23.10.2015 | 18:20
Upplýst umhverfisstefna
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, ritaði gagnmerka grein í Morgunblaðið fimmtudaginn 8. október 2015, sem hann nefndi "Umhverfisvernd: Skynsemi eða ofstæki".
Voru þar orð í tíma töluð og óspart vitnað til Rögnvaldar Hannessonar, sem er höfundur margra ritverka um sjálfbæra nýtingu, m.a. sjávarauðlinda, hefur talað og ritað tæpitungulaust um umhverfisvernd. Rögnvaldur og prófessor Ragnar Árnason hafa lagt mest að mörkum við myndun fiskihagfræðilegs grundvallar að hinni íslenzku fiskveiðistefnu, sem nú nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og æ fleiri þjóðir tileinka sér, af því að hún virkjar markaðinn til að hámarka afrakstur fiskistofnanna til lengdar.
Má kalla málflutning Rögnvaldar réttmæli í mótsetningu við réttmælgi, en Þórarinn Eldjárn, skáld, gerir eftirfarandi greinarmun á þessum tveimur hugtökum: Réttmáll mætti nota um þann, sem hiklaust og refjalaust leitar hins rétta og sanna í hverju máli, en réttmálgur um þann, sem lagar kenningar sínar að hefðarspeki dagsins og hagar orðum sínum jafnan, eins og til er ætlazt. Réttmælgi er oft lýðskrum, og því miður er það of áberandi í umræðu um auðlindanýtingu, þar sem stundum er leikið á strengi öfundar í garð handhafa nytjaheimildanna. Þannig hefst grein Hannesar:
"Gegnir menn og góðviljaðir eru vitaskuld hlynntir hreinu og fögru umhverfi. Þeir vilja vernda það og bæta eftir megni. Við erum öll umhverfisverndarsinnar í þessum skilningi. Nú hefur einn kunnasti og virtasti vísindamaður Íslendinga á alþjóðavettvangi, Rögnvaldur Hannesson, prófessor emeritus í auðlindahagfræði í Viðskiptaháskólanum í Björgvin, skrifað bók um umhverfisvernd, Ecofundamentalism, Umhverfisverndarofstæki (Lanham: Lexington books, 2014). Þar gerir hann greinarmun á skynsamlegri umhverfisvernd (wise use environmentalism) og ofstækisfullri (ecofundamentalism). Sjálfur aðhyllist hann skynsamlega umhverfisvernd, en telur umhverfisverndarofstæki ekki aðeins rangt af fræðilegum ástæðum, heldur líka beinlínis hættulegt. Þetta sé ný ofsatrú, þar sem Náttúran hafi tekið sess Guðs, en munurinn sé sá, að maðurinn sé ekki lengur talinn syndari, sem geti gert sér von um aflausn, heldur stórhættulegur skaðvaldur, jafnvel meindýr. Ofstækisfólkið, sem Rögnvaldur andmælir, vilji stöðva hagvöxt, en hann sé þrátt fyrir allt besta ráðið til að vernda umhverfið og bæta."
Það er ekki seinna vænna að fá slíka fræðilega aðgreiningu á hugtakinu umhverfisvernd í umhverfisvernd, sem reist er á heilbrigðri skynsemi í þágu núlifandi kynslóða og framtíðar kynslóða annars vegar og umhverfisvernd með trúarlegu ívafi, þar sem náttúran jafnan er látin "njóta vafans", og hagsmunir mannsins í bráð og lengd reyndar fyrir borð bornir, af því að hann er í þessum hugmyndaheimi í hlutverki þess með horn, hala og klaufir í kristninni. Fyrr nefnda hugmyndafræðin er reist á að nýta náttúruna á grundvelli beztu fáanlegu vísindalegu þekkingar um sjálfbærni og afturkræfni í þágu hagvaxtar og bættra lífskjara allrar þjóðarinnar og mannkyns, en hin hugmyndafræðin er reist á tilfinningalegri afstöðu, þar sem náttúran er sett á stall og fólkinu gert að lifa af einhvers konar sjálfsþurftarbúskap, því að hagvöxtur er fallinn engill með sviðna vængi, sem ber að forðast til að varðveita sálarheillina samkvæmt einstrengingslegum umhverfisverndarsinnum. Það er auðvelt að sýna fram á, að dómsdagsspár hagvaxtarandstæðinga hafa verið reistar á þröngsýni og vanþekkingu og að það er einmitt vaxandi auðlegð þjóðanna, sem gerir þeim kleift að fást með beztu tækni við aðsteðjanda vanda og t.d. að draga mjög úr líkindum á stjórnlausri upphitun andrúmsloftsins á heimsvísu og að bæta heilsuspillandi loftgæði í mörgum borgum, t.d. í Kína og á Indlandi. Kína er stórkostlegasta dæmið um, að umhverfisvernd öðlast æðri sess á meðal þjóðar og leiðtoga hennar, þegar henni vex fiskur um hrygg.
