Heimur án kolefnabrennslu 2050

Á mörkuðum geta menn verið haldnir ranghugmyndum um áhættu, eins og þeir, sem fjárfest höfðu í undirmálshúsnæðisskuldabréfum ("subprime mortgages") 2008, ráku sig á. 

Nú benda markaðsupplýsingar til, að áhættan af "óbrennanlegu kolefni" sé vanmetin.  (Óbrennanlegt kolefni eru þær birgðir af eldsneyti í jörðu kallaðar, sem mundu valda hlýnun andrúmslofts yfir 2,0°C, ef  unnar væru sem eldsneyti.) Hlutabréfavirði olíu-, gas- og kolafyrirtækja er háð þekktum forða í jörðu í þeirra eigu.  Því meira jarðefnaeldsneyti, sem fyrirtæki á, þeim mun verðmætari eru hlutabréf þess.  Hvað gerist, ef sumt af þessum forða getur aldrei verið unnið úr jörðu og brennt (af umhverfislegum orsökum) ?

Ef ríkisstjórnum væri alvara með loftslagsstefnu sinni, þá yrði að skilja mikið af þessum þekkta forða eftir í jörðu.  Í þessu ljósi er einkennilegt, að verið sé með undirbúningsrannsóknir í gangi fyrir olíuboranir á Drekasvæðinu og jafnvel norðar, þar sem vinnslukostnaður er yfir 100 USD/fat og umhverfisslys mundi hafa alvarleg áhrif á lífríkið, því að niðurbrotstími við hið lága sjávarhitastig þar er langur. Allar birgðirnirnar undir Norður- og Suður-Íshafi flokkast sem "óbrennanlegar".

Útreikningar á því, hversu mörg koltvíildisígildi mega fara út í andrúmsloftið miðað við, að aukið magn gróðurhúsalofttegunda valdi ekki meiri hækkun meðalhitastigs við jörðu en 2,0

°C hafa verið gerðir og verður að treysta, þó að sumir rengi þá reyndar.  Of mikið er í húfi til að tímanum megi sóa.  Hámarkið verður frá árinu 2013 1000 Gt CO2 (1 Gt=1 milljarður tonna), og reiknað er með, að það náist árið 2050, þó að stigið verði strax á bremsurnar. 

Þetta þýðir í raun, að mannkynið þarf að draga sífellt úr losun gróðurhúsalofttegunda niður í nánast ekki neitt árið 2050.  Íslendingar geta hæglega sett sér raunhæft markmið um enga nettólosun árið 2050, sem fyrirsjáanlega verður unnt að ná með landgræðslu og stóreflingu skógræktar. Stefnt er að því, að ríki skuldbindi sig í þessa veru á Parísarráðstefnunni um loftslagsmál í desember 2015.

Ef mannkynið hins vegar ætlar að hunza varnaðarorð margra vísindamanna um þessi efni og brenna allt það jarðefnaeldsneyti, sem nú eru til þekktar birgðir af, mundu verða til 2860 Gt CO2, eða næstum þrefalt leyfilegt viðbótar magn koltvíildis í andrúmsloftinu.  Þá kann hitnun gufuhvolfsins að verða óviðráðanleg (irreversible), og á það er ekki hægt að hætta, því að slíkt getur tortímt mestöllu lífi á jörðunni í sinni núverandi mynd.  "So what" segja þeir allra kaldhæðnustu, en þá er þess að gæta, að það mundi gerast með miklum hörmungum.  Mannkynið hefur enn svigrúm til að forðast þær með því að beita þekkingu sinni og útsjónarsemi.  "Vilji er allt, sem þarf", sagði skáldið. 

Ríkisstjórnir ráða um 3/4 af þessum "óbrennanlegu" birgðum og einkafyrirtæki eiga um 1/4 af fastákvörðuðum birgðum, en síðan eiga einkafyrirtæki til viðbótar jafngildi 1541 Gt CO2 af líklegum birgðum.  Ríkisstjórnir ættu þess vegna nú þegar að fara að draga úr nýtingu sinni og leyfa einkafyrirtækjum vaxandi markaðshlutdeild gegn því að hætta leit að nýjum lindum. Það mun auðvelda þeim fjármögnun á "orkuviðsnúninginum" eða orkubyltingunni.  

Núverandi þróun þessara mála stefnir þó í þveröfuga átt.  Ríkisrekin orkufyrirtæki eru að auka markaðshlutdeild sína, og einkafyrirtækin vörðu 5 sinnum meiru, miaUSD 674, í leit og vinnsluundirbúning árið 2012 en í arðgreiðslur til hluthafa, en þær námu þá miaUSD 126.  ExxonMobil ætlar að verja miaUSD 37 á ári í leit að jarðefnaeldsneyti næstu árin. 

