenning og að byggðalína standi eðlilegri atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni fyrir þrifum. Ekkert er fjær sanni."
Hér gefur Snorri Baldursson í skyn, að orkukræfu iðjuverin séu alvarlegt vandamál fyrir stofnkerfi Landsnets, sem rétt sé að þegja um í opinberu viðtali, enda sé almenningur látinn greiða kostnaðinn, sem hlýzt af tengingu stóriðjunnar við stofnkerfið.
Hér er ótrúlegur þvættingur á ferð, hreinn heilaspuni.
Ef þetta væri rétt, þá væri gjaldskrá Landsnets ekki lögum samkvæmt, og Orkustofnun hefði þá sofið á verðinum. Í gjaldskrá Landsnets er sérstakur kafli fyrir stórnotendur, stóriðjutaxtar fyrir afl og orku, og annar kafli fyrir almenningsveitur, þar sem eru aðrir taxtar fyrir afl og orku. Þessir taxtar eiga að endurspegla kostnað Landsnets af flutningskerfinu fyrir hvorn hóp viðskiptavina um sig, og það stríðir gegn lögum að láta notanda A borga fyrir fjárfestingar í þágu notanda B.
Hér gerir formaður Landverndar tilraun til að sá fræjum tortryggni í garð Landsnets og stórnotenda með dylgjum um, að senda eigi almenningi reikninginn, umfram stóriðjuna, vegna nauðsynlegrar styrkingar á flutningskerfi raforku, sem almenningur hafi þó enga þörf fyrir. Þetta er rætinn málflutningur, hreinræktaðar rakalausar dylgjur.
Að jafnaði fara engir stórflutningar raforku til stóriðjufyrirtækjanna eftir Byggðalínu, nema til Becromal, álþynnuverksmiðjunnar, á Akureyri, þannig að hlutverk Byggðalínu er aðallega að flytja raforku til almenningsveitnanna vítt og breitt um landið. Þó reynir á hana til stórflutninga í bilunartilvikum, og þegar miðla þarf orku á milli landshluta. Flutningsgeta hennar er farin að standa almennri atvinnuþróun fyrir þrifum, og geta hennar til orkumiðlunar á milli landshluta er allt of lítil. Árlegur kostnaður vegna glataðra atvinnutækifæra, olíubrennslu, skorts á stöðugleika í bilunartilvikum og umfram orkutapa nemur tugum milljarða kr.
Snorri Baldursson endurtekur þessi ósannindi, þ.e. að flutningskerfi raforku um landið þarfnist eflingar einvörðungu fyrir stórnotendur og að láta eigi almenning greiða einan fyrir þessar fjárfestingar, í téðri grein með mismunandi hætti, en ómerkilegur málflutningur batnar sízt við endurtekningu, þó að áróðursbrellukarlar hafi á ýmsum tímum legið á því lúasagi.
Í upphafi lokakafla greinarinnar skrifar téður Snorri:
"Óskalausn Landsnets í uppbyggingu raforkuflutningskerfisins er áðurnefnd T-tenging [Sprengisandslína og lína á milli Blöndu og Fljótsdals - Innsk. BJo]. Þar er fyrirtækið með hugmyndir um 50 km jarðstreng til að mæta umhverfiskröfum og telur, að koma megi slíkri tengingu í gagnið á fimm árum að lágmarki. Þetta er mikil bjartsýni, því ljóst er, að umhverfis- og útivistarsamtök, fyrirtæki og samtök í ferðaþjónustu, munu berjast alla leið gegn línu yfir Sprengisand, líka með 50 km jarðstreng."
Þetta er heifrækin og ofstækisfull afstaða manns, sem ber fyrir brjósti hagsmuni sóðalegustu atvinnugreinar landsins og hótar öllu illu, þó að Landsnet bjóðist til að teygja sig eins langt og tæknilega er unnt. Þetta er hraksmánarleg og heimskuleg afstaða, því að öllum atvinnugreinunum er það fyrir beztu, að flutningar raforku á milli landshluta fari fram með hagkvæmasta hætti og snurðulaust allan ársins hring með lágmarkstruflunum fyrir notendur við bilanatilvik í virkjun, á línu eða hjá notendum.
Með því að leggja Sprengisandslínu í jörð á viðkvæmasta hluta leiðarinnar, e.t.v. 25-50 km, væntanlega þar, sem hún yrði mest áberandi frá nýju vegstæði, kemur Landsnet til móts við þá, sem vilja aðeins sjá osnortin víðerni frá veginum, þó ekki í rykmekki, og þar með er búið að taka sanngjarnt tillit til umhverfissjónarmiða.
Ofstækismönnum verður hins vegar aldrei hægt að gera til geðs. Að láta þá komast upp með það ár eftir ár að þvælast fyrir framförum í landinu kemur ekki lengur til greina, enda orðið allt of dýrkeypt. Nú þurfa allir, sem vettlingi geta valdið, að bretta upp ermar og berja á þursum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Ferðalög, Heilbrigðismál, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 21:57 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.