Því verður ekki neitað, að málflutningur talsmanna náttúruverndarsamtakanna Landverndar kemur æði vel heim og saman við lýsingarnar á umhverfisverndarofstækinu. Þetta fyrirbrigði er að sjálfsögðu ekki sjálfbært, því að fái það sess stefnumarkandi nýtingarstefnu, sem er þá ekkert annað en friðunarstefna með þjóðgarða út um allt, þá er borðleggjandi, að komandi kynslóðir verða fátækari en núverandi kynslóðir, því að fólkinu fjölgar (með og) án hagvaxtar, sem þýðir, að minna kemur í hlut hvers og eins, og reyndar miklu minna vegna tiltölulegrar fækkunar vinnandi fólks.
Yrði stefnu Landverndar fylgt, mundi t.d. flutningskerfi raforku ekki verða styrkt, svo að loku yrði skotið fyrir nýja atvinnusköpun, sem þarf 1 MW eða meira, og rafmagn gæti þá ekki leyst olíukyndingu af hólmi hjá hitaveitum, fiskimjölsverksmiðjum og annarri starfsemi utan Suð-Vesturhornsins, þar sem 220 kV flutningskerfi er fyrir hendi.
Líklega mundi Landvernd ekki endurnýja raforkusamninga við stóriðju, ef hún fengi að ráða, og tómt mál yrði að gæla við ný stóriðjuverkefni. Atvinnulífið yrði mun einhæfara fyrir vikið, og Íslendingar gætu ekki staðið við losunarmarkmið sín á gróðurhúsalofttegundum, nema að skapa hér efnahagskreppu. Erlendis yrði bæði hlegið og grátið yfir eymd og volæði eyjarskeggjanna á hinni norðlægu eldfjallaeyju, sem rík er af endurnýjanlegum orkulindum, en þar sem sá átrúnaður ríkti, að rask á náttúrunni samfara virkjunum og rafmagnslínum væru helgispjöll, þá hefði blátt bann verið lagt við slíku.
Segja má, að umhverfisverndarofstækið krystallist í afstöðu Landverndar og sálufélaga til vatnsaflsvirkjana og til flutnings á raforku, t.d. á milli landshluta. Nýting fallvatna til raforkuvinnslu er alls staðar í heiminum talinn eftirsóknarverður kostur, nema þar sem miðlunarlón hrekja fjölda manns af búsvæðum sínum og stíflumannvirki skapa flóðahættu í þéttbýli, ef þau bresta. Að öðru jöfnu jafna miðlunarmannvirkin hins vegar rennslið og draga þannig úr flóðahættu. Þetta síðast nefnda á auðvitað við á Íslandi einnig, eins og Þjórsá er gott dæmi um, en hún hefur verið hamin og rennur nú lygn með nálægt jöfnu rennsli allan ársins hring, en flóð hennar og jakaburður voru veruleg umhverfisógn meðfram farvegi hennar í gamla daga.
Orkumál á Íslandi eru í ákveðinni sjálfheldu núna, raforkuframboð er ónógt og flutningsgeta raforkukerfisins annar ekki núverandi þörf. Allt stendur þetta atvinnulífinu fyrir þrifum, tugir milljarða í glötuðum fjárfestingum og atvinnutækifærum fara í súginn árlega, og það er auðvelt að heimfæra þetta ófremdarástand upp á umhverfisofstæki, sem er afturhald okkar tíma, sem hamlar atvinnuþróun og verðmætasköpun.
Þann 12. október 2015 birtist frétt í Morgunblaðinu, sem skrifuð var af Sigurði Boga Sævarssyni og bar fyrirsögnina:
"Markaðurinn kallar á meira rafmagn".
Fréttin hófst þannig:
"Takmarkað framboð á raforku setur atvinnuuppbyggingu úti um land miklar skorður. Segja má, að Suðurland og svæðið á Bakka við Húsavík séu einu svæðin á landinu, þar sem hægt er að útvega orku í takti við það, sem markaðurinn kallar eftir. Annars staðar er þröng, enda fáir virkjunarkostir eða þá flutningsmannvirki ekki til staðar. Þetta segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Þar á bæ er margt í deiglunni um þessar mundir, og efst á baugi er stækkun Búrfellsvirkjunar.