Af þessu sést, að það er hræðilegur tvískinnungur á ferðinni í loftslagsmálum í heiminum, og verður spennandi að sjá, hvort þjóðir heims munu ná "mjúkri lendingu" á hinni alþjóðlegu loftslagsráðstefnu í París við árslok 2015.  Fulltrúar Íslands ættu ekki að hika við að sýna dirfsku á þeirri ráðstefnu og miða við 40 % minnkun nettó losunar frá árinu 1990 árið 2030 og 100 % árið 2050 með þeim tveimur skilyrðum, að vísindalega sönnuð binding koltvíildis í nýræktum verði metin til fulls á móti losun og að losun orkukræfs iðnaðar, sem notar raforku, sem unnin er á næstum mengunarlausan og endurnýjanlegan hátt, verði ekki talin með árið 2030, en verði hins vegar meðtalin árið 2050. Ef ekki verður komin ný framleiðslutækni hjá stóriðju og öðrum árið 2030 án koltvíildislosunar, verður hún að kaupa sér koltvíildisbindingu, t.d. með skógrækt, sem nær 100 % eigi síðar en 2050.

Á næstu þremur áratugum mun verða bylting í vinnslu rafmagns, þegar nýjar aðferðir við það munu ryðja sér til rúms.  Vinnslukostnaður vindmylla og sólarhlaða hefur a.m.k. helmingazt síðast liðin 5 ár og er nú um 120 USD/MWh og 100 USD/MWh í sömu röð. Vinnslukostnaður vindmylla á Íslandi er líklega um 90 USD/MWh og er lægri en víða erlendis vegna lengri nýtingartíma á ári (hærri meðalvindstyrks). 

Gestur Pétursson, forstjóri Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, telur hægt að vinna raforku úr glatvarma verksmiðjunnar með lægri kostnaði en í vindmyllum.  Gallinn er sá, að hérlendis er enginn markaður fyrir svo dýra raforku, sem hér um ræðir, og verður sennilega aldrei.  Mun álitlegra er að nota glatvarmann, hvers hitastig mun vera yfir 400°C, ólíkt því, sem tíðkast í hreinsivirkjum álvera (100°C), til að knýja efnaferla í grenndinni eða í hitaveitu, en þar ríkir reyndar samkeppni frá jarðvarmanum. Stundum getur þó verið kostur að hvíla jarðhitasvæði, svo að raunhæfur grundvöllur ætti að vera fyrir nýtingu hans án raforkuvinnslu, jafnvel lághitann, sem fáanlegur er í hreinsivirkjum álvera.  Þar er þó sá hængurinn á, að þau eru ekki hönnuð fyrir slíka nýtingu.

Á Morgunblaðinu gera menn orkumálum hátt undir höfði, eins og vert er, og þar var í september 2015 stór mynd af tveimur forvígismönnum rafbíla, glaðbeittum, Elon Musk, forstjóra Tesla Motors, og Gísla Gíslasyni, framkvæmdastjóra EVEN, í Tesla-verksmiðjunni í Fremont í Kaliforníu, ásamt fleirum. Grein um efnið bar fyrirsögnina:

"Gera leiðina milli Keflavíkur og Reykjavíkur "græna"".  Hún hófst þannig:

"Eitt af því, sem EVEN vinnur að í dag er að gera leiðina milli Keflavíkur og Reykjavíkur "græna", þ.e.a.s. að finna leiðir til að skipta út dísilrútunum fyrir rafrútur og einnig að fá leigubílstjóra, sem fara þessa leið, til að skipta yfir í rafbíla.  Þegar þetta tekst, þá verður hægt að flytja þessa rúmlega milljón ferðamenn á íslenskri orku milli flugvallarins og höfuðborgarinnar."

Hér er umhverfislega verðugt, hagkvæmt og raunhæft verkefni á ferðinni, öfugt við furðuverkið léttlest (hraðlest) á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Umferðarmiðstöðvarinnar í Vatnsmýri með viðkomu í Hafnarfirði, Garðabæ og Mjódd.  Slíkt fyrirbrigði er allt of dýrt að stofna til og reka, enn sem komið er,  og undir hælinn lagt með tekjurnar. 