Viðbótar orka frá Búrfelli er ekki eyrnamerkt ákveðnum kaupanda, eins og stundum, þegar nýjar virkjanir eru reistar. "Eftirspurnin núna er helst hjá viðskiptavinum, sem þurfa kannski 5 til 10 MW af orku [átt er við afl - innsk. höf.], og þar getum við nefnt gagnaver og fiskimjölsverksmiðjur", segir Hörður og heldur áfram:
" Oft byrja nýir kaupendur með samningum um kaup á kannski 1 MW, en þurfa meira síðar. Í dag getum við ekki sinnt slíku, og því þarf að virkja meira. Á hverjum tíma eru uppi ýmsar hugmyndir um atvinnuuppbyggingu úti á landi. Fjárfestar skoða möguleika gjarnan í samvinnu við heimamenn, en þegar ekki fæst rafmagn, detta málin upp fyrir.""
Þessi lýsing forstjóra langstærsta orkufyrirtækis landsins, Landsvirkjunar, sýnir, svo að ekki er um að villast, að raforkumál landsins eru í ólestri, eins og fram kom hér að ofan, og það hefur verið flotið sofandi að feigðarósi. Arfur vinstri stjórnarinnar er upphaf vandans, en framvindan á þessu kjörtímabili er allt of hæg, af því að það er allt of mikil tregða í stjórnkerfinu vegna áhrifa frá afturhaldinu og jafnvel beygs við "æjatolla" umhverfisverndarofstækisins.
Þetta ástand opinberar veika stjórnsýslu, þar sem heilbrigð skynsemi og hófsöm nýtingarstefna hefur tímabundið látið í minni pokann fyrir því umhverfisofstæki, sem prófessor emeritus Rögnvaldur Hannesson hefur skilgreint með skarplegum hætti í tímabærri bók sinni. Afleiðingar aðgerðarleysis í orkugeiranum eru, að uppsafnað þjóðhagslegt tap af þessu ófremdarástandi er sennilega komið yfir 5 % af vergri landsframleiðslu (VLF). Framkvæmdadoða raforkugeirans, sem beint og óbeint stafar af "réttmælgi" umhverfisofstækisins, verður að linna strax.
Ný virkjun í Þjórsá, Búrfell II, er nú á útboðsstigi, og er ráðgert að hefja framkvæmdir í Sámsstaðaklifi í apríl 2016 og að hefja raforkuvinnslu um 30 mánuðum seinna, á árinu 2018. Það þýðir 3 ár til viðbótar í orkusvelti, sem er ömurlegur minnisvarði um stjórnun orkumálanna í landinu, því að þessi virkjun þarf ekki umhverfismat að dómi Skipulagsstofnunar ríkisins, og hefur ekki verið falin Verkefnisstjórn Rammaáætlunar til einkunnagjafar. Landsvirkjun getur þess vegna ekki skotið sér á bak við það, að leiðin að virkjanaleyfinu hafi verið torsótt. Þvert á móti hefur hún verið greið, og Landsvirkjun hefði betur hafizt handa við Búrfell II árið 2013, þegar framkvæmdum við Búðarhálsvirkjun lauk.
Frá árinu 2010 má segja, að margt skrýtið sé í kýrhaus Landsvirkjunar, nú síðast mat hennar á orkuvinnslugetu Búrfells II, sem nú verður skoðuð nánar:
Búrfell II verður staðsett á svipuðum stað og Títanfélag Einars Benediktssonar, sýslumanns og skálds, fyrirhugaði að reisa Búrfellsvirkjun. Í bókinni Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi eftir Helga M. Sigurðsson, sem Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen gaf út í Reykjavík árið 2002, stendur eftirfarandi um Fossafélagið Títan á bls. 140:
"Á árunum 1915-1917 var fyrst gerð áætlun um Búrfellsvirkjun. Þar var á ferð fossafélagið Títan, sem Einar Benediktsson, skáld, hafði haft forgöngu um að stofna. Gert var ráð fyrir, að mestur hluti orkunnar yrði notaður til stóriðju á Íslandi, áburðarframleiðslu. Að áliti félagsins var vænlegt að virkja á fimm stöðum í Þjórsá og Tungnaá, en Búrfellsvirkjun yrði stærst. Títan-félagið keypti vatnsréttindin frá ósum Þjórsár til óbyggða. En ekki varð af framkvæmdum á þeim tíma, meðal annars vegna bágs efnahagsátands í Evrópu upp úr fyrri heimsstyrjöld. Síðan voru sett lög á Alþingi árið 1923, sem torvelduðu erlendum orkufyrirtækjum að starfa í landinu. Títan-félagið átti þó áfram vatnsréttindin til ársins 1952, þegar ríkissjóður keypti þau af því."
Við sjáum af þessu, að hinir norsku verkfræðingar Títan-félagsins voru á réttri braut með frumhönnun sína og áform um virkjanir í Þjórsá fyrir einni öld m.v. þróunina síðar. Þeir höfðu fyrir aldamótin 1900 farið að hanna og reisa virkjanir í Noregi, og orkukræfur iðnaður hafði verið starfandi í 70 ár í Noregi, þegar hann loks komst á laggirnar hérlendis. Hér vantaði fjármagn og innviði fyrir einni öld, og þingmenn óttuðust erlent eignarhald á atvinnutækjunum, sem er skiljanlegt á tímanum um og eftir fullveldissamninginn við Dani 1918.
Virkjunarframkvæmdir Landsvirkjunar við Búrfell hófust árið 1966, og var fyrsti hluti virkjunarinnar tekinn í gagnið haustið 1969 með veikri og áfallasamri tengingu við Íslenzka Álfélagið - ISAL, í Straumsvík.
Meðalrennsli Þjórsár er 364 m3/s, en virkjað rennsli er 260 m3/s eða 71 % í Búrfelli I samkvæmt fyrrnefndri virkjanabók, sem með fallhæð 115 m jafngildir 270 MW af rafafli.
Búrfell II á að ráða við það, sem út af stendur í rennsli Þjórsár við Búrfell og er hönnuð fyrir rennslið 92 m3/s í 119 m falli. Þetta er tæplega 90 % af meðalrennsli og ætti þess vegna að duga fyrir forgangsorkuvinnslu, en samkvæmt sögulegum rennslisröðum er forgangsorka alltaf tiltæk, en heildarorkan í 27 ár af 30 ára röð. Með 90 % heildarnýtni gefur þetta 860 GWh/a eða meðalaflgetu 100 MW.
Á þessum grundvelli er óskiljanlegt, hvers vegna Landsvirkjun gefur upp vinnslugetu Búrfells II aðeins 300 GWh/a. Fyrir vikið verður reiknaður vinnslukostnaður á orkueiningu í virkjuninni tiltölulega hár eða rúmlega 33 USD/MWh (4,3 kr/kWh). Miðað við efri mörk upp gefins stofnkostnaðar, miaISK 16, er líklegur vinnslukostnaður hins vegar rúmlega 12 USD/MWh.
Samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar er Búrfell II fremur óhagkvæm vatnsaflsvirkjun, því að vinnslukostnaður hennar er talsvert hærri en Búðarhálsvirkjunar, sem er svipuð að afli og var virkjuð síðast á Tungnaár/Þjórsársvæðinu. Búrfell II ætti hins vegar af öllum sólarmerkjum að dæma að vera tiltölulega hagstæð, því að inntakslónið og frárennslisskurður eru þegar fyrir hendi. Þess vegna er líklegt, að forgangsorkukostnaður virkjunarinnar sé aðeins rúmlega 12 USD/MWh.
Mengun er ekki huglæg, mengun er mælanleg. Þannig er t.d. hægt að bera saman brúttó tekjur eða hreinar tekjur af mismunandi atvinnugreinum á hvert losað tonn af gróðurhúsalofttegundum eða öðrum efnum. Orkukræfur iðnaður hefur löngum verið skotskífa ákafra og einstrengingslegra umhverfisverndarsinna að þessu leyti og er blóraböggull fyrir starfsemi, sem hinir áköfu umhverfisverndarsinnar hafa hælt upp í hástert sem fyrirmyndarstarfsemi og valkost við uppbyggingu raforkukerfisins, sem auðvitað getur ekki farið fram án stórra stofnlína.