Nú eru yfir 600 rafbílar á Íslandi, sem er um 0,3 % af fólksbílaflotanum.  Ríkissjóður þarf að fórna vörugjöldum, tollum og fyrst um sinn virðisaukaskatti af bílum án teljandi koltvíildismyndunar við akstur, ef landinu á að takast að standa við skuldbindingar um 40 % minni nettólosun árið 2030 en 1990, svo að ekki sé nú minnzt á "koltvíildissnautt" Ísland 2050. Í staðinn minnkar gjaldeyrisnotkun um allt að miaISK 100 á ári, sem mun virka styrkjandi á gengi ISK og bæta lánshæfismat landsins, svo að vextir geta þá lækkað, ef allt verður með felldu. Þá gætu ráðstöfunartekjur fjölskyldu með 2 bíla í rekstri aukizt um MISK 1,0 á ári vegna minni rekstrar- og viðhaldskostnaðar rafbíla, svo að hér er um stórfellt hagsmunamál fyrir almenning að ræða. Sem millilausn, þar til drægni rafgeyma verður um 500 km og hraðhleðslunet verður komið um landið, eru frá nokkrum framsæknum framleiðendum komnir tvinnbílar á markaðinn með rafhreyfil og bensínhreyfil.  Blekbóndi telur þetta vænlegan kost í stöðunni, enda eru aksturseiginleikar góðir, þar sem afl beggja hreyflanna leggst saman, þegar á miklu afli eða togi þarf á að halda.

Kolefnisgjald á allt eldsneyti þarf að standa undir skógrækt til mótvægis við það, sem út af stendur af 40 % markmiðinu 2030, en árið 2050 verður "orkuvendingin" (þ. die Energiewende) um garð gengin.

Yfirvöld víða hafa að mörgu leyti brugðizt væntingum margra gagnvart hinni meintu umhverfisvá, sem mikil losun gróðurhúsalofttegunda hefur í för með sér.  Þau hafa ekki brugðizt við meintri vá með fullnægjandi hætti hingað til, en æ fleiri, og þar með valdhafar, eru þó þeirrar skoðunar, að kenningar margra vísindamanna, um samhengi styrks koltvíildisígilda í andrúmsloftinu og meðalhitastigs í lofthjúpnum við yfirborð jarðar, eigi við rök að styðjast.  Þá hljóta menn að samþykkja kenningar um afleiðingar hlýnunar og af varúðarsjónarmiðum að setja leyfilegt hámark við hlýnun 2,0°C, eins og vísindamenn ráðleggja. 

Yfirvöld hafa að sumu leyti verið býsna léttúðug í ljósi afleiðinganna, t.d. varðandi hvatningu til bænda um að rækta jurtir, sem síðan eru nýttar til eldsneytisgerðar fyrir fartæki og reikna þetta til mótvægisaðgerða. Í fyrsta lagi hefur þetta leitt til hærra matvælaverðs, sem kemur hinum verst settu í heiminum verst, í öðru lagi hefur þetta leitt til aukins skógarhöggs, þegar nýtt land er brotið undir akra til að framleiða eldsneyti, og í þriðja lagi þarf mikið eldsneyti til að framleiða þessa "lífolíu".  Þegar upp er staðið eru mikil áhöld um, að nettó ávinningur verði af þessari ráðstöfun fyrir lofthjúpinn. Þarna var verr farið en heima setið.

Á Íslandi er sú vafasama krafa við lýði síðan á síðasta kjörtímabili, að seld dísilolía sé að 5 % af slíkum lífrænum uppruna eða framleidd hérlendis með efnafræðilegum aðferðum, t.d. úr afgösum jarðgufuvirkjana.  Þessi "lífdísilolía" til íblöndunar er hins vegar þrefalt dýrari en innkaupsverð dísilolíu úr jarðefnaeldsneyti, og þessi mikli kostnaðarmunur, sem lendir á tækiseigendum/ökumönnum er óréttlætanlegur miðað við hæpinn ávinning. Þetta var vanhugsuð lagasetning á sinni tíð, sem ætti að afnema eða milda að svo miklu leyti, sem það samrýmist kröfum ESB til EES-landanna.

Ríkisstjórnin ætti samhliða að afnema hvata fyrri ríkisstjórnar til kaupa á dísilbílum með því að beita sér fyrir lagasetningu, þar sem hætt er að hygla dísilbílum, en rafmagnsbílum hins vegar hyglað að óbreyttu í a.m.k. áratug.  Jafnframt þarf að endurskoða kolefnisgjaldið af þeim og miða við eldsneytisnotkun, þegar hreinsibúnaður bílanna er virkur, en þá er eldsneytisnotkunin allt að 40 % meiri en framleiðendur gefa upp. 