Er þá komið að margþvældu hugtaki, sem er sjónmengun, en það er hins vegar algerlega huglægt fyrirbrigði, eins og fegurð og útlit. Hverjum þykir sinn fugl fagur, eins og þar stendur. Hin skynsamlega málamiðlun varðandi loftlínur almennt er, að stjórnvöld gefi út markmið um að stytta heildarlengd allra loftlína á landinu (símalínur eru vart sjáanlegar lengur) um a.m.k. 30 % fyrir árið 2030 m.v. árið 2000. Þetta þýðir, að hinar minni línur í byggð og annars staðar verða þá horfnar og jafnvel allar línur undir 60 kV. Sá hluti Byggðalínu, sem nú er í grennd við bæi, t.d. í Skagafirði, getur af umhverfislegum, tæknilegum og kostnaðarlegum sökum, hæglega farið í jörð, og sú verður einnig reyndin með 220 kV línur í grennd við þéttbýli, t.d. Hafnarfjörð.
Það er mikið veður gert út af fyrsta valkosti Landsnets um 400 kV stofnlínu á milli Suðurlands og Norðurlands um Sprengisandsleið. Sú leið er þó flestum ferðamönnum aðeins fær um 3 mánuði á ári, og hvað ætli skyggnið sé yfir 1 km í marga daga á því skeiði, t.d. vegna ryks og misturs ?
Ferðamenn og bíleigendur þurfa á almennilegum vegi með klæðningu að halda þarna og við akstri utan merktra vega eiga að liggja hamlandi viðurlög. Það er hægt að verða við óskum um að hafa ekki téða flutningslínu í sjónlínu frá þessum vegi með vali línustæðis og tiltölulega stuttum jarðstreng. Þar að auki eru að koma á markað nýjar gerðir mastra, sem betur falla að umhverfinu en eldri gerðir.
Til að hámarka heildartekjur af þeim auðlindum, sem landið hefur að bjóða, verða hagsmunaaðilar að slá af ýtrustu kröfum og gera málamiðlanir. Það hefur alla tíð verið háttur siðaðra manna.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Ferðalög, Lífstíll, Umhverfismál | Facebook
Athugasemdir
það er kaldhæðnislegt að tala um umhverfisvernd í einu orði en í gjörðum að beina orkufrekasta iðnaði í eigu Íslendinga í olíufasa á ný. Smá dæmi sem hægt er að grafa upp með smá grúski í opinberum tölum:
Árið 2008 notuðu fiskimjölsverksmiðjur um 25 lítra af olíu á hvert hráefnistonn og það er eftir rafkatlavæðingu verksmiðjanna. Rafkatlavæðingin minnkaði verulega beina aflþörf verksmiðjanna enda eru þessir katlar um 10 - 20 MW af stærð og nota raforku samsvarandi í stað olíu.
Árið 2013 eru verksmiðjur að hefja fasa í skiptingu úr olíu í rafmagn á þeim hluta sem enn var olíukynntur. Það minnkaði notkun olíunnar úr 25 lítrum (hér um bil tala) nánast niður í 0.
Ef tekið er á móti 500 þúsund tonnum af fiski og honum breytt í fiskimjöl og lýsi, eru notuð til þess 25 lítar af olíu á hvert tonn (eða 12,5 milljónir lítra af olíu á ári). Í dag er LV ekki í stakk búinn til þess að afhenda orku á samkeppnishæfu verði til fiskimjölsverksmiðja og lætur þessa orku frekar falla í hafið en að nýta hana. Það er kaptítuli út af fyrir sig af hverju á því stendur.
Sindri Karl Sigurðsson, 23.10.2015 kl. 23:39
Dæmið, sem þú tekur, Sindri Karl, sýnir enn tvískinnunginn í hegðun stjórnvalda til umhverfisverndar, og slík hegðun er alþjóðlegt vandamál, þó að ábyrgðarleysi slíkrar hegðunar blasi við. Það er hafður uppi fagurgali alls staðar í hinu pólitíska litrófi um nauðsyn þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en vinstri síðan á Alþingi hefur beitt sér hart gegn því, að það sé hægt án þess að skapa hér efnahagskreppu, og hún styður félagasamtök í þjóðfélaginu, sem berjast hart gegn því, að unnt verði að flytja raforkuna þangað, sem hennar er þörf. Það er ekki vanþörf á, að Alþingi skerpi á eigendastefnu Landsvirkjunar, því að núverandi stjórn og stjórnendur fyrirtækisins eru á hálum ísi m.v. gildandi löggjöf um Landsvirkjun.
Það er svo rétt, að orka sparast með því að hanna og reisa fullburða flutningskerfi, og þá sparar iðnaðurinn líka orku, því að nýtni rafmagnskatlanna er hærri en olíukatlanna.
Bjarni Jónsson, 24.10.2015 kl. 16:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.