Ef inngrip ríkisvaldsins skekkja ekki bílamarkaðinn, eins og verið hefur frá misráðnum aðgerðum vinstri stjórnarinnar dísilbílnum í vil, verður dísilbíll dýrari í innkaupum og með svipaðan rekstrarkostnað og sambærilegur bensínbíll.  Dísilbíllinn mun þá fyrstur láta undan síga fyrir tvinnbílum og rafmagnsbílum. Stórar dísilvélar munu þó lengi halda velli.   

Í greininni, "Framtíðin í orkugjöfum óræð", sem birtist í orkuúttekt Morgunblaðsins í september 2015, er sagt frá einarðri skoðun Glúms Jóns Björnssonar á eldsneytismálum umferðarinnar:

"Glúmur Jón Björnsson, efnafræðingur og framkvæmdastjóri efnarannsóknarstofunnar Fjölvers, segir þá þróun, sem hefur orðið í aukningu markaðshlutdeildar dísilbíla varhugaverða.  Pólitísk stefnumótun hafi orðið til þess að hluta, þar sem minni útblástur koltvísýrings komi frá dísilvélunum.  Sá ávinningur, sem verði af því, sé fyrir bí, þegar tekið sé tillit til þess, hve mikið meira af sóti og heilsuspillandi efnum komi frá dísilvélum en bensínvélum. 

Glúmur segir þó talsvert hafa áunnist í framleiðslu jarðefnaeldsneytis á síðustu áratugum.  "Það hafa orðið stórstígar framfarir, m.a. þegar blý hvarf úr bensíninu, og brennisteinninn er nánast horfinn úr bæði bensíni og dísilolíu. Bensín hefur líka léttst mikið; það er minna af þungum efnum í því, sem leiðir til minni sótmyndunar.  Á sama tíma hefur tekist að halda gufuþrýstingi niðri, svo að minna sleppur út í andrúmsloftið.  Það hefur náðst mikill árangur á síðustu áratugum, og almennt miðar þessum málum í rétta átt."" 

        

  

    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Sæll Bjarni. Í greininni er meinleg villa er varðar votlendi. Það er ekki hlutur í framlagi Íslands að minnka nettólosun með því að þurrka votlendi, heldur endurheimta það.

Erlingur Alfreð Jónsson, 21.10.2015 kl. 17:36

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér kærlega fyrir athugasemdina, Erlingur Alfreð.  Þarna sló út í fyrir mér, en það sem ég átti við var landgræðsla og er nú búinn að leiðrétta þetta.  Þar mætti bæta við endurheimt votlendis, en sem kunnugt er, er þurrkun mýra mesti mengunarvaldurinn varðandi gróðurhúsalofttegundir, því að rotnun gróðurleifa veldur myndun metans, sem er rúmlega 20-föld á við CO2, hvað gróðurhúsaáhrif varðar.  Sá er hængurinn á, að endurheimt votlendis er ekki með í bókhaldinu frá Kyoto.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 21.10.2015 kl. 21:46

3 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Það er ósköp einföld ástæða fyrir því að áherslan í baráttunni er á CO2 en ekki metan. Það er eina gróðurhúsalofttegundin sem hægt er að mæla nokkuð nákvæmlega hversu mikið menn losa, því vitað er hversu mikil viðskipti eru með jarðefnaeldsneyti og hveru mikil notkunin er á ári hverju, og þar með útblásturinn. Þannig er hægt að búa til kvóta og svo viðskipti með losunarheimildir, sem er undirrót þessa alls.

Það er ekki hægt að mæla hversu mikið metan losnar úr mýrum við framræslu eða bústofni; það er einungis hægt að áætla losunina frá þessum þáttum.

En það styttist í að menn átta sig á að CO2 er ekki mengun, og losun CO2 af mannavöldum er ekki frumáhrifavaldur á loftslag jarðar.

Erlingur Alfreð Jónsson, 21.10.2015 kl. 23:17

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Annað dæmi um gróðurhúsalofttegundir eru fjölflúorkolefni, t.d. CF4 og C2F6, sem eru mun öflugri gróðurhúsalofttegundir en metan, CH4, og áliðnaðurinn losar.  Þær eru mældar óbeint með því að mæla styrk, lengd og fjölda risa, sem eru spennuhækkanir yfir rafgreiningarker.  Áliðnaðurinn á Íslandi hefur náð feikilega góðum árangri við að fækka risum og stytta þau, svo að nú eru áhrif þessara tveggja gastegunda mjög lítil í samanburði við áhrif CO2 frá kerunum.

Bjarni Jónsson, 22.10.2015 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband